24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. 2. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Baráttan fyrir launajöfnuði kvenna og karla hefur staðið lengi, og má segja, að hún hafi verið hörð. Í þessari baráttu hafa ýmsir góðir aðilar tekið þátt. En ég held, að það sé ekki ofmælt, að þar hafi frá fyrstu tíð og til þessa dags verkalýðshreyfingin farið í fararbroddi. Það hefur á undanförnum árum nokkuð þokazt áfram í þessu máli. Nægir að minna á, að samkv. lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skulu konur, sem eru opinberir starfsmenn, hafa sömu laun og karlar.

Verkalýðshreyfingin hefur í sinni baráttu lagt mikla áherzlu á þetta launajafnrétti og vaxandi áherzlu á síðustu árum. Hér á Alþ. hefur þetta mál verið til umr. af og til, a.m.k. síðustu 12 árin. Það var á þinginu 1948, sem Hannibal Valdimarsson flutti hér í þessari hv. d. frv. til laga um réttindi kvenna. Það var að ýmsu leyti víðtækara en það mál, sem nú er til umr., en fól það þó einnig í sér. Þetta frv. var svæft í nefnd. Árið 1953 var flutt frv. um launajafnrétti kvenna. Flm. voru þeir Hannibal Valdimarsson, Gylfi Þ. Gíslason, Emil Jónsson og Eggert G. Þorsteinsson. Þetta frv. var shlj. því frv., sem nú liggur fyrir hv. Nd. og ekki hefur fengizt afgreiðsla á í allan vetur. Það er einnig shlj. þeim brtt., sem ég flyt nú að þessu sinni hér í hv. d. Málið fékk ekki framgang 1953 frekar en 1948, og enn flutti Hannibal Valdimarsson frv. sams konar á þingi 1954, og fór enn á sömu leið.

Í byrjun þessa þings, sem nú stendur yfir, komu fram tvö frumvörp um sömu laun kvenna og karla og um launajöfnuð kvenna og karla. Annað var flutt í hv. Ed., en hitt í hv. Nd. Frv., sem hér er til umr. nú, hefur legið hjá heilbr.- og félmn. í allan vetur og ekki verið við því hreyft þar til í gærmorgun, er snögglega var boðað til fundar, sem ég því miður gat ekki mætt á, enda vissi ég ekkert um, hvað á dagskrá yrði. En þá var þetta frv. afgreitt af n. á þann veg, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir af hv. ræðumönnum hér á undan mér.

Þetta frv. á þskj. 64 heitir frv. til laga um launajöfnuð kvenna og karla og er flutt af hv. þrem þm. Alþfl. hér í þessari hv. d. Þegar frv. er athugað, kemur fljótlega í ljós, að á því eru því miður ýmsir agnúar, og það, sem verra er, nokkuð stórir agnúar. Ég vil nú stuttlega gera grein fyrir þeim.

Það hefst strax með 1. gr. Þar segir: „Á árunum 1962–1967 skulu laun kvenna hækka til jafns víð laun karla við sömu störf í eftirfarandi starfsgreinum: almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verzlunar- og skrifstofuvinnu.“ Hér er tvennt að mínum dómi mjög veigamikið og varasamt. Í fyrsta lagi á það að taka 6 ár frá deginum í dag, par til þessu sanngirnismáli verður fullnægt. Það á ekki að vinda sér að því að koma á þessum launajöfnuði. Það á alls ekki að byrja á því á árinu 1961. Síðan á launajöfnuðurinn að komast á á næstu fimm árum þar á eftir.

Við erum öll sammála um, að hér er um réttlætismál að ræða. En hvers vegna þá að láta það taka svona langan tíma, 6 ár, að framkvæma það réttlætismál? Er það gert fyrir konurnar, sem árum saman hafa liðið þetta óréttlæti? Það dettur víst engum í hug að halda því fram. Fyrir hverja er þetta þá gert? Auðvitað er það gert fyrir atvinnurekendur til þess að hlífa þeim. Það verður að taka langan tíma að afgreiða sanngirnismál, það verður að taka langan tíma að leiðrétta ranglæti, af tilliti til þeirra, sem ranglætið hafa raunverulega framið.

