24.03.1961
Neðri deild: 83. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og tekið var fram af síðasta ræðumanni, hv. 7. þm. Reykv., var það frv., sem hér er nú til umr., borið fram snemma á þessu þingi, og fór 1. umr. fram skömmu eftir að þskj,. var útbýtt, og var því vísað til hv. heilbr.- og félmn. d. Nú hefðu menn getað búizt við, að hinir miklu áhugamenn, sem standa að flutningi frv., hefðu, þar sem þeir höfðu nú stjórnarmeirihluta á bak við sig, öruggan meiri hl. í þd., fylgt málinu eftir af fræknleik og sýnt áhuga sinn og afgreitt málið skömmu síðar út úr n. og d. og þetta frv. hefði því borið hér að í hv. Nd. til framhalds- og lokaafgreiðslu á öndverðu þingi, en ekki alveg á síðustu dögum þingsins. Ekki fór nú þetta samt á þann veg. Nei, málið fékk að liggja í n. allt það sem eftir var af árinu 1960, alla jólaföstuna og jólahléið, sem gert var á störfum þingsins, og janúarmánuð og febrúarmánuð og langt fram í marzmánuð. En þá gerðist það, að hv. heilbr.-og félmn. Nd hafði loksins gefizt upp á því að liggja á frv. um launajafnrétti kvenna og karla, og fyrir nokkrum dögum klauf ég þá nefnd, uppgefinn á biðinni þar, og gaf út nál. um afgreiðslu þess máls, frv., sem hér hefur legið fyrir þinginu einnig frá því snemma hausts 1960 og hefur fengið að hvíla í hv. heilbr.-og félmn Nd. Þar voru stuðningsmenn áhugamannanna miklu úr Ed. og áttu kost á því að afgreiða þar frv. um fullkomið launajafnrétti kvenna og karla, og áhugi þeirra var þessi. Þar fékk það mál að liggja allan þingtímann, og ekki hafa þeir í hv. meiri hl. þeirrar n. komið því enn þá í verk að segja þingheimi álit sitt á því, hvort þeir vilji fylgja því frv. eða ekki. Það bíður líklega fram á síðasta dag þingsins. En e.t.v. hefur þetta, að út var gefið nál. í Nd. um launajafnrétti kvenna og karla, orðið til þess, að áhugamennirnir í Ed. brugðu blundi og tóku málið til umræðu í n., þegar rétt var komið að þinglokum.

Það gerðist í gær eða í fyrradag, að útbýtt var hér á borð þingmanna nál. frá heilbr.- og félmn. Ed., þar sem meiri hl. hennar — en sú nefnd hafði klofnað — tjáði sig hafa áhuga á því, að frv. til laga um launajöfnuð kvenna og karla yrði samþykkt. Þetta nál. er ósköp stutt og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur rætt frv., en varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að það verði samþ. óbreytt, en minni hl., Karl Kristjánsson, er andvígur frv. í þeirri mynd, sem það er, og vill gera á því breytingar. Einn nm., Alfreð Gíslason læknir, var fjarverandi, er málið var afgreitt frá nefndinni.

Alþingi, 23. marz 1961.

Friðjón Skarphéðinsson, form.

Auður Auðuns, frsm.

Kjartan J. Jóhannsson, fundaskr.“

Það er sem sé 23. marz 1961, sem áhugamennirnir í Ed. komu því í verk að skila frá sér þessu nál. upp á 4 línur. Til þess þurfti fjóra mánuði. Og málið, sem þeir hafa þennan áhuga á að koma fram á seinustu starfsdögum þingsins, er ekki um launajafnrétti kvenna og karla, enda heitir það það ekki, þó að það hafi verið beitt áróðri utan þings í þá átt að telja fólki og þá einkum konum trú um, að þarna væri verið að lögfesta hugsjón þeirra um jöfn laun kvenna og karla. Hér er um það að ræða að gera 6 ára áætlun, — Rússar höfðu víst 5 ára áætlun, þegar þeir voru að koma fram sínum skipulagningarmálum, og framlengdu svo og gerðu aðra 5 ára áætlun og þar fram eftir götunum. Það getur vel verið, að í framhaldi af þessari 6 ára áætlun um réttlætismál kvenna komi svo önnur 6 ára framhaldsáætlun næst, ef ekki hefði allt verið uppfyllt, öllu komið í höfn, sem þessi 6 ára áætlun fjallar um, og kæmi mér það ekki á óvart, að svo yrði. En hér er sem sé haft á orði, að nú skuli konur fá úr hendi núv. hæstv. ríkisstj. 1/6 af réttlætinu — útvigt eftir gömlum hætti — á ári, þó ekki neitt á árinu 1961, — það verður að hafa einhvern aðdraganda, svo að þær þoli þetta, konurnar. En 1/6 af réttlætinu skulu þær fá á árinu 1962 og svo annan sjötta part 1963 og þannig fram á árið 1967, þá eiga þær að fá sjötta sjötta partinn af réttlætinu úr hendi einhverrar ríkisstjórnar, sem þá verður við völd á Íslandi. Þetta verður að ganga svona hægt og rólega fyrir sig, því að annars fer þjóðfélagið úr skorðum. Það sporðreistist allt saman, ef konur fengju réttlæti í einum skammti, þær næðu fullu launajafnrétti við karlmenn á árinu 1961, það sér hver maður og skilur, að það þolir íslenzkt þjóðfélag ekki. Það verður því í hæsta lagi að láta þær hafa 1/6 part af réttlætinu, eftir að árið 1961 er liðið og eitthvað komið fram á árið 1962. Þá er hættandi á það. Og konur eiga auðvitað að vera ákaflega þakklátar fyrir þennan ríflega skerf af réttlæti, sem þær eiga að fá frá hv. Alþingi Íslendinga, og sérstaklega ættu náttúrlega konurnar á Alþingi, þessar tvær, sem hér eru, að tjá þakklætið fyrir hönd sinna kynsystra, og þær eru byrjaðar að gera það. Ég sá aðra þeirra og heyrði gera það í hv. Ed. í dag. Hún var frsm. fyrir þessu frv. og mælti fyrir samþykki þess af miklum þakklætishug. Þetta var alveg stórkostlegt, að kvenfólkið skyldi eiga að fá 1/6 part af réttlæti á árinu 1962.

Eru það þá allar konur á Íslandi, sem eiga að fá útvigtina sína, sjötta part af réttlæti 1962? Onei, nei, nei. Nei, það væri of mikið, það væri allt of mikið. Það eru nokkrar konur á Íslandi, sem eru búnar að fá þennan skammt af réttlæti og það fullkomnu réttlæti í launamálum, og þar á meðal eru þær konur, sem hér eiga sæti á þingi, eru báðar lögfræðingar, þær hafa fengið sinn fulla skammt, og maður hefði þess vegna búizt við því, að þær styddu að því, að kynsystur þeirra fengju það líka. Nei, þar þarf að fara ósköp varlega að. En nú er það svo, að það mundi öllum þykja hjákátlegt, ef það væri ætlazt til þess á Íslandi, að kona, sem er lögfræðingur, ynni eftir öðrum og lægri skala en lögfræðingarnir stéttarbræður þeirra, karlmennirnir í lögfræðingastétt. Það þætti hjákátlegt og það væri álitið ranglæti. Mér er nær að halda, að þessar ágætu konur, sem nú eru orðnar lögfræðingar á Íslandi, hefðu ekki talið það góða latínu, ef það hefði á þeim tíma, þegar þær voru að öðlast þessi réttindi, komið fram frv. til l. á Alþingi um það, að það yrði að fara ósköp varlega að því, að kvenlögfræðingar fengju að vinna eftir sama lögfræðingaskala og karlmennirnir, því að annars færi þjóðfélagið upp á rönd, það sporðreistist. Það yrði að gera þetta ósköp varlega á 6–7 ára tímabili, og þá fyrst væri það gert í því formi og með þeirri varúð, að þjóðfélagið færi ekki úr skorðum. En þetta var víst gert í einu skrefi.

Það eru fleiri konur, sem hafa fengið fullkomið launajafnrétti við karlmenn á Íslandi. Það eru t.d. þær konur, sem gegna kennarastörfum. Allar kennslukonur hafa sömu laun og stéttarbræður þeirra, karlmennirnir í kennarastétt, og þykir nú orðið öllum sjálfsagður hlutur. Og það var ekki gert í neinum sjöttupörtum, í neinum sjöttungaskömmtum að ákveða kennslukonum í landinu launajafnrétti á við karla, enda voru engar konur á þingi þá til þess að mæla fyrir þeirra sjöttupartaskömmtun í launajafnrétti, eins og nú geta verið hér til forsvars fyrir sínar kynsystur um að láta þær aðrar fá það í sjöttupörtum.

Fleiri stéttir hafa öðlazt launajafnrétti án tillits til kynja, og svo er komið nú, að allar konur, sem eru í þjónustu ríkisins, eiga að hafa sömu laun og karlar. Það eru lög fyrir því. Það var ákveðið með einni löggjöf, sem ákvað, að þetta skyldi gerast frá og með gildistöku laganna, að allt launamisrétti kvenna, sem væru í þjónustu ríkisins, skyldi hverfa. Menn voru ekki búnir að finna upp aðferðina við að innleiða réttlætið í sjöttu pörtum þá. Hæstv. núv. fjmrh. skýrði frá því í hv. Ed. í dag, að hann hefði verið starfsmaður þáv. ríkisstj. við það að semja frumvarpið um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. En síðan, þegar hann var búinn að vinna að því og þeir höfðu athugað þetta í stjórnarráðinu, bæði í dómsmrn. og í fjmrn. af þáv. fjmrh., Eysteini Jónssyni, þá fannst þeim vera framkvæmanlegt að gera þetta bara í einu lagi, að ákveða, að allar konur í þjónustu íslenzka ríkisins skyldu fá sömu laun og karlmenn, án þess að það væri gert í sjöttu pörtum. Og hæstv. núv. fjmrh. hafði talið þetta fært og lagt þetta til, þegar hann var vinnumaður ríkisstj. við að semja frv. Og það var eins með báða hina ágætu ráðh., þáv. hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktsson, og þáv. hæstv. fjmrh., Eystein Jónsson, að þeir töldu báðir fært að innleiða launajafnrétti kvenna og karla í þjónustu ríkisins á einu og sama ári, á því sama ári sem lögin tóku gildi, á þeim sama degi sem lögin tóku gildi, en ekki á sex árum, smátt og smátt. En nú eru þeir sjálfsagt orðnir sannfærðir um það, að þetta hafi verið allt of stórt skref, sumir af þessum herrum, og þetta verði að gerast með miklu meiri varúð, nú megi konur ekki fá fullkomið launajafnrétti, að svo miklu leyti sem það sé ekki komið í gildi enn, nema á 6–7 árum, eftir árið 1961 í sjöttu pörtum fram á árið 1967. Varfærni þessara manna hefur aukizt sýnilega með aldrinum, og má vera, að það sé þá eitthvað á kostnað réttlætistilfinningarinnar, — hlýtur að vera það. En það var þó svona, hæstv. fjmrh. þáv., Eysteinn Jónsson, lét sig hafa það að bera fram frv. fyrir hönd þeirrar ríkisstj. og fékk það samþykkt, svo að þeim áfanga í launajafnaðarmálum kvenna varð framgengt með lagasetningu án þess að viðhafa þá sjöttungareglu, sem nú er upp fundin.

Hins vegar verður að játa það, að þrátt fyrir skýlaus ákvæði laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefur íhaldssemi ríkisvaldsins dugað til þess, að launajafnrétti kvenna í opinberri þjónustu hefur ekki náð fram að ganga á viðhlítandi hátt fram til dagsins í dag. Þar hefur verið til þess að sniðganga lögin og gera þau að engu í flestum tilfellum notuð uppbygging launalaganna um skiptingu fólks í launaflokka og hinar óskráðu reglur ráðuneyta um að færa fólk á milli launaflokka notaðar til þess að láta kvenfólkið sitja eftir í lægstu launaflokkunum, en ýta karlmönnunum í flestöll hæst launuð embætti ríkisins, og þar sitja konurnar þrátt fyrir lagastafinn um, að þær eigi að hafa sömu laun og karlar í þjónustu ríkisins. Þær eru í 12., 13., 14., 15. og 16. launaflokki, — ég man ekki, hvort þeir eru svo margir, en það er sem sé í lægstu launaflokkunum, sem þær eru í hundraðatali, en aðeins 4 eða 5 konur í efstu launaflokkum hjá ríkinu. (GíslJ: Hafði Eysteinn þetta í pokahorninu?) Hvað segir nú hv. áhugamaður í launajafnaðarmálum, 1. þm. Vestf.? (GíslJ: Hafði Eysteinn þetta í pokahorninu, þegar hann samdi frv.?) Ja, ætli það hafi ekki verið vinnumaður hans, núv. hæstv. fjmrh., sem samdi svikamylluna? Hann var að státa af því í dag, að hann hafi samið þetta, þennan grip, þennan jafnréttisgrip. Ætli það hafi ekki verið hann, sem hafi haft undirhyggju til þess að hafa þarna gat á pokanum? Það verður að ætla það. Það verður einmitt að ætla það. Og ekki vil ég alveg sverja fyrir það, að svo kunni að vera. En svo mikið er víst, þetta er staðreynd, að launajafnrétti kvenna, þrátt fyrir lagastafinn í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, er meira bókstafur en raunveruleiki vegna þess, hvernig farið er í kringum þessi réttindi kvenfólksins með tilfærslunni milli launaflokka. Það er því alveg áreiðanlegt, að lagafrv., sem ætti að tryggja launajafnrétti kvenna, það, þarf að vera samið á þann veg, að þar séu engin göt, sem íhaldssamt ríkisvald geti smogið í gegnum, til þess að viðhalda ranglæti launamisréttisins, eins og gert hefur verið fram til þessa þrátt fyrir lög.

En þetta frv., sem hér er til umr., er eins og stórriðið net. Þar er sýnilega beinlínis ætlazt til þess, að það nái til sem allra fæstra kvenna. Og alveg hárrétt er það, sem hér var sagt áðan, að það verður ekki annað séð en þetta frv. sé fram borið á þeim tíma, þegar sjáanlegt var, að verkalýðssamtökin voru að hefja stórsókn í launajafnréttismálum kvenna, og því borið fram til þess að minnka slagkraft þeirrar sóknar, koma í veg fyrir, að hún heppnist, hægja þar ferðina, útiloka eiginlega alveg nokkra sókn á árinu 1961. Það skal ákveðið með lögum: Þetta skal nú byrja að þokast í áttina eftir árið 1961, þegar stórsókn verkalýðsfélaganna er sennilega liðin hjá í launamálum, þá má byrja og þá skuluð þið fá 1/6, það er alveg mátulegt. Þetta eru upphafsorð þessa frv.: „Á árunum 1962–1967 skulu laun kvenna hækka til jafns við laun karla“ — á þessu tímabili. Það er alveg ótvírætt 1962–67. En orðalagið: „skulu hækka til jafns við laun karla“, hvað þýðir það? Það er ekki alveg fortakslaust. Þar er hægt að misskilja. Eiga kannske laun kvenna á þessum árum bara að hækka um sama hundraðshluta og kaup karla? Væri ekki hægt að segja, að það væri, að kvennakaupið hefði hækkað til jafns við laun karla, hækkað eins mikið? Jú, það væri kannske hægt að teygja það þannig, að það ætti að hækka í krónutölu eins mikið og laun karla. Ekki er það skýrt. En svona lög þurfa sannarlega að vera skýr, ef þau eiga ekki að verða höfð að engu. En hitt er skýrt og skiljanlegt hverjum manni, upphafsorð frv., að launajafnréttið á ekki að komast á fyrr en á árinu 1967.

Svo að maður haldi sér áfram við 1. gr. frv., upphafsgr. frv., — og það er venja einmitt í frv., að 1. gr. gefi meginramma efnisins í heild, sem í frv. felst, — þá er framhaldið ekki betra. Þessi launahækkun, sem fram á að fara á árunum 1962–67, skal vera „til jafns við laun karla fyrir sömu störf í eftirfarandi starfsgreinum“. Það á ekki að lenda til allra kvenna. Það á að vera til kvenna í nokkrum starfsgreinum. Og nú mundu menn sjálfsagt búast við, að nú kæmi löng upptalning á öllum mögulegum stéttum, sem konur starfa í, og þær ættu allar að fá launahækkanir samkv. þessari 1. gr. frv. Nei, það er engin löng upptalning þarna. Þess var ekki þörf. Það er eiginlega samkv. þrennum stéttarfélagasamningum, sem kaup á að hækka samkv. 1. gr. þessa jafnréttisfrv., þrennum tegundum samninga. Það er samkv. samningunum, sem almennu verkakvennafélögin hafa, samkv. samningunum, sem Iðja, félag verksmiðjufólks, hefur, og samkv. Verzlunarmannafélagssamningunum. En allt annað kvenfólk, sem vinnur eftir öðrum samningum en samningum almennra verkakvennafélaga, Iðju og Verzlunarmannafélagsins, skal ekkert launajafnrétti fá í sjöttu pörtum, ekkert fá á þessu tímabili samkv. lögunum. Svona er þetta takmarkað. Fyrir þetta var hv. þm., konan í Ed., að þakka í dag og var afskaplega hreykin fyrir hönd sinna kynsystra yfir því, að þessi áfangi skyldi nú nást fyrir nokkrar af kynsystrum hennar. Sjálf hefur hún launajafnrétti á við karlmenn. Sú afstaða konu minnir mig á söguna heimsfrægu um móður Sankti-Péturs. Hún var komin í himnaríki, hafði komizt þangað. Og svo átti hún að vera í valdaaðstöðu þarna á himnum við það að lóðsa aðrar konur þangað. En hún stóð víst þannig í þeirri stöðu, að hún torveldaði þeim heldur leiðina þangað upp og kom í veg fyrir, að þær kæmu, og hratt þeim niður aftur. Hún kærði sig ekkert um, að þær yrðu allt of margar þar í himnaríki. Þær skyldu ekki allar fá hennar aðstöðu. Nei, nei, þær gátu beðið, hinar. Ég veit ekki, hvort hún ætlaði þeim að komast upp í himnaríki í sex áföngum, en það má vera, að það hafi verið hennar hugsunarháttur, að það færi ekki vel þarna í himnaríki, raskaðist þar jafnvægið, ef þær kæmust í einum spretti upp í himnaríki eins og móðir Sankti-Péturs. Og henni tókst að hrinda þeim mörgum niður, halda þeim frá himnaríkinu. Og hér er sannarlega verið að halda ýmsum konum frá himnaríki launajafnréttisins. Það vantar ekki. Og það eru konur með í leiknum.

Ég held, að hann mætti verða smár, áfanginn, sem verkakvennafélögin ná í launajafnréttisbaráttu sinni á árinu 1961 og á næstu árum, fram til ársins 1967, ef þeir áfangar ættu ekki að vera búnir að skila launajafnrétti í höfn fyrr en þetta frv. ætlast til, og það ætlast nú eingöngu til þess, eins og ég hef greint frá, að því er snertir konur, sem vinna samkvæmt þrennum tegundum samninga stéttarfélaganna. Hinar eiga allar að vera utan þeirra miklu réttinda, sem þetta frv. veitir.

Það var gerð hver tilraunin á fætur annarri í dag í hv. Ed. til þess að fá þetta frv. lagað. En þeim tilraunum var öllum hrundið. Það var borin fram till. af einum þm. Framsfl. um það, að í staðinn fyrir, að launajafnréttið samkvæmt 1. gr. skuli komast á á árunum 1962–67, skyldi launajafnrétti ganga í gildi 1. júlí 1961, á miðju næsta sumri. Nú skyldi maður halda, að áhugamennirnir fyrir launajafnrétti kvenna hefðu orðið glaðir. Þeir voru búnir að fá framsóknarmann, fulltrúa fyrir Framsfl. í Ed., til þess að standa að till. um launajafnrétti kvenna og karla, fortakslaust, ekki bara samkvæmt þessum þrennum samningum, sem 1. gr. fjallar um, allra kvenna í landinu. Ég heyrði, að í hliðarherbergi var verið að gamna sér við þennan þm. um það, hvort hann vildi ekki vera með sérstaka till. um það, að kaupakonur fengju launajafnrétti frá 1. júlí 1961, — kaupakonur í sveitum. Hann sagði auðvitað, hv. þm., að þær væru innifaldar í þessari till. sinni, þær ættu að fá launajafnrétti eins og allar konur frá 1. júlí 1961. Það kom í ljós við atkvgr., að þm. Alþb. greiddu þessari till. hv. þm. Karls Kristjánssonar atkv. Ef hv. þm. Alþfl. hefðu bætzt við og konan fyrir hönd kynsystra sinna, þá hefði verið þarna orðinn sterkur meiri hl í Ed. fyrir því að koma launajafnréttismáli kvenna fram á miðju sumri þessa árs. Þetta var gullið tækifæri fyrir áhugamenn í þessu máli, — og sjálfsagt hafa þeir notað sér þennan möguleika? Onei, þeir gerðu það ekki, ekki einu sinni konan, létu tækifærið fram hjá sér fara núna. Þetta má ekki gerast í einu, og það má ekki ná til allra kvenna. Þjóðfélagið þolir það ekki, það fer alveg upp á rönd við svo stórkostlega byltingu. Þetta verður að gerast smátt og smátt. Það er hámarkið, að sjötti parturinn af réttlætinu verði að lögum á Íslandi á næstu sex árum, á ári hverju í næstu sex ár. Og blessaðir verið þið, ekkert má breytast í þessa átt á árinu 1961, ekki neitt.

