25.10.1960
Efri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. 1. flm. þessa frv. gat hér um, gerir jafnlaunasamþykktin, sem fullgilt var af Íslands hálfu með þál. árið 1957, ráð fyrir löggjafarleiðinni sem einni af meginleiðunum að því takmarki, að fullt launajafnrétti milli karla og kvenna komist á. Að sjálfsögðu kemur til álita, hvort unnt sé, ef löggjafarleiðin er farin, að ná markinu í einu átaki eða hvort árangursríkara sé að lögfesta, að því skuli náð í mörgum áföngum, og þá, hve margir þeir skuli vera og hvað langan tíma skuli taka að ná hverjum fyrir sig. Slíkt mat á löggjafarleiðinni hlýtur að mínu áliti að byggjast fyrst og fremst á því, hverjar horfur og aðstæður eru varðandi hina meginleiðina að jafnréttistakmarkinu, þ.e.a.s. samningaleiðina.

Flutningur þessa frv., sem hér er til umr. nú, eins og það er úr garði gert, hlýtur óhjákvæmilega að verða skoðaður og metinn, af verkalýðshreyfingunni a.m.k., í ljósi þess, hvaða takmarki hún hefur sett sér að ná nú í nánustu framtíð og hverjar horfur hún telur á að ná því af eigin rammleik.

Um þessar mundir standa mál þannig, að öll verkalýðsfélög í landinu og þar á meðal þau, sem eru samningsaðilar um launakjör kvenna, hafa óbundna samninga og eru nú þessa dagana og þessar vikurnar sem óðast að tygja sig til baráttu og til samninga um hækkuð launakjör til jafnvægis við þá stórfelldu launaskerðingu, sem vinnandi karlar og konur hafa mátt þola undanfarin tvö ár af þeim stjórnarvöldum, sem nú ráða í landinu, og hv. flm. þessa frv. allir með tölu hafa staðið dyggilega að og ráðið úrslitum um að unnt væri að framkvæma.

Það er óhætt að fullyrða, að enginn hópur launamanna hefur verið beittur stórfelldari harðræðum með efnahagsaðgerðum núv. stjórnarflokka heldur en konur á lágum launum. Þorri þeirra býr við smánarlegustu laun, sem þekkjast í landinu. Aðeins lítill hluti þeirra nýtur fjölskyldubóta eða annarra svokallaðra sárabóta, sem ýmsum öðrum hafa þó verið veittar. Þær njóta fæstar hverjar nokkurrar teljandi lækkunar á sköttum, en mega hins vegar þola allar skattabyrðar og verðhækkanir að sínum hluta og þó tiltölulega meiri en aðrir launþegar.

Það er m.a. gegn þessum órétti, sem verkalýðshreyfingin í landinu er nú að rísa. Verkalýðsfélögin eru að undirbúa kröfur í sambandi við nýja samninga við atvinnurekendur, og eru að minnsta kosti sumir hv. flm. þessa frv. vel kunnugir þeim undirbúningi. En meðal þeirra réttlætiskrafa, sem verkalýðsfélögin munu nú innan skamms bera fram til leiðréttinga á kjörum sínum, er hækkun kvennakaups í 90% af kaupi karla og hækkun þess í fullt karlakaup í sumum greinum. Fyrir tilhlutan almennrar ráðstefnu verkakvennafélaganna hafa þessar kröfur nú verið mótaðar einróma af sameiginlegri nefnd, sem kosin hefur verið af öllum verkakvennafélögunum. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur ágreiningslaust, og þar á meðal með atkv. hv. 2. flm. þessa frv., hvatt félögin til þess að gera nú þessar kröfur að samningsgrundvelli við þá samningagerð, sem nú stendur fyrir dyrum.

