15.12.1960
Efri deild: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

133. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á lögunum um almannatryggingar er komið frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþ. shlj. við allar umr.

Ástæðan til, að það er borið fram nú, er sú, að um áramótin gengur í gildi sú breyt. á almannatryggingalögunum, að réttur manna til lífseyrisgreiðslna, ellilífeyris- og örorkugreiðslna, verður ekki lengur takmarkaður við tekjur samkvæmt þeim lögum, sem í gildi eru, en af því leiðir, að ýmis teknísk atriði koma einnig til greina, sem eðlilegt er að breyta um sama eða svipað leyti.

Þegar almannatryggingalögin voru til umr. hér á s.l. vetri og gerðar voru á þeim þær miklu breyt., sem þá voru gerðar, var því lýst yfir, að enn væru þó óafgreidd allmörg atriði, sem þyrftu nánari endurskoðunar við, og var því þá heitið, að nefnd yrði sett til endurskoðunar á lögunum, eins og þau þá lágu fyrir. Þessi n. var svo skipuð í haust, og voru skipaðir í hana þeir Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstj., sem var skipaður formaður n., Gunnar Möller hrl., frú Jóhanna Egilsdóttir, frú Sigríður J. Magnússon og Sverrir Þorbjörnsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Þessi n. hefur starfað síðan og orðið ásátt um að taka út úr þetta eina atriði, sem hér liggur fyrir, en halda síðan áfram með starf sitt og leggja fyrir álit um önnur atriði, sem til umr. hafa verið í n., síðar. En þetta atriði um skerðinguna hefur oft verið til umr. áður, framkvæmd afnámsins hefur oft áður verið frestað, en nú er meiningin, að það komi til framkvæmda.

Í lögunum um almannatryggingar frá 1946 er gert ráð fyrir því, að þetta skerðingarákvæði almannatryggingalaganna verði afnumið eftir 5 ár. Þessi 5 ár urðu 10 ár, og í almannatryggingalögunum frá 1956 koma aftur 5 ár, þ.e.a.s. fresturinn á afnáminu var framlengdur til ársloka 1960. Þetta þýðir það, að gamlir menn, sem orðnir eru 67 ára, geta nú fengið sinn ellilífeyri greiddan, þó að þeir hafi nokkrar tekjur, en annars hefur það verið takmarkað við, að tekjurnar væru lægri en ellilífeyririnn, ef engin skerðing átti að koma til, og við tvöfaldan ellilífeyri átti að afnema greiðslurnar að fullu. Í sambandi við þetta hefur líka verið nokkuð breytt — og það má kannske segja að sé nýmæli í þessu frv. — ákvæðunum um, hvað mikið ellilífeyririnn getur vaxið, ef frestað er að taka hann. Í fyrri lögum um það mál hefur verið veitt fyrirheit — fyrst um 5% hækkun á ári, sem gat numið samtals 40% eftir 8 ára frestun, — árið 1956 var þessum hundraðshluta breytt í 7 1/2% og 60% í heild, en samkvæmt þessu frv. getur hækkunin orðið eftir 5 ár 67%, ef frestað er að taka ellilífeyrinn til 72 ára aldurs.