Hlýtur það nú ekki að hvarfla að einhverjum um þennan hóp áhugamanna, sem flytja frv. um launajöfnuð kvenna og karla, hv. þm. Jón Þorsteinsson, hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson, hv. þm., fyrrv. ráðh., Friðjón Skarphéðinsson, að það sé nú eitthvað skrýtið við áhugann þeirra fyrir réttlætinu og réttlætistilfinningu þeirra, að þeir, sem ætluðu að þoka þessum málum svona langt áleiðis og hafa sjálfsagt í haust, þegar þeir voru að semja frv., ekki talið neinar vonir standa til þess, að hægt væri að komast lengra með þetta góða mál, og þess vegna haft það í svona hófsamlegu formi, að þegar þeir svo, góðu heilli, verða þess varir, sjá það svart á hvítu, að málið á fylgi mikils meiri hl, þd., ef það verði tekið dýpra í árinni, ef menn vilja unna konum launajafnréttis á miðju árinu 1961, að þeir skuli þá ekki grípa þetta tækifæri, áhugamennirnir, rjúka upp í ræðustólinn og lýsa því yfir, báðir Þorsteinssynirnir t.d. og Friðjón Skarphéðinsson þá á eftir þeim: Þetta er meira en við gátum búizt við, við mælum með þessari till.? — Onei, þeir ruku ekkert upp í ræðustólinn til að mæla með till. Ég held, að konan hafi verið send upp í ræðustólinn næst til þess að mæla gegn till., — konan, sem hefur launajafnrétti á við karlmenn í sinni stétt.

Þeir áttu fleiri góðra kosta völ, áhugamennirnir fyrir launajafnrétti kvenna í hv. Ed. Alþingis í dag. Þar voru bornar fram brtt. við allar gr. frv. á þann hátt, sem nú skal greina.

Þar var lagt til, að 1. gr. frv., sem er um þessa takmörkuðu áætlun, 6 ára áætlun um launajafnrétti, skyldi hljóða svona: „Við öll störf, embætti og sýslanir hjá íslenzka ríkinu, sveitarfélögum og einkafyrirtækjum skulu konum greidd sömu laun og körlum.“ Var þetta ekki góð till. fyrir áhugamenn í launajafnrétti? Nei, alveg óhafandi, ekki lítandi við henni, hvorki af áhugamönnum Alþfl. né oddvita kvenþjóðarinnar í hv. Ed. Þar vantaði enga hönd á loft úr þingliði hæstv. ríkisstj. til þess að fella þessa till. Var þar sama, hvort um var að ræða karla eða konur. Þar skarst enginn úr leik, ekki einn einasti, ekki ein einasta.

Þá gafst þeim líka, hv. áhugamönnum launajafnréttis kvenna, kostur á að setja undir leka löggjafarinnar um launajafnrétti kvenna í opinberri þjónustu með því að samþ. brtt. á þessa leið: „Við færslu milli launaflokka skulu sömu reglur gilda fyrir konur sem karla.“ Ef þessi till. hefði verið samþ., hefði ekki verið hægt lengur með neinu móti að sniðganga réttindi kvenna í launamálum samkvæmt lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, því að það er í þessu, sem konurnar eru brögðum beittar og sviknar, það er samkvæmt reglunum um færslu milli launaflokka. En ef það hefði verið lögfest á Alþingi, að um færslu milli launaflokka giltu sömu reglur fyrir konur sem karla, þá hefði ekki verið hægt lengur að ganga fram hjá því og konur hefðu orðið að njóta launajafnréttis í framkvæmd hjá ríkinu, eins og lögin ætluðust til auðvitað upphaflega, en eru þó það götótt, að ríkisvaldið hefur talið sér fært að sniðganga þetta fram til þessa.

Þá var einnig borin fram till. um það í hv. Ed. í dag, að verzlunarfólkið, fólk við skrifstofustörf og afgreiðslustörf í verzlunum, skyldi fá fullkomið launajafnrétti. Og það hefði mátt ætla, að sú till. fyndi náð fyrir augum hv. áhugamanna, því að í 1. gr. átti einmitt fólk, sem ynni samkvæmt samningum verzlunar- og skrifstofufólks, að fá launajafnrétti, vel að merkja samkvæmt sex ára áætluninni. En brtt., sem þarna var flutt, átti auðvitað við hitt, að allt verzlunar- og skrifstofufólk fengi launajafnrétti nú við gildistöku laganna, ekki í sjöttu pörtum, því að till. var svo hljóðandi: „Skrifstofustörf öll og afgreiðslustörf í verzlunum skulu greidd sama kaupi, hvort sem unnin eru af körlum eða konum.“ Ég hygg, að ef þessi brtt. hefði verið samþ., þá hefði ekki verið auðveldur leikur að viðhalda því eindæma ranglæti, sem framið er á konum í verzlunarstétt, því að þar er launamisréttið, launaranglætið svívirðilegast, sem þekkist í þjóðfélaginu. Þar er þó um störf að ræða, sem ætla mætti að konur gætu unnið þjóðfélagi sínu alveg eins mikið gagn í og karlmenn í sömu störfum, í skrifstofustörfum og afgreiðslustörfum í verzlunum. Þetta er því fáránlegra, launamisréttið hjá kvenþjóðinni í verzlunarstétt, þegar þess er gætt, að konur njóta sérfræðimenntunar í verzlunarstörfum í Verzlunarskóla Íslands og Samvinnuskólanum, ljúka þar sömu prófum og skólabræður þeirra, piltarnir. Mér vitanlega standa þær sig ekki lakar við námið, hvorki það bóklega né það verklega. Það kemur meira að segja oft fyrir, að stúlkur eru þar dúxar, stúlkurnar eru með hæstu prófin, eins og raunar er reynsla okkar gamalla skólamanna í flestum skólum, að þær eru sízt eftirbátar piltanna við námið oft og tíðum, líklega í fleiri tilfellum skara þær fram úr. En þegar þær koma út úr þessum skóla, sérfræðingaskóla verzlunarstéttarinnar, og hafa sitt skírteini í lagi eins og pilturinn og fá starf í verzlun eða á skrifstofu, ganga þær undir launasamning Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, og þá skyldi maður ætla, að þessir útskrifuðu sérfræðingar hefðu sama kaup án tillits til kynja. En það er ekki, það er ekki því miður. Stúlkan er þar venjulega sett á lægri laun en starfsmaður verzlunarinnar, sem aldrei hefur í Verzlunarskóla Íslands komið. Hann er settur á karlmannskaup, hún á kvenmannskaup, og kvenmannskaup sérfræðingsins úr Verzlunarskóla Íslands er skv. venjum lægra en jafnvel kaup ófaglærðs karlmanns. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta er rétt. Lífið mælir á móti þessum, sem er að grípa hér fram í og er að spila sig sem þm., en er ekki. Það þýðir ekkert fyrir neinn, hvorki utan þings né innan, að ljúga gegn reynslunni, sem við höfum í þessum málum. Þeir skipta tugum, kannske skipta þeir hundruðum, ófaglærðir verzlunarmenn hér í Reykjavík, sem hafa hærra kaup en útskrifaðar stúlkur úr Verzlunarskóla Íslands.

Ranglætið, sem konum í verzlunarstétt er sýnt, er smánarblettur á þjóðfélaginu, og væri meir en tími til kominn, að hann væri þurrkaður út í einu vetfangi, ekki í sjöttu pörtum, þó að flokkur hins vinnandi fólks, Alþfl., telji það nú við hæfi að afmá þetta að einum sjötta hluta að árinu 1961 liðnu og ekkert fyrr.

Þá var einnig fyrir hv. Ed. brtt., sem snerti launakjör þess fólks, sem Alþfl. var stofnaður til að berjast fyrir, fólksins, sem vinnur í þjónustu atvinnúlífsins, verkakvennanna, sem vinna í fiskiðnaðinum, vinna í verksmiðjum og taka almennan þátt í framleiðslustörfum þjóðarinnar. Og þá skyldi maður nú ætla, að flm. frv., Alþýðuflokksmennirnir Jón Þorsteinsson, Eggert G. Þorsteinsson og Friðjón Skarphéðinsson, hefðu fundið, að nú væri komið að hjartanu, þessa till. gætu þeir þó ekki drepið sóma síns vegna, þessari till. yrðu þeir þó að bjarga. En till. var á þá leið, að öll störf í hraðfrystihúsum, verksmiðjum og við iðju og iðnað skyldu enn fremur greidd sama kaupi, hvort sem þau væru unnin af konum eða körlum, og til þess að tryggja enn betur, að réttur þessa fólks yrði ekki borinn fyrir borð, þegar lögin væru komin til skjalanna, skyldu öll sérákvæði í samningum stéttarfélaga um lægri kaupgjaldsákvæði kvenna falla úr gildi við gildistöku laganna. Ef þessi brtt. hefði verið samþ., þá hefðu sem sé öll samningsákvæði í samningum Iðju, — og þar er kvennakaupið lágt, um það verður ekki deilt, — öll samningsákvæði í verkakvennafélögunum, öllum verkakvennafélögum landsins, fallið burt og um allt þetta kvenfólk gilda þau kaupgjaldsákvæði, sem í samningunum standa nú um kaup karla. Þetta hefði orðið við samþykkt þessarar till. Og var hún þá ekki samþykkt? Var ekki hægt að fá áhugaliðið í d. til þess að fallast á þessa till.? Það hefði ekki þurft einu sinni alla Alþfl.-mennina og ekki heldur konuna í d. í viðbót við Alþfl., en það hefði orðið sterkur meiri hl., ef þetta lið hefði fylgzt að, þó að allir aðrir þm. Sjálfstfl. hefðu fengið að vera „stikkfrí“ við að þjóna réttlætinu í þetta eina skipti. Þeir hefðu getað fengið það. Það var hægt að samþykkja þetta, ef Alþfl. og konan stóðu með því, eða Alþfl. án konunnar meira að segja, svo að allur Sjálfstfl. hefði getað verið hreinn af þessum óskunda að innleiða launajafnrétti við öll störf í hraðfrystihúsum og verksmiðjum við iðju og iðnað. Nei, það hvarflaði hvorki að konunni né neinum Alþfl.-manni í hv. d. að vera með þessu. Þetta var alveg ótækt, það var ekki hægt að samþykkja.

Allar till. Alþb. í Ed. fóru í eina og sömu gröfina. Þær voru að vísu að sjálfsögðu komnar það sjálfkrafa, þegar ekki fékkst breyt. á 1. gr. í frv. um launajöfnuð kvenna og karla, því að þegar þingheimur hafði ákveðið að hafa hana óbreytta, þá var ekki hægt samræmis vegna að skeyta svona till. um launajafnrétti frá gildistöku laganna aftan við hana. En ekki er hv. þm Ed. til neins að bera það fyrir sig, því að þeir áttu þess sannarlega kost að breyta 1. gr. frv. og þar með þeim öllum, gerbreyta frv. í réttlætisátt. Það sýndi sig, að björtustu vonir þeirra, sem sjálfsagt hafa verið við það miðaðar að koma frv. sínu um launajöfnuð kvenna og karla fram, — þeir sáu það, að björtustu vonir þeirra gátu rætzt og miklu meira, þeir áttu þess kost, því var haldið fast að þeim af þm. tveggja flokka, beggja stjórnarandstöðuflokkanna, að stíga sporið heilt, vera ekki að parta réttlætið niður í sex hluta, þiggja það að fylgja í einu eða öðru formi till. um fullkomið launajafnrétti, annaðhvort strax frá gildistökudegi laganna ellegar þá 1. júlí 1961. Engar fortölur dugðu. Það voru haldnar ágætar ræður í hv. Ed. í dag til að sýna fram á, að ef menn á annað borð viðurkenndu, að launajafnrétti ætti að ríkja milli kvenna og karla, þá væri auðvitað hjákátlegt að ganga ekki inn á það strax, heldur fara að parta réttlætið niður í sjöttu hluta, — það væri hjákátlegt, ef menn væru komnir á þá skoðun, að launajafnrétti kvenna og karla ætti rétt á sér, þá ættu menn að samþykkja það. En það hristu Sjálfstfl. og Alþfl. ásamt konunni alveg af sér. (Forseti: Ég vil biðja hv. ræðumann um að kenna þm. við kjördæmi þeirra og ávarpa þá ekki á annan hátt, eins og þingsköp mæla fyrir um.) Já, en ég get það ekki, þegar ég nefni hóp manna, heila flokka, þá get ég ekki kennt þá alla við — (Forseti: Þm. hefur brotið þetta með einstaklinga hvað eftir annað.) Þegar ég nefni einstaka þm., a.m.k. hér í d., þar sem ég hef skrá yfir þá, þá skal ég reyna að gera það, en ég er ekki viss um, að ég muni alltaf, í hvaða röð þeir eru í kjördæmi, ef þeir eiga sæti í hv. Ed., en til þeirra hef ég nú vitnað í þessari ræðu minni, af því að þeir hafa mjög komið við sögu þessa máls í dag, þessa frv.

Það var gerð enn ein tilraun í hv. Ed. í dag til þess að fá breyt. á frv. í lagfæringarátt, þegar allar þær till., sem ég nú hef nefnt, höfðu farið í eina gröf. Það var till. um það, að nú skyldi löggjafinn viðurkenna, að kaup kvenna yrði 90% af kaupi karla, eins og verkakvennafélögin hafa farið fram á sem lágmarkskröfu, og síðan skyldi það, sem þá væri eftir, nærri 10%, jafnast á sex árum, komið til móts við þessa sjöttu parta skiptingu réttlætisins. En þetta fann ekki heldur náð fyrir augum hv. þm. Þessi till. var felld eins og hinar. Launajafnrétti skyldi vera í áföngum, sjöttu pörtum. Ef átti að byrja á því, að kaup kvenna væri lögfest 90% af kaupi karla, var það óaðgengilegt fyrir áhugamennina.

Ber nú allt þetta, sem nú hefur verið sagt frá afgreiðslu hv. Ed. á þessu frv., ekki vott um linan áhuga? Ég verð að segja það, að mér finnst þetta allt saman bera vott um heldur linan áhuga í því að koma launajafnrétti kvenna í höfn, að spyrnast eins og þrá sauðkind á móti öllum till., sem bornar voru fram til endurbóta á frv., og hafa samtök um þetta. (Grípið fram í.) Ég var ekki einn í ríkisstj. Ætli skýringin sé ekki, að Alþfl. var í þeirri ríkisstj.? Ætli hún sé ekki sú? Ætli það sé ekki tilfellið? Væri það óhugsanlegt, ef maður lítur yfir sögu flokksins t.d. í launamálum nú seinustu tvö árin? (Sjútvmrh.: Vill þm. halda því fram?) Vill hæstv. ráðh, halda því fram, að hann hafi haft áhuga á því að koma launajafnréttinu á í einum áfanga? (Sjútvmrh.: Vissulega.) Vissulega. Og impraði ekki á því við sína meðráðh. á nokkurn hátt. (Sjútvmrh.: Ég var ekki ráðh. í þeirri stjórn.) Nei, og þó, hann var það um tíma, hann var um tíma í stjórninni, sat þar sem ráðh. og kom ekki fram með það. Ég skal rækilega koma að þessu máli síðar, en ég er nú að rekja fyrst og fremst efni þessa frv. og meðferðina á því í dag. Það má vel vera, að hv. alþm. í stjórnarliðinu, hv. sjálfstæðismenn og hv. Alþfl.-menn, langi til að koma þeim stimpli á mig, að ég hafi verið dragbíturinn í þessum málum alla tíð og að það sé ekki komið fram vegna áhugaleysis míns á málinu. (Sjútvmrh.: Ekki að ástæðulausu.) Já, það er einmitt það, mér datt í hug, að þeir menn, sem hafa alltaf stimpazt á móti þessu máli og hafa orðið berir að því að fjandskapast við það á þessum degi, að þeir vildu koma því á mig einmitt, að allri ólukkunni valdi ég, ég hafi á fyrstu árunum á 52 þm. þingi og nú á 60 manna þingi ráðið því, að launajafnrétti kvenna kæmist ekki fram. Þetta væri alveg eftir málflutningi þessara manna og sannleiksást. Þetta vil ég taka sem vitnisburð um sannleiksást þeirra í fleiri málum en þessu.

Í 2. gr. þessa frv. segir, að hinn 1. jan. 1962 skuli laun kvenna í starfsgreinum samkvæmt 1. gr. þ.e.a.s. starfsgreinunum, sem þar eru taldar upp og eru ekki ýkja margar, hækka um 1/6 hluta launamismunarins og síðan árlega hinn 1. jan. ár hvert fram til ársins 1967, og hækkunin á að vera sú, sem nemur launamismuninum, eins og hann er í upphafi hvers árs, deildum með fjölda þeirra hækkana, sem eftir er að veita hverju sinni. Fullum launajafnaði skal svo náð 1. jan. 1967. Þannig á framkvæmdin að vera á því launajafnrétti, sem stefnt er að samkvæmt ákvæðum 1. gr. En það er fyllilega játað í grg. þessa frv., játað af hv. flm. þess, að frv. nær ekki til nema takmarkaðs hóps kvenna. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Frv. þetta nær til allra þeirra starfa, sem almennast er að konur vinni við hlið karla.“ Ekki til annarra. Til þeirra starfa, sem almennast er að konur vinni við hlið karla. Síðan segir: „Sjálfsagt mætti við nánari athugun tína til einhverjar fámennar starfsgreinar, sem frv. þetta tekur ekki til.“ Það er meir en auðvelt, og það yrðu ekki aðeins fámennar starfsgreinar, það yrðu margar allfjölmennar starfsgreinar, sem þar væri auðvelt að nefna. Þá segja flm.: „Kynnu menn þá að spyrja, hvort konur í þeim starfsgreinum ættu ekki einnig rétt á launajöfnuði. Vissulega ætti það svo að vera,“ segja þeir. „Vissulega ætti það svo að vera.“ en þeir játa með þessu orðalagi, að þær séu ekki teknar með í þessu frv., en það ætti að vera þannig, að launajöfnuðurinn næði til þeirra einnig. Þá segja hv. flm., með leyfi hæstv. forseta: „Þessu er þó sleppt í frv. til að gera lögin ekki of erfið í framkvæmd og flókin, enda mundi frv., ef að lögum yrði, að sjálfsögðu bæta mjög samningsaðstöðu allra kvenna, hvort sem þær vinna störf sín yfirleitt við hlið karla eða ekki, eða m.ö.o. hvort sem taxti er til fyrir hliðstæð störf karlmanna eða ekki. Lögin mundu því í reynd hafa áhrif í launajafnréttisátt fyrir allar konur, enda er það einn megintilgangur frv.“ Þarna er með skýrum orðum játað og viðurkennt, að launajafnréttisfrv., sem hér er um að ræða, nái ekki nema til takmarkaðs hóps kvenna, þeirra sem almennast sé eða algengast sé, að vinni að framleiðslustörfunum við hlið karla, en það er játað, að vissulega ætti það að ná til allra kvenna. Og skýring er gefin á því, hvers vegna það sé ekki látið ná til þeirra. Það er upp á það, að frv. verði ekki of flókið. „Þessu er þó sleppt í frv. til þess að gera lögin ekki of erfið í framkvæmd og flókin.“

Og svo er því haldið fram, að frv. þetta, ef að lögum yrði, mundi bæta mjög alla samningsaðstöðu kvenna. Er það nú rétt? Halda menn, að þetta frv., þegar það er orðið að lögum, bæti samningsaðstöðu kvenna? Við skulum líta svolítið á það.

