02.02.1961
Efri deild: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta frv. til sveitarstjórnarlaga, sem heilbr.- og félmn. flytur, var borið fram síðla á síðasta Alþingi af sömu nefnd samkvæmt beiðni félmrh. En þá vannst ekki tími til að afgreiða það. Það var samið af fimm manna nefnd, sem skipuð var 1958 af ráðherra, og var ráðuneytisstjórinn í félmrn. formaður hennar.

Þegar sýnt þótti, að frv. yrði ekki afgr. á síðasta Alþingi, ákvað heilbr.- og félmn. að senda það öllum sveitarstjórnum og sýslunefndum landsins til umsagnar, og skyldu svörin hafa borizt fyrir haustið, þannig að þessir aðilar, sem ætla mátti að hefðu áhuga, reynslu og þekkingu á málinu, hefðu nægan tíma til að fjalla um það. Allmargar umsagnir bárust um málið. Hefur heilbr.- og félmn. kannað þessar umsagnir rækilega sem og frv. í heild og haldið um það 14 fundi undanfarna mánuði. Varð um það samkomulag í nefndinni að gera fáeinar breytingar á frv. Er það því nú borið fram í dálítið breyttri mynd. Um þetta var haft samráð við Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóra, sem féllst á breytingarnar, flestar eða allar.

Sveitarstjórnarlög þau, sem nú eru í gildi, nr. 12 31. maí 1927, fjalla einungis um hreppa og sýslur. Hins vegar eru í gildi sérstök lög um hvern kaupstað, og er þar elzt tilskipun 20. apríl 1872, um bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, eru sameinuð í einn bálk ákvæði um kaupstaði, hreppa og sýslur og þá að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að núgildandi lög verði afnumin. Enn fremur eru tekin í frv. ákvæði, sem fjalla um fjölda bæjarfulltrúa og hreppsnefndarmanna, kjörtímabil, hvenær kosningar skuli fara fram, um kosningarrétt og kjörgengi, hvenær kosning skuli vera hlutbundin og hvernig varamenn taka sæti, enn fremur um kosningu innan bæjarstjórna, hreppsnefnda og sýslunefnda. Ákvæði um allt þetta eru nú í lögum um sveitarstjórnarkosningar, nr. 81 23. júní 1936. Þá eru tekin í lögin ákvæði um eftirlit með sveitarfélögum, sem nú eru í lögum nr. 90 14. maí 1940, og ákvæði um sveitarstjóra, sem nú eru í lögum nr. 19 frá 14. febr. 1951. Í þessu sambandi má geta þess í leiðinni, að í hv. Nd. liggur nú fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um sveitarstjóra, flutt af Gísla Guðmundssyni o.fl., á þskj. 89, og hefur heilbr.- og félmn. tekið meginatriði þess frv. upp í þetta frv. til sveitarstjórnarlaga.

Eins og menn sjá með því að fletta frv., fjallar það um mörk sveitarfélaga, þar með sameiningu og skiptingu hreppa, um hlutverk sveitarfélaga, stjórn þeirra og fjárreiður, enn fremur samsvarandi um sýslufélög. Það er skoðun nefndarinnar, að þessi frumvarpssmíð hafi tekizt eftir atvikum vel, og hún vonar, að breyt. þær, sem nefndin hefur á því gert frá fyrri gerð þess, séu allar til bóta. Það gefur að vísu að skilja, að einstakir nm. eru misjafnlega ánægðir með ýmis ákvæði þess, svo sem vænta má um svo fyrirferðarmikinn og margþættan frumvarpsbálk, og allir áskilja nefndarmenn sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem aðrir kunna að flytja. Því er t.d. ekki að leyna, að ein veigamesta breytingin, sem nefndin gerði á fyrri gerð frv., er í mínum augum mjög vafasöm, þó að ég sæi ekki ástæðu til að gera ágreining þar um, en það er ákvæði um kjördag í sveitahreppum, sem ég hefði viljað hafa hinn sama og í kaupstöðum og kauptúnahreppum, enda tel ég rökin gegn því ekki fullnægjandi. Þá vil ég einnig láta það koma fram nú, að ég hefði kosið, að ákvæði um kosningu varamanna í sveitarstjórnir við óhlutbundnar kosningar hefðu verið á annan veg, þó að ég hafi ekki heldur gert um það ágreining.

Segja má, að þetta frv. feli ekki í sér stórvægileg nýmæli. Þau eru að vísu nokkur, en öll mínni háttar. Hér er því ekki á ferðinni nein bylting í sveitarstjórnarmálum, heldur er hér safnað í eina heild ákvæðum, sem nú eru í mörgum dreifðum lagafyrirmælum, og á mörgum sviðum er kveðið nánar á um ýmis atriði en lagafyrirmæli gera nú. Tilgangurinn með frv. er því fremur söfnun margra lagaákvæða í einn bálk en að gerbreytingar eigi að verða á málefnum sveitarfélaganna.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. Frv. er flutt af nefnd, og er því ekki lagt til, að því verði vísað til nefndar. Hins vegar mun nefndin, sem flytur það, athuga það á milli umræðna, ef hún telur ástæðu til og að svo miklu leyti sem hún kann að telja ástæðu til, en hún hefur þegar athugað það allrækilega, eins og ég hef áður skýrt frá.