24.03.1961
Neðri deild: 81. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál tók ég aftur till. nr. 11 í brtt. n., við 40. gr., og ber nú fram aftur fyrir hönd heilbr.- og félmn. brtt. við 40. gr. á þskj. 619, svo hljóðandi: „Aftan við greinina bætist: nema sveitarstjórn ákveði annað. — Mundi þá 2. málsgr. 40. gr. hljóða þannig: „Auk launa þeirra, sem ræðir um í 1. málsgr., skal greiða oddvita innheimtulaun, 4% af innheimtum útsvörum og öðrum sveitargjöldum, sem honum ber að innheimta hjá gjaldendum hreppsins, nema sveitarstjórn ákveði annað.“ Með þessu er það ákveðið, að aðalreglan skuli vera 4%, hins vegar sé heimilt sveitarstjórn að ákveða lægra innheimtugjald eða hærra, eftir því sem henni þykir við eiga á hverjum tíma, og er með þessari breyt. gefið meira vald í hendur sveitarstjórnanna að ákveða um þetta atriði, og er þetta í samræmi við ósk, sem komið hefur fram frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Væntir n. þess, að brtt. verði samþ. og málið afgr. þannig.