20.02.1961
Efri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Austf. gagnrýndu nokkuð við 2. umr. frv. ýmis atriði þess og hv. 3. þm. Norðurl. v. frv. í heild. Ég ætla mér ekki sem frsm. n. þeirrar, sem málið ber fram, að svara þessari gagnrýni lið fyrir lið. Ég vil einungis geta þess, að n. hefur haft frv. til meðferðar mánuðum saman, haldið um það fjölmarga fundi og þrautrætt flest eða öll þau atriði, sem gagnrýni hv. þm. beindist að. Segja má, að atriði þessi flest orki meira eða minna tvímælis og um þau megi deila, og voru uppi um þau ýmsar skoðanir innan heilbr.- og félmn., og sýndist jafnan sitt hverjum. Ekki varð samkomulag um að bera fram brtt. aðrar en þær, sem þegar eru fram komnar, og nm. yfirleitt eftir atvikum sætta sig við frv. í þeirri mynd, sem það nú er, með þeim breyt., sem fram koma á þskj. 385, sem nefndin ber fram við þessa umr.

Á það hefur verið bent í umr. um málið, að undirbúningur þess sé allmikill. Það var samið af nefnd kunnáttumanna, og sú nefnd hóf starf sitt með því að útbúa spurningalista um ýmis veigamikil atriði um ýmis sveitarstjórnarmál. Síðan ritaði hún bréf til allra sveitarstjórna í landinu, sendi spurningalista með bréfinu, óskaði svars við spurningunum. Svör bárust frá 161 hreppsnefnd og 7 bæjarstjórnum. Frv. var síðan lagt fyrir síðasta Alþingi. N., sem fékk frv. til meðferðar, sendi það til umsagnar öllum sveitarstjórnum og sýslunefndum. Allmörg svör bárust, þó hvergi nærri eins mörg og í fyrra skiptið. Nefndin hefur síðan snemma á þessu þingi haft frv. til athugunar, og breytti hún því í nokkrum atriðum, að verulegu leyti eftir ábendingum frá ýmsum sveitarstjórnum, sem fram hafa komið í umsögnum þeirra, og auk þess í samráði við formann nefndar þeirrar, sem samdi frv. N. hefur haldið um það fjölmarga fundi, eins og ég sagði áðan, og rætt fjölmörg atriði þess. Eftir að n. bar frv. fram hér í hv. d. fyrir nokkrum vikum, hefur fulltrúaráðsfundur sambands sveitarfélaganna haft frv. til meðferðar og gert um það ályktun. Ýmsar brtt. þess fundar hafa nú verið teknar upp í frv. við 2. umr. þess. Þrátt fyrir allan þennan undirbúning og að maður skyldi ætla allvandaðan undirbúning málsins, dylst mér þó ekki, að mörg atriði frv. geta orkað tvímælis, og má eflaust lengi um þau deila. Á það er rétt að benda, að umsagnir sveitarstjórna og sýslunefnda um sama atriði voru stundum á ýmsan veg, einn vill haga tilteknu atriði á þennan veg, annar á hinn, enda er það ekki óeðlilegt um svo margþættan lagabálk sem hér er um að ræða. Sama má segja um afstöðu einstakra nm. í heilbr: og félmn. Ég ætla, að seint verði hægt að gera frv. þannig úr garði, að allir verði ánægðir. Reynslan mun úr því skera, ef frv. þetta verður að lögum, hversu heppileg ýmis ákvæði þess eru, og gera má ráð fyrir, að síðar kunni að koma til kasta Alþingis með breytingar í þessum efnum.

Um brtt. á þskj. 385, sem heilbr.- og félmn. flytur við þessa umr., vil ég einungis segja þetta:

Fyrstu þrjár brtt. fjalla um það að taka upp heitin borgarstjórn, borgarfulltrúar og borgarráð í Reykjavík í stað bæjarstjórn, bæjarfulltrúar og bæjarráð. Er það til samræmis við heitið borgarstjóri. Þessar brtt. eru fram komnar eftir tillögum fulltrúaráðsfundar Sambands ísi. sveitarfélaga og að ég ætla með fullu samþykki bæjarráðs Reykjavíkur. Tvær síðustu brtt. eru fram komnar eftir ábendingum hv. 5. þm. Austf. Hin fyrri er einungis leiðrétting á tilvitnun, en hin síðari fjallar um það, hverjar reglur skuli gilda, þegar kosningar sýslunefnda eru bundnar, þegar viðhaft er framboð. Að öðru leyti þurfa þessar brtt. ekki skýringa við.