25.03.1961
Efri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Þessi hv. deild og þó sérstaklega heilbr.- og félmn. hennar lagði mikla vinnu í það að endurskoða frv. til sveitarstjórnarlaga á sínum tíma, athugaði bendingar, sem komu frá þeim, sem frv. hafði verið sent til umsagnar, og breytti frv. á ýmsa lund á þann hátt, sem ég vil halda fram að hafi verið til bóta. En þrátt fyrir þessa endurskoðun okkar hefur nú hv. Nd. gert sínar brtt. við frv., og kemur þar að mínu viti ekki aðeins til greina, að betur sjá augu en auga, heldur líka hitt, að sitt sýnist hverjum, eins og gengur. Til að flýta fyrir málinu, en málið má telja þarft og nauðsynlegt, að það gangi fram, þá boðaði formaður heilbr.- og félmn., hv. 5. landsk., til fundar í n. í morgun til þess að athuga brtt. þær, sem samþykktar voru í Nd., og bera þær saman við frv., eins og það áður var. Á fundinum mættu þrír úr n., tveir voru fjarstaddir. Þessir þrír voru formaðurinn, hv. 3. þm. Vestf. og ég. Og mér var falið að gera grein fyrir þeim niðurstöðum, sem urðu á þessum fundi okkar. Nú hefur fjórði nefndarmaðurinn, hv. 9. þm. Reykv., kynnt sér þessar niðurstöður okkar og gefið mér heimild til að lýsa því yfir, að hann er samþykkur niðurstöðum þeim, sem urðu á fundinum í morgun.

Ég vil nú í stuttu máli fara yfir breytingar, sem orðið hafa, frá því að við skildum við frv. eða sendum það til Nd. Ef menn hafa frv. fyrir framan sig, þá mun vera auðveldara að átta sig á því fyrir menn, hverjar breytingarnar eru, um leið og ég les þær.

Gerð hefur verið breyting á 2. gr. og tekið þar upp „takmörk“ í stað orðsins „staðarmörk“, en áður var í þessu sambandi: „Staðarmörk sveitarfélaga skulu vera hin sömu og nú eru, en ráðuneytið getur breytt þeim“ o.s.frv. Orðið staðarmark er ekki sérstaklega algengt orð, en það skýrir sig mjög vel sjálft. Þar er átt við merkjalínur milli sveitarfélaga. Hv. Nd. hefur ekki fallið vel þetta orð, fellt það niður og tekið upp í staðinn „takmörk“ og breytt á öðrum stöðum orðunum staðarmörk og mörk, sem sums staðar var notað í þeirri styttingu, í takmörk. Nú lítum við svo á í nefndinni, að orðið takmörk væri tæplega eins heppilegt og staðarmörk. Orðið takmörk er margrætt nokkuð og táknar ekki eins skilmerkilega það, sem hér er átt við. Takmörk eru ekki aðeins endamörk, heldur líka eru takmörk t.d. það, sem sótt er til, haft er að stefnumörkum. En þrátt fyrir þetta, þó að við teljum þessa breytingu heldur til hins verra, þá teljum við ekki rétt að ómaka frv. til Nd. aftur fyrir ágreining út af því. Það mun ekki valda misskilningi, hvað við er átt, þó að orðið sé misheppnað hjá þeim, sem hafa sett það inn.

Þá er það önnur breytingin, í 3. gr. Hún er alveg í samræmi við þetta.

Við 5. gr. er líka breyting. Upphaf 2. málsgr. orðist svo, segir þar: „Ef skuldir hrepps eru svo miklar, að þær torveldi sameiningu hreppanna, má ráðuneytið“ o.s.frv., þar sem áður stóð: „Ef skuldir hrepps eru svo miklar, að til vandræða horfi, má ráðuneytið“. Hér er engin nauðsyn fyrir breyt., en hún er frekar til bóta að mínu áliti og okkar í nefndinni.

4. breytingin er snertandi staðarmörk, en 5. breytingin er við 7. gr. Þar segir, eins og nú er komið: „Ráðuneytið getur skipt hreppi samkvæmt beiðni hreppsnefndar, að fengnum meðmælum sýslunefndar, enda verði íbúatala hvors hrepps, eftir að skipt hefur verið, eigi lægri en 200.“ En í frv., eins og það fór frá okkur, segir: „eigi lægri en 150“. Þarna er dálítil efnisbreyting. Þeir, sem fengu frv. til umsagnar, voru ekki á einu máli um, hvaða tölur skyldi hafa þarna. Við í heilbr.- og félmn. hölluðumst að því að taka töluna 150, en við viljum ekki leggja til, að um þetta verði ágreiningur milli þingdeildanna og málið verði tafið vegna þessarar breytingar. Telja má rétt, að sú stefna yrði framvegis uppi, að því er snertir stærð sveitarfélaga, að frekar yrðu sveitarfélög sameinuð og þar með stækkuð heldur en sveitarfélögum skipt og þau yrðu minnkuð. Aðstaða sveitarstjórnarstarfa hefur svo stórkostlega bætzt i landinu fyrir betri samgöngur og síma o.s.frv., að lítil ástæða er þess vegna til að hafa sveitarfélögin smá. Menn geta náð saman til samstarfs í stórum sveitarfélögum með miklu léttara móti en áður var í litlum félögum meira að segja.

