25.03.1961
Neðri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. hefur nú nýlega lokið því afreki að hafa talað í þessu máli hálfan sjötta klukkutíma (Gripið fram í: Er málið ekki umtalsvert?) Ég veit ekki, hvaða sálrænar orsakir kunna að liggja til þess, að hv. þm. hefur haft svo mörg orð um þetta mál, en ég vil leggja á það áherzlu, að mér finnst það enn hafa sannazt í ræðuflutningi hans, að magn og gæði þarf ekki alltaf að fylgjast að. Það hefur komið fram í ræðum framsögumanna hinna tveggja minni hl. hv. heilbr.- og félmn., að þeir eru raunar í þessu máli sem svo mörgum öðrum í seinni tíð eins og tveir helmingar á sama epli. Nú hafa þeir sem sé samstöðu um að vera algerlega á móti þeirri réttarbót, sem með þessu frv. er lagt til að lögfest verði. Þeir hafa lagt mjög áherzlu á þá skoðun sína, að þeir telji tilgang þessa frv. vera að draga úr þeim hraða, sem kominn hafi verið á launajafnréttisbaráttu milli karla og kvenna í þessu landi. Þetta frv. sé fyrst og fremst áhugamál atvinnurekenda, alls ekki líklegt til að styðja að hagsmunum kvenna, og ýmislegt fleira í þeim dúr hafa þeir sagt um það. Jafnframt hafa þeir nokkrum sinnum látið þess getið, að Sjálfstfl, hefði nú alls ekki áhuga á að bæta hag kvenna, sem svo hart væru leiknar í launamálum eins og raun hefur borið vitni.

Við skulum nú athuga lítillega, hver hraðinn á framkvæmdum í þessum málum hefur verið á undanförnum árum, og halda okkur þá aðeins við þau mál, sem hafa verið samþykkt hér á Alþingi um þetta efni.

Árið 1953 báru 7 þm. Sjálfstfl. fram þáltill., sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna.“ Og tillögugreinin hljóðaði svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna verði staðfest að því er varðar Ísland. Jafnframt undirbúi ríkisstjórnin nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykktin komist í framkvæmd.“

Í grg. þessarar þáltill. sagði m.a.:

„Eins og kunnugt er, hefur Ísland um skeið verið aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni, en á þingum hennar hefur jafnrétti karla og kvenna í launamálum verið rætt og gerðar um það ályktanir. Með samþykkt, sem gerð var á þingi stofnunarinnar árið 1951, var lagt til við aðildarríkin, að þau tryggðu það, að reglan um jöfn laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf komi til framkvæmda hjá þeim og taki til alls starfsfólks.“

Í meðförum þingsins var þessari tillögu breytt nokkuð, og sú breyting var byggð á skýrslu, sem n. þeirri, sem um málið fjallaði í þinginu, hafði borizt frá félmrn. Breytingin, sem n. gerði samkv. skýrslunni, var gerð af ástæðum, sem í skýrslunni voru frekar greindar, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. samþykktinni sjálfri er ekkert því til fyrirstöðu, að hún sé fullgilt, án þess að ákvæðum hennar sé fullnægt á þeim tíma, er fullgilding fer fram. En þá er hlutaðeigandi skuldbundinn til að bæta úr því innan árs, frá því að fullgildingin var skráð. Almennt fylgja þó menningarríki þeirri reglu að koma málum sínum fyrst í það horf, sem hlutaðeigandi samþykkt krefst, og fullgilda síðan samþykktina, enda er það með þeim hætti öruggast, að farið verði eftir samþykktinni og ríkið geti staðið fyllilega við sínar skuldbindingar.“

Samkv. þessu var þáltill. breytt í það horf, að Alþingi ályktaði, að gerðar skyldu ráðstafanir til að undirbúa, að ákvæði þessarar alþjóðasamþykktar gætu komið til framkvæmda hér á landi, en ekki, eins og hv. 4. landsk. þm. sagði í ræðu sinni hér í gær, að tillagan hefði fjallað um, að Alþingi skyldi láta athuga, hvað gera þyrfti, til þess að ákvæði þessarar samþykktar kæmust hér í framkvæmd. Ríkisstj. var með þál. beinlínis falið að undirbúa ráðstafanir til þess.

