24.03.1961
Efri deild: 83. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. 2. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir) ; Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv., frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., talaði hér áðan. Hv. þm. gat þess, að í ráðherratíð Hannibals Valdimarssonar hefði þál. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf verið samþ. hér á þingi fyrir hans atbeina. Síðan ásakaði hv. þm. þennan fyrrv. ráðherra fyrir að hafa ekki gert meira á þeim tíma, sem hann var ráðherra. Hv. þm. benti á, að Hannibal Valdimarsson hefði þá, sem ráðherra og forseti Alþýðusambands Íslands, haft sérstaklega góða aðstöðu til að koma málinu fram, launajafnréttinu, og vildi telja, að það hefði verið heppilegra, að hann hefði sýnt sama áhuga þá á málinu og fyrr og síðar. Í þessu sambandi vil ég benda á, að samkvæmt þessum sáttmála, sem samþ. var hér á þingi á miðju ári 1957, var ekki auðvelt aðgerða um lagasetningu á þessu sviði fyrst um sinn, því að í lok 6. gr. sáttmálans segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Síðan gengur þessi samþykkt í gildi að því er snertir hvert aðildarríki 12 mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð“. Sáttmálinn gekk sem sagt ekki í gildi og gat ekki gengið í gildi fyrr en á árinu 1958. Tækifærið þá til þess að koma fram lagasetningu gafst ekki fyrr en haustið 1958, eftir að Alþingi kom saman. Hvað gerðist á því þingi öndverðu, vita allir, sem hér eru staddir. Það urðu stjórnarskipti. Ríkisstj. Hermanns Jónassonar sagði af sér, en við tók ríkisstj. Emils Jónssonar. Það var því ekki möguleiki til að hreyfa þessu máli fyrr en á þessu þingi, einhvern tíma á þessu þingi, og tækifærið gafst ríkisstjórn Emils Jónssonar. En hvernig notaði hún það? Hún hreyfði ekki málinu, þótt þá væri kominn tími til þess og auðvelt að gera það í fullu samræmi við þennan sáttmála. En þessi ríkisstj. hreyfði hvorki legg né lið. Hún vílaði ekki einu sinni fyrir sér að fella till. um að undanþiggja konur frá kauplækkun á öndverðu árinu 1959. Hér á hinu háa Alþingi kom fram till. um það, að konur, vegna þess að þær hafa lægra kaup en karlmenn, skyldu ekki lækka í launum til jafns við karlmenn, þegar launalækkunarfrv. ríkisstj. Emils Jónssonar var á ferðinni. En ríkisstj. Emils Jónssonar, með tilstyrk Sjálfstfl. og Alþfl., felldi þá till. Laun kvenna skyldu skert engu síður en karla með þeirri löggjöf ríkisstj., og það var í engu hlífzt við það. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér, vegna þess að sú árás, sem hv. 2. þm. Reykv. hóf á hendur hv. 4. landsk. þm., er með öllu ómakleg.

Hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ) flutti hér ræðu í dag. Þar leitaðist hann við að afsaka sjálfan sig. 1953 flutti hann ásamt öðrum frv. um sömu laun kvenna og karla, frv., sem var langtum ótvíræðara, skorinorðara og gekk lengra en það frv., sem nú er hér til umr. Ég flutti á sérstöku þskj. brtt., sem voru orði til orðs teknar upp úr þessu frv., sem hv. þm. var meðflm. að 1953. Hann reyndi nú í dag að afsaka, hvers vegna hann gæti ekki stutt þessar brtt., sínar gömlu till. frá 1953, með því að það væri betra hálfur skaði en allur, það væri betra að fá fram það, sem felst í þessu frv., sem liggur fyrir, heldur en fá ekki neitt. Þess vegna styddi hann það og þess vegna bjóst hann til að greiða atkv. gegn sínum fyrri till. Þetta gæti í sjálfu sér verið frambærileg afsökun, það játa ég. En hún er alls ekki frambærileg eins og aðstæður eru nú, vegna þess að ef þessi hv. þm. hefði viljað standa við sínar gömlu till. nú, þá átti hann kost á því að styðja þær og sennilega kost á því að fá sína samflokksmenn í d. til að styðja þær líka. En ef Alþfl.-menn hér í þessari hv. d. hefðu stutt þessar gömlu till. hv. þm., þá hefðu þær náð fram að ganga. Það er áreiðanlegt, að þessi afsökun hv. þm. var því tylliástæða. Sú raunverulega ástæða er hlutdeild Alþfl. að þessari ríkisstj. og bann Sjálfstfl.-manna við því, að brtt. næðu fram að ganga. Nú gefst hv. Alþfl.-mönnum hér í þessari hv. d. enn tækifæri til að sýna hug sinn til þessa máls og hug sinn til baráttu verkalýðshreyfingarinnar með því að styðja fram komna tillögu, sem nýlega hefur verið gerð grein fyrir. 90% er það mark, sem verkalýðshreyfingin hefur sett sér í þessu baráttumáli, hækkun kvennakaups upp í 90%. Þetta er sums staðar fengið og vel það og líkur fyrir, að þetta muni fást með einbeittri og öruggri baráttu innan skamms. Ætla nú hv. Alþfl.-menn hér í þessari d. að bregða fæti fyrir þetta og greiða atkv. gegn þessari hugmynd? Það fáum við nú brátt að sjá.