24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef við 1. umr. þessa máls sagt skoðun mína á því í höfuðatriðum, en tel þó ástæðu til að víkja örfáum orðum að málinu aftur og sérstaklega nokkrum atriðum þess og raunar nokkru af því, sem fram hefur komið í umr. nú í dag.

Hv. 10. þm. Reykv. talaði hér áðan og kvaðst undrast það, að hv. 1. þm. Norðurl. e. væri nú svo skeleggur málsvari launajafnréttis sem ræða hans bar vott um, því að ekki væri fortíð þessa þm. og hans flokks á þann veg, að því hefði verið spáð hér fyrir tiltölulega stuttu. Ég ætla ekki að fara að svara fyrir hv. 1. þm. Norðurl. e., því að þess gerist vissulega ekki þörf. En einhvern tíma hefðu það þótt tíðindi hér á landi, að Alþfl. væri svo komið, að það væri bændaforingi norðan úr landi, sem gengi lengra til þess að bera fram réttlætismál verkalýðsstéttarinnar hér á hv. Alþ. heldur en Alþfl. og legði jafnvel til, að því fólki, sem hjá bændum vinnur, yrði tryggður réttur, sem Alþfl. vill nú meina því að njóta. Það mun líka vera alrangt hjá þessum sama hv. þm., án þess að ég ætli að fara að verja Framsfl., að hann hafi aldrei stutt að launajafnrétti hér á Alþ. Ég veit það með vissu, að 1948, þegar Hannibal Valdimarsson flutti frv. sitt um launajafnrétti, þá skilaði þáv. þm. N-M., Páll Zóphóníasson, nál., þar sem hann mælti með samþykkt frv. Og 1959, þegar við Alþb.-menn lögðum til, að verkakvennakaupinu, lægsta kaupgjaldinu í landinu, yrði hlíft við þeirri árás, sem Alþfl. þá stóð fyrir á öll laun í landinu, jafnt þau lægstu sem þau hæstu, þá stóð Framsfl. með okkur í því, en samþykkt á þeim till., sem við þá bárum fram, hefði leitt það af sér, að hlutfall kvenna í launum á móti körlum væri nú 90% í staðinn fyrir 78%, eða nákvæmlega það sama sem öll verkakvennafélög landsins gera nú að sinni lágmarkskröfu. Þetta var viðkomandi sagnfræðinni.

Ég ætla svo ekki að gera að sérstöku umræðuefni þá sagnfræði hv. 2. þm. Reykv., að eiginlega hefði það verið Sjálfstfl., sem alltaf hefði borið hitann og þungann af því að berjast fyrir launajafnrétti í landinu, því að svo fáránleg sem sagnfræði hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ) var, þá sló þessi hv. þm. þó öll hans met.

Hv. 10. þm. Reykv. sagði áðan, að það væri áreiðanlega enginn í verkalýðshreyfingunni, sem væri í nokkrum efa um gagnsemi þessa frv. og hvað það væri ágætt, og nefndi í því sambandi, að konurnar á Alþýðusambandsþinginu síðasta hefðu eingöngu mælt með þessu máli. Ég veit ekki, hvort það er virkilega meining hv. þm., að t.d. lögleg stjórn A.S.Í. sem kosin er af yfirgnæfandi meiri hluta á síðasta þingi þess, sé ekki í verkalýðshreyfingunni, hún standi utan við verkalýðshreyfinguna. Orð hans voru nákvæmlega þau, að enginn í verkalýðshreyfingunni gæti mælt gegn þessu frv. (Gripið fram í.) En svo vildi ég víkja aðeins nánar að því, hvernig þessi meðmæli, sem hér hafa verið talin fram frá verkakonum á Alþýðusambandsþingi, eru til komin. Ég hef ekki alveg nákvæma tölu á, hvað margar konur undirrituðu þetta skjal. Það er sjálfsagt hægt að fá það upplýst. (Gripið fram í: 35.) 35, það mun þá hafa verið réttur helmingur af þeim konum, sem á Alþýðusambandsþinginu sátu, þær voru liðlega 70, svo að eitthvað hefur skort á, að meðmæli þessara kvenna væru einróma. En líka kemur það til í þessu sambandi, að það var áreiðanlega svo, að mikill hluti af þeim konum, sem skrifuðu undir þetta, höfðu alls ekki kynnt sér frv. Þeim var sagt, að þetta væri frv., sem Alþfl. flytti um launajafnrétti. Það var allt, sem þær vissu. En eftir að hið sanna kom í ljós, þá voru það mjög margar, sem sáu eftir því að hafa léð nafn sitt á þetta plagg. (Gripið fram í: Vill ekki þm. lesa plöggin aftur?) Það er sjálfsagt hægt að gera það í góðu tómi, en ég tel það ekki vera réttan vettvang hér á hv. Alþ. að telja það upp. En ég skal lofa hv. þm. því, að í góðu tómi skal ég sýna honum fram á þetta. En a.m.k. getur hann aldrei gengið fram hjá hinu, að það tókst ekki þrátt fyrir harðar tilraunir Alþfl.-manna og sjálfstæðismanna á Alþýðusambandsþinginu að fá nema tæpan helming af þeim konum, sem sátu þingið, til þess að mæla með samþykkt frv. Og það segir vissulega sína sögu.

Hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson sagði, að þrátt fyrir 12 ára starf og tillögur og málflutning hér á Alþ. hefði enginn árangur orðið í launajafnréttisáttina og það væri vissulega nokkuð annað en nú væru horfur á. Ég held, að þetta sé algerlega rangt metið hjá hv. þm. Ég held einmitt, að nú sé komið að uppskerutímanum fyrir það starf, sem núv. forseti Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, og aðrir hafa lagt af mörkum, bæði hér á þingi og annars staðar, í þessu máli og nú hefur skapað það almenningsálit í landinu, að sigurinn er á næsta leiti, fullur sigur. Hann sagði einnig, að það væri siður verkalýðsfélaga — þau næðu ekki fram öllum sínum kröfum að reyna að semja um eitthvað, sem gengi í svipaða átt, þó að einhverju yrði að slá af, það væri þekkt bardagaaðferð hjá verkalýðshreyfingunni, og með þetta fordæmi í huga hefði Alþfl. farið þá leið nú að reyna að semja málið áfram, ná því í áföngum, ná einhverju, þegar ekki væri hægt að ná öllu, og hann hefði farið þá leið að reyna að leita eftir samkomulagi hér á Alþingi um það, að þetta mál gæti náð fram í þeim áföngum, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vil nú benda hv. þm. á það, að nú hafa tveir flokkar í þinginu, sem hafa samtals fylgi 27 þm. af 60, lýst sig eindregið fylgjandi því, að fullkomnu launajafnrétti verði komið nú þegar á. Þarna er útrétt hönd af hálfu þessara tveggja flokka til Alþfl. um það að standa nú saman um að hrinda þessu áhugamáli, sem hann hefur barizt fyrir og a.m.k. þykist enn vilja berjast fyrir, að öllu leyti í höfn. Það stendur þess vegna ekki á þessum flokkum að gera slíkt samkomulag. Það stendur á Alþfl. og engum öðrum. (Gripið fram í.) Jú, vafalaust. Ég held, að ef það er íhugað, hvaða áhrif þetta frv. hefur fyrir framtíðina, þá verði menn að gera sér grein fyrir því, hvað þróunin er ör nú um þessar mundir í þessum málum, og það gægist líka fram í öllum málflutningi hv. flm. og þeirra samherja, að þeir — ja, ég vil ekki segja óttast, þeir kannske vona það, að þróunin verði örari en frv. gerir ráð fyrir. En til hvers gagns er þá frv., ef þróunin verður örari en það gerir ráð fyrir? Verkar það þá ekki sem hemill á hana? Þessi skoðun kemur líka greinilega fram í því, að þeir leggja mikinn þunga á þann varnagla, sem sleginn er í frv. þrátt fyrir allt um það, að það sé þó heimilt að semja um meira en það ákvæði, sem frv. gerir ráð fyrir.

Það kom nú ekki margt nýtt fram í ræðu hv. 9. landsk. þm. (JÞ), sem ástæða er að gera sérstaklega að umtalsefni, því að fullyrðingar eins og þær, að þessum þm. sé ekki kunnugt um það, að þeir flokkar, sem nú standa að brtt., hafi nokkurn tíma flutt frv. í líka átt á Alþ., eru vitanlega fyrir neðan það, sem tekur því að vera að elta ólar við. En hann ræddi sérstaklega um það, þegar hann var að afsaka það, að frv. næði ekki til ýmissa starfsgreina kvenna, eins og t.d. þeirra kvenna, sem starfa í sjúkrahúsum, aðstoðarfólks í prentsmiðjum, — hann hefði getað bætt við konum, sem vinna í landbúnaði, nuddkonum og öðru því um líku, — að það hefði bókstaflega verið óframkvæmanlegt að gera þetta, vegna þess að í sumum tilfellunum væri enginn sérstakur félagsskapur, í öðrum tilfellunum væri ekkert kaup karla, sem við væri að miða, vegna þess að konur einar ynnu þessi störf. Ég held nú, að það hefði verið ákaflega auðvelt fyrir hv. flm. að setja ákvæði inn í frv., sem hefðu falið það í sér, að ætíð skyldu þó laun kvenna miðuð við það, að þau væru ekki lægri en lægstu laun verkamanna. Með því hefði verið auðvelt að höggva á þann Gordions-hnút. Hitt er svo aftur rétt, að frv. er þannig úr garði gert á margan hátt, að það gerir framkvæmdir erfiðari en efni standa til.