Þá er það 6. brtt. Hún er við 8. gr. Í stað orðanna „ákveður ráðuneytið, hvernig með skuli fara“ komi: sker ráðuneytið úr ágreiningi. — En þar er átt við þetta: Ef ekki fæst samkomulag um fjárreiður hreppa, þegar þeir eru sameinaðir eða þeim er skipt samkvæmt 4., 6. og 7. gr. þessa frv., ákveður ráðuneytið, hvernig með skuli fara. Eins og ljóst liggur fyrir, hefði ekki verið nein nauðsyn þessarar breytingar. Hins vegar er orðalagið eins og Nd. vill hafa það alls ekki verra.

Þá er 7. breyt. Hún er við 17. gr., og hún er aðeins prentvilluleiðrétting, að í staðinn fyrir „í hvítasunnudag“ komi: á hvítasunnudag, og þurfti nú varla að vera svo hátíðleg leiðrétting, að hún væri sett inn á þskj. Vitanlega hefur enginn á móti henni.

Þá er 8. brtt. Hún er við 18. gr., um það, að stafliður d falli niður, en það er um, að kosningarréttur miðist við það, að menn hafi óflekkað mannorð. Þessi breyting hefur verið gerð í Nd. til samræmis við aðrar þær breytingar í lögum, að því er hliðstætt ákvæði varðar, sem hafa verið upp teknar. Við í heilbr.- og félmn. höfðum á sínum tíma gert ráð fyrir því, að þetta félli niður, en vegna þess að fulltrúaráð sveitarfélaganna, sem hélt fund sinn, meðan málið var í athugun, óskaði eftir því, að þessi liður væri ekki niður felldur, þá létum við hann standa. En við sjáum enga ástæðu til þess að fara að breyta frv. hér aftur, þegar Nd. hefur samþykkt það með þessari breytingu, því að það getur ekki valdið svo miklum ágreiningi meðal sveitarfélagsmanna, þó að þetta ákvæði gildi gagnvart þeirra kjöri, að ekki þurfi óflekkað mannorð, að það sé nokkur ástæða til að fara í stríð út af því, enda mundi það liggja fyrir fljótlega, að þessu yrði breytt, þegar fullkomlega yrði búið að samræma alla löggjöf á þennan hátt.

Þá er 9. liðurinn. Hann er við 27. gr., að í stað orðsins „atkvæðisefnið“ í síðustu málsgr. komi fornafnið „það“. Þetta er leiðrétting, sem við teljum ekki sérstaklega til bóta, en í greininni var þetta svona, þegar það fór frá okkur: „Á sveitarstjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum mála. Ef jafnmörg atkv. eru með málinu og móti því, fellur atkvæðisefnið, nema við kosningar, þá ræður hlutkesti.“ Af því að viðbótarsetningin: „nema við kosningar, þá ræður hlutkesti“ fylgir, tel ég, að orðið „það“ eigi lakar við heldur en orðið „atkvæðisefni“, því að það miðast við málefni, og kosning verður síður flokkuð undir málefni, en atkvæðisefni er hún alltaf.

Þá er það 12. liðurinn í brtt., við 43. gr. Upphaf 2. málsgr. orðist svo: „Sveitarstjóri á sæti á fundum hreppsnefndar.“ (Gripið fram í: 10. liður.) Það er 12. liður hér í því skjali, sem ég hef fyrir framan mig, en það hafa verið teknar aftur sumar till., og það veldur því, að það ber ekki saman, ef talið er. — „Sveitarstjóri á sæti á fundum hreppsnefndar“ o.s.frv. 43. gr., þannig hljóðaði hún: „Sveitarstjóri á sæti í hreppsnefnd og hefur óbundið málfrelsi og tillögurétt á fundum hennar“. Það er áreiðanlega til bóta að segja, að sveitarstjóri eigi sæti á fundum, en ekki sæti í hreppsnefnd. Í raun og veru á hann ekki sæti í hreppsnefndinni, en hann á að eiga sæti á fundum hennar. Hins vegar hefur hv. Nd. láðst að laga málsliðinn til enda, svo að honum fylgir óþarfur hali, því að málsliðurinn hljóðar þá þannig, eins og nú er komið: „Sveitarstjóri á sæti á fundum hreppsnefndar og hefur óbundið málfrelsi og tillögurétt á fundum hennar.“ Eðlilegra hefði verið: hefur þar óbundið málfrelsi og tillögurétt. Ég nefni þetta af því, að það lítur út fyrir, að þetta og fleira af breytingunum eigi að vera hrein málfegrunaratriði.

