24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. leiðrétti það, sem ég hafði sagt, að Páll Zóphóníasson hefði 1948 staðið með Hannibal Valdimarssyni endanlega að till. úr félmn. Ég þakka honum fyrir þessa leiðréttingu. Hitt er óhrakið þrátt fyrir það, að Páll Zóphóníasson mælti mjög fyrir launajafnrétti við umr. þessa máls, bæði í n. og í þingsalnum. Hann segir í þingtíðindum frá 1948:

„Hvað mig snertir er ég ákveðið með því, að konur og karlar hafi sömu réttindi og skyldur, og tel, að að því beri að stefna ákveðið. En ég tel ekki mögulegt að leysa þetta mál með einu frv. eins og þessu, þar sem þessu er þannig varið nú, að stundum eru konur réttlægri, en stundum rétthærri,“ Og enn segir hann; „Vegna þess, að frv. nær ekki því marki, sem því er ætlað, legg ég til, að því verði vísað til stj. með ákveðnum fyrirmælum um, að málið í heild verði rannsakað og athugað, hvað þurfi að gera, til þess að jafnrétti skapist.“

Af þessum orðum hans, sem ég las hér upp úr þingtíðindunum, stendur það þó óhaggað, að hann sem framsóknarmaður studdi þessa hugmynd sterklega, og ef hann hefði setið hér á Alþ. nú, þá veit ég, að ekki hefði staðið á honum að styðja þá till., sem ég hef lagt fram, því að hún er algerlega í hans anda, eins og þau orð sanna, sem ég hef lesið upp úr ræðu hans í þingtíðindunum frá 1948.