Næsta skrefið, sem stigið var á Alþingi í þessu máli, var samþykkt lagafrv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það frv. var samið af núv. hæstv. fjmrh., og í því var ákvæði í lok 3. gr. frv., sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf.“ Þetta má segja að hafi verið stærsti raunverulegi áfangi, sem náð hafi verið með lagasetningu í þessum málum og í raun og veru allt fram á þennan dag.

Árið 1957 gerðist það á Alþ.,ríkisstj. bar fram þáltill. um, að Alþ. heimilaði henni að staðfesta samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun kvenna og karla. Var sú tillaga samþykkt ásamt þeirri viðbót, að Alþ. skoraði jafnframt á ríkisstj. að gera hið fyrsta ráðstafanir til þess, að sú till. kæmist í framkvæmd.

Ég hygg, að þetta ágrip af sögu málsins, þeim þætti þess, sem hefur hlotið framgang hér á Alþ., geti nokkuð sýnt, hver þáttur Sjálfstfl. hefur verið í þessum málum, en Sjálfstfl. var öllum þessum málum mjög hlynntur.

Fjórða málið, sem samþykkt náði um þessi atriði hér á Alþ., var ári eftir að þessi tillaga um samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var gerð. Þá var borin fram till. um, að skipuð skyldi nefnd til að athuga, að hve miklu leyti konum og körlum á Íslandi væru greidd sömu laun, og kom í ljós, að það var vegna þess, að ekkert hafði gerzt í þessum málum, sem miðaði í áttina til launajafnréttis. Hin langa ræða hv. 4. landsk. þm. hér í gærkvöld og nótt fjallaði að miklu leyti um það, hve mjög hann furðaði sig á þeirri bið, sem hefði orðið á afgreiðslu þessa máls, og hann rökstuddi þá skoðun sína með því, að flm. málsins hefðu haft svo ágætt tækifæri til þess með stuðningi stjórnarliðsins, meiri hl. þingsins, að koma málinu áfram. Að mínum dómi er nú aðalatriði málsins, að þetta mál nái fram að ganga, hvort sem það er núna eða kannske fyrir tveimur mánuðum. Hitt er undarlegra að hlusta á alla þá hneykslunarræðu, sem hv. þm. hafði kjark til að flytja hér í gærkvöld. Honum varð mjög tíðrætt um gullin tækifæri áhugamanna til að koma þessum málum í framkvæmd. Hann talaði mikið um, að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, væri boðið upp á réttlætið í sjöttu pörtum, smáskömmtun á réttlætinu. Þessi hv. þm. hefur nú einu sinni sem raunar oftar boðizt til að afhenda íslenzku kvenþjóðinni allt réttlætið í heilu lagi. Það eru mörg ár síðan hann flutti fyrst frv. um launajöfnuð karla og kvenna. Þetta endurtók hann ár eftir ár og átti þá ekki síður en nú aldrei nógu sterk orð til þess að lýsa hneykslun sinni yfir því, að þessi frumvörp hans skyldu ekki ná samþykki.