Ég held því fram, að það sé kannske einna verst við þetta frv., ef það verður að lögum, að þá spilli það mjög fyrir samningsaðstöðu kvenna. Hvað halda menn til dæmis að Vinnuveitendasamband Íslands segi, þegar verkakonur koma og knýja á um að fá sínar launakröfur fram nú á árinu 1961, þannig að laun kvenna verði 90% af kaupi karla? Hvað halda menn þeir segi? Það er sjálfsagt. Alþingi er búið að samþykkja frv. um launajöfnuð kvenna, og við verðum að jafna launin, þannig að laun kvenna nálgist launajafnréttið. Ætli þeir segi það? Það má vera. Þá yrði flm. frv. að sinni spá. En ég er miklu hræddari um, að fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og atvinnurekendur yfirleitt, sem eru viðsemjendur verkakvennafélaganna, segi sem svo: Alþfl., flokkur verkafólksins, sem var stofnaður til þess að bæta hag þess og kjör, hefur borið fram frv. á Alþ. um launajöfnuð kvenna og mótað það alveg sjálfur. Og hann hefur fengið það gert að lögum. Og honum hefur fundizt við hæfi, að það yrði engin breyting á þessum málum á árinu 1961. Það er nú orðið lögfest, að það eigi að hreyfa þessum málum smátt og smátt á árunum 1962–67 — ekkert í ár. Blessaðar verið þið ekki að því að fara út fyrir ramma þessara laga, sem verkalýðsflokkurinn í landinu hefur fengið Alþingi til þess að fallast á. Þar er bókstaflega ekki gert ráð fyrir neinni kaupbreytingu á árinu 1961, verið þið ekki að þessu. — Væri þetta til þess að auðvelda samningsaðstöðu kvenna? Ég held, að það mundi liggja beint við, að atvinnurekendur beittu þessum rökum, og ég hef þegar orðið var við, að þeir hafa beitt þeim. Ég hef verið á viðræðufundum með atvinnurekendum nú, sem vitna til þess, að það liggi frv. fyrir Alþingi Íslendinga, þar sem gert sé einmitt ráð fyrir því, að launamismunur kvenna hverfi á árunum 1962–67, ekkert á árinu 1961, — og svo eruð þið að heimta stóra kauphækkun núna, konurnar, á árinu 1961, sem er alveg utan við ramma laganna. — Nei, það verður óspart vitnað til þess, að nú sé málið á því stigi, að löggjafinn hafi tekið þetta mál á sína arma og nú sé alveg óþarft að vera að heyja neinar vinnudeilur, hvorki við samningaborðið né með verkföllum, um laun kvennanna, þetta komi í sjöttu pörtum, eftir að árið 1961 sé liðið, á árunum 1962–67, og þið skuluð bara vera rólegar. — Þetta torveldar ekki aðeins alla samningsaðstöðu verkakvennafélaganna í landinu, það nálgast það að gera það ómögulegt, að þær geti tekið þátt með fullum krafti, nokkrum slagkrafti í þeirri launabaráttu, sem nú er hafin og stendur á árinu 1961. Og það má mikið vera, ef frv. er ekki einmitt flutt til þess, að hægt sé að segja við þessar konur: Verið þið ekki með neinar kröfur um kaupbreytingar á árinu 1961, þetta kemur eftir að það ár er liðið, smátt og smátt, þannig að þið þurfið ekki að heyja neina launabaráttu fyrir því, bara að bíða þessi 6 ár eftir 1961, og þá eruð þið búnar að ná því. — Þetta eiga þær að láta sér nægja.

Meðan litlu miðaði í réttlætisátt með laun kvenfólksins í landinu, og það hefur löngum miðað hægt, — það er bezt að játa það, — þá kom ekkert slíkt frv., engin slík áætlun um að ná launajafnrétti fram. En þegar allt í einu var vitað, að kvenfólkið væri að hefja stórsókn í sínum launamálum, þá kom þessi 6 ára áætlun fram á Alþingi. Hún ber á sér öll þau einkenni, að það sé ekki ætlunin að flýta launabaráttu kvenna, heldur seinka henni, því að það er enginn vafi á því, að verkakvennasamtökin hafa gert allt aðrar áætlanir um sína baráttu á þessu ári og þeim næstu heldur en að fá ekkert á árinu 1961 og síðan sjötta part á hverju ári næstu sex ár. Þau ætluðu sér að fá á árinu 1961 helminginn af því, sem nú skortir á, að konur hafi sömu laun og karlmenn. Kaup kvenna er núna kr. 16.14 á klst. við hin almennustu kvennastörf og kaup karlmannanna kr. 20.67 við hin algengustu verkamannastörf, og er kaup kvenfólksins þannig 78.08% af kaupi karla, þegar miðað er við hin algengustu störf hjá konum og körlum. Nú eru kröfur þeirra um það, að kaupið hækki úr 78.08% í 90% af kaupi karla. Og síðan ætluðu þær sér auðvitað að taka þau 10%, sem þá væru eftir, í öðrum áfanga og hafa þannig náð sínu takmarki. Og til þessa hafa konurnar stuðning verkalýðshreyfingarinnar í heild, því að á þetta er litið svo í verkalýðshreyfingunni, að launajafnréttismál kvenna sé ekkert sérmál þeirra, heldur sé þetta almennt mannréttindamál, sem karlmönnum sé jafnskylt að styðja og konunum sjálfum.

En yrði þetta nú ekki alveg ægileg ofurbyrði á þjóðfélagið, á atvinnulífið skulum við segja fyrst og fremst, ef konurnar fengju þessum kröfum sínum framgengt? Það vil ég athuga lítillega. Ekki væri nú gott að sliga okkar elskulega þjóðfélag, okkar ágæta þjóðfélag, þó að það væri gert fyrir konurnar.

Ég hygg, að það láti nærri, að í þjónustu framleiðsluatvinnuveganna séu konur kannske þriðji partur af því vinnuafli, sem fram er lagt í þjónustu þeirra. Ég hygg, að karlmennirnir séu þar enn þá í yfirgnæfandi meiri hluta, og hef komizt að þeirri niðurstöðu við athugun á þessu máli, að um það bil 2/3 hlutar af þeirri vinnu, sem lögð er fram í þjónustu framleiðsluatvinnuveganna, sé lögð fram af körlum. Ef þetta væri nálægt því rétta, mundi það þýða, að 15% kauphækkun til handa konum væri ekki meiri byrði á atvinnulífið en sem svaraði 5% hækkun á karlmannskaupinu. Allir mundu nú held ég fallast á það, að það ylli ekki neinni byltingu, sligaði ekki atvinnulífið, þó að karlmannskaup hækkaði t.d. um 5%. En 15% hækkun á kvennakaupinu, það er ekki að krónutölu meiri fúlga úr vasa atvinnurekenda en sem svarar eitthvað um það bil 5% af kaupi karla. Meira að segja hygg ég, að þessar tölur þurfi að lækka verulega, ef maður á að komast nálægt því rétta, því að það er þó orðið svo, að um það bil ¼ hluti af þeirri vinnu, sem konur leggja nú fram í þjónustu sjávarútvegsins og fiskiðnaðarins, er nú goldinn karlmannskaupi. Í samningum flestra verkakvennafélaga í landinu stendur, að öll vinna við fiskflökun skuli goldin karlmannskaupi, hvort sem hún er unnin af körlum eða konum. Og það er svo í mörgum frystihúsum landsins, að konur vinna að flökuninni ekki aðeins ásamt körlum, sums staðar nálega algerlega einar. Þannig er það á mörgum stöðum á landinu. Á öðrum stöðum á landinu er það þannig, að á sumrin, þegar karlmenn flykkjast á síldveiðiflotann, taka konurnar nálega að öllu leyti við flökuninni yfir sumarmánuðina. En árið um kring annast þær hana nálega eingöngu á ýmsum stöðum á landinu. Og við alla þessa vinnu hafa þær karlmannskaup. Að því er þá vinnu snertir yrði því engin breyting. Það er einnig viða ákveðið í samningum, að við alla skreiðarvinnu, alla vinnu við skreið, þvott og blóðhreinsun á fiski og upphengingu skreiðar á hjalla, og það er þó nokkuð mikil vinna, hafi konur karlmannskaup. Og við fiskþvott og vinnu við saltfisk er konum á ýmsum stöðum nú þegar goldið karlmannskaup.

Þannig virðist, að um það bil ¼ hluti — 20–25% — af vinnu kvenna í sambandi við fiskiðnaðinn er nú goldinn karlmannskaupi og þykir sjálfsagður hlutur, þegar þetta er komið í framkvæmd. Og enginn vafi er á því, að þegar sigur vinnst í þessu máli, launajafnrétti kvenna nær fram að ganga, þá líta allir á það sem sjálfsagðan hlut og eru undrandi á því, að þetta skuli ekki hafa gerzt miklu fyrr. Þannig hefur það verið með öll réttindi kvenna, sem þær hafa sótt í hendur þjóðfélagsins á undanförnum áratugum. Það var barizt á móti þessum réttarbótum eins lengi og unnt var, oft áratugum saman gegn þessu réttindaákvæðinu og svo því næsta, en þegar sigur hafði unnizt, þá töldu allir þetta sjálfsagt mál. Nú er barizt um launajafnrétti kvenna, og ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um, að það fer alveg á sömu leið, að þegar sigurinn hefur unnizt, þá munu allir vilja halda því fram, að þeir hafi barizt fyrir þessu, þeir hafi tekið þátt í því sannarlega að koma þessu á og það hafi verið alveg sjálfsagður hlutur. Það verður þá ekkert á það minnzt, hvernig menn börðust á móti því eins lengi og þeir gátu og þorðu. Og það verður heldur ekkert minnzt á það, hverjir óku sér undan því og vildu að síðustu innleiða það í sjöttu pörtum. Menn þykjast allir eftir nokkur ár hafa verið eldheitir fylgjendur þessa máls og kannske, eins og örlað hefur hér á í kvöld, helzt reynt að koma óorði á þá menn, sem endrum og eins hafa reynt að þoka þessu máli áfram, segja, að aðallega hafi öll bölvunin stafað af þeim, þeir hafi verið verstur þrándur í götu þessa máls og ættu helzt ekkert um þessi mál að tala. Það má vel vera, að þetta verði svona.

Ef kaup kvenna hækkaði á árinu 1961 þannig, að það yrði 90% af kaupi karla, þá þyrfti kaupið að hækka, miðað við núverandi karlmannskaup, á fimmtu krónu á tímann. En hver verður hækkunin á kaupi kvenna á næstu árum samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir? Jú, hv. flm. gera grein fyrir því í grg. Þeir segja þar, það er sjálfsagt alveg rétt reiknað hjá þeim, með leyfi hæstv, forseta: „Launamismunur í almennri verkamannavinnu og almennri verkakvennavinnu er nú kr. 4.53 á klst. Að óbreyttum samningum ættu laun kvenna að hækka samkv. 2. gr. þessa frv. um“ — hvað haldið þið mikið? — „76 aura á klst.“ — þ.e.a.s. ekki á árinu 1961, nei, heldur í fyrsta skipti á árinu 1962. Þetta eru þeirra eigin útreikningar á því, hvernig launabreytingin yrði samkv. svikalausri framkvæmd þessa frv. Það yrði sem sagt engin lagfæring á kaupi kvenna á árinu 1961, en 76 aurar á tímann einhvern tíma á árinu 1962 og svo áfram á næstu 6 árum fram á árið 1967.

Er þetta nú ekki í samræmi við óskir verkakvennafélaganna? Er nú ekki líklegt, að hv. Alþfl. hafi haft samráð við verkakvennafélögin, a.m.k. þau af þeim, sem eru undir stjórn Alþfl.-kvenna, og miðað grundvöll frv. við þeirra kröfur? Það var í hv. Ed. í dag lesið upp úr framlögðu launafrumvarpi verkakvennafélagsins Framsóknar í Reykjavík og skýrt frá því, hvað þær fara fram á. Þær hafa lagt fram kröfur sínar um kjarabætur fyrir nokkrum vikum, afhent þær Vinnuveitendasambandi Íslands og haft við Vinnuveitendasambandið einn eða tvo viðræðufundi um sín kjaramál. Og það, sem þær m.a. fara fram á, er það, að vikukaup þeirra verði rúmar 1100 kr. Það er gífurleg hækkun frá núverandi kjarasamningum verkakvennafélagsins Framsóknar. Það lætur nærri, að þetta þýði um það bil 50% hækkun á núgildandi kjarasamningi félagsins. Að vísu yrði svo félagið að eiga það undir sjálfu sér og samtökum kvenna, hvað yrði um áframhaldið á því að útmá launamisréttið, eftir að þessum stóra áfanga væri náð, sem það ætlar nú að berjast fyrir. En það er ekki þarna að ræða um neina aura — neina 76 aura — það er alveg greinilegt, þær hafa sett markið hærra. Það hefur sennilega ekki verið haft mikið samráð við verkakvennafélagið Framsókn um þetta launajafnréttismál verkakvennanna, þegar það var samið, því að svo mikið er ósamræmið á milli ákvæða frv. og þess, sem konurnar hafa borið fram sem sínar eigin kröfur.

Það hefur stundum verið talað um það, að baráttan hafi gengið grátlega seint í þá áttina að færa konum launajafnrétti með aðferðum verkalýðshreyfingarinnar, og það játa ég að er rétt, það hefur stundum gengið erfiðlega að þoka þeirra málum fram. Þessi mál hafa verkakvennafélögin haft með höndum, og í vaxandi mæli, eftir því sem árin liðu, hafa þær fengið stuðning verkamannafélaganna í þeirri baráttu. En samt er alveg ástæðulaust að gera lítið úr því, sem áunnizt hefur í þessum málum, frá því að verkakvennafélögin hófu sína baráttu. Verkakvennafélagið Framsókn hefur hvað eftir annað í afmælisritum sínum rifjað það upp, hver voru launakjör kvenna, þegar það félag var stofnað, en það félag var stofnað í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914. Hvað var kaup kvenna þá? Hvað var kaup kvenna þá, þegar verkakvennafélagið Framsókn var stofnað? Fyrir því hef ég hér heimildir, að á fyrstu árum aldarinnar var konum borgað, þegar þær unnu í tímavinnu, hvaða vinnu sem þær unnu, hvort sem þær unnu við almenna fiskvinnu eða uppskipunarvinnu, kola- og saltvinnu, því fengu þær eina krónu á dag, og í afmælisriti verkakvennafélagsins Framsóknar segir þá, að vinnudagurinn hafi oft verið 16 stundir, algengast 12–14 stundir, en oft verið unnið samfellt í 16 stundir, og fyrir þessa vinnu fengu þær eina krónu á dag. Þegar verkakvennafélagið Framsókn hóf svo sína baráttu og bar í fyrsta sinn fram kröfur um kaupgjaldssamninga fyrir sínar félagskonur, var kaupið hjá konunum 12 aurar á tímann. Og þá er fróðlegt að vita, hvað kaup karla var á sama tíma, og þær greina líka frá því og segja, að þá, þegar kvennakaupið var 12 aurar, þá hafi karlmannskaupið í almennri verkamannavinnu verið 25 aurar á tímann, þ.e.a.s. kaup kvenna náði þá ekki að vera 50% af kaupi karla. (Gripið fram í: 60%.) 12 aurar af 25. Er það 60% ? Nú þykir mér kaupmaður reikna skrýtilega. Nei, það voru 12 aurar á móti 25 aurum, og held ég, að sjái hver maður, þótt ekki sé verzlunarskólalærður, að það er innan við helminginn, innan við 50%. Við segjum, að það hafi gengið grátlega seint að leiðrétta þetta ranglæti. En samt er þó kaup kvennanna nú almennt 78.08% af kaupi karla og þó viss hluti, verulegur hluti af kaupi kvennanna goldinn með hærri kaupgjaldsákvæðum, um 80% og yfir 80% tveir næstu liðirnir og um fjórði partur af vinnu kvenna í þjónustu atvinnulífsins á sama kaupi og karlmenn hafa. Það má því kannske segja, að kaup kvenna nú á móts við kaup karla, ef tekið er tillit til þeirrar vinnu, sem konur vinna fyrir hærri kaupgjaldsliði og á karlmannskaupi, að það geti varla verið að meðaltali minna en líklega um 85% á móts við kaup karla. Þetta hefur þó mjakazt svona og þokazt við baráttu stéttarfélaganna, að kaupið hefur, frá því að verkakvennafélögin hófu baráttuna, breytzt úr 48 eða 49% og upp í líklega 83–85% að meðaltali móts við kaup karla. En sé miðað við dagvinnukaupið eingöngu, kvenna og karla, þá er það, eins og ég áðan sagði, 78.08%. (Gripið fram í: Það eru 30% á 57 árum.) Já, það er allt of lítið, Pétur. Það verð ég að segja. Og þess vegna er tími til þess kominn, að góðir drengir leiðrétti það misrétti, sem konurnar eiga enn þá við að búa. (Gripið fram í : Nú á að taka 22% á fimm árum.) Það er of lítið. Einmitt af því, hvað baráttan hefur gengið treglega á undanförnum áratugum, er ástæða til þess að taka nú endasprettinn og hjálpa konunum til þess að fá viðurkennt launajafnrétti, og það væri sómi Alþingis að leggja þar hönd að verki á myndarlegan hátt, þannig að launajafnréttið næðist á þessu ári.

Það eru í ritum verkakvennafélagsins Framsóknar margar átakanlegar frásagnir af því, hvernig lífskjör verkakvennanna voru á þessum árum, þegar kaupið var innan við 50% af kaupi karla og hvort tveggja kaupið svo lágt, að menn eiga nú erfitt með að trúa, 12 aurar og 25 aurar á klukkustund, og verkakonan, sem ræddi þetta mál, sagði: „Það voru áraskipti að því, eins og hvernig aflabrögðin voru, hvað sulturinn var mikill á heimilunum.“

En við þurfum ekki að leita lengra aftur í tímann en til ársins 1934, þegar verkakvennafélagið Framsókn er 20 ára, þá eru þær strax búnar að setja sér það sem takmark að ná fram launajafnrétti. Grein frú Jóhönnu Egilsdóttur í afmælisriti verkakvennafélagsins Framsóknar á 30 ára afmæli félagsins endar á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Verkakonur eiga mikið starf að þakka brautryðjendum félagsins, en beztu þakkir þeim til handa koma fram í áframhaldandi starfi á réttum félagsgrundvelli með takmarkinu: sömu laun fyrir sömu vinnu.“

Þetta er því gamalt baráttumál verkakvennafélaganna í landinu, að ná því takmarki, að konur fái greitt sama kaup og karlmenn fyrir sömu störf. Og þegar Alþfl. hafði aðstöðu til að koma fram frv. til laga um aukið launajafnrétti, þá hefði hann þurft að vera minnugur þessara kjörorða kvennanna um áratugi, að greidd yrðu sömu laun fyrir sömu störf, hvort sem þau væru unnin af konum eða körlum, og það var sízt of snemmt, þó að þessu máli yrði komið í höfn á árinu 1961. Og þess var nú kostur, það þýðir ekkert að fara undan í flæmingi með það, það hefur komið í ljós á Alþingi Íslendinga á þessum degi, að það var sterkur þingmeirihlutavilji til fyrir því að binda nú endi á launajafnréttisbaráttu kvenna með því að lögfesta sömu laun til handa konum sem körlum við sérhver störf, annaðhvort frá gildistöku þessara laga, og það hefði þá getað orðið nú eftir nokkra daga, eða þá 1, júlí í sumar, ef hitt hefði þótt of hastarlegt, ef það hefði þótt of hastarlegt að vakna upp nú eftir helgina við það, að launajafnrétti kvenna væri orðið að veruleika.

Ef Alþingi Íslendinga hefði viljað fallast á þær till., sem fram voru bornar í hv. Ed. í dag um algert launajafnrétti kynjanna, þá er það sýnt, að það var sterkur þingmeirihluti fyrir því í Ed., og það væri einnig sterkur þingmeirihluti fyrir þeim hér í hv. Nd. Þegar við lítum yfir þingstyrk Alþb., Framsóknar og Alþfl. nú á Alþingi og teljum þetta saman, þá hafa þessir 3 flokkar sterkari þingmeirihluta en núverandi stjórnarflokkar, en að meðtöldum konunum tveimur, blessuðum, þá munu þeir hafa 37 manns á þingi af 60. Ef maður gerði ráð fyrir því, að Sjálfstfl. vildi vera í samræmi við alla sína fortíð og vera á móti slíku máli, gæfi bara konurnar fríar, því að annað væri ekki sæmandi, þá gætu þeir ekki verið nema 23 í mesta lagi. (Gripið fram í: Unnu ekki þessir flokkar saman fyrir stuttu?) Það, sem skiptir máli nú, er það, hvað þið viljið gera í dag, og þar virðist viljinn vera næsta lítill til þess að gera neitt meira í þessu réttlætismáli en að standa að þessu frv., sem hér liggur fyrir og tekur lítið myndarlega á þessu máli, hvort sem litið er á það sem jafnréttismál eða almennt mannréttindamál eða réttlætismál.

Í 3. gr. þessa frv. eru ákvæði, sem mér eru í raun og veru enn þá ógeðfelldari en hin kákkenndu ákvæði 1. og 2. gr. Þar segir, að hin árlega launahækkun skuli vera ákveðin af þriggja manna nefnd, og hún á að heita launajafnaðarnefnd. Hún á að vera skipuð einum manni af félagsdómi, þ.e.a.s. félagsdómur á að skipa einn mann í n. og hann á að vera formaður hennar, annan mann í n. á Alþýðusamband Íslands að skipa, og hinn þriðji skal verða skipaður af Vinnuveitendasambandi Íslands. Alþýðusamtökin eiga þannig að eiga einn mann af þremur í þessari svokölluðu launajafnaðarnefnd. Ég sé, að Kvenréttindafélag Íslands hefur farið fram á, að það verði a.m.k. um það séð, að það yrði einn kvenmaður í þessari nefnd, en um það er nú ekkert í frv., að ein kona verði í launajafnaðarnefndinni, þar sem hún eigi að fjalla um framkvæmdina á því að þoka launamálum kvenna í jafnréttisáttina á næstu 6 árum. Þessir sömu aðilar, félagsdómur, Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, eiga síðan hver um sig að skipa hver sinn varamann. Þessi nefnd er skipuð til þriggja ára í senn. N. á að hafa allmikið vald. Ákvarðanir nefndarinnar eru fullnaðarákvarðanir, sem verða ekki bornar undir dómstóla. Þetta er því eins konar dómstóll, þriggja manna dómstóll, sem á að dæma, úrskurða óumbreytanlega um launakjör kvenna, að svo miklu leyti sem þau féllu undir þetta frv. Meiri hluti atkv. ræður úrslitum í nefndinni, og kostnaður af störfum n. greiðist úr ríkissjóði. Það verður launuð nefnd.

