25.10.1960
Efri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Auður Auðuns:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um mál, sem þráfaldlega hefur verið ofarlega á baugi hjá kvennasamtökum í landinu. Ósamræmi í launagreiðslum til karla annars vegar, kvenna hins vegar, er staðreynd, sem öllum er kunn, og ég held, að okkur geti flestum borið saman um, að jöfnuður eða úrbætur í þessum efnum séu réttlætismál, þó að menn geti nokkuð greint á um leiðir til leiðréttingar.

Ég sagði áðan, að þetta væri mál, sem oft hefði verið rætt í kvennasamtökum, og eðlilegast kannske, að það beri oftast þar á góma. Mér þykir það trúlegt, að þar muni Kvenréttindafélag Íslands fyrst hafa orðið til þess að taka málið til umræðu. Þar hefur það þráfaldlega verið á dagskrá og verið rætt, bæði á félagsfundum og í nefndum, og ýmsar ályktanir um það gerðar.

Það er vikið að því í aths. við frv., að þetta mál sé til athugunar hjá n., sem skipuð var af félmrh. vinstri stjórnarinnar á sínum tíma. Það er látið að því liggja í aths., að það muni sækjast býsna seint störfin hjá þessari n., og eftir tímalengdinni að dæma, væri kannske ekki úr vegi að álykta það. Ég skal ekki leggja á það dóm. Hitt vil ég nefna, að mér þykir ótrúlegt, að fulltrúi Kvenréttindafélagsins, því að félaginu var á sínum tíma gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa í n. og tilnefndi formann sinn, — mér þykir ótrúlegt, að á henni hafi staðið með það, að nefndin skilaði af sér eða tæki hressilega á málinu. Mér er kunnugt um, að félagið bíður raunar eftir því, að þessi n. skili af sér störfum, bíður með það að ræða málið rækilegar. Það mun koma í ljós sjálfsagt, hvort von er á einhverjum till. frá þessari n. á næstunni eða ekki.

Frv. fer væntanlega til 2. umr. og heilbr.- og félmn. hv. d. Ég býst við, að við, sem sæti eigum í þeirri n., munum öll verða sammála um það, að frv. verði vísað til umsagnar kvennasamtakanna, sem mest hafa barizt fyrir þessu máli og oftast hafa rætt það, svo að fyrir liggi till. þeirra samtaka, till. kvennanna sjálfra og þeirra umsögn og þá hugsanlegar aths. við frv., eins og það nú liggur fyrir, en frv. sjálft sé ég ekki ástæðu til að ræða efnislega nú við 1. umr.