En í sambandi við þetta verður ekki gengið fram hjá því, að vissulega hefur verið mest ástæða til þess að beita löggjafarvaldinu einmitt til þess að rétta hlut þess fólks, sem vegna aðstöðu sinnar getur ekki haft með sér fastan félagsskap, stéttafélög. Það er meiri ástæða til þess að taka það út úr og fara löggjafarleiðina til þess að tryggja því launajafnrétti heldur en það fólk, sem hefur sín samtök að vopni, og nýtur þess vegna að vera skjólstæðingar þeirra. En í þess stað velja flm. þá leiðina að skilja þetta fólk algerlega út úr, það fólk, sem sízt skyldi.

Þessi sami hv. þm. sagði, að svo mikið væri yfirboð okkar stjórnarandstæðinga í þessu máli, að við vildum ganga lengra en verkalýðsfélögin, þau hefðu ekki sett fram kröfur nema um 90%, og vitanlega færi það svo, að þau mundu slá af þessari kröfu, eins og jafnan gerðist í samningum. Ég skal ekkert um það segja, en hitt veit ég, að þessi krafa á alla verkalýðshreyfinguna á Íslandi að baki sér og verkalýðshreyfingin setur fram miklu fleiri kröfur en þessa og þetta verður áreiðanlega sú síðasta krafa, sem slakað verður á í þeim samningum, sem nú eru fram undan, það verður áreiðanlega sú síðasta.

Nei, ég hef ekki fallið frá þeirri skoðun minni, sem ég gerði hér grein fyrir við 1. umr, málsins, að ég tel þetta frv. vera meingallað í sinni núv. mynd, og ef það yrði samþykkt, þá mundi það a.m.k. nú á þessu ári og jafnvel á næstu tveimur árum verða til þess að tefja fyrir því, að launajafnréttismálið næði fram að ganga, ef ekki næðust þeir áfangar, sem menn vonast eftir og hafa ástæðu til að vonast eftir. Ég vil þó í lengstu lög a.m.k. reyna að trúa því, að tilgangurinn með flutningi frv. í sinni núverandi mynd sé ekki sá að skaða þetta mikla mannréttindamál. Ég vil í lengstu lög trúa því. Og ég vil í lengstu lög reyna að trúa því, að flm. vilji vel í þessu máli, þó að svo óhöndulega hafi tekizt til sem raun ber vitni um. Og ég vil líka vona það, að þeir geti við nánari athugun á málinu fallizt á að gera á því a.m.k. allra nauðsynlegustu breytingar í þá átt, sem hv. minni hl. heilbr.- og félmn. leggur til að verði gerðar. Og ég hef líka ríkar ástæður til þess að ætla, að undir niðri sé þetta vel meint, því að það háttar þannig málum, að Alþfl. hefur alveg sérstakar ástæður til þess vegna þeirra atburða, sem hafa orðið og hann hefur staðið að á síðustu árum, að reyna að bæta eitthvað fyrir verk sín og sýna, þótt ekki væri í nema einu máli, að hann væri ekki öllum heillum horfinn. En ef slíkt er meining þeirra, þá verða þeir líka að láta sér skiljast, að þetta frv., eins og það er úr garði gert, er ekki til þess fallið að vera nein bót á þau sár, sem Alþfl. hefur veitt launafólki og sérstaklega láglaunafólki í landinu s.l. 2½ ár. Það er að vísu rétt, eins og ég hef sagt, að ef litið er á þróunina á allra síðustu árum og nokkur ár aftur í tímann, þá hefur hún ekki beint tölulega séð orðið örari en svo, að miðað við það væri e.t.v. hægt að sætta sig við einhverja lausn, sem væri svipuð og hér er lögð til. En það er bara að skoða aðra hlið á málinu að gera það, eins og ég hef bent á. Það er ekki hægt að meta frv. út frá því sjónarmiði, heldur út frá því, hvernig málin standa í dag.