Það er annað í þessari grein, sem líka er athugunarvert og líklega engu betra. Í greininni er gert ráð fyrir, að konur í víssum starfsgreinum fái með tíð og tíma launajafnrétti á við karla, en það er um leið gert ráð fyrir því, að allar konur fái það ekki. Það er gert ráð fyrir því, að vissar starfsgreinar, sem konur vinna í, fái þetta launajafnrétti aldrei. Þetta gera hv. flm. sér fyllilega ljóst, og þeir gera það að umtalsefni í grg. Hvernig afsaka þeir þetta? Þeir segja svo, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Frv. þetta nær til allra þeirra starfa, sem almennast er að konur vinni við hlið karla. Sjálfsagt mætti við nánari athugun tína til einhverjar fámennar starfsgreinar, sem frv. þetta tekur ekki til. Kynnu menn þá að spyrja, hvort konur í þeim starfsgreinum ættu ekki einnig rétt á launajöfnuði. Vissulega ætti það svo að vera. Þessu er þó sleppt í frv.“ — segir í grg. — „til að gera lögin ekki of erfið í framkvæmd, of flókin, enda mundi frv., ef að lögum yrði, að sjálfsögðu bæta mjög samningsaðstöðu allra kvenna, hvort sem þær vinna störf sín yfirleitt við hlið karla eða ekki, eða m.ö.o., hvort sem taxti er til fyrir hliðstæð störf karlmanna eða ekki.“

Þetta er þá afsökun hv. flm. í þessu efni, að þeim vex það í augum að gera lögin og framkvæmd þeirra erfið og flókin, og þess vegna sleppa þeir að fullnægja réttlætinu.

Í 3. gr. eru ákvæði, sem einnig eru mjög athyglisverð og ég held mjög varasöm. Þar er gert ráð fyrir, að sú árlega launahækkun, sem konur eiga að fá, skuli ákveðin af þriggja manna nefnd, launajafnaðarnefnd. Skal einn maður þeirrar nefndar skipaður af félagsdómi og vera formaður, annar skipaður af Alþýðusambandi Íslands og hinn þriðji skipaður af Vinnuveitendasambandi Íslands. Ákvarðanir þessarar nefndar eru samkvæmt frv. fullnaðarákvarðanir og verður ekki áfrýjað.

Hér er þá fyrst og fremst verið að setja á laggirnar eina nefndina enn þá, það er verið að bæta við nefndafarganið með þeirri skriffinnsku og þeim kostnaði, sem því fylgir. Þessi nefnd á að gera það eitt, sem lögin bjóða, að ákveða árlega launahækkun í samræmi við ákvæði laganna. Annað á hún raunverulega ekki að gera. Þessi nefnd virðist mér við fyrsta tillit vera óþörf, og nánar að gætt held ég, að fyrirkomulagið sé varhugavert og ósanngjarnt, sérstaklega í garð launþegasamtakanna. Í þessari nefnd á að vísu að vera einn fulltrúi frá launþegasamtökunum. Það segir það, að launþegasamtökin eru þar algerlega í minni hluta. Þessi nefnd á að taka einhliða ákvarðanir, bindandi ákvarðanir um launamál verkalýðs og annarra launþega, ákvarðanir, sem verður ekki áfrýjað til neins æðri dómstóls. Með þessu er sjálfsákvörðunarréttur launþegasamtakanna um sín kjaramál stórlega skertur að mínum dómi. Þetta er atriði, sem mjög óprýðir þetta frv. og gerir ásamt öðru það að verkum, að það má ekki samþykkjast hér á hinu háa Alþingi, eins og það er nú úr garði gert.

Það er sitt hvað fleira athugavert við þetta frv., þótt smærra sé. Ég skal benda á, að í 4. gr. er stéttarfélögunum, þ.e.a.s. launþegafélögunum, gert að skyldu að sækja um launahækkanir til þessarar háu launajafnaðarnefndar ár hvert í nóvembermánuði. Ja, það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo, að ef eitthvert stéttarfélag sækir ekki um þetta fyrir nóvemberlok, þá eigi viðkomandi félag á hættu að fá ekki lögboðna launahækkun árið eftir. Þannig má skilja þetta. Hitt veit enginn, hvernig þessi háa nefnd með alræðisvaldi mundi úrskurða það, ef umsókn bærist ekki eða kæmi of seint.

Ég skal nú láta að mestu útrætt um þessa hlið málsins, þessa stóru ágalla, sem eru á frv.