Öllum, sem til þekkja, má því vera ljóst, að á næstu vikum eða mánuðum fara fram úrslitaátök milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna um þá hógværu kröfu, að launamismunur karla og kvenna í mikilvægustu starfsgreinum verði minnkaður um rifan helming almennt og verði afnuminn í sumum greinum, og telja verður sterkar líkur á, að þetta nái fram að ganga, svo eindreginn sem vilji verkalýðssamtakanna er í þessum málum nú orðið. Það má því segja, að við séum einmitt nú staddir á tímamótum í þeirri mannréttindabaráttu, sem lengi hefur verið háð um launajafnrétti karla og kvenna, og vissulega væri það mikils um vert, ef löggjafarvaldið kæmi til skjalanna einmitt á slíkum tímamótum og styddi myndarlega að því, að sem stærstum áfanga yrði náð í jafnréttisátt og það með sem friðsamlegustum hætti. Til slíkra afskipta standa líka öll lög og reglur eftir fullgildingu jafnlaunasamþykktarinnar af hálfu Íslands.

Þegar allar aðstæður eru á þann veg, sem ég hef nú lýst stuttlega, tel ég, að það sæti undrun, að fram skuli borið lagafrumvarp, sem felur ekki í sér neina breytingu frá núverandi ástandi fyrr en að liðnu meira en einu ári og þá ekki meiri en sem nemur minna en þriðjungi þess, sem verkalýðsfélögin telja nú lágmark þess, sem þau þurfi að ná þegar í stað.

Ég hygg, að allir skilji, að með flutningi slíks frumvarpsákvæðis, ef eitthvert mark yrði á því tekið, og þó frekast ef það yrði lögfest, væri af hálfu löggjafarvaldsins verið að kveða upp dóm um þær réttlætiskröfur, sem nú eru bornar fram af verkalýðshreyfingunni, dóm um það, að ekki sé frambærilegt, framkvæmanlegt né sanngjarnt að gera nú neitt stórt átak í þessum málum, heldur slá öllu á frest í meira en ár, en gera þó lítið að þeim tíma liðnum.

Ég þykist vita, að hv. flm. krossi sig bæði í bak og fyrir og bendi á, að frv. banni ekki á nokkurn hátt, að lengra sé farið í frjálsum samningum við atvinnurekendur. En í grg. frv. opinbera þeir þó sjálfir og hv. 1. flm. í sinni ræðu, að þeir skynja þetta eðli frv. eins vel og aðrir, en í grg. segir m.a.:

„Það er farsælast fyrir alla aðila, að launajöfnuðurinn nái fram að ganga smátt og smátt á nokkrum árum. Væri launajöfnuður lögboðinn þegar í stað í einum áfanga, mundi það geta valdið mjög mikilli röskun í atvinnulífinu. Eðlilegast er, að atvinnuvegirnir fái nokkurt ráðrúm til að samlagast hinum nýju viðhorfum í kjaramálum kvenna.“

Ég hygg, að flestir skilji, að með þessum orðum og með þeim málflutningi, sem hafður hefur verið hér í frammi af hálfu 1. flm., er verið að leggja dóm á kröfur verkalýðssamtakanna núna og reyna að gera þær tortryggilegar og spilla fyrir því, að þær nái fram að ganga.

Þetta frv. er ekki stjórnarfrv., og það út af fyrir sig er athyglisvert. Það er ekki, svo að vitað sé, samkomulagsmál milli stjórnarflokkanna, heldur borið fram af öðrum stjórnarflokknum, og það hlýtur því að skoðast sem mat hans á því, hvað hæfilegt sé að ganga langt, bæði nú og síðar. Og þeirra mat er það, að því er bezt verður séð, að ekki sé tímabært að aðhafast neitt fyrr en að liðnu meira en ári, þ.e.a.s. nokkru eftir að sæmilega öruggt mætti telja, að núv. ríkisstj. hefði með öllu geispað golunni. Með lögfestingu þessa frv. í núverandi formi væri svo Alþingi að staðfesta þetta mat hv. flutningsmanna.

Ég fyrir mitt leyti uni ekki slíku mati á réttlætiskröfum verkalýðssamtakanna um launajafnrétti. Ég er sannfærður um, að ef rétt er á haldið, er auðvelt að veita konum þegar í stað þær réttarbætur, sem félögin eru nú að setja fram, og þó að meiri væru, án þess að atvinnulíf þjóðarinnar fari úr nokkrum skorðum, eins og hv. flm. vilja láta liggja að. Mjög mörg rök hníga að þeirri skoðun minni og skulu þó fá ein talin.