Nú er það svo, að þessi hv. þm. á, held ég, ýkjulaust merkustu sögu í þessu máli, sem um getur meðal þm., vegna þess að honum hafa borizt upp í hendurnar hin stærstu og gullnustu tækifæri til að koma þessum málum í framkvæmd. En eins og sú saga sýnir ljóslega, lét hann þau í raun og veru algerlega ónotuð. Ég vil byrja þá sögu með því að segja hv. þingheimi frá því, að í janúarmánuði 1957 var opnuð söguleg sýning á vegum Kvenréttindafélags Íslands í tilefni af 50 ára afmæli þess félags, sem barizt hefur mjög fyrir hagsmunamálum og réttindamálum kvenna. Það kom í ljós við hátíðlega athöfn, þegar sú sýning var opnuð, að félaginu hafði borizt afmælisgjöf, sem var tekið með miklum fögnuði. Er ekki að undra, að það vekti mikinn fögnuð, þegar það er athugað, að frá því var þar sagt, að afhent hefði nú verið skjal frá þeim manni, sem þá var félmrh. og forseti A.S.Í. um það, að nú væri launajafnrétti íslenzkra kvenna að komast í framkvæmd. Hann hafði nefnilega á mannréttindadaginn fengið heimild ríkisstj. á ríkisráðsfundi höldnum að Bessastöðum til þess að flytja nú á Alþ. þáltill. um fullgildingu á jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Það var sannarlega eðlilegt, að konur yrðu ánægðar yfir þessari tilkynningu. Þetta var einmitt sami maðurinn og flutt hafði hér frumvörp ár eftir ár um launajafnrétti karla og kvenna. Honum var vitanlega kunnugt um og minnugur þál. frá árinu 1954, þar sem lýst var þeim þingvilja, að ríkisstj. og þá vitanlega fyrst og fremst viðkomandi ráðh. bæri að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að alþjóðasamþykktin mætti verða fullgilt hér á Íslandi. Var þá ljóst, að þær ráðstafanir skyldu vera fólgnar í undirbúningi lagasetningar eða kjarasamninga um þetta, eins og raunar 2. gr. alþjóðasamþykktarinnar fjallar um. 1953 þótti ekki tiltækt að samþykkja slíka ályktun, án þess að þegar væru komin einhver lagaákvæði um þetta efni eða heildarkjarasamningar. Maður var sem sé eiginlega viss um, að nú hefði þessu marki verið náð, að nú væru komnir heildarsamningar um launajafnrétti karla og kvenna eða með öðrum hætti tryggt, að svo yrði þá innan mjög skamms tíma. Þegar þessi ályktunartillaga ríkisstj. kom svo til umr. hér á Alþingi, var um þetta spurt, hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar í þessu tilliti. Í ljós kom, að þær voru raunar engar, en þessi tillaga væri flutt vegna þess, að það væri í raun og veru heimilt að fullgilda alþjóðasamþykktina, án þess að skilyrði raunverulega væri fyrir hendi, en þá tæki aðildarríkið á sig þær skuldbindingar að koma ákvæðum hennar í framkvæmd hér á landi. En þegar sams konar till. var flutt nokkrum árum áður af sjálfstæðismönnum, sagði ráðh., sem flutti málið inn í Alþ., um þá till., með leyfi hæstv. forseta: „Málið er ekki komið neitt nær sinni lausn að samþykktri þessari tillögu heldur en áður, nema því aðeins að hæstv. ríkisstj. annaðhvort tryggi heildarsamninga, sem leysi málið, eða undirbúi lagasetningu um lausn þess.“ Nokkrum árum síðar kom sem sagt í ljós, að sams konar tillaga var aftur flutt, án þess að nokkrar sérstakar ráðstafanir til undirbúnings um framkvæmd ákvæðanna hefðu verið gerðar. Eftir að þetta hafði komið fram í umr. um málið, leyfði ég mér að flytja till. til viðbótar við þessa þáltill., sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt ályktar Alþingi að fela ríkisstj. að gera hið fyrsta ráðstafanir til þess, að samþykktin komist í framkvæmd hér á landi.“ Eftir að sú tillaga hafði verið fram borin, sagði þáv. félmrh., hv. 4. núv. landsk. þm., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hygg, að þessi till. spilli engu, en hennar sé ekki brýn þörf, því að það hefur þegar verið tekið fram, að ríkisstj. telji sig samkv. 2. gr. samþykktarinnar skuldbundna til þess að hafa nú forustu um, að hún komist í framkvæmd, og bent á ákveðna leið til þess, að ríkisstj. skipi nefnd, skipaða fulltrúum ríkisvalds, vinnuveitendasamtaka og verkalýðssamtaka, til þess að hraða framkvæmd málsins. Ég hygg, að það sé ekki hægt að fara aðra leið en þá. Þar er framkvæmdin alveg mörkuð. Svo hef ég enn fremur bætt við, að ef þetta þykir taka of langan tíma, tregða yrði á að framkvæma þessa leið, þá ætti að vera hægurinn hjá að koma málinu í höfn með löggjöf. Og það er líka undirbúið. Þannig getum við öll glaðzt yfir því að báðar leiðirnar eiga að færa okkur nær marki innan ekki mjög langs tíma.“

