24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Fram. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er ekki alveg laust við það, að ég kenni í brjósti um hv. Alþýðuflokksmenn fyrir aðstöðu þeirra hér. Það liggur ljóst fyrir af því, sem þeir hafa sagt, að þeir héldu, að þeir hefðu gullpening, en hafa nú komizt að því, að það er bara koparskildingur.

Báðir þessir hv. þm., hv. 10. þm. Reykv. og hv. 9. landsk., hafa viljað draga úr gildi tillagna minna með því að segja, að Framsfl. hafi ekki áður verið góður stuðningsflokkur launajafnréttismálsins. Ég held, að það bætist nú við raunir þeirra, að það sannist á þeim, að þeir séu ekki vel að sér í sögu þessara mála. Ég skal nefna þrjú atriði, sem hér hafa ekki verið talin, en þessu hefur annars að nokkru verið áður svarað.

1948 flutti Hannibal Valdimarsson, sem þá var að vísu Alþýðuflokksmaður, frv. um sama rétt kvenna og karla. Málefni þetta fór til nefndar, eins og jafnan er hér, heilbr.- og félmn. Einn maður studdi mál Hannibals í n., það var fulltrúi Framsfl., Páll Zóphóníasson. (Gripið fram í: Stóð flokkurinn að baki honum þá?) Efast hv. þm. um það, að hann hafi verið í sambandi við sinn flokk? (Gripið fram í: Já, ég geri það nú.) Það er hálmstrá að grípa til þess og hefur ekkert gildi í sögunni, nema einhverjar sannanir liggi fyrir um það. (Gripið fram í.)

Við skulum halda áfram. Vinstri stjórnin beitti sér fyrir því í sambandi við efnahagslöggjöf sína 1958, að laun væru hækkuð um 5% og að konur fengju sömu hækkun í krónutölu og karlar. Framsfl. stóð að þessu, hann hafði forsæti í vinstri stjórninni.

Þegar stjórn Emils Jónssonar bar fram frv. til niðurfærslu verðlags og launa 1959, studdu framsóknarmenn till. Hannibals Valdimarssonar og Karls Guðjónssonar um að láta lækkunina ekki ná til kvennakaups. Ef till. hefði þá verið samþykkt, hefði kvennakaupið orðið 90% af kaupi karla.

Ég held, að þessi þrjú atriði séu nægileg sönnun þess, að það er markleysa ein, sem hv. Alþýðuflokksmenn hafa sagt hér í umræðunum um, að Framsókn farist ekki að flytja skeleggari till. en þeir gera. Sannleikurinn er, að tímarnir hafa ákaflega mikið verið að breytast, og sagan út af fyrir sig hefur ekki 100% gildi um afstöðu manna. Tímarnir breytast svo ört, að það, sem var rangt fyrir 10 árum t.d., getur í sumum tilfellum verið rétt í dag. Ég er ekki að segja, að það eigi við þetta mál, en ég segi þetta almennt. Og það er nú svo komið, eins og ég sagði í dag, að launajafnréttismálið er orðinn sjálfsagður hlutur, það er komið á það stig. En það virðist í þessu efni eins og sumum öðrum, að Alþýðuflokksmenn gangi öfugt við strauminn. Það er eins og þá sé að daga uppi í ýmsum málum. Mér virðist í þessu máli, að það sé mikil hætta á því, ef þeir nota sér ekki það tækifæri, sem ég hef gefið þeim hér með tillögum mínum, að þeir gerist nátttröll í málinu.

Hv. 10. þm. Reykv. skaut því til mín að berjast fyrir því, að Vinnumálasamband SÍS gerði samninga upp á jöfn laun kvenna og karla. Ég býst nú við, að hv. þm. viti, að fyrirtæki eins og Samband íslenzkra samvinnufélaga, stórt fyrirtæki í harðri samkeppni við önnur fyrirtæki, hefur ekki góða aðstöðu til þess að taka sig út úr, einmitt vegna samkeppninnar. En ég vil fullyrða það, að verði till. mín samþykkt, þá mun ekki standa yfirleitt á samvinnumönnum að fylgja lögunum.

Hv. 10. þm. Reykv. sagði það í afsökunartón, og ég vil vekja athygli á því, að þeir flm. hefðu viljað kanna, hvort ekki væri hægt að koma þessu jafnréttismáli eitthvað áleiðis. M.ö.o.: þeir voru að þreifa fyrir sér að hans sögn, hvað væri hægt að komast. Ég held þess vegna, ef það hefði legið til grundvallar, að þá hefðu þeir átt að taka fagnandi á móti till. okkar hinna, sem við höfum flutt hér og lýst, og ef þeir gera það ekki, þá er það sönnun þess, að þeir hafa ekki verið að þreifa fyrir sér, heldur hafa þeir ætlað að setja í fastar skorður jafnréttislaunamálið, þannig skorður, að þeir mundu með því koma í veg fyrir, að það gengi hratt áfram.

Það eru barnaleg rök, að í frv. standi, að það skuli ekki skerða rétt kvenna til þess að semja um hraðara launajafnrétti, því að það segir sig alveg sjálft, að þegar búið er að setja löggjöfina og áfangana, þá munu vinnuveitendur telja sig fylgja lögum, vera að öllu leyti löglega og þegnlega með því að semja upp á fyrirmæli laganna og hafna og synja öllum kröfum með skírskotun til þess, að löggjafinn hafi ekki ætlazt til meira en sjötta parts á ári.

Hv. 9. landsk. var ofur lítið að gera tilraun til að afsaka það, að upptalningin um þau stéttasamtök og þær starfsgreinar, sem eiga að njóta laganna, væri ekki tæmandi, og hann benti á það, að aldrei væri hægt að gera ráð fyrir því t.d., að rétt væri í þessu sambandi að telja upp flugfreyjur eða gangastúlkur á sjúkrahúsum, því að þar væri ekki um karlmannsvinnu sambærilega að ræða, þar væru stúlkur einar að verki. Þetta er engin afsökun, þó að upptalningin sé örðug til að vera tæmandi. Galdurinn er bara að taka fram, að rétturinn nái til allra kvenna, sem vinna sambærileg störf og karlmenn, alveg eins og ég hef gert í brtt. minni. Það er ómynd og óviðfelldið mjög að tryggja ekki öllum jafnan rétt, þegar að því er komið að framkvæma nokkurn veginn til fulls þetta jafnlaunaréttindamál, því þó að hv. 9. landsk. segi, að það muni verða að þessu óbeint gagn fyrir þær konur, sem utan við standa, þá er engin ástæða til þess að setja þær í nokkra erfiðleika og láta þær búa við þá aðstöðu að hafa bara óbeinan rétt.

Hvernig sem á þetta mál er litið, þá ber allt að sama brunni. Ef hv. flm. frv. hafa í raun og veru viljað fara svo langt sem hægt er að fara í málinu, þá eiga þeir að þiggja það tilboð, sem þeir hafa frá Framsfl. og Alþb. um að komast miklu lengra en þeir hafa stungið upp á og koma málinu alveg í höfn. Þiggi Alþfl. ekki þetta tilboð okkar, þá er hann sannarlega grunsamlegur. Noti hann aðstöðuna, sem hann hefur í stjórnarsamstarfinu, til þess að fella tillögur okkar, hvað sýnir hann þá? Hann kemst ekki undan því, að nú er dómsdagur yfir honum í þessu máli. En það er bót í máli, að hann hefur dóminn sjálfur í hendi sinni. Hann kveður hann sjálfur upp með afstöðu sinni til þeirra tillagna, sem við hinir höfum flutt.