Ég verð að segja það, að ekki finnst mér það geðsleg tilhugsun, að launamál verkalýðsstéttarinnar, verkalýðsfélaganna, sem samkvæmt vinnulöggjöfinni eiga að heita að hafi frjálsan og ótakmarkaðan samningsrétt um launamál, skuli að vissum þætti eiga að fara í hendur þriggja manna nefndar eða dómstóls, þar sem alþýðusamtökin eigi einn mann af þremur og meiri hl. atkv. á að ráða úrslitum, dómsorði, sem verði ekki áfrýjað til neins annars dómstóls, fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands mundi verða íhaldssamur aðili í þessari nefnd, ganga eins skammt og hann frekast gæti, og ekkert veit maður um það, hver yrði afstaða þess fulltrúa, sem félagsdómur skipaði í nefndina. Það er því algerlega allt í óvissu um það, hvort þessi n. eða dómstóll yrði vinsamlegur eða óvinsamlegur aðili gagnvart launajafnréttismálum kvenna, og eiginlega minni líkur til þess, að þar yrði um vinsamlegan aðila að ræða. Ég hygg, að það fari fleiri eins og mér, að þeim þyki hart að eiga að bera launamál kvenna undir slíkan dómstól, þar sem aðeins sitji einn fulltrúi frá verkalýðshreyfingunni. Ég sé ekki heldur, að nokkur minnsta þörf hafi verið á því að búa til þessa n. Félagsdómur á að dæma um öll ágreiningsatriði viðvíkjandi kaup- og kjaramálum, úrskurða um öll ágreiningsmál milli launþegasamtakanna og vinnuveitendasamtakanna. 1. gr. þessa frv. ætti að mæla nægilega skýrt um það, að kaupgjaldið ætti að hækka á árunum 1962–67 árlega, þannig að launajafnrétti hafi náðst 1967, og skyldi ekki félagsdómur hafa verið fær um það, án þess að ný nefnd væri stofnuð, að úrskurða hið rétta um framkvæmd þess, sem felast á í 1. gr.? Ég hefði haldið það, að honum hefði verið eins vel trúandi til þess og nefnd, sem fengi þarna við hliðina á fulltrúa félagsdómsins fulltrúa frá. Vinnuveitendasambandi Íslands. Það er nú kannske aldrei of mikið af nefndunum, og það er sýnilega hér talin þörf á því að bæta einni við til þess að úrskurða endanlega um framkvæmdina í launamálum kvenna.

4. gr. frv. er um það, hvernig stéttarfélögin eigi að haga sér gagnvart þessari n. eða þessum dómstóli, og virðist það benda til þess, að engin leið eigi að vera fram hjá launajafnaðarnefndinni, því að þar er mælt svo fyrir, að þau stéttarfélög, sem semja um kaup og kjör fyrir konur í þeim starfsgreinum, sem falla undir 1. gr., þ.e.a.s. konur, sem vinna samkvæmt almennum verkakvennafélagstöxtum eða samkvæmt samningum Iðju eða samningum verzlunarfólks, skuli í nóvembermánuði á hverju ári, í fyrsta sinn árið 1961, sækja um launahækkanir til nefndarinnar, senda náðarsamlega umsókn og láta fylgja með eintök af viðkomandi kjarasamningum sínum. N. á síðan að taka ákvörðun um launahækkun í samræmi við ákvæði 1. og 2. gr. og birta taxtann, úrskurðaða taxtann. Þau félög, sem senda umsókn í nóvembermánuði, eiga að fá úrskurð frá þessum dómstóli um, hvað kaupið megi hækka. Fyrsta árið á það að hækka um 76 aura á tímann, segja flm. hérna, 76 aura á tímann, þó væntanlega í dagvinnu, og ég hefði nú viljað gera ráð fyrir, að þá ætti kaupið að hækka eitthvað meira samkvæmt hinum hærri liðum, samkvæmt hreingerningataxtanum, samkvæmt millitaxtanum um aðra erfiða eða óhreinlega vinnu, en sjálfsagt á hún ekkert að úrskurða um hækkun á þeim liðum, sem nú þegar eru goldnir karlmannskaupi. En mér dylst það ekki, að bæði verða það margir samningar, sem launajafnaðarnefndin fær til að fjalla um, og einnig þarf hún að úrskurða um fleira en lágmarkskaupið í dagvinnunni. Hún verður að úrskurða um, hvað eigi að hækka allir kaupgjaldsliðir í samningum verkakvenna, meðlimanna í Iðju og hjá því fólki, sem vinnur samkvæmt samningum verzlunar- og skrifstofufólks í Reykjavík og annars staðar á landinu. Allar aðrar stéttir mundi nefndin vafalaust láta sér óviðkomandi og ekki fella neina úrskurði um, hvað kaupið ætti þar að vera.

Í 5. gr. frv. er það tekið fram, að þessi lög skerði ekki á nokkurn hátt rétt stéttarfélaganna til að semja um kaupið. En þó eru það niðurlagsorð 4. gr., næstu greinar á undan, að samningar, sem stéttarfélögin geri, fái ekki gildi, nema launajafnaðarnefnd staðfesti þá. Samningar, sem stéttarfélögin gera, eru þá ekki gildir, þó að þeir séu búnir að fá undirskrift bæði vinnuveitenda og viðkomandi félags, nema launajafnaðarnefndin staðfesti þá. Þeim er heimilt að semja um hækkunina við vinnuveitendur, „enda staðfesti nefndin slíka samninga,“ segir í greininni. Mér finnst það hálfgert öfugmæli eftir niðurlag 4. gr., þegar svo kemur, að samningsfrelsið sé ekki á nokkurn hátt skert, þó að það sé óvefengjanleg niðurstaða 4. gr., að engir samningar, sem verkakvennafélögin geri við vinnuveitendur, hafi gildi, nema þeir hafi fengið staðfestingu launajafnaðarnefndar.

Það kalla ég skerðingu á samningsfrelsinu, það verð ég að segja.

Í umr. í hv. Ed. í dag gat frsm. nokkurra þeirra höfuðatburða, sem gerzt hefðu í baráttunni fyrir launajöfnuði kvenna á undanförnum árum, og taldi, að þar bæri nú hæst og væri nú aðalatriðið það, að á árinu 1954, hygg ég, hafi sjálfstæðismenn á Alþ. borið fram till. til þál. um að fela ríkisstj. að athuga, með hvaða hætti væri hægt að fullgilda jafnlaunasamþykktina, þ.e.a.s. alþjóðasamþykktina nr. 100. Já, það má nú segja, að þetta var stórkostlegur atburður, þegar sjálfstæðismenn, ég held 6 þm. úr þingliði Sjálfstfl., fluttu þáltill. um þetta efni, að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna yrði staðfest að því er Ísland varðar. Í þessari till. var því haldið fram, að staðfesting jafnlaunasamþykktarinnar væri mjög þýðingarmikið atriði fyrir alla framkvæmd launajafnréttismálsins. Eftir að hún hefði fengið samþykki, væri auðgert að koma launajafnréttinu á. Um það sögðu hv. flm. í grg., sem fylgdi till., m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Á grundvelli samþykktarinnar verði síðan unnið að því með góðri samvinnu verkalýðssamtaka, opinberra starfsmanna, vinnuveitendasamtakanna og ríkis og bæja að koma algeru jafnrétti karla og kvenna í launamálum í framkvæmd.“

Þegar búið væri að samþykkja jafnlaunasamþykktina, var enginn vandi annar en að láta þessa aðila, verkalýðssamtökin, opinbera starfsmenn, vinnuveitendasamtökin og ríki og bæi koma launajafnrétti karla og kvenna á. Af hverju var þessu haldið fram? Það var af því, að fyrir þessu sama þingi lá frv. til laga um sömu laun kvenna og karla. Þm. Sjálfstfl. vildu komast hjá því að greiða atkv. um þetta frv. Áhuginn var ekki meiri fyrir málinu þá í þeirra röðum, og til þess að komast hjá því, gripu þeir í þetta hálmstrá: Það er eiginlega ekki tímabært að gera neitt í þessum launajafnréttismálum kvenna, fyrr en búið er að fullgilda jafnlaunasamþykktina fyrir hönd Íslands. Þess vegna viljum við skora á ríkisstjórn Íslands að gera það. Síðan bentu þeir á, að þá ætti eftir það að vera auðgert að koma málinu í höfn. Þetta var nokkuð vel upphugsuð brella til þess að villa á sér heimildir. Með þessu móti komu hv. þm. Sjálfstfl. á þessu þingi sér hjá að taka afstöðu til lagafrv. míns um launajafnrétti. Þeir gerðu fullgildingu jafnlaunasamþykktarinnar að aðalatriði um lausn málsins, settu síðan n., er þeir höfðu fengið till. samþykkta, til þess að athuga, hvort það væru nokkrir möguleikar fyrir hendi til þess, að Ísland gæti fullgilt hana. Jú, jú, n. starfaði og komst að þeirri vísdómslegu niðurstöðu, að það væri algerlega ótímabært fyrir Ísland að fullgilda jafnlaunasamþykktina. Þar með var sem sé lokað þessari aðalleið, sem átti að greiða götu launajafnréttismálsins, — engin leið fram undan. Samþykkt eða fullgilding á jafnlaunasamþykktinni var alveg nauðsynleg sem fyrsti áfangi í málinu og n. látin komast að þeirri niðurstöðu og skila nál. til ríkisstj. um, að það væri algerlega ógerlegt af Íslands hendi að fullgilda hana. Þar var málið komið alveg í sjálfheldu.

En á árinu 1956 var þrátt fyrir þetta nál. málið tekið upp af þáverandi ríkisstj. og borin fram till. til þál. á Alþ. um það, að Alþ. skyldi staðfesta jafnlaunasamþykktina fyrir hönd Íslands. Till. var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að veita ríkisstj. heimild til þess fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, sem gerð var á 34. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 1951, eins og hún liggur fyrir á fylgiskjalinu, sem prentað er með ályktun þessari.“

Ég man það, að í umr. um þessa till, kvöddu nokkrir þm. Sjálfstfl. sér hljóðs og vitnuðu til þess, að n. hefði áður verið skipuð til þess að athuga það, hvort Ísland gæti orðið aðili að jafnlaunasamþykktinni, og nál. lægi í ráðuneytinu um það, að Ísland gæti það ekki. Svo kom auðvitað fram till. um það, að þessi þáltill. yrði send til Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands til umsagnar. Það komu umsagnir frá báðum þessum aðilum. Alþýðusambandið mælti fastlega með því, að jafnlaunasamþykktin yrði fullgilt fyrir hönd Íslands, en Vinnuveitendasamband Íslands andmælti fastlega samþykkt hennar, mælti gegn því, að Alþ. fullgilti hana, og reyndist þannig þá eins og alltaf fyrr og síðar að vera andstæðingur þess, að jöfn laun kvenna og karla næðu fram að ganga hér á landi. En þrátt fyrir andmæli Vinnuveitendasambandsins gegn fullgildingunni gerðist það, að Alþ. fór í það sinn að ráðum Alþýðusambandsins og fullgilti alþjóðasamþykktina um jöfn laun kvenna og karla fyrir Íslands hönd á árinu 1957. En samkvæmt ákvæðum í jafnlaunasamþykktinni sjálfri tók hún ekki gildi hér á landi fyrr en á árinu 1958. Þá fyrst var Ísland orðið skuldbundið samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar, þ.e.a.s. ríkisvaldið á Íslandi, „að vinna að því,“ eins og þar stendur, „að sömu laun fyrir jafnverðmæt störf taki til alls starfsfólks“. Það er því ekkert um það að villast, að með jafnlaunasamþykktinni voru stjórnarvöld á Íslandi orðin skuldbundin um það að vinna að því, að reglan um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf næði til alls starfsfólks, ekki aðeins í ríkisins þjónustu, heldur allra starfsmanna í landinu.

Í alþjóðasamþykktinni eru einnig fyrirmæli um það, hvernig eigi að koma launajafnréttinu í framkvæmd. Þar segir, að þetta megi gera með landslögum eða reglugerðum, það megi gera það með ráðstöfunum, sem komið sé á eða viðurkenndar séu með lögum til ákvörðunar á launum, og það megi í þriðja lagi gera það með heildarsamningum milli vinnuveitenda og verkamanna — eða með þessum mismunandi aðferðum sameiginlega, eins og henti bezt í hverju landi um sig. Ég minnist þess einnig, að þegar jafnlaunasamþykktin var til meðferðar hér á Alþingi, bárust fyrirspurnir um það, hvort hin Norðurlöndin væru búin að fullgilda samþykktina, og það var upplýst, að svo væri ekki. Ekkert þeirra hafði þá fullgilt jafnlaunasamþykktina. Hún var sem sé fullgilt hér á landi fyrst á Norðurlöndunum. En það stóð ekki lengi, þótt menn væru hér hikandi út af því, hvort þetta væri þá rétt braut, úr því að Norðmenn og Danir og Svíar væru ekki búnir að fullgilda hana, því að norska stórþingið fullgilti jafnlaunasamþykktina á næsta þingi sínu. Þá voru það Ísland og Noregur, sem höfðu skuldbundið ríkisstjórnir sínar til þess að stuðla að því, að reglan um jöfn laun karla og kvenna tæki til alls starfsfólks. Í ríkisþingi Dana var jafnlaunasamþykktin tekin til meðferðar árið þar á eftir og einnig fullgilt fyrir Danmerkur hönd. Það reyndist því alveg ástæðulaus beygur, sem var í þeim þingmönnum, sem töldu, að Ísland væri þarna að fara út á einhverjar villigötur. Norðurlöndin, næstu grannar okkar, Noregur og Danmörk, fullgiltu jafnlaunasamþykktina á næstu tveimur árum, fyrst Noregur, svo Danmörk. Í Finnlandi skilaði nefnd störfum nú á síðari hluta ársins 1960 og lagði til við finnska þingið, að jafnlaunasamþykktin yrði einnig fullgilt að því er snerti Finna. Ég hef ekki haft fregnir af því, hvort finnska þingið hefur gengið frá því máli á þessu þingi, en tillögur lágu fyrir því þingi nú í haust um það. Það er rétt, sem hæstv. félmrh. gat hér um áðan, að Svíar hafa farið aðra leið í þessu máli. Sænska alþýðusambandið tók upp samninga við samband sænskra vinnuveitenda, og tókst að gera rammasamning á árinu 1960 um það, að alþýðusambandið sænska og sænska vinnuveitendasambandið ynnu að því á næstu fimm árum að koma launajafnrétti kvenna, sem starfa samkv. stéttarfélagasamningum, á á næstu fimm árum. Ég hygg því, að þeir eigi að hafa lokið þessu samræmingarstarfi sínu fyrir árslok 1965. Ég hefði nú vænzt þess, úr því að þessi sænska aðferð var tekin upp hér, að þá hefðu menn verið svo stórhuga á Íslandi að skila þessu máli í höfn á árinu 1965, eins og Svíar. Nei, við skulum verða eftirbátar Svía í þessu. Það skal verða lögfest. Við skulum ekki ljúka þessu fyrr en einhvern tíma á árinu 1967.

Í Danmörku og í Noregi stendur fyrir dyrum, eins og hér á landi, endurnýjun vinnusamninga einmitt á þessu vori. Samtökin hafa nú lagt fram sínar meginkröfur, og danska verkamannasambandið hefur þegar lagt fram kröfuna um það, að launajafnrétti kvenna og karla í Danmörku skuli vera takmarkið í þessum samningum. Og Norðmennirnir stefna að því sama á þeim grundvelli að ná þessu fram með samningum milli stéttasamtakanna og vinnuveitendasamtakanna. Það er dálítið sérkennilegt, að um þetta var ekkert samráð haft milli íslenzku stéttarfélaganna og þeirra norsku og dönsku, en öll samtökin, hver í sínu landi, hafa tekið um það ákvarðanir á sínum þingum nokkurn veginn samtímis að hefja stórsókn í launajafnréttismálinu, einmitt eftir að jafnlaunasamþykktin hafði verið fullgilt í öllum þessum löndum. Og ég hefði haldið, að engin leið til þess að flýta góðum árangri af launajafnréttisbaráttunni á grundvelli samninga verkalýðsfélaga og atvinnurekenda væri til önnur en sú að löggilda algert launajafnrétti í einum áfanga. Það var leiðin, sem ein gat skilað betri árangri. En lagasetning eins og þessi, að ætla að ná því, sem þarna er óunnið, með smááföngum fram til ársins 1967, það er sannarlega leið, sem er valin til þess að tefja, en ekki að flýta fyrir framgangi málsins.

Í árslok 1958 var kaup kvenna samkvæmt stéttarfélagasamningum, sem þá voru í gildi, orðið kr. 18.62 á klst. En þegar ríkisstj. Emils Jónssonar bar fram frv. til laga um niðurfærslu verðlags og launa í ársbyrjun 1959, varð kaup kvenna fyrir barðinu á þessum lögum eins og annað kaupgjald í landinu og var þannig fært niður úr kr. 18.62 í kr. 16.14. Kaup kvenna var með þessari lagasetningu Alþfl. lækkað frá gildandi löglegum samningum, gerðum milli frjáls stéttarfélags og vinnuveitenda, um kr. 2.48 á hverri klst. Að krónutölu var lækkunin, sem lenti á kaupi verkamanna, að vísu nokkru meiri. Kaup verkamanna lækkaði með þessari löggjöf úr kr. 23.86 niður í kr. 20.67, eða um kr. 3.19 á hverja klst. En þetta er hlutfallslega sama lækkun. Konurnar urðu fyrir kauplækkun, sem var að hundraðstölu alveg jafnmikil og kaup verkamannanna. Eftir þessa lækkun var kaup kvennanna kr. 4.53 lægra á hverri klst. heldur en almennt kaup verkamanna, og hefur svo verið síðan.

Þarna var með lagasetningu verið að lækka kaupgjald hins vinnandi fólks í landinu, kaupgjald allra launastétta, enginn var undanskilinn, og þar með verið að létta kaupgjaldsbyrðar atvinnulífsins með lagaboði. Það var ekki óeðlilegt, að einhverjum dytti nú í hug: Væri ekki fullnægjandi fyrir atvinnulífið í landinu að fá þá kaupgjaldslækkun, sem þarna var fyrirhuguð, þó þannig, að ekki yrði skorið niður allra lægsta kaupið í landinu, kaup verkakvennanna? Var nú ekki hugsanlegt, að atvinnulífið risi undir því kaupgjaldi, sem þá var orðið ákveðið með lögum, þegar karlmannskaup allt var lækkað og laun allra opinberra starfsmanna hlutfallslega, a.m.k. niður að lægstu launaflokkum, en kaup kvenna væri látið standa óbreytt, engu við það bætt, en látið standa óbreytt? Þetta datt mönnum vissulega í hug, og þessi hugsun var mótuð í brtt., sem við Karl Guðjónsson alþm, fluttum við frv. Emils Jónssonar um niðurfærslu verðlags og launa. Ef þessi till. hefði verið samþ., hefði kaup kvennanna verið áframhaldandi kr. 18.62 á klst. við almenna vinnu og hlutfallslega hærra á hinum hærri kaupgjaldsliðum samkvæmt samningum félagsins. Það þýðir, að þá hefði kaup kvenna við eina handauppréttingu á Alþingi, án þess að atvinnulífinu væri íþyngt á nokkurn hátt frá því, sem atvinnurekendurnir höfðu skuldbundið sig sjálfir við frjálsa samninga, verið 90.08% af kaupi karla, eða fyllilega það að hlutfalli til við kaup karla, sem verkakvennasamtökin í landinu búa sig nú undir að berjast fyrir og reyna að knýja í gegn, annaðhvort við samningaborðið eða jafnvel með verkfallsfórnum. Verkakvennafélögin vilja nú berjast fyrir því, að kaup kvenna verði 90% af kaupi karla, En með einni handauppréttingu hér á Alþingi hefði þingheimur getað tryggt það, að kaup kvenna yrði í ársbyrjun 1959 90.08% af kaupi karla. Og það var auðvitað ekkert auðveldara en að gera þetta. Það vantaði ekkert þarna nema viljann. En það er líka mikið, sem vantar, þegar hann vantar.