Í 5. gr. segir svo, að lög þessi skerði ekki á nokkurn hátt rétt stéttarfélaganna til að semja um það við vinnuveitendur, að launajöfnuði skuli náð á skemmri tíma en lögin mæla fyrir um. Hv. flm. eru sjálfsagt ákaflega upp með sér af þessu ákvæði. Hvílíkt frjálslyndi, hvílík fríðindi eru ekki þarna veitt! Hitt er svo annað mál, hvernig þetta ákvæði verkar í framkvæmdinni, að hve miklu liði launþegasamtökunum kemur þetta ákvæði, þegar frv. er orðið að lögum í því formi, sem það hér birtist. Verður ekki reynslan sú, að atvinnurekendur verði eftir samþykkt þessa frv. hálfu erfiðari til samninga um hækkun kvennakaups, eftir að þetta er orðið að lögum? Er þeim ekki gefið vopn í hönd með þessum lögum, vopn, sem þeir munu beita til þess að standa: á móti launajafnréttinu, meðan unnt er? Ég held það. Og ég held, að atvinnurekendum verði þetta gott vopn í hendi.

Verkalýðshreyfingin, eins og ég tók fram áðan, hefur barizt lengi fyrir launajafnrétti kvenna og karla, og henni hefur orðið ágengt, ekki hvað sízt nú upp á síðkastið. Á síðustu missirum og jafnvel síðasta missirið hefur þokazt mjög langt áleiðis, og ef ekkert yrði til að spilla, eins og óheppileg lög, þá eru miklar líkur fyrir því, að launajafnréttið eigi ekki langt í land. A.m.k. á einum stað á landinu, á Skagaströnd, hafa verkakonur fengið þetta launajafnrétti, og víðar á landinu, eins og t.d. í Vestmannaeyjum og víðar, hefur þokazt nokkuð áleiðis einmitt nú á allra síðustu mánuðum.

Þetta er mjög athyglisvert. Þróunin er ör í rétta átt einmitt síðustu mánuðina. Óheppileg löggjöf gæti orðið til þess að spilla þeirri þróun og tefja fyrir. Verkalýðsfélögin og þar með verkakvennafélögin hafa sjálf sett sér fyrir alllöngu það takmark að berjast nú á þessu ári fyrir hækkun kvennakaups, þannig að það verði a.m.k. 90% miðað við karlmannskaupið. Þetta er mark, sem verkalýðshreyfingin hefur sett sér að ná innan skamms, ekki á sex árum, heldur á þessu ári, ef í það færi. (Gripið fram í.) Ég sagði, að verkalýðshreyfingin hefði sett sér það mark, það er kannske rangt. Nú mun það víða vera svo, að verkakvennakaup er 78% af karlmannskaupinu. Ef verkalýðshreyfingunni tækist að hækka það upp í 90%, þá er ekki langt í land. Og það er augljóst, hver stefna verkalýðshreyfingarinnar er í þessu máli. Hún er sú að ná þessu, ekki í fimm eða sex áföngum, heldur í tveim áföngum. Þetta frv., orðið að lögum, gæti því orðið ágætt vopn atvinnurekendum til þess að tefja baráttu verkalýðshreyfingarinnar og til þess að seinka fyrir því, að þessu réttlætismáli verði komið í framkvæmd.

Sannleikurinn er sá, að hver einasta grein í þessu frv. er varhugaverð. Þess vegna hef ég á þskj. 620 borið fram brtt. Þar er gert ráð fyrir, að greinum 1, 2, 3 og 4 í frv. verði breytt til samræmis við ákvæði frv. sömu tegundar, sem nú liggur fyrir hv. Nd., en það frv. er aftur samhljóða frv., sem flutt var á Alþingi 1953 af þeim Hannibal Valdimarssyni, Gylfa Þ. Gíslasyni, Emil Jónssyni og Eggert G. Þorsteinssyni. Með þessum brtt. á þskj. 620 hygg ég, að komizt verði fyrir ágallana í frv., sem hér er til umræðu. Verði þær brtt. samþykktar, þá fá konur launajafnrétti á við karla, ekki að sex árum liðnum, heldur þegar í stað, og það verður ekki aðeins nokkur hluti starfandi kvenna, sem fær þetta sjálfsagða launajafnrétti, heldur allar konur.

Ég hef svo ekki þessi orð fleiri að sinni, en skora á alla hv. þdm. að athuga þetta mál vel, og ekki hvað sízt skora ég á þá, sem eru í Alþfl. og sæti eiga í þessari deild, að athuga nú sinn gang betur, áður en þeir sleppa því lausu, sem hér sýnist vera tilætlunin að koma fram.