24.03.1961
Neðri deild: 83. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

181. mál, heimild til að veita Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni stýrimannaskírteini

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft frv. þetta til athugunar og orðið sammála um að mæla með því, þó þannig, að einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Hér er um það að ræða, að próf, sem Guðjón Ármann Eyjólfsson sjóliðsforingi hefur lokið við sjóliðsforingjaskólann í Kaupmannahöfn, skuli jafngilda íslenzkum prófum til skipstjórnar og gilda til þess, að hann geti verið stýrimaður á skipum hér innanlands og í utanlandssiglingum, en að öðru leyti þarf viðkomandi að uppfylla ákvæði l. nr. 66 1946, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, þ.e.a.s., hann þarf að ljúka fullum siglingatíma til þess að fá full réttindi. Það eru a.m.k. þrjú fordæmi fyrir því, að slík próf frá hliðstæðum skólum, þ.e.a.s. frá þessum danska skóla og frá norskum skóla, sams konar, hafi verið tekin gild. Það eru Pétur Sigurðsson forstjóri landhelgisgæzlunnar, sem mun hafa lokið prófi frá þessum sama skóla, Páll Ragnarsson og Gunnar Bergsteinsson, sem hafa fengið sams konar undanþágur.

Það bar á góma í sjútvn., að ekki mundu að öllu leyti vera kennd sömu fög við þennan skóla og við íslenzka sjómannaskólann. T.d. kom sú skoðun fram, að í sjórétti mundi þessi maður varla hafa lokið sams konar prófi og tekið er við sjómannaskólann, en á öðrum sviðum mun menntun hans fyllilega jafnast á við það, sem kennt er við sjómannaskólann.