Ég verð að draga í efa, að flm. hafi kynnt sér það fyllilega, hvaða afstöðu t.d. verkakonur hafa nú í launamálum. Það er engu líkara en það hafi farið algerlega fyrir ofan garð og neðan hjá þeim, og ætla ég þó, að þeir þurfi ekki nema hér upp á þingpallana til þess að fá um það glögg dæmi, hvernig verkakonur hugsa um sín launakjör núna. Ég er hér með í höndunum kröfur verkakvennafélagsins Framsóknar, sem þær gera nú til breytingar á sínum kjarasamningum, og þær fara fram á það, að verkakonur fái í vikulaun í ýmsum starfsgreinum, þ. á m. flestallri fiskvinnu, 1190 kr., eða sama og kröfur verkamannafélagsins Dagsbrúnar eru núna. Þær fara fram á það, að laun í annarri fastavinnu verði 1071 kr., í verkakvennavinnu, og tímakaup í sams konar vinnu kr. 25.35. Þetta eru kröfur, sem eru ekki undir 50% hækkun frá því, sem nú er. Það er vissulega ekkert lágt ris á kröfum verkakvennanna í landinu núna, og þær eru áreiðanlega við því búnar að berjast frekar fyrir þessum kröfum, þrátt fyrir það, þó að sumir talsmenn Alþfl. tali um það eins og verið sé að eyðileggja þjóðfélagið, ef gerðar eru einhverjar kaupkröfur. Þær eru áreiðanlega ekki á þeirri skoðun, flokkssystur hv. 9. þm. Reykv. En svo að ég víki aðeins að þeim ástæðum, sem gera það að verkum, að ég vil í lengstu lög trúa því, að Alþfl. meini vel í þessu máli, þá vil ég minna á það, að skömmu eftir að Alþfl.-stjórnin var mynduð seinast á árinu 1958, eða skömmu eftir áramótin, lækkaði Alþfl, alveg óumdeilanlega samkv. sínum eigin útreikningum allt kaupgjald um 5.4%. Það er alveg óumdeilanlegt, að raunveruleg lækkun á kaupgjaldi var það. En brúttókaupgjald lækkuðu þeir um 13.6%. Eins og ég áður sagði, bar Alþb, þá till. fram í sambandi við þessar efnahagsaðgerðir Alþfl.-stjórnarinnar, að lægsta kaupinu yrði þyrmt, það yrði ekkert látið lækka, og ég endurtek, að það hefði þýtt, að við stæðum nú ekki í þeim sporum, að kaup verkakvenna væri aðeins 78% af launum karla, heldur 90%, þ.e.a.s. að þá var alveg einstakt tækifæri, sem sennilega býðst aldrei aftur, til þess að stíga stórt skref í þessa átt, og það tækifæri var einmitt í hendi Alþfl. eins þá, því að það, sem var að gerast í febrúar eða marzmánuði 1959, þegar þessi efnahagslög voru sett, var það, að það var verið að létta stórkostlegum kaupgjaldsbyrðum af atvinnuvegunum, og þó að lægsta kaupinu hefði verið þyrmt, þá hefði það ekki haft í för með sér nein ný útgjöld fyrir atvinnuvegina frá því, sem þá var. Þó að þetta tækifæri væri síður en svo kærkomið frá hendi verkalýðshreyfingarinnar, skoðað frá hennar sjónarmiði, þá er þó ekki hægt að deila um, að það hefur aldrei verið slíkt tækifæri í hendi eins flokks til þess að leiðrétta áratuga ranglæti eins og þarna var. En ég man ekki betur en allar hendur Alþfl.-mannanna, þ. á m. þeirra tveggja flm., sem þá sátu á þingi, væru eins og vel smurðar vélar á lofti til þess að fella þessa tillögu okkar Alþb.-manna.

Nei, það væri vissulega engin furða, þó að samvizka þessara manna vaknaði. Sagan er þó ekki öll sögð með þessu. Ári seinna stóð Alþfl. aftur að enn þá freklegri kjaraskerðingu en hann hafði gert, meðan hann fór einn að nafninu til með stjórn landsins, og enn var kaupgjald raunverulega lækkað um 15–20% með lagasetningu. Þar hefði Alþfl. vissulega haft annað tækifæri til þess með einhverjum hætti að þyrma lægsta kaupinu. En hann var algerlega sama sinnis þá og í ársbyrjun 1959, allt skyldi lækkað í sama hlutfalli, verkakonurnar skyldu taka sinn skerf af kjaraskerðingunni, það skyldi engin miskunn verða sýnd. Það er vissulega vel ef hugarfarið hjá þessum mönnum hefur nú gerbreytzt á einu ári og ef þessir menn eru nú allt í einu orðnir svo heitir baráttumenn fyrir launajafnrétti eins og þeir vilja vera láta. En þeir eiga enn þá eftir að ganga undir þá prófraun, sem tillögur okkar Alþb.-manna og Framsfl. í þessu máli leggja á þá. Og það er sú prófraun, sem hlýtur að skera úr um heilindin. En ef þeir standast hana ekki, hljóta aðrar skýringar en hugarfarsbreytingin frá 1959 og 1960 að vera nærtækari á því, hvers vegna þeir flytja þetta frv.