Það er meiri ástæða nú, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., að gera ráð fyrir því, að ýmsir muni verða til þess að fresta töku ellilífeyrisins, ef þeir hafa atvinnutekjur, sem duga þeim til framfærslu, og þess vegna er horfið að því ráði að reyna að gera þetta enn aðgengilegra en það hefur verið fyrr, en ætti þó ekki að skapa tryggingunum í heild mjög veruleg útgjöld, en þeim tryggðu auknar lífeyrisgreiðslur, þegar þeir fara að taka þær, hvort sem það verður einu eða fimm árum eftir að þeir eru 67 ára að aldri. Þetta má segja, að sé aðalkjarninn í frv. og þó raunverulega ekki nýr, því að hann hefur verið þar áður með lægri tölum, en ástæða er til þess að ætla, að hann komi meira til framkvæmda, eftír að hið almenna ákvæði hefur verið samþ., að allir 67 ára fái rétt. Um önnur ákvæði frv. er það að segja, að þau eru flest til orðin sem afleiðing af þessu aðalatriði og þurfa raunverulega ekki skýringa við umfram það, sem í grg. stendur. Í 4. gr. eru þó ákvæði, sem þurfa kannske nokkurra skýringa. Þar hefur verið skerðingarákvæði á barnalífeyri, sem líka er lagfært nú, þannig að ef ekkja með börnum giftist á ný, þá valt það á efnahag og tekjum síðari manns hennar, hvort barnalífeyrir yrði áfram greiddur með börnunum. En með þessu frv., eins og það liggur nú fyrir, er gert ráð fyrir, að barnalífeyririnn haldi áfram.

Enn fremur eru nokkur ákvæði í 4. gr. um það, að þegar kona verður öryrki að einhverju ráði, þá átti hún og hennar maður, sem átti að framfæra fjölskylduna, rétt til barnalífeyris, ef efnahagur hans takmarkaði ekki það, að hann fengi rétt til hans. Nú er tekið upp í 4. gr. ákvæði um það, eins og það er orðað í frv., að tryggingaráð getur ákveðið að greiða ekkli allt að fullum barnalífeyri, ef fyrirsjáanlegt er, að tekjur hans hrökkva ekki til að sjá fjölskyldunni farborða.“ Það er sem sagt enginn munur gerður á því, hvort kona manns er öryrki á sjúkrahúsi eða hvort hún er dáin.

Fleiri atriði held ég að ég þurfi ekki að nefna. Greinarnar skýra sig sjálfar, að því leyti sem þær þurfa skýringa við.

Það, sem ég vildi segja svo um störf n., sem falin hefur verið endurskoðun á almannatryggingalögunum, er það, að þessi endurskoðun n. heldur áfram og hún tekur til þeirra atriða annarra, sem talin eru þurfa endurskoðunar við. En ég vildi leggja áherzlu á, vegna þess að skerðingarákvæðið samkvæmt gildandi lögum fellur úr gildi um áramótin, að þetta frv. nái fljótlega fram að ganga og verði orðið að lögum um áramótin, til þess að hvort tveggja fylgist að, niðurfelling skerðingarinnar og lagfæringar á lögunum, sem af skerðingunni leiðir.

Kostnaður við þetta verður náttúrlega nokkur, en hann er erfitt að áætla, því að það getur vel komið til greina, að einmitt þeir menn, sem hér fá rétt til lífeyris og ekki höfðu hann áður, noti ekki þennan rétt sinn strax, heldur geymi hann til þess að fá lífeyrinn hækkaðan síðar. Þess vegna getur það farið nokkuð milli mála, hver kostnaðurinn verður. Það hefur verið reynt að áætla hann og sú áætlun segir, að gera megi ráð fyrir 22 millj. kr. útgjöldum í allt vegna þessara ráðstafana. Þar af koma ekki á ríkissjóðinn nema kringum 8 millj. Annan kostnað greiða atvinnurekendur, hinir tryggðu og sveitarfélögin. En þessum auknu útgjöldum ríkissjóðsins hefur verið gert ráð fyrir í fjárlagafrv., sem lagt var fyrir þingið í haust, svo að það þarf engar frekari breyt. á fjárlögum að gera þess vegna.

Ég vildi svo leyfa mér að mælast til þess við þá hv. n., sem fær frv. til meðferðar, að hún flýti því, þannig að það gæti fengið afgreiðslu fyrir þingfrestun, svo að frv. gæti orðið að lögum um áramót.

Ég vildi svo leyfa mér að óska, að að umr. lokinni yrði frv. vísað til hv. heilbr.- og félmn.