Ef till. hefði verið samþykkt, hefði mismunurinn á kaupi kvenna og karla frá því þá og þangað til nú aðeins verið kr. 2.05 á klst. í stað kr. 4.53, sem munurinn er nú og hefur verið allan þennan tíma síðan. En hinir hærri kaupgjaldsliðir verkakvennafélaganna hefðu, eftir að till. var samþykkt, nálgazt það að vera eins háir og karlmannskaupið. En íhaldsöflin voru söm við sig þá og nú og alltaf. Launajafnréttið skyldi ekki nálgast sína framkvæmd með þessum auðvelda og sjálfsagða hætti. Þau spyrntu öllum klaufum öfugum við eins og fyrri daginn og tókst það. Till. var felld. Launamisréttið hélt áfram óbreytt. Kvennakaupið var skorið niður að sömu hundraðstölu og kaup karla. Því var ekki hlíft. Það, sem hefði þó þá þurft, til þess að þessi till. hefði fengizt samþykkt, var ekki annað en það, að sú kona, sem átti þá sæti á þingi, hefði greitt atkv. með till., brotið af sér flokkshandjárn og sagt: Ég læt ekki bjóða mér það að standa á móti því, að kaup lægst launuðu kvennanna í landinu verði skorið niður með þessari löggjöf, því má hlífa, — og ef þáverandi varaforseti Alþýðusambands Íslands, sem hafði úrslitaatkvæði um þetta mál í Ed., hefði þá barið í borðið og sagt: Ég læt ekki, í þeirri aðstöðu sem ég er, bjóða mér það að níðast á verkakonunum með því að fella svona till., sem minnkar þó bilið á milli kaups kvenna og karla á þann hátt, að það verður 90% af karlakaupinu með því að samþykkja hana. — En það var ekki um neitt slíkt að ræða. Konan lét bjóða sér þetta, og þáv. varaforseti Alþýðusambandsins, Eggert G. Þorsteinsson, nú hv. 10. þm. Reykv., lét líka bjóða sér það, og þau samþykktu það, eins og aðrir þm. stjórnarflokksins, sem þá var Alþfl., og stuðningsflokks hans, Sjálfstfl., og launamisréttinu varð ekki haggað, það var jafnt eftir sem áður. Till. var drepin með úrslitaatkv. þessara manna, sem nú segjast vera orðnir miklir áhugamenn fyrir því, að bundinn sé endir á launamisrétti kvenna og karla á þann hátt, að þetta sé lagað að liðnu þessu ári, á árabilinu 1962–1967.

Ég hef áður minnzt á, að það lá fyrir hv. Alþingi á árinu 1953 frv. til laga um sömu laun kvenna og karla, alls ekki í áföngum, heldur algerlega, að kaupið yrði það sama hjá konum og körlum strax við gildistöku laganna. Þetta frv. var flutt af mér. En þá voru einnig meðflm. mínir þáv. samflokksmenn mínir, núv. hæstv. menntmrh. (GÞG), núverandi hæstv. félmrh. (EmJ) og núv. hv. 10 þm. Reykv. (EggÞ). Þessir ágætu menn voru þá á þeim buxunum, að það væri ekki aðeins réttlátt, heldur líka framkvæmanlegt, að konur fengju fullkomið launajafnrétti á við karlmenn. Frv. hét ekki um launajöfnuð kvenna og karla, heldur frv. til laga um sömu laun kvenna og karla. Ég vona, að mér reiknist það ekki til syndar af hæstv. forseta, þó að ég leyfi mér að minna á, hvernig þetta frv. var. Það er ekkert langt lesmál, það tekur aðeins eina mínútu eða svo að lesa það, og það vil ég gera, með leyfi hæstv. forseta. Það frv. var svona:

„Við öll störf, embætti og sýslanir hjá íslenzka ríkinu og sveitarfélögum skulu konum greidd sömu laun og körlum. Við færslu milli launaflokka skulu sömu reglur gilda fyrir konur sem karla. Skrifstofustörf öll og afgreiðslustörf í verzlunum skulu greidd sama kaupi, hvort sem þau eru unnin af konum eða körlum. Öll störf í hraðfrystihúsum og við iðju og iðnað skulu enn fremur greidd sama kaupi, hvort sem unnin eru af konum eða körlum. Skulu sérákvæði öll í samningum stéttarfélaga um lægri kaupgjaldsákvæði kvenna falla úr gildi við gildistöku þessara laga.“ Og lokagreinin var svona: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1954.“ Ekkert um það, að það ætti að taka gildi á næstu 6 eða 7 árum. Það átti að taka gildi á einum degi, 1. janúar 1954.

Þetta lögðu þeir til ásamt mér, hæstv. núv. menntmrh., hæstv. núv. félmrh. og hv. 10. þm. Reykv. Hvað veldur því, að þeir hafa farið úr þessum góðu buxum, þessum góðu jafnréttisbuxum, og standa nú gegn þessu máli, þessir hæstv. ráðherrar, sem hafa nú að baki sér tvo þingflokka, sem mynda meiri hluta á hv. Alþingi, og hafa nú í dag fengið yfirlýsingar beggja stjórnarandstöðuflokkanna um það, að þeir fylgi þessu máli? Þá áttu þeir, þegar svona áraði fyrir launajafnrétti kvenna, að vera í jafnréttisbuxunum áfram og sýna það. En nei, nú eru þeir búnir að klæða sig úr þeim.

Er kannske þjóðfélagið verr á vegi statt nú til þess að framkvæma þessa lagfæringu á launakjörum kvenna en þá? Ég hygg ekki. Tímarit Landsbanka Íslands sagði frá því í síðasta hefti, sem út kom nú fyrir nokkrum vikum, að á síðustu fimm árum, árunum 1955, 1956, 1957, 1958 og 1959, hafi framleiðslutekjur þjóðarinnar vaxíð að meðaltali á ári hverju um 6.3% eða samtals á þessu fimm ára tímabili um 35.5%, um meira en þriðjung. Og þegar svona árar hjá þjóðfélaginu þá var sannarlega eðlilegt, að það væri viðurkennt af Alþingi Íslendinga, að nú hefði þjóðfélagið efni á því að framkvæma þetta réttlætisverk, að lögfesta í einum áfanga, eins og lagt var til 1954, 1. janúar, launajafnrétti algert hjá konum og körlum.

Í dag reyndi á heilindi hv. 10. þm. Reykv., fyrrv. varaforseta Alþýðusambands Íslands, Eggerts G. Þorsteinssonar, í þessu máli, og hann brást, hann brást enn á ný. Hann brást, alveg eins og þegar hann átti þess kost að ráða úrslitum um samþykkt till. um að hlífa kvennakaupinu, þá brást hann líka. En nú á eftir að reyna á það á morgun eða hinn daginn, hvort hæstv. núv. menntmrh. (GÞG) og hæstv. núv. félmrh. (EmJ) bregðast einnig í þessu máli. Ég vil í lengstu lög treysta því, að þeir, sem vissulega geta ráðið afstöðu ríkisstj, og stjórnarflokkanna í þessu máli, taki í útrétta hönd beggja stjórnarandstöðuflokkanna um það, að launajafnréttið skuli ganga í gildi, annaðhvort frá gildistöku þessara laga eða t, d. frá 1. júlí 1961, eins og fólst í till. þessara flokka í dag í Ed. Þær till. skulu fá að liggja hér fyrir þessari hv. d., svo að virðulegir hæstv. ráðherrar eigi þess fyllilega kost að taka afstöðu til þeirra. Þeir geta ekki borið við, að nú skorti þá aðstöðu til þess að leiða málið í höfn. Þeir hafa hana óumdeilanlega. Og þeir hafa þá valdaaðstöðu í þjóðfélaginu, að þeir geta ráðið því, hvað gert sé nú í þessu máli. Og stjórnarandstaðan hefur auðveldað þeim þetta allt saman með því að lýsa yfir við umr. í fyrri deild þingsins, að þeir flokkar fylgi algeru launajafnrétti kvenna og séu reiðubúnir til þess að lögfesta það. Aðstaðan er enn betri en ég enn hef lýst, því að nú er gullið tækifæri fyrir þingmennina sex úr Sjálfstfl., þá sem báru fram þáltill. 1954, um að skora á ríkisstj. að fullgilda jafnlaunasamþykktina, og sögðu, að sú till. bæri vott um brennandi áhuga sinn fyrir að koma málinu farsællega í höfn. Einn af þeim tillögumönnum, ef ég man rétt, er þriðji ráðh. í núv. hæstv. ríkisstj. Ég man ekki betur en hæstv. núv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, hafi þá verið einn flm. að þeirri till., og ætti hann nú að standa við það, að hann sé enn sömu skoðunar og þegar hann var vinnumaður hæstv. fyrrv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, við að semja lagabálkinn um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og var að státa af í Ed., að hann væri höfundurinn að því, að þar með hefði konum verið tryggt launajafnrétti í opinberri þjónustu. (Gripið fram í.) Það gæti verið, að það væri rétt, að ég notaði nú minn þingmannsrétt að heimta hæstv. fjmrh. á vettvang í þingsalinn að næturlagi, þegar verið er að halda hér þingfund og nokkrum þm. haldið hér, en hæstv. ráðherrum, sem við málið koma, látið haldast uppi að sofa og svíkjast frá sínum þingmannsskyldum. Ég veit ekki. hvort ég mætti biðja hæstv. forseta, eftir ábendingu vinar míns, hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ), að óska þess, að forsetinn gerði ráðstafanir til þess, að hæstv. félmrh. kæmi hér á vettvang. Ég veit, að hann bregzt vel við að reyna það, en ég veit, að það er engin vissa fyrir því, að hann geti dregið hann hingað. (Forseti: Það skal verða gert.) Já, þetta líkar mér. Þetta er forseti, sem gerir sína skyldu. (Forseti: Ég vil benda ræðumanni á, að hæstv. félmrh., sem hann bað um, er mættur í salnum.) Já, það er nú sennilega í lagi, ef hann tekur að sér að bera það til hæstv. fjmrh., sem ég segi. En mér fannst eins og hv. 1. þm. Vestf, væri að áminna mig um það að tala ekki um fjarstadda ráðherra, og þótti það því óviðurkvæmilegt að gera það, nema ég óskaði þá eftir því, að viðkomandi ráðherra væri kallaður hingað í þingsalinn. En vænst hefði mér þótt um það, að hæstv. forseti hefði gert gangskör að því að kalla þennan hæstv ráðh., sem oft virðist sofa, þegar þm. vaka, hingað til sinna starfa. En málið er svo sem nokkurn veginn leyst með því, að hæstv. félmrh. taki að sér að flytja það, sem ég hef sagt og kann að segja um núv. hæstv. fjmrh. fjarstaddan, vegna þess að hann kýs heldur að sofa en að vaka á nóttum.

Ég hef sem sé haldið því fram nú, að við erum ekki einungis þannig staddir, að hæstv. núv. félmrh. og núv. menntmrh., heldur einnig hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, hefur áður tjáð sig vera fylgjandi launajafnréttismálum kvenna og borið fram þingskjöl því viðvíkjandi, og þess vegna finnst mér ærnar vonir standa til þess, að þessir hæstv. 3 ráðh., sem allir eiga sæti í þessari hv. d. með atkvæðisrétti og hafa reyndar seturétt og málfrelsi í báðum deildum til þess að berjast fyrir þeim málum, sem þeir hafa brennandi áhuga á, bregðist ekki þessu máli, heldur styðji það, annaðhvort beri sjálfir fram brtt. við sitt frv., þegar þeir sjá, að það er þingvilji fyrir því að ganga lengra í málinu, eða veiti drengilegan stuðning þeim brtt., sem áreiðanlega verða bornar fram hér í hv. d. á þá leið, að frv. um launajöfnuð kvenna og karla verði frv. um sömu laun kvenna og karla frá gildistökudegi, en ekki samkvæmt þeirri sex ára áætlun, að réttlætið berist kvenþjóðinni í launþegastétt í sjöttu pörtum á næstu 6 árum.

Ég reyndi samflokksmenn mína 1953, sem fluttu þetta frv. með mér, ekki að neinni ótrúmennsku við málið á því þingi. Alþfl. barðist þá fyrir því sem ein heild, en fékk ekki rönd við reist. Sjálfstfl. stóð eins og veggur gegn málinu og beitti sömu aðferðum og beitt hefur verið nú gegn nákvæmlega sams konar frv. orði til orðs og það, sem borið var fram af okkur fjórum 1953, frv., sem var flutt í þessari hv. d. í byrjun þings og hefur fengið að liggja í hv. heilbr.- og félmn. þangað til nú fyrir einum þremur dögum, að ég klauf nefndina og skilaði sérstöku nál. um, að frv. yrði samþykkt. Þá var frv., sem við fluttum, einnig látið liggja í salti í deild allan þingtímann, til þingloka, og gengið af því dauðu þannig. Það var svæft í n., eins og það heitir á þingmáli, og hefur þetta þá gerzt ár eftir ár.

Eftir þessi málalok 1953 lét ég það ekki hjá líða á næsta þingi að bera fram samhljóða frv. um sömu laun kvenna og karla. Á þinginu 1954–55 flutti ég þetta frv. á ný án breytinga. Þá höfðu losnað bróðurtengslin milli mín og hv. meðflm. minna að frv. árið áður (Sjútvmrh.: Er mér óhætt að fara?) Það veit ég ekki. Það getur komið að hæstv. fjmrh. aftur, — þetta er erfið vinnumennska, að eiga að vera næturvörður fyrir hæstv. fjmrh. Mér finnst miklu réttara, að hæstv. ráðh., sem koma svo við sögu merkilegs máls, sem er til umr. í þinginu, leggi það á sig að vaka. (Landbrh.: Á hann sæti í Nd.?) Hæstv. ráðh. er í raun og veru skyldugur til þess að vera jafnt í báðum deildum, þegar mál eru rædd, sem snerta hann, það mætti hæstv. landbrh. vita. Og ég veit ekki til þess, að hæstv. ráðherrar hafi á nokkurn hátt minni þingmannsskyldur en við, sem erum þm. Ég veit ekki til annars en þær séu þær sömu, og leiðréttir hæstv. forseti mig, ef ég fer rangt með það.

Á árinu 1954 var frv. um sömu laun kvenna og karla beitt sömu bolabrögðum og frv., sem við fjórmenningarnir fluttum árið áður. Það fór til 1. umr. og í nefnd og var látið liggja þar allan þingtímann. Undir þinglokin var nefndin þá klofin eins og nú og nál. lagt fram, en málið fékkst aldrei tekið til 2. umr.

Þannig hafa andstæðingar þessa máls, í hvert skipti sem málið hefur verið flutt á Alþ., reynt að dylja afstöðu sína með því að koma í veg fyrir, að málið gengi undir atkv. En meðferðin öll sýnir samt eins ljóst hugarfarið og þótt þeir hefðu verið staðnir að því að viðhöfðu nafnakalli að vera á móti því, því að það hafa þeir sannarlega verið. Og ef hæstv. fjmrh. verður á móti brtt. við þetta frv. á morgun eða hinn daginn um launajafnrétti kvenna, þá er hann eins og aðrir flokksbræður hans orðinn sannur að sök um það; að flutningur þáltill. 1953 hafi verið yfirdrepsskapur einn og af óheilindum, en ekki af áhuga á launajafnrétti kvenna. Það er í fjórða sinn, held ég, sem ég flyt frv. til laga um réttindi og launajafnrétti kvenna, og er orðið 12 eða 13 ára stríð. Það var fyrst á mínu öðru þingári, 1948, sem ég flutti frv. um þetta mál, þá í nokkru víðtækara formi en öll hin skiptin þrjú. Þá var 1. gr. frv., sem hét frv. til l. um réttindi kvenna, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Konur hafa algert pólitískt jafnrétti á við karla.

Konur skulu njóta algerlega sama réttar í atvinnumálum og fjármálum sem karlar, og er óheimilt að setja nokkrar takmarkanir á val kvenna til þátttöku í nokkrum störfum. Hvarvetna þar, sem þess telst þörf, er skylt að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að aðstaða konunnar sem móður til þátttöku í atvinnulífi þjóðarinnar verði sem bezt tryggð.“

Sumir hv. þm. vildu þá halda því fram, að það væri algerlega óþarft að hafa málið í svona víðtæku formi, konur hefðu öðlazt fullkomið jafnrétti við karla í þjóðfélaginu á öllum sviðum nema í kaupgjaldsmálum, í launamálum. Það viðurkenndu þeir þó. En í þessu frv. var einnig fjallað um það, um launajafnréttið, því að þar stóð: „Konum skulu greidd sömu laun og körlum við hvers konar embættisstörf og sýslanir, hvort sem er í þjónustu hins opinbera eða í þjónustu atvinnulífsins.“.

Ég hygg nú, að öllum sé ljóst, sem hafa verið á þessu þingi, að það var ekki út í hött og væri ekki út í hött enn að bera fram till. eða frv. til l. á Alþingi um jafnrétti kvenna á við karla á fleiri sviðum en í launamálum, því að jafnréttinu er ekki náð enn í dag að því er snertir þýðingarmikið atriði, sem aðrar menningarþjóðir hafa þegar tryggt betur en við, gagnvart konunni sem móður. Það hefur legið hér fyrir þessu hv. þingi frv. til l. um fæðingarorlof. Það er einmitt sérstakt lagafrv. um það að tryggja betur rétt konunnar í þjóðfélaginu sem móður, frv. um það, að þegar konur verða frá störfum vegna barnsburðar, skuli þær hafa laun samkvæmt þeim launakjörum, sem þær höfðu áður búið við, um þriggja mánaða skeið — fjórðung úr ári. Ég nefni þetta sem dæmi um það, að í raun og veru hefði verið full ástæða til að hafa frv. mitt um jafnrétti kvenna á þeim víðtæka grundvelli, sem það upphaflega var flutt af mér. En við flutning þess þá létu þingmenn mjög í það skína, að þeim þætti þetta frv. of víðtækt, eins og það var flutt árið 1948, en hins vegar viðurkenndu þeir launamisrétti kvenna og létu þá líklega um það, að ef frv. væri eingöngu um það, þá mundu þeir ef , til vill styðja málið. Þegar það var svo flutt næst 1953, 1954 og svo nú í fjórða skipti, 1960, þá hefur reynsla fengizt fyrir því, að þó að málið væri eingöngu í því formi, vildu þeir ekki fylgja því. Þannig hafa óheilindin í þeim ummælum, sem komu fram á þingi 1948 viðvíkjandi þessu máli, verið afhjúpuð einnig. Þeir, sem þá þóttust vera með launajafnréttinu, ef ekki væri annað tekið með, hafa reynzt vera andvígir því fram á þennan dag.

Hér er því búið að bera þetta mál fram á Alþingi a.m.k. fjórum sinnum, og hefði nú verið mál til komið, að menn féllust á að viðurkenna algert launajafnrétti kvenna og karla með myndarlegri lagasetningu, sem hefði ákveðið það frá gildistöku laganna, í stað þess að koma með frv., sem hvorki er fugl né fiskur og er frekar til þess fallið að torvelda, að konur nái merkum áfanga á árinu 1961 í átt til launajafnréttis í samningum milli launþegasamtaka og atvinnurekenda.

Þetta frv. um launajöfnuð kvenna og karla var, áður en það lagðist til svefns, eða um það leyti sem það lagðist til svefns í heilbr.- og félmn. hv. Ed., sent til umsagnar ýmsum aðilum. Það var m.a. sent til umsagnar Kvenfélagasambandi Íslands. Ég hygg, að það sé oft og tíðum venja að kynna þingheimi þær umsagnir, sem nefndum þingsins berast um mál, og í þessu stórmáli ætti ekki að vera ófróðlegt að heyra, hvað kvennasamtök eins og Kvenfélagasamband Íslands segja um þetta mál. Ég vil því, með leyfi hæstv, forseta, lesa þessa umsögn, og ég mundi gjarnan vilja lesa umsögn vinnuveitendasamtakanna um málið og umsögn Alþýðusambands Íslands. Það eru nokkrar fleiri umsagnir, sem hafa borizt og væri jafnvel rétt að lesa þær allar fyrir þingheimi, láta þær allar fara inn í þingtíðindin, og má vel vera, verði óskað eftir því, að allar umsagnirnar verði lesnar, og skyldi ég ekki telja það eftir mér. Þær eiga sannarlega allar rétt á því að koma inn í þingsöguna til þess að greina frá því, hver afstaða manna hafi verið við þessu frv. Kvenfélagasamband Íslands segir í umsögn sinni til heilbr.- og félmn. Ed. það, sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér höfum móttekið heiðrað bréf yðar, dagsett 11. þ. m.“ — þ.e.a.s. 11 nóv. 1960 „ásamt frv. til laga um launajöfnuð kvenna og karla, sem oss er sent til umsagnar. Viljum vér hér með tjá yður, að vér teljum, að samþykkt frv. þessa mundi miða í þá átt að fá hér á Íslandi fullan jöfnuð á launum kvenna og karla, og teljum því mjög æskilegt, að frv. þetta yrði að lögum Hins vegar viljum vér benda á, að frv. þetta, þótt að lögum yrði, leysir ekki allan vanda varðandi launamisrétti og að meira þarf að koma til, ef lög um þetta efni eiga að ná tilgangi sínum. Eigum vér þar við nauðsyn þess að flokka störf þannig, að ekki séu aðeins þau störf, sem bæði karlar og konur vinna, er veiti launajöfnuð, heldur einnig að störf, sem hingað til hafa verið kölluð kvennastörf og þess vegna lægra launuð, verði metin og greidd laun fyrir þau eins og jafnmetin störf, sem venjulega eru nú talin karlmannsverk. Úr því að þetta tækifæri gefst, viljum vér geta um launamisrétti, sem snertir starfshlið vora og ekki mundi leiðrétt, þótt frv. um launajafnrétti kvenna og karla yrði að lögum. Í einni af fáum starfsgreinum á Íslandi hefur sú regla gilt, að sömu laun eru greidd, hvort sem konur eða karlar eiga í hlut, en það er við kennslu, og mun sú skoðun víst ríkjandi, að þetta sé algild regla um kennara. Það er sjálfsagt rétt, að ekki er gerður mismunur á launum kvenna og karla innan eins og sama skóla. En það er gerður mismunur á milli skóla. Þannig fá matreiðslukennarar við gagnfræðaskóla laun samkvæmt 8. launafl. fyrir 8 mánaða kennslu, en kennslukonur við húsmæðraskólana taka laun samkvæmt 9. launaflokki fyrir 9 mánaða kennslu, þótt sömu menntunar sé krafizt í báðum tilfellum.“

Ég virðist því hafa ofsagt, þegar ég hélt því fram, að það væri algerlega orðið viðurkennt launajafnrétti milli kvenna og karla í kennarastéttinni. Þarna er bent á það, að enn þá eimi nokkuð eftir af launamisréttinu einnig í þeirri stétt. Áfram segir í umsögn Kvenfélagasambands Íslands:

„Eina skýringin á þessu er sú, að við gagnfræðaskólana starfa konur og karlar, og eru launakjör betri þar, vegna karlmannanna, heldur en við skóla, þar sem eingöngu starfa konur. Vér vildum gjarnan, að þetta atriði kæmist inn í umr. um það mál, sem hér liggur fyrir, og vildum einnig, að hv. þm. kynntu sér það misrétti, sem vér hér höfum drepið á. Jafnframt viljum vér vekja athygli á því, að það þarf áreiðanlega margt að athuga, áður en fullkomið launajafnrétti kvenna og karla kemst á hér á landi, því að einföld lagafyrirmæli um það munu seint ná tilgangi sínum. Vér leggjum þó áherzlu á það, að frv. þetta, ef að lögum verður, teljum vér tvímælalaust vera spor í rétta átt, og eins og kemur fram í grg., þá gætu þær samræmingar launa, sem þar er gert ráð fyrir, leitt til samræmingar launa innan starfsgreina, sem frv. nær ekki til, þannig að fullkomið launajafnrétti kvenna og karla á Íslandi yrði að veruleika.

