25.03.1961
Efri deild: 85. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Á skammri stund skipast veður í lofti. Ég stóð hér áðan og lýsti því yfir fyrir hönd heilbr.- og félmn., að hún mælti með því, að frv. til sveitarstjórnarlaga, sem hér liggur fyrir, yrði samþ. óbreytt, eins og það kom frá hv. Nd.

Þegar heilbr.- og félmn. tók þessa afstöðu, gerði hún það að vísu nokkuð nauðug, eins og heyra mátti á orðum mínum, vegna þess að hún var ekki ánægð með breytingarnar. En hins vegar var útlitið þannig þá um veðrið, að mestar líkur voru til þess, að ef frv. yrði breytt, þá gæti það dagað uppi og breytingarnar orðið til þess, að þessi löggjöf gæti ekki komizt á á þessu þingi, en það vildi heilbr.- og félmn. ekki stofna til að yrði. Nú hefur aftur á móti glaðnað þannig til, að telja má tryggt, að þó að Ed. geri breytingar á frv., þá verði það ekki til þess, að það dagi uppi, — það má telja tryggt, — og þess vegna hefur n. tekið málið á ný til athugunar, og ég er hér kominn til þess að lýsa till. til breytinga. En það vil ég taka fram, að þessar brtt. eru miðaðar við það, að líklegt sé, að Nd. hljóti að fallast á þær. Þær eru miðaðar við það að afnema verstu gallana, sem komið hafa inn í frv. með brtt. í Nd., en ganga þó ekki lengra en það, að við teljum ekki líkur til þess, að það muni tefja málið, að þeir, sem voru höfundar brtt. í Nd., fari að gera veður á móti þeim.

Og þá ætla ég að leyfa mér að lesa hér upp þessar brtt., um leið og ég svo bið hæstv. forseta fyrir að leita þeim afbrigða, því að þær eru seint fram komnar og þar að auki skriflegar.

Það er þá fyrst breyting við 2. gr., að í stað orðsins „takmörk“ í 2. málsgr. komi: staðarmörk. En ég gerði grein fyrir því áðan, að þessi breyting, sem er nú lagt til að verði afnumin, að „takmörk“ voru tekin inn í frv. í staðinn fyrir orðið „staðarmörk“, hún var að áliti n. mjög til hins lakara, þó að það stofnaði því ekki í tvísýnu, að menn skildu, við hvað var átt. — Og af þessari brtt. leiðir 2. brtt., við 3. gr., að í stað orðsins „takmörkum“ þar í 2. málsgr. komi: mörkum, — og enn fremur 3. brtt., við 6. gr., í stað orðsins „takmörk“ í 2. málsgr. þar komi: staðarmörk.

Þessar till. þrjár, sem ég hef nú lýst, eru samstilltar og um það, að tekið verði upp sama orð og haft var í frv. upphaflega.

Þá er það 4. brtt. „Við 43. gr. Fyrri málsl. 2. málsgr. orðist þannig: Sveitarstjóri á sæti á fundum hreppsnefndar og hefur þar óbundið málfrelsi og tillögurétt.“ Okkur þótti rétt, úr því að farið var af stað á annað borð, að klippa þar ólánshala aftan af, sem til varð og skilinn eftir, þegar Nd. setti annað höfuð á málsgr.

Svo er það 5. brtt., við 55. gr. Hv. 4. þm. Vestf. vakti athygli á þessari grein, eins og hún er orðuð frá hv. Nd. Og hann sýndi fram á það, að í henni er enn framsetningarendileysa, sem að vísu getur verið eins og felumynd. Þessi vitleysa getur verið eins og felumynd og ekki víst, að hún yrði til skaða, en hverjum þeim. sem kæmi auga á þá felumynd, mundi lítast svo, að hér væri ekki skynsamlega frá gengið, heldur furðuleg framsetningarvitleysa af hendi hv. Alþingis. Og brtt. okkar er á þessa leið: „1. málsl. fyrri málsgr. orðist þannig: Sveitarstjórn kýs endurskoðendur til eins árs í senn.“ Þá göngum við inn á það að breyta kjörtímabili úr 4 árum í eitt ár, eins og Nd. vildi hafa það, en setjum þetta fram á ljósan og ég hygg óaðfinnanlegan hátt. Ég vona, að hv. 4. þm. Vestf. hafi ekki við þessa framsetningu að athuga. Og að þessum breytingum samþykktum, 5 talsins, leggjum við nú til, félagsmálanefndarmenn, að frv. verði samþykkt.