Ég hef sagt áður, og það hefur komið hér fram í umr. hjá öðrum, að ég geri í raun og veru lítið úr öllum ágöllum þessa frv., þó að þeir séu nokkuð margir og sumir þeirra varhugaverðir, öðrum en þeim, að með þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að verkakonur og aðrar starfandi konur fái leiðréttingu á sínum málum fyrr en að liðnu þessu ári og þá aðeins um sjötta partinn af þeim launamismun, sem nú er gildandi. Þetta álít ég höfuðágallann á frv. og það, sem er langsamlega hættulegast. Því á sem sagt að slá föstu, á meðan úrslitaátökin fara fram í landinu um það, hvort eigi að stíga verulegt spor í átt til launajafnréttis, þá má ekkert aðhafast af hendi löggjafans, og eftir árið eiga þær aðeins að öllum ástæðum óbreyttum að fá 76 aura hækkun á klst. Menn skyldu nú bera þetta saman við kröfur verkakvennafélagsins Framsóknar, sem fer fram á 50% hækkun á sínu kaupi. Og að þetta frv. geti við þær aðstæður, sem nú eru, skoðazt sem nokkur stuðningur við kröfur verkalýðshreyfingarinnar, það er vitanlega fjarri öllum sanni.

Það hefur verið bent á það hér áður, að a.m.k. eitt verkalýðsfélag hefur þegar náð jafnréttinu algerlega, 100%. Annað félag veit ég um, sem hefur náð samningum um 94% af kaupi karla, og nú fyrir örstuttu hefur verkakvennafélagið í Vestmannaeyjum gert bráðabirgðasamning, sem allir vita þó, að það mun ekki una lengur en til 15. maí n. k., um að fá þá hækkun, sem samkv. frv. á að koma í framkvæmd í ársbyrjun 1962 og gilda a.m.k. þangað til í ársbyrjun 1963. Ég hygg, að þau verði ekki fá, verkakvennafélögin í landinu, sem mundu vera orðin langeygð eftir slíkri leiðréttingu á tveimur árum, að fá það, sem er vitað að atvinnurekendur eru þegar með á borðinu gagnvart hverju einasta verkakvennafélagi í landinu og mundu áreiðanlega fúslega semja um núna, ef ekki væru aðrar eða stærri kröfur.

Ég tel það svo enga afsökun í þessu máli, sem fram hefur verið fært, að það sé ekki algerlega bannað í frv. að semja um, að lengra spor sé stigið í átt til launajafnréttis en frv. gerir ráð fyrir. Það hefði líka fyrr mátt vera en það hefði verið bannað með lögum að gera samninga milli verkakvenna og atvinnurekenda um slíkt. En hitt er ég alveg sannfærður um, að ef hv. flm. vilja um það hugsa, og reyndar hver einasti skyniborinn maður, sem vill um málið hugsa, hlýtur að gera sér ljóst, að með þessu frv. er atvinnurekendum fengið mjög sterkt vopn í hendur á móti kröfum verkakvenna í þeim átökum, sem nú eru framundan hjá þeim, og það er áreiðanlega ástæðan til þess, að Sjálfstfl. hefur fengizt til þess að hleypa þessu frv. hér í gegn, og engin önnur. (Gripið fram í.) Þeir vilja það áreiðanlega. Ég fæst ekki um það, þó að hv. þm. hlæi hrossahlátri. Ég veit, að hann er það reyndur í verkalýðsmálum, að hann skilur vel, að þeirri röksemd verður miskunnarlaust beitt af hendi atvinnurekenda, að þetta mál sé nú komið í hendur löggjafarvaldsins og í því sé ekkert meira að gera. Það munu þeir gera miskunnarlaust. Þetta þýðir þó ekki það, að ég sé að halda því fram, að þetta frv. komi í veg fyrir, að konur nái lengra í jafnréttisáttina á næstu árum en frv. gerir ráð fyrir. En hitt er ég alveg sannfærður um, að það mun eiga eftir að sannast, að þetta frv. hefur þau áhrif, að öll átök, sem um þetta fara fram í landinu, verða kostnaðarsamari, bæði fyrir verkakonurnar, fyrir atvinnurekendurna og fyrir allt þjóðfélagið.