Þetta var í tíð vinstri stjórnarinnar. Nú eftir þessa meðferð málsins hér á hv. Alþ. hygg ég, að framkvæmd þess hafi þótt vera þokað nokkuð áleiðis, a.m.k. hafi sá ráðh., sem með málið fór, verið algerlega skuldbundinn til þess að koma því raunverulega áleiðis til framkvæmda. En svo fór, að tæpu ári síðar var samþykkt hér á Alþ. till. frá samflokksmanni þessa ráðh. um, að það þyrfti að skipa nefnd til að athuga þetta mál. Árið áður hafði ráðh. bæði talað um skipun nefndar til undirbúnings lagasetningar og hafði ýmis fögur fyrirheit. Í ljós kom ári síðar, að málinu hafði ekkert þokað áleiðis. Þetta vildi ég nú láta hér koma fram sem sagnfræðilegar staðreyndir, sem vöknuðu í hug manns undir þeirri ræðu, sem fjallaði — vafalaust í tvo klukkutíma — um hneykslun á þeim, sem hefðu látið ónotuð gullin tækifæri til að koma þessi mannréttindamáli í framkvæmd.

Það var fleira undarlegt í málflutningi hv. 4. landsk. þm. Hann bar verzlunarfólk mjög fyrir brjósti, að því er virtist af málflutningi hans. En man nú enginn, hver gekk manna hraustlegast fram í því að meina verzlunarfólki inngöngu í A.S.Í. þar sem hann hefur forustu? Hefur honum þó þar gefizt gullið tækifæri til að aðstoða verzlunar- og skrifstofustúlkur í kjarabaráttu sinni, en það tækifæri var einnig látið ónotað.

Hv. 4. landsk. þm. hafði m.a. þau orð um þetta frv., að með því vildu stjórnarsinnar koma sér undan því að sýna hug sinn í launajafnaðarmálum. Þetta er vitanlega hrein fjarstæða, eins og fleira sem slæðzt hefur með í hinum langa málflutningi hv. þm. Stjórnarsinnar eru þvert á móti staðráðnir í að sýna hug sinn í verki með því að samþykkja þetta frv. og þoka þá þessum málum stórlega í áttina til launajafnaðar.

Hv. þm. tíndi svo til ýmsar einstakar greinar frv. og fann þeim ýmislegt til foráttu og þá ekki sízt 1. gr. frv., þar sem tekið er fram, að laun kvenna skuli á því árabili, sem þar greinir, hækka til jafns við laun karla fyrir sömu störf í tilteknum starfsgreinum. Þetta finnst honum mjög mikill galli á frv. En ég hygg, að þarna komi í raun og veru ekki annað til greina. Það leiðir af sjálfu sér, að ef um aðrar starfsgreinar en þarna getur er að ræða, þá er átt við það, að konum skuli greidd sömu laun og karlmönnum væru greidd í því sama starfi.

Í 2. gr. frv. er í raun og veru aðalágreiningsefnið. Það fjallar um það, sem hv. þm. kallar réttlætisskömmtun, en er að mínum dómi mjög raunhæf leið til þess að þoka þessum gömlu baráttumálum í áttina til fulls sigurs. Og ég býst við, að íslenzkar konur væru hv. þm. sannarlega þakklátari en þær eru, ef hann hefði hlutazt til um, að sams konar leið væri farin, þegar hann hafði aðstöðu til þess.