Virðingarfyllst.

Í stjórn Kvenfélagasambands Íslands Rannveig Þorsteinsdóttir, formaður, Aðalbjörg Sigurðardóttir, Helga Magnúsdóttir, Jónína Guðmundsdóttir.“

Þarna bendir Kvenfélagasamband Íslands á það, að þetta frv. sé ekki líklegt til þess að koma að fullu gagni í launajafnréttismálinu. Þær telja þó, að að því sé bót, bera fram ákveðnar óskir um lagfæringar, og ættu áhugasamir menn í stjórnarliðinu að hugleiða það, hvort þeir gætu ekki orðið við þeim minni háttar lagfæringum, sem konurnar óska þarna eftir.

Vinnuveitendasamband Íslands og mörg önnur félög vinnuveitenda, þ.e.a.s. Félag íslenzkra iðnrekenda, Félag ísl. stórkaupmanna, Kaupmannasamtök Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Verzlunarráð Íslands, heildsalarnir, hafa einnig sent umsögn sameiginlega um frv. um launajöfnuð karla og kvenna. Það er tiltölulega mjög stutt umsögn og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, dagsett 23. nóv. 1960:

„Samtök vor hafa móttekið heiðrað bréf n., dags. 11. þ. m., þar sem óskað er umsagnar um frv. til laga um launajöfnuð karla og kvenna. Samtökin hafa rætt frv. þetta og samþ. einróma að leggja til, að það verði fellt, m.a. af eftirfarandi ástæðum:

Samkvæmt íslenzkum venjum og lögum eru stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna við vinnuveitendur eða samtök þeirra. Þessi samningsréttur er talinn mjög mikils virði og því varhugavert að breyta með lögum ákvæðum slíkra kjarasamninga, ekki sízt ákvæðum um grunnkaup. Á það má einnig benda, að mismunur á lágmarkskaupi karla og kvenna mun vera talsvert minni hér en í nágrannalöndum, auk þess sem farið hefur í vöxt, að konum séu greiddir yfirtaxtar, þ. á m. karlakaup, fyrir margvísleg störf. Það er alkunna, að afköst kvenna eru við margs konar vinnu mun minni en karla, og mundi lögfesting launajafnaðar kvenna og karla leiða til þess, að karlar yrðu að öðru jöfnu látnir ganga fyrir um vinnu og bola þannig kvenfólkinu til hliðar af vinnumarkaðinum. Loks viljum vér benda á, að mjög varhugavert er að lögbjóða kaup vissra starfshópa, án þess að tillit sé tekið til greiðslugetu atvinnuveganna, og ekki mun leika á tveim tungum, að útflutningsatvinnuvegirnir a.m.k. þola nú ekki hærra kaup, þótt ekki sé meira sagt, án þess að framleiðni sé jafnframt aukin í framleiðslunni, en konur vinna nú, sem kunnugt er, margháttuð störf við útflutningsframleiðsluna, svo sem í frystihúsum og við alls konar fiskverkun aðra.“

Þarna eru saman á bát sex fjölmenn samtök vinnuveitenda, og mér kemur það ekkert á óvart, að þó að ekki sé nema um smávægilega lagfæringu á launakjörum kvenna að ræða á sex ára tímabili, þá finnist þeim það of mikið. Þeirra viðbrögð eru ekki, að þetta sé of seint og of lítið, sem hér liggi fyrir í þessu frv. Nei, of fljótt og of mikið, það ber þeim öllum saman um. Þeir segja, að það sé alkunna, að konur afkasti miklu minna í starfi heldur en karlmenn við fjöldamörg störf, þær eigi þess vegna ekki að fá sama kaup og karlmenn. Hins vegar hef ég fyrir hitt margan atvinnurekandann, margan hraðfrystihúseigandann, sem hefur fyllilega viðurkennt það, að konur séu a.m.k. jafnverðmætur vinnukraftur í hraðfrystihúsum og karlmenn, það sé enginn munur á afköstum þeirra við flökun og slík störf, en það sé mikill munur á því, hvað þær séu afkastameiri en karlmenn við gegnumlýsingu á flökum, við snyrtingu á flökum, innpökkun á flökum, við vigtun á flökum, og öll þessi störf eru mjög mikill þáttur í rekstri hvers hraðfrystihúss. Niðurstöður þeirra, sem um þetta ræða af sanngirni, og það gera þeir ýmsir, er sú, að konur eigi fyllilega skilið jafnhátt kaup og karlmenn í fiskiðnaðinum, og þannig er þetta með fleiri störf. Með aukinni tækni er það þannig, að störfin verða léttari en áður, stritið víkur og hraði og öryggi við að þjóna vélum og vinna störfin á léttari hátt en áður verður yfirgnæfandi í fjöldamörgum starfsgreinum. Og þá kemur vinnuhæfni konunnar fyllilega að eins miklum notum og karlmannsins. Nær þetta til yfirgnæfandi meiri hluta þeirra starfa, sem þjóðfélagið lætur nú vinna.

En á sama hátt og hægt er að benda á fjöldamörg störf, sem konum farist öllu betur úr hendi en karlmönnum, er að sjálfsögðu hægt að nefna nokkur störf, sem karlmenn leysi betur af hendi og séu jafnvel afkastameiri við. En þetta er ekkert meiri munur en er á milli afkasta einstaklinganna af hvoru kyninu um sig. Þar er oft og tíðum um mikinn afkastamun að ræða, og vilja þó verkalýðssamtökin ekki viðurkenna þar neina réttlætingu á launamismun og hafa miðað alla sína samninga við lágmarkstaxta atvinnurekendanna, síðan að meta hin mismunandi afköst og greiða þá með hærra kaupi þeim, sem meira afkasta, hvort sem það eru karlar eða konur.

Þá segja þeir, vinnuveitendurnir, að hér sé nú kaupgjaldsmálum kvennanna það vel komið, að hér sé mismunurinn á kaupgjaldi kvenna og karla minni en í nágrannalöndunum, við séum komnir lengra en í nágrannalöndunum, og þess vegna finnst þeim það ganga óskunda næst að vera að fara fram á það einmitt hér í þessu landi, sem hefur hækkað kaup kvenna meira en annars staðar, að hér skuli vera tekið í mál að stefna að launajafnrétti kvenna móts við karlmenn. Þeim finnst sýnilega meira en nóg komið og telja, að kvennakaupið ætti heldur að vera hér lægra heldur en hærra. Annað verður ekki skilið af málsgreininni í þeirra umsögn, en þeir segja, að „á það má einnig benda, að mismunur á lágmarkskaupi karla og kvenna mun vera talsvert minni hér en í nágrannalöndunum“. Svo geta þeir þess, og það finnst þeim taka út yfir allan þjófabálk, að hér þekkist það, að greiddir séu yfirtaxtar, þ. á m. karlmannskaup, fyrir margvísleg störf. Það eru að vísu engir yfirtaxtar. Það er umsamið, að fyrir ýmis störf skuli greiða karlmannskaup. En ef það er rétt, að þeir borgi, sumir atvinnurekendur, yfirtaxta umfram það, sem samið er um, þá er það áreiðanlega byggt á því, að viðkomandi atvinnurekandi viðurkenni verkhæfni konunnar, og því, að hann telji sig ekki samvizku sinnar vegna geta varið það að borga henni ekki hærra, og er þetta þá eitt með öðru ábending um það, að þeir þyrftu ekki að víkja út af hinu umsamda, ef þeir eða löggjafinn væru búnir að viðurkenna, að konum skuli greitt sama kaup og körlum fyrir sömu störf.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um umsögn þeirra atvinnurekendanna, en hún er nokkurn veginn sama eðlis og umsögn þeirra var um frv. 1953, um sömu laun kvenna og karla, og frv., sem flutt var árið eftir. Það hefur verið sífellt viðkvæði hjá þeim, að þeir legðu til, að öll þau frumvörp yrðu felld, hvort sem þau gerðu ráð fyrir launajafnrétti kvenna í áföngum á 6 árum og konur fengju þannig sjötta part af réttlætinu á ári, ekki meira, þeir eru á móti því, eins og þeir voru á móti því, að konur fengju algert launajafnrétti samkv. þeim frumvörpum, sem áður hafa verið flutt og til þeirra send til umsagnar. Hjartalagið er það sama. Þeim finnst kvennakaupið vera meira en nógu hátt í þessu landi og telja, að það þyrfti heldur að koma því í það horf, sem sé hjá okkar góðu nágrannalöndum, að bilið sé enn þá meira en það er núna.

Þetta frv. var einnig sent A.S.Í. til umsagnar. Það var rætt á fundi miðstjórnar Alþýðusambandsins þann 15. des. 1960 og mér falið að skrifa bréf, sem væri í samræmi við skoðun miðstjórnarinnar. Miðstjórninni var mætavel kunnugt um það, að fyrir þinginu lágu tvö frumvörp um launamál kvenna. Annað var þetta, um að þoka launajafnréttismálum kvenna áfram á sex árum, og hitt um, að Alþingi lögfesti algert launajafnrétti kvenna og karla á yfirstandandi þingi í einum áfanga frá og með gildistökudegi laganna. Það getur því ekki orðið neinum undrunarefni, að það var álit miðstjórnar Alþýðusambandsins, að þetta frv., sem hér er til umr., gengi of skammt og væri ekki meðmælavert, þegar fyrir Alþingi lægi annað frv. um algert launajafnrétti kvenna og var þannig eina frv., sem fyrir þinginu lá, sem var í samræmi við margyfirlýsta stefnu alþýðusamtakanna, margendurteknar samþykktir Alþýðusambandsþinga og margyfirlýst lokatakmark hinna ýmsu stéttarfélaga, eins og ég vitnaði til hér áðan úr afmælisriti verkakvennafélagsins Framsóknar, þegar formaður þess verkakvennafélags lauk afmælisgrein sinni á þann hátt, að launajafnrétti, algert launajafnrétti kvenna og karla, væri lokatakmarkið, sem þær berðust fyrir og stefndu að. Alþýðusambandsmiðstjórnin gat því auðvitað ekkert annað og langaði ekki heldur til neins annars en mæla með því frv., sem væri í samræmi við margyfirlýsta stefnu hinna einstöku félaga innan sambandsins og sambandsþinga hvað eftir annað, og á móti því frv., sem skemmra gengi. Umsögn miðstjórnar Alþýðusambandsins, sem var send hv. heilbr.- og félmn. Ed., var, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

,.Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur rætt um frv. um launajöfnuð kvenna og karla, sem flutt er af Jóni Þorsteinssyni o.fl. Það er niðurstaða þessara umræðna, að miðstjórnin treystir sér ekki til að mæla með samþykkt frv. Til þess gengur það allt of skammt.

Kvennasamtökin í landinu hafa þegar sett fram kröfur um, að kvennakaup verði hvergi lægra en 90% af kaupi karla. Nú er kvennakaupið sem næst 78% af kaupi karla. Af því sést, að konurnar hugsa sér að ná launajafnréttinu í tveimur áföngum og þó hinum stærri hlut í samningum þeim, sem nú standa fyrir dyrum. Ef gert er ráð fyrir, að kaup karla hækki í væntanlegum samningum um 17%, væri almennt verkamannakaup orðið kr. 24.18 í dagvinnu. Ef kvennakaupið væri 90% af þessu kaupi, hefði það hækkað um kr. 5.63 á klst., en samkv. frv. er gert ráð fyrir, að fyrsta lagfæring til launajafnaðar fáist hinn 1. jan. 1962 og þá aðeins 76 aurar á klst., miðað við núv. kaupgjald, en ekki yrði launajöfnuði náð samkv. því fyrr en á árinu 1967.

Þá er upptalningin í 1. gr.: „verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verzlunar- og skrifstofuvinnu“ allt of takmörkuð. Fjöldi starfsgreina kvenna innan Alþýðusambands Íslands fengi enga lagfæringu launa samkv. þessu. Ákvæði 1. gr. um launajöfnuð á árunum 1962–1967 mundu aðeins ná til þeirra kvenna, sem vinna eftir samningum almennu verkakvennafélaganna, eftir samningum Iðju og eftir samningum verzlunarfólks. En hvað um konur, sem vinna í sjúkrahúsum, í prentsmiðjum, við bókband o.s.frv., o.s.frv.?

Út af 3. gr. frv. viljum við taka fram, að verkalýðsfélögunum er áreiðanlega næsta óljúft að láta ákvörðun um kaupgjaldsmál sín í hendur nefndar eða gerðardóms, sem, verkalýðssamtökin ættu í aðeins einn fulltrúa af þremur.

Samkvæmt 4. gr. eiga stéttarfélög, sem semja um kaup og kjör, að sækja um launahækkanir til þessarar n. Samkvæmt sömu grein hafa samningar, sem félögin gera við atvinnurekendur, ekki gildi, fyrr en þeir hafa hlotið staðfestingu af þessari margnefndu nefnd. Með þessu er samningsaðstaða verkalýðsfélaganna öll torvelduð og samningsrétturinn beint skertur. Verður því ákvæði 5. gr. einskis virði. Væri því frv. orðið að lögum, mundu atvinnurekendur auðvitað vitna til laganna og alls ekki ljá máls á að semja um launajafnrétti fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1967.

Mjög er líka hætt við því, að kröfum kvenna nú um hinn mikla áfanga til launajafnréttis, sem konurnar hyggjast ná, verði svarað með því að segja sem svo: Verkalýðsleiðtoginn Eggert Þorsteinsson, fyrrv. lögfræðingur Alþýðusambandsins Jón Þorsteinsson og Alþýðuflokksmaðurinn Friðjón Skarphéðinsson hafa lagt til, að byrjað sé á að minnka bilið á milli kvenna- og karlakaupsins í ársbyrjun 1962. Hvað eruð þið þá að krefjast stórkostlegra kauphækkana, sem minnki bilið milli kvenna- og karlakaups að meira en hálfu nú þegar? Nei, konur góðar, hættið við allar slíkar kröfur nú. Við skulum bíða, eins og frv. gerir ráð fyrir, til þess að byrja með til 1962 og sætta okkur síðan við, að launajöfnuði þess fólks, sem nefnt er í 1. gr., verði náð á árinu 1967. — Mun nú brátt sýna sig, hvort þessum rökum verður ekki beitt af atvinnurekendum gegn kröfum kvennasamtakanna í væntanlegum samningum.

Það er því skoðun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, að auk alls þess, sem nú hefur verið nefnt, sé frv. flutt á mjög óheppilegum tíma.

Miðstjórn Alþýðusambandsins er þá einnig kunnugt um, að fyrir hv. Alþ. liggur einnig annað frv. um sömu laun kvenna og karla. Það gengur lengra en þetta frv. í öllum atriðum, og mælir miðstjórnin eindregið með því, að það verði samþ.

Virðingarfyllst,

f. h. miðstjórnar Alþýðusambands Íslands,

Hannibal Valdimarsson.“

(Gripið fram í) Það er ágætt, það er bara sannleikanum samkvæmt. Miðstjórn Alþýðusambandsins gekk frá málinu og fól mér að skrifa nál., og um það sveikst ég ekki.

Til þess var vitnað í umr. í hv. Ed. í dag af hv. 2. þm. Reykv., frú Auði Auðuns, sem hafði framsögu fyrir meiri hl. n., hygg ég, — inn á það mun einnig hafa verið komið af hv. 10. þm. Reykv., Eggert G. Þorsteinssyni, — að frv. um launajöfnuð kvenna og karla hafi fengið hinar beztu undirtektir á þingi Alþýðusambands Íslands í haust. Þetta er ekki með öllu rétt hermt. Sannleikurinn er sá, að í byrjun þingsins, er konur voru komnar þar saman víðs vegar af landinu til Reykjavíkur, þá var gengið á milli kvennafulltrúanna á þinginu með svo hljóðandi undirskriftaskjal af nokkrum konum:

„Við undirritaðar, sem erum fulltrúar á 27. þingi Alþýðusambands Íslands, skorum eindregið á Alþingi að samþ. fram komið frv. til laga um launajöfnuð kvenna og karla, 59. mál, þskj. nr. 64.“ Það er þetta frv., sem hér er til umr. um launajöfnuð kvenna og karla, sem þeir flytja Jón Þorsteinsson, Eggert G. Þorsteinsson, Friðjón Skarphéðinsson.

Voru nú ekki allar konur, sem sátu Alþýðusambandsþingið, harla ánægðar með þetta frv.? Þeim var auðvitað tjáð, að þetta væri frv. um launajafnrétti kvenna. Þær skrifuðu nokkrar nöfn sín í upphafi þingsins á þetta skjal. Það var röggsamlega fram gengið af ýmsum konum þarna í því að fá undirskriftirnar til að mæla með þessu frv. En uppskeran varð ekki meiri en sú, að 35 af þeim konum, um eða yfir 70, sem sátu þingið, skrifuðu undir þetta plagg og létu sig hafa það að mæla með frv., sem fer fram á það að tryggja sumum stéttum kvenna, almennum verkakonum, konum, sem stunda verksmiðjuvinnu og verzlunar- og skrifstofustörf, tryggja þeim launajafnrétti á 6–7 árum. Aðrar af þeim konum, sem sátu þingið, einkanlega eftir að þær höfðu áttað sig á því, hvers konar frv. þetta var, neituðu að skrifa undir þessa áskorun, og veit ég þó um ýmsar konur, sem töldu sig hafa léð nafn sitt á þetta undirskriftaskjal út frá röngum forsendum, teljandi það, að þær væru að skrifa undir áskorun til Alþ. um að samþ. frv., sem fæli í sér algert launajafnrétti frá gildistöku. Almennan stuðning á þinginu fékk þetta ekki, og svo mikið er víst, að áhugakonurnar fyrir því að fá þetta frv. samþ. fóru ekki þá leiðina, sem venjulega er farin á Alþýðusambandsþingum, þegar fyrir Alþ. liggja einhver mál, sem þingfulltrúum þykir mikils um vert að verði samþ., að bera fram formlega till. á þinginu, bera hana undir atkv. þar, um það að skora á Alþingi Íslendinga að samþ. þetta eða hitt frv. Hvað ætli hafi nú aftrað konunum, sem gengu með undirskriftaskjölin í kyrrþey, frá því að bera fram slíka till.? Ætli þær hafi ekki rennt grun í það, að Alþýðusambandsþingi yrði óljúft að mæla með því frv. af tveimur, sem fyrir þinginu lægju um launajafnrétti kvenna, — mæla með því frv., sem skemmra gengi og væri á allan hátt óviðunandi fyrir konur að fá lögfest í launamálum sínum? Vitanlega vissu þessar konur það, að ef farið væri fram á meðmæli Alþýðusambandsþings um annað af þessum frv., þá yrðu meðmælin auðvitað af yfirgnæfandi meiri hluta, ekki aðeins kvennanna á þinginu, heldur líka allra þingfulltrúa þar, með frv. mínu og minna meðflutningsmanna, sem einnig lá fyrir þinginu, um sömu laun kvenna og karla, en flutningsmenn að því auk mín eru nú frú Margrét Sigurðardóttir, sem sat á þingi hér í haust, Eðvarð Sigurðsson núverandi formaður Dagsbrúnar, Gunnar Jóhannsson formaður verkamannafélags Siglufjarðarkaupstaðar, Karl Guðjónsson, sem er í verkalýðsfélagi Vestmannaeyja, og Geir Gunnarsson. Þessir þm. Alþb. standa að frv. um sömu laun kvenna og karla, og niðurlag þess er um það, að frv. öðlist þegar gildi, og er orði til orðs eins og það frv., sem ég flutti ásamt núverandi hæstv. menntmrh. og núverandi hæstv. félmrh. og núverandi hv. 10. þm. Reykv., nákvæmlega frá orði til orðs samhljóða því frv., sem þeir fluttu þá með mér og ættu því nú að geta samþ. í því formi og eiga þess kost að samþ. það nákvæmlega frá orði til orðs eins og þeir báru það fram á Alþ, fyrir nokkrum árum. Verður ekki eiginlega séð, hvernig menn komast skammlaust frá því að fylgja ekki því frv., sem þeir hafa áður flutt á Alþ., en ætla þó að halda því fram, að þeir séu sömu brennandi áhugamennirnir fyrir framgangi málsins. Ég fæ ekki séð, hvernig það samrýmist.