Lítum t.d. til hraðfrystihúsanna, en þar starfar einn stærsti hópur vinnandi kvenna. Mikill hluti þeirra ber úr býtum kr. 16.14 á klst., á sama tíma og kynsystur þeirra í Noregi bera minnst frá borði kr. 18.53, eða 5736 kr. meira á ári, en almennast sem lágmark er kvennakaup í frystihúsum í Noregi 19.39, þ.e.a.s. lágmarkstaxti í ákvæðisvinnu, sem er langalgengast þar, þ.e. mjög nálægt núverandi karlakaupi á Íslandi. En mismunurinn, sé miðað við þann taxta, nemur 7800 kr. á ári, miðað við 8 klst. vinnu, og er kaupið þá 20% hærra þar en á Íslandi. Stærri fiskiðjuver á Íslandi greiða ekki undir 1–11/2 millj. kr. lægri vinnulaun á ári en sambærileg fyrirtæki í Noregi, en kaupa hráefni sitt jafnframt aldrei undir hálfri annarri krónu lægra verði á hvert kg af fiski, en það er sá allægsti verðmunur á ferskum fiski, sem til er þar og hér. Ef lagður er saman launamismunur verkafólks annars vegar og hins vegar verðmunur á hráefni, kemur í ljós, að sá munur á rekstraraðstöðu mundi nema 3–4 millj. kr. á ári fyrir frystihús, sem svaraði til þess að ynni úr afla fjögurra togara. Ef þessi munur væri umreiknaður í kaupi til starfsfólks, næmi hann aldrei undir 15–20 þús. kr. á ári á hvern mann, en það mundi svara til 30–40% hækkunar á kaupi karla og 40–50% hækkunar á kaupi kvenna á Íslandi frá því, sem það nú er. Og nú skyldu menn ekki halda, að verkalýðssamtökin, hvorki í Noregi né annars staðar á Norðurlöndum, væru ánægð með þau kjör, sem þau búa nú við. Verkalýðshreyfingin í Danmörku er nú að leggja fram kröfur sínar og jafnframt meiri kauphækkunarkröfur en hafa verið nefndar í sambandi við launamál á Íslandi nú. Það er þeirra krafa að ná þegar í stað fullu launajafnrétti á milli karla og kvenna. En það er svo aftur mál fyrir sig, sem ég ætla ekki hér að ræða ýtarlegar, hvaða breytingar eru nauðsynlegar á því viðreisnarefnahagskerfi, sem við nú búum við, og á rekstri viðkomandi fyrirtækja, til þess að slík hækkun kaupgjalds blessist. En ekki verður talið líklegt, að þær breytingar verði gerðar, fyrr en viðkomandi aðilar standa frammi fyrir þeim sem óhjákvæmilegri lausn á þeim vanda að búa verkafólkinu þau lífskjör, sem það sættir sig við, og því fyrr sem það verður, því betra.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, tel ég, að komið geti til greina sú leið í launajafnréttismálum að lögfesta jafnréttið í áföngum, — jafnvel í áföngum. En ég tel mig hafa sýnt fram á, að þetta frv. er í sinni núverandi mynd svo meingallað, að ekki komi til mála að lögfesta það, eins og það er að heiman búið, og að það spilli fremur, eins og nú er ástatt, fyrir því átaki, sem nú stendur fyrir dyrum, heldur en létti það. Öll frekari bið á fullu launajafnrétti í ýmsum greinum, t.d. í fiskiðnaðinum og víðar, er með öllu ástæðulaus og óréttlát, en að öðru leyti er hin sameiginlega krafa allra verkakvennafélaganna í landinu um tafarlaust afnám rífs helmings núverandi launamismunar það lágmark, sem miða yrði við allar raunhæfar aðgerðir. Yrði þessu frv. breytt í þá átt, mundi það geta haft verulega þýðingu. Það mundi þá geta komið í veg fyrir fyrirsjáanlegar deilur og verða eðlilegt framhald af fullgildingu jafnlaunasamþykktarinnar.

Ég vonast fastlega eftir því, að hv. n., sem nú fær málið til athugunar, hagi afgreiðslu þess í samræmi við þetta og allar aðstæður, eins og þær nú eru.