Sama breyting er gerð á atriði, sem snertir bæjarstjóra: „Bæjarstjóri á sæti á fundum“, en ekki „í sveitarstjórn“, eins og í frv. stóð upphaflega. Nú á hann sæti á fundum eins og sveitarstjórinn, og það er til bóta.

Þá er það breyting við 46. gr. Þar segir: „Ráðuneytið getur veitt bæjarstjórnum og sýslunefndir hreppsnefndum undanþágu frá því að gera áætlanir um tekjur og gjöld fyrir áramót, þegar brýnar ástæður eru fyrir hendi.“ Nd. vill takmarka réttinn til undanþágunnar, tímatakmarka hann þannig að bæta við: „þó eigi lengur en til 31. marz næsta ár.“ Við sjáum ekki, að við þetta sé neitt að athuga. Undir flestum eða öllum kringumstæðum ættu sveitarstjórnir að geta gert áætlun sína fyrir 31. marz, þó að hins vegar geti verið óþægilegt undir ýmsum kringumstæðum að ganga frá áætlun fyrir árslok á undan.

Svo er b-liður við 46. gr. Það er síðasta málsgr. samkvæmt frv., eins og það fór frá okkur: „Fjárhagsáætlun samkvæmt gr. þessari skal vera regla um upphæð gjalda í sveitarfélaginu og fjárstjórn þar á reikningsárinu.“ Breytingin hjá Nd. er á þá leið, að í stað orðanna „skal vera regla“ í síðustu málsgr. komi: skal vera meginregla. Það er nokkur blæmunur á því, hvort sagt er, að eitthvað skuli vera regla eða meginregla. Með orðinu meginregla er gefið í skyn, að frávik kunni að geta átt sér stað í einhverjum efnum. Við teljum þess vegna, að með þessu orði og þessari orðabreytingu sé frekar linað á, þannig að það sé gefið undir fótinn með frávik. Það teljum við ekki vera til bóta, þó að hins vegar sé vitað mál, að ekki sé hægt að fylgja áætlun alveg bókstaflega. En þá þarf sérstakar samþykktir sveitarstjórnar til, þegar frávik eru gerð, en við teljum óþarft að lina á um það, að sem minnst eigi frá að víkja. En ekki er ástæða til að gera um þetta svo mikinn ágreining að tefja frv. þess vegna.

Þá er það breyting við 47. gr., sem er afar meinlaus, að í stað niðurlags í 1. málsgr., frá og með orðunum „sé ávaxtað á tryggum stað“ komi: sé ávaxtað og varðveitt á tryggum stað, eftir því sem við verður komið. — Þetta er um það, að sveitarstjórn eigi að gæta þess, að fé það, sem hún hefur í vörzlum, sé vel geymt, en Nd. bætti inn í: „sé ávaxtað og varðveitt á tryggum stað“. Þetta er nú svo sem ekki nauðsynjabreyting, því að hitt liggur í hlutarins eðli, en þó alls ekki breyting til hins lakara.

Þá er 55. gr., að í 1. málslið 1. málsgr. verði orðalagið þannig: „Sveitarstjórn kýs endurskoðendur til eins árs í senn og í fyrsta skipti að loknum hverjum almennum sveitarstjórnarkosningum.“ Breytingin er í því fólgin, að í frv. er gert ráð fyrir, að endurskoðendur séu kosnir til fjögra ára. Nú vill Nd., að endurskoðendur séu kosnir til eins árs í senn, að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum, og þá vitanlega endurtekin kosning á kjörtímabilinu. Ekkí teljum við þetta þurfa að vera ágreiningsefni milli deildanna.

