17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

181. mál, heimild til að veita Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni stýrimannaskírteini

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. sjútvn. hefur gert grein fyrir þessu frv., og það er eðlilegt, að það orsaki nokkrar vangaveltur hjá nm. að fá svona umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, eins og hann hefur nú lesið upp. Mér virðist koma fram í þessari umsögn Farmannasambandsins, að það telji viðkomandi mann ekki hafa hliðstæða menntun þeirri, sem veitt er í stýrimannaskóla Íslands. Ég vil staðfesta það, sem hv. frsm. sagði, að þetta mun vera misskilningur hjá stjórn Farmannasambandsins. Ég hef rætt við skólastjóra stýrimannaskólans og auk þess forstjóra landhelgisgæzlunnar um þetta atriði, sem er mjög þýðingarmikið í þessu máli, og þeir staðfesta það báðir, að hin almenna menntun mannsins, ekki aðeins í siglingafræðinni, heldur og í öðrum námsgreinum, sé fyllilega til jafns við það, sem stýrimannaskólinn veitir. Þessa staðfestingu hef ég fengið nú á síðustu stundu, og þetta breytir nokkuð viðhorfum mínum til þessa máls. Þó að Farmannasambandið segi í þessari umsögn, að siglingafræðin sé aðeins 9 námsgreinar af þeim 34, sem stýrimannaskólinn kennir, þá staðfesta þessir embættismenn, að menntun þessa manns frá hinum erlenda skóla sé fyllilega hliðstæð þeirri, sem hægt er að fá í stýrimannaskólanum, og sú vitneskja er mikils virði.

Annað atriði er það, sem kemur fram í þessari umsögn Farmannasambandsins, að frá 1953 hafi eftir lögum frá Alþingi verið starfandi hér deild við stýrimannaskólann til skipstjóraprófs á varðskipum ríkisins, þar sem starfandi stýrimenn á varðskipum hafi verið búnir undir vandasöm störf skipstjóra á þessum skipum o.s.frv. Þetta er að vísu rétt, að þessi deild hefur verið starfrækt, og þó er ekki rétt að kalla þetta deild, eftir því sem skólastjóri stýrimannaskólans skýrir mér frá. Þetta eru námskeið, sem haldin eru öðru hvoru, eftir því sem talin er þörf á. Það er engin föst deild. En ég hafði misskilið þessa umsögn Farmannasambandsins þannig, að það mundi hafa verið stofnað til þessarar kennslu í stýrimannaskólanum 1953, en það er alls ekki. Þetta er í lögum um stýrimannaskólann, ég hygg frá 1936–38, að skólinn undirbýr nemendur sína til skipstjóraprófs á varðskipum. Þetta er þess vegna ekki nýtt á árinu 1953.

En það, sem ég aftur á móti hef á móti þessari aðferð, að veita mönnum stýrimannsréttindi og skipstjóraréttindi, því að samkv. frv. á maðurinn síðar að fá skipstjóraréttindi, er það, að mér sýnist, að það sé verið að ganga gegn þeirri stefnu, sem ríkjandi er hjá okkur, að halda uppi ríkisskóla fyrir þessa menn og sá skóli fullnægi þessum þörfum, og það gerir skólinn. Hann veitir fullnægjandi menntun, og það er enginn skortur á þessum mönnum, stýrimönnum eða skipstjórum. Það er því ekki af þeim ástæðum nein aðkallandi þörf að samþykkja próf frá erlendum skólum til þessarar atvinnu. Þvert á móti, eins og kemur fram í umsögn Farmannasambandsins, þá er nóg til af þessum mönnum. Það er þetta, sem ég hef á móti málinu. Og það mun ekki vera svo i ýmsum öðrum starfsgreinum hér í landi, að menn geti komið með próf frá erlendum skólum og gengið svo inn í hvaða embætti sem er hér í landinu. Það er því ekki út í loftið, að það er í gildandi lögum, að til þess að öðlast þessi stýrimanna- og skipstjóraréttindi þurfi próf frá þessum íslenzka skóla, sem undirbýr menn í þessu skyni, og það er fyllilega eðlilegt. Að þessu leyti er ég algerlega ósammála hv. frsm., að það eigi að löggilda erlenda skóla, sem jafngildi hinum íslenzka skóla í þessum efnum. Ég tel, að það sé alls ekki rétt stefna.

Ég hygg því, að það, sem vakir fyrir Farmanna- og fiskimannasambandinu, sé það, að hér koma menn með erlent próf og eru gerðir með einni lagasetningu á Alþingi jafngildir hinum íslenzku mönnum, sem numið hafa í stýrimannaskóla Íslands, og keppa um stöðu við þá án þess að hafa stundað nám hér. Ég get vel skilið þessi viðhorf. Ég lái mönnum ekki, þó að þeir standi gegn því. Hins vegar er þetta ekki svo stórt mál, að ég ætli að fara að gera það að kappsmáli, og mér fyndist heldur harkalegt að fara að neita þessum manni um þessi réttindi, fyrst búið er að veita mönnum slík réttindi áður með löggjöf.

Það er því, eins og ég hef skýrt frá, sumt, sem mælir með því að samþykkja frv., og annað, sem mælir mjög gegn því, að það sé samþykkt. Það, sem mælir gegn því, er þetta, að menn geti komið með próf frá erlendum skólum og keppt við þá, sem fyrir eru hér heima með jafngild próf frá íslenzkum skóla. Þessa stefnu vil ég ekki innleiða. Að því leyti hef ég á móti þessu frv. Hitt, sem aftur á móti mælir með því, að frv. sé samþ., er það, að þetta hefur verið gert þrívegis áður. Það er reyndar ekki nema þrisvar sinnum, sem hið sama hefur gerzt með löggjöf frá Alþingi í 24 ár. Ég vil ekki leggja neinn stein í götu þess, að þessi maður fái hin sömu réttindi, og mun láta afgreiðslu málsins hlutlausa. Ég mun hvorki greiða atkv: með því né móti. En ég vil að síðustu endurtaka það, að ég er andvígur þeirri stefnu, að við séum að skapa einhverja reglu um það, að menn geti komið með próf frá erlendum skólum til að keppa við menn, sem lokið hafa tilskildu prófi frá íslenzkum skóla og eru fyllilega jafnfærir um þessi störf.