Hann finnur mjög að því ákvæði frv., að launahækkunin skuli ákveðin af þriggja manna nefnd. Það má segja, að ef þessi nefnd hefði ótakmarkað verksvið, þar sem hún tæki verkefni í stórum stíl af dómstólunum, væri hún kannske vafasöm ráðstöfun. En hér er um að ræða nefnd, sem hefur alveg afmarkað verkefni. Hún á aðeins að fjalla um að ákveða hina árlegu launahækkun, sem um er fjallað í frv., og þá leiðir það af því, að hún hlýtur að fjalla um ágreining, sem rísa kann af skilningi á 1. og 2. gr. frv., þ.e.a.s., það getur risið ágreiningur um það, hvað séu sömu störf karla og kvenna, og slíkum ágreiningi væri væntanlega vísað til þessarar nefndar. (Gripið fram í.) Ja, málsmeðferð í félagsdómi er öll miklu flóknari og tafsamari en vera mundi í nefnd, eins og lagt er til að skipuð verði samkv. þessu frv. Enn fremur stangast þessi uppástunga hv. þm. alveg á við eina staðhæfingu eða till., sem hann bar hér fram í gærkvöld og mér finnst nú í raun og veru ekki óeðlileg. Ég verð að segja, að persónulega er ég þeirri tillögu fylgjandi, og það var uppástunga um, að eðlilegt væri, að einn af þessum þremur meðlimum n. væri kona. Ég vil nú benda hv. þm. á gullið tækifæri, sem hann enn getur notað, svo mörg tækifæri hefur hann látið ónotuð. Einn af fulltrúum í þessari nefnd á að vera skipaður af A.S.Í. Er þetta nú ekki alveg gullið tækifæri fyrir hv. þm. að koma konu í þessa nefnd sem fulltrúa Alþýðusambandsins? Ég hygg, að til þess gæti hann beitt sínum áhrifum. Og svo er fulltrúi í þessari nefnd skipaður af félagsdómi og annar af Vinnuveitendasambandinu. Þarna eru þeir aðilar, sem hagsmuna eiga að gæta, og það er mjög eðlileg lausn á þessum málum að hafa slíkan aðila, sem tekið getur ákvarðanir á tiltölulega skjótum tíma. En það hlyti að geta leitt af sér talsvert fjárhagstjón fyrir þá, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, ef fara ætti alltaf dómstólaleið til þess að skera úr einhverjum lítilfjörlegum ágreiningi varðandi þetta, sem rætt er í frv.

Hv. þm. sagði, að sár gremja ríkti í verkalýðsfélögunum yfir þessari nefndarskipun. Ég hygg, að þegar hann væri búinn að veita sinn atbeina til þess að koma þeirri skipun á þessa nefnd, sem hann telur svo æskilega, þá yrði ekki gremja meðal verkalýðsfélaga kvenna a.m.k. Hann hélt því fram, að alla kjarasamninga stéttarfélaganna, sem hlut eiga að þessu máli, yrði að bera undir þessa nefnd. Í síðari mgr. 4. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stéttarfélögum er heimilt í stað þess að láta launajafnaðarnefnd ákvarða launahækkun að semja um hækkunina við vinnuveitendur, enda staðfesti nefndin slíka samninga.“

Hér er aðeins um að ræða samninga, sem miða að því að minnka bilið milli kvennakaups og karlmannakaups í viðkomandi starfsgrein, ekki annars konar kjarasamninga.

