27.03.1961
Neðri deild: 85. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að hv. Ed. hafi gert breytingu á 55. gr. laganna, sem geti orkað nokkuð tvímælis. Sá háttur mun nú vera á, að endurskoðendur séu kosnir til fjögurra ára í senn, en Ed. hefur breytt þessu ákvæði þannig, að endurskoðendur skuli kosnir til eins árs í senn, og fellt niður ákvæði, sem stóð í greininni, eins og hún var afgr. hér frá hv. Nd. Nú sýnist mér, að þetta geti orkað nokkuð tvímælis, og vil þess vegna fá um þetta skýringu frá hv. formanni heilbr.- og félmn., sem mun hafa kynnt sér þetta mál manna mest hér í þinginu. Hvernig á nú að fara að, þar sem búið er að kjósa endurskoðendur til fjögurra ára, en svo kemur lagaákvæði um það, að þeir skuli kosnir til eins árs? Á þá umboð núverandi endurskoðenda að falla niður og kosning að fara fram að nýju vegna þess? Hvaða áhrif hefur þetta á kosningu þeirra endurskoðenda, sem nú eru? Mér skilst, að þarna hafi verið fellt niður ákvæði, sem var nauðsynlegt, sem var þess efnis, að þessi breyting á kjörtímanum skyldi koma fyrst til framkvæmda eftir næstu sveitar- og bæjarstjórnarkosningar, en það ákvæði hefur Ed. fellt niður.

Ég vildi þess vegna spyrja hv. formann heilbr.- og félmn. að því, hvernig hann skilur þessa breytingu og hvort hún muni hafa það í för með sér, að það þurfi að fara fram kosning á endurskoðendum nú fyrir næstu bæjar- og sveitarstjórnarkosningar, eða hvort það kjörtímabil eigi að gilda, sem þeir hafa verið kosnir til, þ.e.a.s. í 4 ár.