25.10.1960
Efri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil ekki kannast við það, að ég hafi í mínum ræðum hér verið neitt sérstaklega svartsýnn á getu atvinnuveganna. Þvert á móti vil ég minna á, að það var einmitt flokksbróðir þessa hv. þm., sem hér talaði á undan mér, sem talaði í útvarpsumræðunum í gær, sem var mjög svartsýnn á getu aðalatvinnuvegar þjóðarinnar, sjávarútvegsins. En ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma.

Ég vildi aðeins svara þeirri spurningu, hvers vegna fyrsta hækkun væri í frv. bundin við 1. jan. 1962.

Mér þótti eðlilegt, þegar ég samdi þetta frv., að þar sem hækkun ætti sér stað einu sinni á ári, þá væri það um áramót. Þetta þing getur náttúrlega staðið nokkuð fram á næsta ár, og þó að þetta frv. fari í gegnum þingið, sem vissulega er að vænta, þá er náttúrlega síður en svo nokkur trygging fyrir því, að það verði nú fyrir áramótin. Það gæti alveg eins orðið í febrúar, marz eða apríi. Það veit maður ekkert um. Ég skal fúslega játa það, að ef stuðningsmönnum frv. þætti óheppilegt, að þetta væri endilega bundið við áramót, heldur vildu hafa það einhvern annan dag ársins, þá sé ég því ekkert sérstaklega til fyrirstöðu. Ég verð að telja, að þetta sé alveg aukaatriði.

Mér þykir sem hv. 5. þm. Norðurl. e., sem hér talaði á undan, blandi þessu of mikið saman við þá kjarabaráttu, sem fram undan er nú í augnablikinu. Með þessu frv. er verið að leggja áætlun langt fram í tímann, og maður má ekki láta ástand dagsins í dag trufla sig of mikið í sambandi við þær áætlanir, sem lagðar eru.