Ég vil loks vísa til klausu úr grg. með þessari grein í frv., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkalýðsfélögunum er heimilt að semja um þessa sérstöku kauphækkun við vinnuveitendur í stað þess að láta launajafnaðarnefnd ákvarða hana. Væri oft hægðarauki að slíkri heimild fyrir báða aðila, svo sem t.d. þegar gerð nýrra kjarasamninga stendur yfir síðari hluta árs, skömmu áður en hækkun til launajafnaðar skal veita. Þessa samninga verður nefndin að staðfesta, til þess að tryggt sé, að hækkunin samkv. samningi sé eigi lægri en frv. mælir fyrir um.“

Sem sagt, aðalverkefni þessarar nefndar er að tryggja, að ákvæðum þessa frv. sé fullnægt, að tryggja, að konurnar, sem þarna eiga að sækja rétt sinn, fái sinn fulla rétt samkv. l., eins og þau verða, ef þetta frv. verður samþykkt.

Ég hygg, að ekki sé ástæða til að vera að tína til fleira úr þessum langa og stundum lítt skiljanlega málflutningi hv. þm. Ég vil aðeins láta þess getið almennt um þetta mál, að það hefur verið lengi baráttumál kvenna í öllum löndum og þá ekki síður hér á Íslandi. Kvennasamtökin hafa mjög haft þessi mál á oddi og ekki sízt Kvenréttindafélag Íslands, og einnig má telja fullvíst, að þær konur, sem eru ekki innan vébanda þessara samtaka, telji, að hér sé um mikið hagsmunamál sitt að ræða. Það getur vitanlega engum réttsýnum mönnum blandazt hugur um sanngirni þess, að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir sömu vinnu. Deilan á undanförnum árum hefur aðeins staðið um það, hvernig framkvæma mætti þetta með skynsamlegum hætti. Ég tel hiklaust, að í þessu frv. sé borin fram tillaga um hagkvæma og sanngjarna lausn á þessu mikilvæga réttlætismáli. Þeir, sem vilja halda sér við raunveruleikann í þessu máli og óska þess, að hagur þeirra launþega, sem það fjallar um, kvennanna, batni raunverulega, hljóta að sjá, að sú lausn, sem felst í þessu frv.. hefur mikla yfirburði fram yfir þá leið, sem hv. stjórnarandstæðingar benda á. Auðvitað viljum við öll, að allt það ranglæti, sem ríkir í dag, verði afnumið strax á morgun, ef við sjáum, að það sé raunverulega framkvæmanlegt.

Það, sem uppfyllir ósk okkar á einu sviði, getur dregið úr uppfyllingu annarrar óskar okkar. Ég á við, að lög, sem kveða mundu á um skyndilega breytingu í atvinnulífinu til launajafnaðar, gætu skapað hættu á, að konum yrði jafnvel bægt frá vinnumarkaðinum að einhverju leyti. Þetta eru hlutir, sem verður að horfast í augu við, og af þessum ástæðum eru tillögur stjórnarandstæðinganna mjög óhyggilegar. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að þessi breyting er mjög kostnaðarsöm og atvinnuvegir okkar hafa takmarkað greiðsluþol. Þetta er öllum réttsýnum mönnum ljóst, og þeim konum, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, er betur tryggður þeirra réttur með því, að atvinnuvegunum sé gefið ráðrúm til að aðlagast þessari breytingu, svo sem fyrir er mælt í þessu frv.

Í næstu ræðu hér á undan féllu þau orð, að þetta frv. væri bæði háðung og svívirða. Mér finnst nú satt að segja, að þeir, sem láta sér slík orð um munn fara, væru menn að meiri, ef þeir styddu nú þær tillögur, sem hér eru fram bornar um framkvæmanlega, hagkvæma og sanngjarna lausn á þessu máli, og hættu því hjali öllu um óheilindi annarra, sem fram hefur komið í þessu máli.

Ég legg eindregið til, að þetta frv. nái fram að ganga í þeirri mynd, sem það er hér fram borið, og hygg, að samþykkt þessa frv. verði stærsti áfangi, sem náð hefur verið í þessum málum á síðari árum, og okkur ber hiklaust að stuðla að því.