25.03.1961
Efri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja.

Mig undrar það mest, hvað það hefur verið hægt að búa til margar brtt. við frv. um lítið efni þarna í Nd., því að ég held, að þær séu 17 a.m.k. Ein er um það t.d., að í staðinn fyrir „í hvítasunnudag“ komi: á hvítasunnudag. Önnur er um það, að í staðinn fyrir „reglur“ komi: meginreglur, og 3–4 eru um það, að komi „takmörk“ í staðinn fyrir „staðarmörk“, og allt er eftir þessu. En erindi mitt hingað var aðeins að spyrja hv, frsm, eða óska skýringar hans á einu atriði, þ.e. breyt. á 55. gr. Þar stendur: „Sveitarstjórn kýs endurskoðendur til eins árs í senn og í fyrsta skipti að loknum hverjum almennum sveitarstjórnarkosningum.“ Ég verð nú að biðja afsökunar á því, að manni verður á að brosa að þessu: „Sveitarstjórn kýs endurskoðendur til eins árs í senn og í fyrsta skipti að loknum hverjum almennum sveitarstjórnarkosningum.“ Hvernig á að skilja þetta? (KK: Má ég skjóta inn í?) Já. (KK: Ja, það er áreiðanlegt, að það á að kjósa að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum.) Já, en þegar á að kjósa til eins árs í senn, kemur það ekki af sjálfu sér? (KK: Þeir verða að fara með umboðið eitt ár, þeir sem höfðu það.) Og í fyrsta skipti að loknum hverjum almennum sveitarstjórnarkosningum?