Þá er það breyt., sem Nd. hefur gert skv. till. á þskj. 581. Hún er við 92. gr., h-lið hennar, en h-liðurinn var þannig orðaður, eins og við gengum frá frv., — fyrst segir: „Hlutverk sýslufélaga er að annast“ — og svo kemur upptalning og h-liðurinn er á þessa leið: „Tilnefningu þriggja hreppstjóraefna, þegar skipa skal hreppstjóra, en sýslumaður skipar einn hinna tilnefndu manna sem hreppstjóra.“ Nd. hefur breytt þessum lið á þá leið: „Tilnefningu þriggja hreppstjóraefna, þegar skipa skal hreppstjóra. Eru þeir tilnefndir, sem flest atkvæði fá, enda sé hlutfallskosning heimil. Sýslumaður skipar siðan einn hinna tilnefndu manna sem hreppstjóra.“ Efnisbreytingin er sú ein, að bent er á, að heimil sé hlutfallskosning, og þó að sú ábending geti varla talizt nauðsynleg, þá lítum við, sem höfum athugað þetta í félmn., svo á, að ekki geti þetta verið mikið ágreiningsefni.

Þá er breyt. á 102. gr., 2. málsl. 1. mgr. — 1. mgr. hljóðaði þannig í frv., þegar við samþ. það: „Oddviti sýslunefndar er féhirðir hennar og reikningshaldari, semur allar skýrslur hennar og reikninga og annast öll bréfaskipti á vegum hennar. Hann geymir innstæðufé sýslunnar og skuldabréf og annast um aðrar eignir sýslufélagsins.“ Nd. hefur gert breyt. á síðari málsl., þannig: „Hann ávaxtar innstæðufé sýslunnar á öruggan hátt og geymir skuldabréf og annast um aðrar eignir sýslufélagsins.“ Hér er tekið upp ákvæðið um að ávaxta og að geyma á öruggan hátt. Það segir sig sjálft, að slíkt á að vera, og því er ekkert við það að athuga, þótt það sé tekið fram, að svo skuli vera, án þess að til þess ætti þó að vera mikil þörf,

Þá er ein breyt. við 40. gr. Hún er hér á sérstöku þskj., 619, en af því að hún er á sérstöku þskj., tek ég hana síðast. Greinin er í frv. af okkar hálfu á þessa leið: „Laun oddvita skulu vera 25 kr. fyrir hvern þegn hreppsins á ári og sé miðað við íbúaskrá 1. des. næsta ár á undan. Þá skal og oddviti njóta sams konar launahækkana og starfsmenn hljóta hjá ríkinu eða ríkisstofnunum. Auk launa þeirra, sem um ræðir í 1. mgr., skal greiða oddvita innheimtulaun, 4% af innheimtum útsvörum og öðrum sveitargjöldum, sem honum ber að innheimta hjá gjaldendum hreppsins.“ Aftan við gr. hefur svo verið bætt í Nd.: „nema sveitarstjórn ákveði annað“. Þ.e.a.s. innheimtulaunin eiga að vera 4% af innheimtum útsvörum og öðrum sveitargjöldum, nema sveitarstjórn ákveði annað. Fulltrúaráðsfundur sveitarfélaganna síðasti fjallaði um þetta atriði. Hann óskaði eftir því, að innheimtulaunin yrðu ákveðin 4%, og taldi, að það væri nauðsynlegt, vegna þess að í fámennum hreppum sérstaklega, þar sem stutt er milli manna og kunnugleiki mikill og má segja, að allir horfi hver framan í annan, þar mundu oddvitar veigra sér við því að taka innheimtulaun og sízt af öllu 4% eða hámark, vegna þess að þeir væru vitandi það, að grönnum sínum kynni að þykja það nærgöngult, en hins vegar er fyrirhöfnin í þessum litlu hreppum hlutfallslega engu minni en í stærri hreppunum. Þeir mundu hika við það að leggja það til á sveitarfundum eða hreppsnefndarfundum, að sér væri þetta hámark greitt. Heilbr.- og félmn. tók þessa ósk til greina hjá fulltrúaráðinu. Nd. vildi nú upphaflega breyta þessu og láta ákvæðið vera, að heimilt væri aðeins að taka mest 4%, en við athugun og umr., t.d. við forstjóra sveitarfélagasambandsins, þá féll n. frá því, en samþ. að bæta við: „nema sveitarstjórn ákveði annað“. Og þó að það sé að vísu ofur lítið til þess að draga úr, að náist það, sem fulltrúaráðsfundurinn óskaði eftir, þá sjáum við ekki ástæðu til þess að leggja til, að frv. verði nú breytt með tilliti til þessarar breyt.

Þá þykist ég hafa farið yfir breytingarnar allar, og niðurstaðan er þá þessi: Við teljum breyt. yfirleitt ekki nauðsynlegar. Við teljum sumar þeirra í lagfæringarátt, sérstaklega að því er orðalag snertir, en aðrar ekki og frekar til ólagfæringar, eins og að taka upp í staðinn fyrir „staðarmörk“: takmörk, en það teljum við þó ekki orka því, að rétt sé að tefja þetta mál, og leggjum því til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.