Ég skal ekki vera með neinar getsakir í garð þeirra manna, sem fluttu það frv. með mér fyrir nokkrum árum og eiga sæti í þessari hv. deild. Þeirra afstaða kemur í ljós hér á morgun eða mánudaginn, eða upp úr helginni, og ég trúi ekki öðru en þeir reynist þeir drengir í þessu máli, sem er ekki aðeins margyfirlýst stefnumál verkalýðssamtakanna, heldur einnig, eftir því sem ég bezt veit, yfirlýst stefnumál Alþfl., að þeir styðji það, þegar aðstaðan er slík á Alþingi Íslendinga, að það er í lófa lagið að fá frv. til laga um algert launajafnrétti kvenna og karla samþ. á þessu þingi og þannig losa verkakvennahreyfinguna í landinu við að þurfa að hefja nú fórnfreka verkfallsbaráttu til þess að knýja sín margra áratuga gömlu launajafnréttismál í framkvæmd. Það þori ég að segja, að það væri ódýrara þjóðfélaginu og ódýrara atvinnulífinu, að þær fúlgur, sem fara í herkostnaðinn til þess að stimpast á móti launajafnrétti kvenna á næstu vikum og mánuðum, ef þá baráttu verður að heyja, væru betur komnar strax sem launahækkun til kvenfólksins, og stæði þá atvinnureksturinn og þjóðfélagið jafnrétt eftir að hafa heldur varið þeim fjárfúlgum til hækkaðra launagreiðslna strax samkvæmt löggjöf t.d. heldur en að verja þeim í slíkan herkostnað á móti réttlætismáli kvennanna. En það væri gert, ef Alþ. samþ. algert launajafnrétti kvenna, annaðhvort frá gildistökudegi laganna eða t.d. frá miðju árinu 1961, ef menn vildu hafa eitthvert svigrúm, þangað til þetta ætti að ganga í gildi. Og eins og ég sýndi fram á áðan í ræðu minni, þá er þetta alls ekki stórkostleg umbreyting í kaupgreiðslumálum hjá atvinnulífinu eða í þjóðfélaginu yfirleitt, því að að því er snertir verkakonurnar, sem vinna samkvæmt stéttarfélagasamningum, er nú þegar nokkur hluti af þeirra kaupi greiddur með karlmannskaupi og algerlega handahófskennt, hvaða störf það eru, sem eru aftur í lægri launaflokkum, því að einmitt störfin, sem þær vinna í hinum lægri launaflokkum, þar sem þær fá ekki nema 78% rúm af karlmannskaupi, eru yfirleitt þau störf, sem konum fer betur úr hendi að vinna heldur en karlmönnum, ef þeir væru settir í þau störf, þar sem þær óumdeilanlega vinna verðmætari vinnu, leggja fram verðmætari vinnuorku, afkasta meira en ef karlmenn væru settir í þeirra störf og ættu því alveg óumdeilanlega að hafa einmitt sama kaup og karlar, ekki minna, í þeim störfum.

Ég hef áður farið nokkrum orðum um þær kaupgjaldskröfur, sem verkakvennafélagið Framsókn hefur nú borið fram og ætlar sér áreiðanlega að berjast fyrir, þegar verkalýðsfélögin almennt fara af stað. Það er þegar vitað af þeim breyt., sem á seinustu vikum hafa átt sér stað í samningaátökum og verkfallsátökum, þó að afstaða vinnuveitendasamtakanna í öllum tilfellum hafi verið sú, að þeir lýstu því yfir í upphafi, að þeir vildu ekki ganga að neinum kjarabótum, hvorki til sjómanna né til verkafólks, þá varð það niðurstaðan af samninga- og verkfallsátökum Landssambands ísl. útvegsmanna við sjómannasamtökin, að þar varð, þegar upp var staðið og verkfalli aflýst, um að ræða kjarabætur til handa sjómönnum í gegnum gerbreytt hlutaskipti og ákvörðun um það, að hásetar skyldu þaðan í frá fá sama verð fyrir fiskinn og útvegsmenn fengju, — um að ræða kjarabætur frá 15–23%, dálítið mismunandi eftir verstöðvum, en þó undir öllum kringumstæðum þetta 15–25% kjarabætur. Þarna varð atvinnurekendavaldið að láta undan sanngjörnum kröfum sjómanna og lagfæra þeirra kjör, þó að það væri ekki gert fyrr en eftir verkfallsstimpingar, sem vafalaust hafa kostað þá ekki síður en sjómennina ærið fé. En þeir mega nú alltaf hafa það svona, blessaðir, að láta heldur stórar fúlgur í herkostnað verkfallsbaráttunnar en að láta strax það, sem þeir ætla sér að ganga inn á, og láta það vera greitt til fólksins í kaupgjaldi. Þeir kunna ekki við, að tekið sé öðruvísi á þessu en með töngum.

Það er ekki enn þá komið til mikilla átaka hjá hinum almennu verkalýðsfélögum né verkakvennafélögum. Þó töldu verkalýðsfélögin í Vestmannaeyjum, þar sem atvinnulífi er þannig háttað, að megintekjur verkafólksins falla til í sambandi við þá vinnu, sem framkvæmd er á vetrarvertíðinni, að þau gætu ekki beðið eftir því að hefja sína kaupgjaldsbaráttu með vorinu eða á miðri vertíðinni. Það yrði talið sýna litla hollustu við atvinnulífið, ef í Vestmannaeyjum yrði lagt til verkfallsbaráttu um hækkað kaupgjald um hávertíðina. Þess vegna tóku verkalýðsfélögin í Vestmannaeyjum þann kost að hefja sína baráttu fyrir hækkuðu kaupi og bættum kjörum á sama tíma sem útgerðarmenn eyjanna stóðu í baráttu við Landssamband ísl. útvegsmanna um verðákvörðun á fiskinum og höfðu lýst yfir eins konar verkfalli, svokölluðu róðrarbanni, þangað til þeir fengju þessa ákvörðun um fiskverðið lagfærða. Þessi stöðvun var því hvílandi á atvinnulífinu í Vestmannaeyjum í byrjun ársins. Þar við bættist deila sjómanna um sín kjör, sem einnig höfðu lent í verkfallsátökum, og þá taldi verkafólkið, að það yrði að freista þess að fá sína lagfæringu þá samtímis heldur en að stöðva atvinnulífið annað sinn kannske á þessari vetrarvertíð.

Það vantaði ekki, að Vinnuveitendasamband Íslands sendi strax sinn fulltrúa til Vestmannaeyja með þann boðskap til vinnuveitendanna þar, að þó að þeir ef til vill hefðu það í huga að mæta kröfum síns starfsfólks með kjarabótum, með kauphækkunum, þá væri lagt blátt bann við því, að þeir gerðu það, af hendi Vinnuveitendasambands Íslands. Þeir fengju ekki að semja um neinar kauphækkanir til handa verkamönnum eða verkakonum, því mundi Vinnuveitendasambandið neita, neita að staðfesta slíka samninga, það yrði að vera óbreytt frá því, sem það var í fyrra. Með þessu stöðvuðust samningar. Milliganga sáttasemjara kom til. Hann reyndi að miðla málum í þessu. (Gripið fram í.) Þetta eru kaupgjaldsmál kvenna allt saman og einmitt viðhorfin eins og þau nálgast að vera það í dag. — Hann náði ekki samningum, þegar aðilar höfðu verið kallaðir hingað til höfuðborgarinnar til þess. En leikurinn barst, eins og eðlilegast var, út í Vestmannaeyjar, og þar stóð áframhaldsglíman um kaup bæði verkamanna og verkakvenna, þar til yfir lauk. Þarna var að vísu aðeins um bráðabirgðasamninga að ræða í þessum málum, samninga, sem miðuðu að því að fá samkomulag um kaupgjaldið á þessari vetrarvertíð, en þrátt fyrir það var fullerfitt að ná fram lausn á þeim málum. Verkamennirnir stóðu þá upp frá samningaborðinu að síðustu við sína viðsemjendur í Vestmannaeyjum á þann hátt, að þeir höfðu fengið 14.9% kauphækkun, og verkakonurnar vildu ekki sætta sig við sams konar kauphækkun. Þær höfðu það að engu, þó að fréttir væru þá birtar í sumum Reykjavíkurblöðunum, blöðum stjórnarflokkanna beggja, um það, að deilan í Vestmannaeyjum væri leyst, það væri búið að semja við verkamennina, en þeim hafði nefnilega láðst að geta þess, að það var enn þá ósamið við verkakonurnar og þær höfðu borið fram aðrar og hærri kröfur, kröfur um það, að bilið á milli kvenna- og karlakaups yrði minnkað í þessum samningum. Þær stóðu við það. Þær gáfu ekki kost á sínu vinnuafli, nema því aðeins að samið væri fyrst við þær um verulega hækkun á kvennakaupinu. Og það, sem þær að lokum sættu sig við til bráðabirgða, var, að kaup verkakvenna skyldi hækka í almennri dagvinnu um 19%, og er það því nú kr. 19.19 á tímann, í staðinn fyrir að það var kr. 16.14, þegar deilan hófst. Við vinnu í þurrkhúsum, en í Vestmannaeyjum er sú vinna nú vaxandi, og við alla pökkun á saltfiski og nokkrar fleiri tegundir af vinnu samdist nú um, að kvennakaupið yrði í Vestmannaeyjum kr. 21.38 á klst. Sú vinna, sem áður var goldin karlmannskaupi, en það eru þó nokkuð margar tegundir vinnu, þ. á m. fiskflökun og vinna við skreið og að nokkru leyti við saltfisk, skyldi nú borgast með því karlmannskaupi, sem um hefði samizt í Vestmannaeyjum, sem er kr. 23.75. Árangurinn, sem konur hafa náð í Vestmannaeyjum einar sér, aðeins með fjárhagslegum stuðningi víðs vegar að af landinu, er sá, að þær hafa nú í almennri vinnu út þessa vertíð kr. 19.19 á klst. Karlmenn hafa almennt nú annars staðar á landinu kr. 20.67, lítið eitt hærra, en við vissa tegund vinnu, eins og þurrkhúsavinnuna og pökkun á saltfiski o.fl., hafa þeir nú kr. 21.38 eða nokkru hærra en almenna karlmannakaupið er í landinu í dag. Og þó að karlmenn búi nú enn víðast hvar á landinu við kr. 20.67 á tímann í almennri vinnu, eru þó allmargar tegundir af vinnu í Vestmannaeyjum goldnar nú konum með kaupinu kr. 23.75.

Þetta hefur gerzt í kaupgjaldsmálum kvenna, síðan frv., sem ég flyt með fimm flokkssystkinum mínum, og síðan frv. um launajöfnuð kvenna, sem hér er til umr., var borið fram. Þetta er mjög athyglisverður fyrsti áfangi, bráðabirgðaáfangi, sem sýnir það, að verkakvennafélögin eru ekki líkleg til þess að gefa upp kröfur sínar um 90% af kaupi karla í þessari samningaviðureign, sem stendur yfir á árinu 1961, en launajöfnunarfrv. Alþýðuflokksmannanna gerir ráð fyrir að ekki breyti neinu í launamálum kvenna.

Þá má geta þess, að til þess var vitnað í umr. í Ed. í dag, að vestur í Tálknafirði er rekið stórt og myndarlegt hraðfrystihús, byggt af miklum myndarskap á síðustu árum. Þar hefur undanfarin fjögur ár verið goldið sama kaup körlum og konum, og frystihúseigandinn þar hefur fullyrt það, hefur m.a. sagt það í ríkisútvarpið frammi fyrir allri þjóðinni, að konur séu a.m.k. eins afkastamiklar í hraðfrystihúsum og karlmenn og eigi að fá sama kaup og þeir við öll störf í fiskiðnaðinum, enda hefur hann framkvæmt það á þann hátt, að kvennakaupið hefur verið þar s.l. ár kr. 19.34 á klst. í dagvinnu, þegar konur hafa almennt annars staðar, bæði hér í Reykjavík og annars staðar, haft kr. 16.14.

Þá hefur það og gerzt, að verkalýðsfélag norður á Skagaströnd hefur náð samningum nú á fyrstu mánuðum þessa árs, eftir að þessi frumvörp komu fram í þinginu, og samið um það, að þar skuli nú fyrst um sinn borgað kr. 20.67 við alla vinnu í fiskiðnaðinum, hvort sem er hjá konum eða körlum, þ.e.a.s. hið almenna karlmannskaup í landinu. En það er meira, sem hefur verið samið um þarna. Enn fremur hefur verið samið um það, að þegar verkamannafélagið Dagsbrún hafi samið um karlmannskaup, skuli það kaup, sem Dagsbrún semji um, verða hið sameiginlega kaup, sem gildi fyrir konur sem karla á Skagaströnd. M.ö.o.: á þessum stað er búið að slá því föstu, að konur skuli hafa fullkomið launajafnrétti á við karlmenn frá því nú í janúarmánuði, fyrst miðað við núv. karlmannskaup, en eftir að verkamannafélagið Dagsbrún hafi náð nýjum samningum um karlmannskaup, skuli það karlmannskaup verða sameiginlegt kaup kvenna og karla þar norður frá.

Ef þetta bendir ekki nokkuð ákveðið í þá átt, að launajafnrétti náist, ef ekki væri gripið inn af löggjafarvaldinu á þann hátt að torvelda sókn kvennanna í sínum samtökum til launajafnréttis, ef þetta eru ekki allskýrar bendingar í þá átt, þá kann ég ekki að þýða þessar bendingar, sem ég hef nú skýrt frá dæmum um, en ég tel, að þetta sýni það nokkurn veginn, bæði árangurinn í Vestmannaeyjum og árangurinn á Skagaströnd, að launajafnréttismálið er nær fullri framkvæmd, ef samtökin eiga að vera óáreitt um það, og það er enginn vafi á því, að stórkostlegum árangri hefði verið náð, ef atvinnurekendur fengju ekki það skjól að standa nú á bak við og segja: Frv. hans Jóns Þorsteinssonar og hans Eggerts og Friðjóns, sem Alþfl. hefur staðið að á Alþ. og Sjálfstfl. hefur líka staðið að á Alþ., gerir ekki ráð fyrir neinni breyt. á launakjörum kvenna á árinu 1961 og aðeins hækkun um 76 aura á tímann á árinu 1962 og síðan um nokkra aura, svipað á hverju ári, þar á eftir fram til ársins 1967. Við getum því ekki verið að taka það mál aftur úr hendi löggjafans. Það hefur þar verið, og þar hefur því verið ráðið svona til lykta af miklum áhugamönnum um launajafnréttismál kvenna, og þetta finnst þeim vera mátulegt. Við þurfum ekki sem atvinnurekendur að brjóta þann boga, sem þeir hafa dregið upp á þennan hátt.

Það er því alveg augljóst mál og þarf ekki að fara um það miklu fleiri orðum, að þetta frv. er borið fram, þegar vitað var, að mikil sókn, stórsókn, var að hefjast í launajafnréttisbaráttu kvenna, og er borið fram til þess að torvelda hana og verður líka til þess, nema því aðeins að hv. Nd. beri gæfu til þess að samþykkja breyt. á þessu frv. á þann hátt, að það verði ekki frv. um launajöfnuð í áföngum, heldur um launajafnrétti kvenna, helzt frá gildistökudegi laganna, og það er ekki slíkt stórskref, að þjóðfélagið og atvinnulífið í landinu beri það ekki, þegar atvinnutekjur þjóðarinnar hafa vaxið um meira en þriðjung á síðustu fimm árum. Það er þá aldrei hægt að framkvæma launajafnrétti kvenna, ef ekki þegar slíkur vöxtur hefur átt sér stað á þjóðartekjunum.

Verkakvennafélag hér nærlendis, suður í Keflavík, hefur nú fyrir þrem vikum eða svo borið fram þá kröfu við sína viðsemjendur, Vinnuveitendafélag Suðurnesja, að þeir samþykki þar sams konar launahækkun til kvenna í Keflavík og Njarðvíkum og verkakvennafélagið Snót í Vestmannaeyjum náði fram í samningum um daginn. En verkakvennafélag Keflavíkur lét það fylgja með, að þessi krafa væri samkomulagsbeiðni til vinnuveitendanna á Suðurnesjum um lagfæringu til bráðabirgða, ef þeir vildu gera það án vinnustöðvunar. Ef hins vegar þyrfti til vinnustöðvunar að koma, væru kröfurnar, sem Verkakvennafélag Keflavíkur bæri fram, þær sömu og verkakvennafélagið Framsókn og verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði hafa áður lagt fram og þegar hafið viðræður við atvinnurekendur um. Og þá varðaði verkfallið að knýja fram þær kröfur. Tveir samningafundir hafa nú þegar verið milli aðila suður í Keflavík, og var ég fyrir hönd Alþýðusambandsins mættur á öðrum þeirra. Á fyrri fundinum var orðið við ósk Vinnuveitendasambandsins um að fresta verkfallsaðgerðum vegna þessara krafna um nokkra daga, en þegar þeir dagar voru liðnir, mætti fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands og fulltrúar Alþýðusambandsins og fulltrúar viðkomandi verkakvennafélags á öðrum samningafundi, og þá báru fulltrúar Vinnuveitendasambandsins enn fram óskir um það að fresta aðgerðum í þessu máli um nokkra daga, þótt ekki væri nema fram yfir þá helgi, sem þá var framundan, því að þá sögðu þeir að það væri líklegt, að niðurstaða fengist um viðtöl þau, sem hefðu verið í gangi sameiginlega af hendi Dagsbrúnar, Hlífar í Hafnarfirði, Verkamannafélags Akureyrar, Þróttar á Siglufirði, kannske nokkurra fleiri félaga, ásamt Vinnuveitendasambandi Íslands, en þeir höfðu fyrir nokkru skrifað hæstv. ríkisstj. og óskað eftir því, að ríkisstj. segði til um það, hvort hún treysti sér ekki til þess að finna einhverjar leiðir til verðlækkana í landinu, sem gætu leitt til þess, að verkalýðsfélögin gætu metið þær verðlækkanir, sem þannig fengjust, til jafns við beinar kauphækkanir og dregið þær lagfæringar frá sínum kröfum, lækkað þær að sama skapi. En fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands sagði einmitt á þessum fundi, sem ég var á með honum, að sér fyndist það vera líklegt, að upp úr þeirri næstu helgi kæmi hæstv. ríkisstj. með till., sem gengju til móts við þessar óskir verkalýðsfélaganna, og gæti þá viðhorfið um kauphækkunarkröfur eitthvað breytzt. Það var ekki talið alveg vonlaust þá, að eitthvað slíkt gerðist í þessum viðræðum. En sá viðræðufundur, sem þarna var vitnað til, átti sér stað nú eftir síðustu helgi og leiddi ekki til neins. Hæstv. ríkisstj. tilkynnti þá, að hún gæti ekki orðið við neinum af þeim óskum, sem Alþýðusambandið hefði sett fram fyrir fimm mánuðum um það að fella niður söluskatt, 8.8% söluskatt, gera ráðstafanir til lækkunar á útsvörum á almennum launatekjum, framkvæma tollalækkanir, lækka vexti eða aðrar leiðir, sem verkalýðsfélögin gætu metið jafngildar kauphækkunum, ekkert af þessu gæti hæstv. ríkisstj. tilkynnt á þessum síðasta fundi, en hún væri öll af vilja gerð, það væri bara getan, sem brysti. Samt sem áður var enn látið í veðri vaka, að hæstv. ríkisstj, mundi nú reyna að hugleiða allar aðrar leiðir en þessar áframhaldandi og það væri því ekki útilokað, að aðilar hittust á ný seinna til þess að reyna að koma sér saman um einhverjar slíkar aðgerðir. En vonirnar eru sem sé dvínandi, því að þarna voru gefin ákveðin svör við því, að engar af ábendingum frá því í haust í þessa átt væru framkvæmanlegar. Það skorti getuna hjá hæstv. ríkisstj., en ekki viljann.

