24.03.1961
Efri deild: 83. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Ég hafði nú reyndar ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr., en get þó ekki stillt mig um að víkja aðeins að einu atriði í ræðu hv. síðasta þm. Ég hef sjaldan heyrt af öðrum eins vanefnum reynt að bera í bætifláka fyrir neinn og þegar hv. þm. var að afsaka fyrrv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, fyrir það, að hann skyldi hafa látið undir höfuð leggjast að ýta jafnlaunamálinu áleiðis í ráðherratíð sinni. Hv. þm. vitnaði til greinar í jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, þar sem hann segir, að hún gangi í gildi að því er snertir hvert aðildarríki 12 mánuðum eftir að fullgilding þessi hefur verið skráð. Út úr þessu fær hann það, að það hafi verið beinlínis bannað eða ekki hægt, sagði hann, að flytja til að mynda frv., eins og ég vék að í minni ræðu, frv. um launajafnrétti. Það sjá allir, hvað aumlegt yfirklór þessi tilraun til skýringar á jafnlaunasamþykktinni er. Ég vil líka benda á viðbótina við heimildina til þess að fullgilda jafnlaunasamþykktina, sem er á þessa leið: „Jafnframt ályktar Alþingi að fela ríkisstj. að gera hið fyrsta ráðstafanir til, að samþykktin komist í framkvæmd hér á landi.“ Hér er ríkisstj. — og þar hlaut félmrh. að hafa forgöngu um — falið að gera ráðstafanir hið allra fyrsta, til þess að samþykktin komist í framkvæmd hér á landi. Það sýndi sig, að það var ekki vanþörf á því að bæta þessu við þáltill., enda sjálfsagt einhverjir haft grun um, að það mundi ekki vera of mikið aðhafzt, eftir að búið var á pappírnum að fullgilda hana. En að ætla að skýra þetta ákvæði jafnlaunasamþykktarinnar á þann veg, að aðildarríkin megi ekkert hafast að fyrr en 12 mánuðum eftir að þau fullgilda samþykktina, það er svo fráleitt, að ég er satt að segja undrandi á hv. þm. að vera að halda slíkri firru fram.