Nú standa þessi mál svo, að þessar vonir um lausn ágreiningsmálsins milli verkakvenna og atvinnurekenda í Keflavík virðast vera brostnar. Verkakonurnar héldu félagsfund, eftir að þær höfðu ákveðið á stjórnar- og trúnaðarráðsfundi að boða til verkfalls, ef þær fengju ekki fram óskina um bráðabirgðalagfæringu á þann hátt, að kaupið í Keflavík yrði hjá verkakonum það sama og í Vestmannaeyjum, og umr. um þessi mál höfðu frestazt svona samkv. óskum vinnuveitenda, og félagsfundurinn ákvað einróma, er mér tjáð, að boðað yrði til verkfalls frá og með kl. 12 á miðnætti aðra nótt, laugardag, aðfaranótt sunnudagsins.

Af þessu geta menn séð, að það tekur hvert verkakvennafélagið á fætur öðru upp kröfurnar um, að atvinnurekendur minnki bilið milli kvenna- og karlakaupsins til bráðabirgða, líkt og gert hefur verið með samningum í Vestmannaeyjum. Er það mikil sanngirniskrafa, einkanlega á þeim stöðum, sem eru líkt settir og Vestmannaeyjar, að meginhlutinn af árstekjunum fellur til í sambandi við vetrarvertíðina, og hvort sem er verkakonur eða verkamenn telja sig ekki geta, þegar vitað er, að kaupbreytingar verða á þessu ári, beðið af sér vetrarvertíðina og vilja fá tekjuaukann, enda full þörf fyrir það, í sambandi við vetrarvertíðarstörfin. En þegar þessum sanngirniskröfum er neitað, lendir það svo, að ekki aðeins verkakvennafélagið Snót í Vestmannaeyjum, heldur einnig Verkakvennafélag Keflavíkur lætur það varða verkfalli, leggur út í verkfallsbaráttu til þess að knýja þá fram eitthvað af sínum meginkröfum í áttina til aukins kaupjafnaðar.

Það er því alveg sýnt af þessu, að ef Alþingi lögfestir ekki einhverja þá lausn á þessum málum, sem verkakonurnar sætta sig við og gengur lengra eða a.m.k. jafnlangt og þær ætluðu sér að ná í þessum áfanga, — það er algert lágmark, — þá fer einhver hluti af því, sem bezt væri kominn í hækkuðu kaupgjaldi til kvenna, í herkostnað, verkfallskostnað, stöðvun atvinnulífs til tjóns fyrir þjóðfélagið, — því að baráttan virðist vera óumflýjanleg, — og það tel ég miklu verr farið.

Ég er alveg sannfærður um, að það, sem atvinnurekendurnir í Keflavík eða á Suðurnesjum ættu að gera, væri að gera bráðabirgðasamkomulag við verkakonurnar þar um svipaða lagfæringu á kaupi og konur í Vestmannaeyjum hafa þegar fengið og Vinnuveitendasamband Íslands hefur talið sér fært að samþykkja. Og það hljóta að vera vandfundin rök fyrir því, að Vinnuveitendasamband Íslands geti ekki einnig í Keflavík samþykkt það, sem þeir treystu sér til að samþykkja í Vestmannaeyjum, og á því eiga þeir kost, án þess að til vinnustöðvunar komi, þannig að verkakvennafélagið í Keflavík bíði þá með sínar aðrar kröfur fram yfir vertíðarlok, tryggi vinnufrið á vertíðinni, gegn því að þessi bráðabirgðalausn fáist.

Ég hef ekki heldur getað heyrt annað en atvinnurekendurnir í Keflavík telji það sanngirniskröfu verkakvennanna þar að fá þessa bráðabirgðaleiðréttingu á kaupi sínu. Þeir viðurkenna, að kaupið sé orðið svo lágt, að engin leið sé að lifa á þeim tekjum, sem kaup, hvort sem er verkamanna eða verkakvenna, ákveður þessum stéttum nú, og það þurfi að leiðrétta það. En það er eins og fyrri daginn, að þeir segja, að þó að þeir væru allir af vilja gerðir, þá fái þeir það ekki, þeim er ekki leyft það af Vinnuveitendasambandinu. Þeir eru meðlimir í því, og það segir við þá: Ef þið semjið í forboði okkar, þá verður beitt hinum gífurlega háu sektarákvæðum Vinnuveitendasambandsins gagnvart ykkur. — Og það vilja þeir ekki gera, þora ekki að gera. Það hefur því orðið þannig, að þeir hafa ekki risið af krafti gegn þessu ofurvaldi Vinnuveitendasambandsins, hótunum þess um að beita sektarákvæðum, sem lög þeirra heimila þeim, fyrr en verkfallstjónið er að verða þeim svo tilfinnanlegt, að atvinnurekstur þeirra sé í voða. Þá fyrst brutu þeir af sér handjárnin í Vestmannaeyjum og sömdu.

Enn þá er ekki skollið á verkfall í Keflavík. Það er tæpur sólarhringur, þangað til það á að hefjast. En af því yrði sjálfsagt ekkert eða það yrði a.m.k. mjög skammvinnt, ef Alþ. sæi sig nú um hönd og breytti þessu ófullnægjandi frv., — frumvarpinu, sem torveldar að öllu leyti samningaaðstöðu verkakvennafélaganna, eins og ég hef margsinnis sýnt fram á, yrði nú breytt í það horf að bæta aðstöðu þeirra, lögfesta annaðhvort svo ríflega kauphækkun, að félögin teldu sig ekki þurfa að fara út í bráðabirgðaaðgerðir til að rétta sinn hlut, eða ef til vill málið leyst á þann hátt, að öll misklíð um laun kvenna í hlutfalli við karla væri endanlega leyst. En það gerist því aðeins, að Alþingi afgreiði frv. um sömu laun til handa konum sem körlum. Mér er kunnugt um það, að á ýmsum stöðum á landinu hafa verkakvennafélögin verið að undirbúa sínar kröfur, og þau hafa nú mjög í huga á ýmsum hinum stærri útgerðarstöðum að stilla kröfunni þannig, að konur fái við öll störf í hraðfrystihúsunum, fyrir alla vinnu í sambandi við fiskiðnaðinn, sjávarútveginn sama kaup og karlar. Þannig virðist vera hljóðið í þeim að gera kröfurnar heldur strangari en Alþýðusambandsþingið í haust ákvað sem lágmarkskröfur. Það bendir í þá átt, að verkakonurnar í landinu séu síður en svo þess sinnis að slaka til frá þeim kröfum, sem þá voru gerðar, heldur miklu fremur ráðnar í því að herða á þeim, taka fyrir jafnvel stórt svið á vinnumarkaði þeirra, eins og hraðfrystihúsin og yfirleitt fiskiðnaðinn, og berjast nú fyrir kröfunni um fullkomið launajafnrétti við öll þau störf. Og mín skoðun er sú, að það yrði afskaplega erfitt fyrir atvinnurekendur, þótt þeir hefðu Vinnuveitendasamband Íslands og ríkisvaldið á bak við sig til að standa á móti þeirri kröfu, að standast til langframa kröfu um algert launajafnrétti kvenna og karla í hraðfrystihúsunum, því að það er þannig, að það er ekki hægt að reka eitt einasta hraðfrystihús í landinu deginum lengur, stundinni lengur en meðan konurnar eru þar að verki. Ef þær einn góðan veðurdag ganga frá starfi og segja: Við látum ekki í té okkar vinnuafl, nema því aðeins að það sé virt á sama hátt og vinnuafl karlmannanna, stéttarbræðra okkar, og okkur goldið sama kaup og þeim, — þá eru öll hjól þar stöðvuð, öll vinna þar lögzt niður. Það er ekki hægt að reka eitt einasta hraðfrystihús á landinu með karlmönnum einum, vinnuaflið er ekki fyrir hendi, og ef konurnar láta sig vanta þar, þá er þar allt stöðvað. Og það væri ekkert ófróðlegt að sjá, hver vinnuafköstin yrðu hjá karlmönnum með karlmannskaupi við fjölmörg störfin í hraðfrystihúsunum, við innpökkunina, við snyrtinguna á flökunum, við vigtunina o.s.frv. Ég er alveg viss um það, að eigendur hraðfrystihúsanna segðu, þótt þeir hefðu aðstöðu til þess að láta karlmennina vinna sín störf: Nei, þessu hættum við, þessu hættum við. Við tökum heldur á okkur einhverjar sektir frá Vinnuveitendasambandi Íslands og borgum konunum karlmannskaup, fáum þær til starfa og rekum okkar rekstur þannig áfram, því að á þann einn hátt er það hægt. — Það er líka enginn vafi á því, að ekkert væri eins drepandi og eyðileggjandi fyrir vinsældir atvinnurekenda og þeirra flokka í landinu, sem stilltu sér að baki þeim til þess að standa fyrst og fremst á móti launabaráttu kvenfólksins.

Ef konurnar því taka sig saman, hvað sem þessu frv. líður, og knýja fram sín mál, þá er það þeim fært á hverju vinnusviðinu á fætur öðru, og mín spá er sú, að fyrst og fremst allur fiskiðnaðurinn, öll hraðfrystihúsin, öll vinna við skreið, öll vinna við saltfisk verði goldin með karlmannskaupi, áður en árið 1961 er liðið, þó að frv. um launajöfnuð kvenna geri ekki ráð fyrir neinni breytingu á því herrans ári, af því að það er ekkert afl til í landinu, sem getur staðið á móti samtökum og vilja kvenfólksins sjálfs í því að knýja þetta fram, og aðstaða þeirra er orðin margfalt sterkari nú en nokkru sinni fyrr, af því að þátttaka þeirra í þessum störfum er orðin miklu almennari en hún hefur verið nokkru sinni fyrr, svo almenn, að í fjöldamörgum hraðfrystihúsunum eru konurnar í meiri hluta og vinna ekki aðeins þau störf, sem konur unnu upphaflega aðallega í húsunum, heldur einnig flökunina og sérhver þau störf, sem þar eru unnin. Og þegar menn horfa fram á það, að verkakvennasamtökin í landinu hafa aðstöðu og eru sannarlega í þeim hug að knýja þetta fram, þá eru ekki eftir nema rytjur og rifrildi og tætlur af launamisréttinu, sem sæmst væri fyrir Alþingi að láta ekki standa á sér að afnema og það heldur á þessu þingi en eftir 6 eða 7 ár.

Það má vel vera, að hv. Alþingi velji sér heldur þann kostinn að vera þarna dragbíturinn og afsali sér þeim sóma, sem það geti haft af því að afnema launamisrétti kvenna á einum degi eða einni nóttu. En um það þarf auðvitað engum blöðum að fletta, að nú strandar málið ekki á því, að ekki sé þingmeirihluti fyrir hendi. Það strandaði þannig 1948, fyrir nærri 13 árum. Það strandaði þannig 1953, en þá stóð bæði á Sjálfstfl. og Framsfl. til að fylgja málinu. Alþfl. og Alþb. — eða Sósíalistaflokkurinn þá — höfðu ekki þingstyrk til að koma málinu fram. Það strandaði þannig 1954, og frv. mitt, sem borið var fram í haust, strandaði á því, að stjórnarflokkarnir vildu ekki greiða götu þess í þingnefnd, þannig að það kæmi fyrir þingdeildina, og sýnir það andúð þeirra á því að stíga sporið heilt til fullkomins launajafnréttis. Þá, þegar komið er alveg á síðustu stundir þingsins, er rokið upp til handa og fóta, skilað nál. í Ed. um það frv. um þessi mál, sem er til tjóns fyrir verkakonurnar, fyrir launþegana í röðum kvenna yfirleitt, því að það mundi torvelda alla samningsaðstöðu um stóran áfanga í launajafnréttisátt nú þegar, og reynt að knýja það í gegnum þingið á einum degi í Ed., bæði 2. og 3. umr., allar till. til umbóta á því þar strádrepnar, ekki eftir reglum neinna þingræðislegra lögmála, heldur með handjárnum, flokkshandjárnum. Síðan er hv. Nd. látin vera verklaus hér í gær og boðað, að þm. megi vera viðbúnir fundarboðun síðari hluta dagsins í gær eða jafnvel á kvöldfund. Og þegar hv. Ed. hafði hespað málinu um launajöfnuð kvenna og karla af með þessum líka þinglega hætti, þá er boðaður fundur í Nd. kl. 9 um kvöld til þess að taka það þar fyrir, og maður skyldi nú ætla, að það væri ætlunin að fá það afgreitt við 1. umr. og síðan vísað til n., sem kæmi saman upp úr helginni, — það er ekki venja hér yfirleitt að hafa fundi á laugardögum — nema ef málinu lægi svo mikið á og málið væri svo merkilegt, að þm. væru kvaddir til fundar í hv. heilbr.- og félmn., sem lagt hefur verið til að málið færi til, á morgun, laugardag. (Gripið fram í: Það er búið að boða hann í kvöld.) Ja, það er einmitt það, sem ég ætlaði að segja til þess að sýna, hvað vinnubrögðin væru féleg og þingleg, að það er búið að boða hv. heilbr.- og félmn. til fundar í nótt, að loknum þessum fundi. (Gripið fram í.) Já, já, það vantar ekki. Það vantar ekki viljann til þess að brjóta allar þingræðisreglur í sambandi við þetta mál. Það er í raun og veru alveg sjálfsagður hlutur, að ef hv. stjórnarflokkar kynnu sér nokkurt hóf í sínu offorsi í sambandi við þetta mál, þá létu þeir sér það auðvitað nægja, sem þeim var vitanlega í lófa lagið, að ljúka umr. um þetta mál, 1. umr., á þessari nóttu, vísa svo málinu til n. og n. starfaði næsta dag. Nei, það er ekki ætlunin. Þessu máli, sem á að leiða launajafnréttismál kvenna til lykta á 6–7 árum, verður að hespa af á nefndarfundi á þeirri sömu nóttu sem 1. umr. fer fram um málið, — eru þetta ekki dásamleg vinnubrögð? — meðan ráðherrar og meginhluti stjórnarliðsins sefur? (Gripið fram í.) Það er ekki hv. 1. þm. Vestf., sem er neinn dómari um það, hvað sé vitlegt eða vitlaust, en ég hygg þó, að flestir fallist á, að það séu vitfirrt vinnubrögð að boða nefndarfundi um miðjar nætur eða síðari hluta nætur. Og mér þætti gaman að sjá framan í þann þm., sem segði það án þess að depla auga, að það væru ekki fágæt vinnubrögð að boða til nefndarfunda á Alþ. síðari hluta nætur, kl. að ganga þrjú eða svo. Og ég sé ekki heldur, að það flýti neitt fyrir málinu. Ég sé ekki annað en það sé í lófa lagið að fá nál. á morgun og taka síðan málið fyrir strax upp úr helginni, á fundi á mánudaginn, með þinglegum hætti og e.t.v. þá á þann hátt, að betri friður fengist við stjórnarandstöðuna um framkvæmd málsins heldur en líklegt er að tryggður sé með svona vinnubrögðum, því að þau eru ekki þingleg. Það getur enginn haldið því fram, enda veit hv. 1. þm. Vestf., að svo er ekki, og þess vegna brestur hann stillingu til þess að sitja þegjandi, þegar er verið að upplýsa það hér, að hann boði nefndarfundi um miðjar nætur. Ég veit aldrei til þess á mínum þingferli síðan 1946, að nefndir hafi verið kallaðar saman seinni part nætur. Það hefur stundum verið gert að halda þingfundi fram eftir nóttu og þykir ekki góð regla, er sjaldan gert, nema þegar þingmeirihluti vill knýja mál með nokkuð óeðlilegum hætti til endanlegrar lausnar. Stundum getur það verið réttlætanlegt, þegar nauðsyn brýtur lög. En að nefndarfundir hafi verið haldnir um nótt, ég veit ekki til þess nokkur dæmi, og ég efast um það, að nokkur maður hafi setið svo lengi á þingi, að hann viti þess nokkur dæmi. Og ég mundi nú vilja mælast til þess, að þingmannsréttur manna væri virtur það mikils, að þegar þessum þingfundi lyki, væri horfið frá boðun nefndarfundar að honum loknum og látið bíða að gera það þangað til um fótaferðartíma í fyrramálið. Þá mundi ég alveg fúslega leggja það á mig að koma hér á fund, hvort sem hv. formanni þóknaðist að hafa það kl. 8 eða 9. En ég tel það nálega ósæmilegt að halda fast við það, að það sé gert kl. að ganga 3 eða um 3 að nóttu, um óttuskeið. En það er sjálfsagt atriði, sem fæst ekki umbreytt. Þetta skal vera kórónan á verkið. Þetta er til þess að prýða alla meðferðina á þessu prýðilega máli, sem á nú að leiða hér til lykta, að þegar konur standa þannig að vígi, að þær eru í stórsókn um lagfæringar á sínum launamálum, þá á að afgreiða þar lög, sem gera ekki ráð fyrir neinni lagfæringu á launakjörum kvenna á því herrans ári, sem nú er að líða, síðan skulu þær á næsta ári fá 76 aura hækkun á klst. og síðan svipaða hækkun í næstu fimm ár.

Ég held, að eftirmæli þessa frv. verði aldrei glæsileg, og sennilega verða þau það því síður, sem lengra líður. Það verður öllum ljóst, að þrátt fyrir það, þó að launabarátta kvenna sé stórkostlega torvelduð með svona lagasetningu, eins og sakir standa, þar sem með því verður stappað stálinu í atvinnurekendur um að semja ekki um neinar meiri kjarabætur en lögin ákveði, sízt meiri, því að það sé ætlun löggjafans, að þeir fari ekki hraðar í þetta, að þá séu þó þrátt fyrir það allar líkur til þess, að stéttarfélögin muni ekki beygja sig undir þessi lög, ekki bíða eftir seinagangi þeirra, heldur halda fram sínum málum á grundvelli samninga og ná kjarabótum fram á undan þessum lögum, þannig að þau verði þrátt fyrir það, þó að þeim sé ætlað að torvelda samningana, því að það þykist ég sjá, þegar öllum umbótatillögum á frv. er hafnað, hafnað með handjárnuðu stjórnarliði til síðasta manns, þá tel ég atburði síðustu vikna í kaupgjaldsbaráttu kvenna vera nokkurn veginn örugga sönnun þess, ákveðna vísbendingu í þá átt, jafnvel örugga sönnun þess, að verkakvennasamtökin með stuðningi heildarsamtakanna muni ná stærri áföngum á árinu 1961 og 1962 og á þeim næstu en lögin ætlast til. Og fari svo, sem mín spá er, að lögin verði eftir þróun málanna á sviði samninganna, þá eru þau vitanlega orðin að dauðu pappírsgagni. Það væri það bezta, sem út úr þessu gæti komið, ef þetta frv. verður knúið fram óbreytt, því að hinn verri hlutur er frv. sýnilega ætlaður, nefnilega sá, að draga úr baráttuþreki og sóknarhug verkakvennasamtakanna, út frá því, að hægt sé að segja: Blessaðar verið þið ekki að berjast fyrir hækkuðu kaupi, verið ekki að fórna neinu í verkföllum, því að ef þið bara bíðið, ef þið bíðið nógu lengi, eins lengi og lögin ákveða, þá fáið þið þetta þó smátt og smátt án verkfallsbaráttu. — Og ef nokkuð er til þess að svæfa og deyfa eggjar eins og þetta, þá veit ég ekki, hvað það ætti að vera. Vissulega örvar það ekki, því getur enginn haldið fram. Þetta er vel til þess fallið að slæva baráttueggjar. En það var alveg ástæðulaust að beita löggjafarvaldinu til þess að hindra framsókn verkakvennanna í því að berjast fyrir launajafnrétti sínu, og hefði sízt mátt vænta þess, að það yrði gert af Alþfl. Ég hefði viljað óska honum betra hlutskiptis, meiri trúmennsku við þessi baráttumál kvenna en hann nú sýnir, ef hann heldur fast og óbifanlega við það að knýja þetta frv. fram í þessu formi, þessu vesæla formi, sem frv. er nú í, í beinni mótsögn við óskir og kröfur verkakvennasamtakanna í landinu á þessu ári og því, sem nú var að líða.

Ég lýk svo máli mínu að þessu sinni við 1. umr. málsins og tel það ekkert um of, þó að ég hafi notað þær næturstundir, sem mér gáfust til þess að ræða þessi mál og viðhorf til þeirra á seinustu árum og eins á líðandi stund, því að það var vitað, að það var fullkomlega aðstaða til þess fyrir stjórnarliðið að koma málinu til 2. og 3. umr. á einum degi, eftir að nefnd hafði fjallað um málið, t.d. á eðlilegum starfstíma í fyrramálið. En þeirri aðferð mótmæli ég sem óþinglegri, sem ranglátri í garð þingmanna, sem leggja á sig að vaka á næturfundum, þegar aðrir leyfa sér að liggja í bóli sínu og eru ekki kvaddir til þingstarfa, þó að óskað sé, að fara á nefndarfundi að boði nefndarformanna eftir miðnætti, — það tel ég óþinglegt í alla staði og mótmæli því og fer enn þá fram á það við formann hv. heilbr.- og félmn., að hann fresti þessum nefndarfundi til fótaferðartíma í fyrramálið. Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið.