27.03.1961
Neðri deild: 86. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það fór svo við 2. umr. þessa máls, að allar brtt. stjórnarandstöðuflokkanna voru felldar, engin þeirra tekin til greina. Nú skal enn gerð tilraun til þess að sníða allra verstu agnúana af þessu frv., gera það þannig úr garði, að verkalýðshreyfingin gæti þó nokkru skár við unað, að slík löggjöf, sem hér um ræðir, væri sett. Ég hef því leyft mér að bera fram fjórar brtt. við frv. á þskj. 677.

1. brtt., sem raunar kemur í staðinn fyrir efni 1. og 2. gr. frv., er svohljóðandi:

„Hinn 19. júní 1961 skulu laun allra kvenna skv. samningum stéttarfélaga ákveðin 90% af kaupi karla. Sá mismunur, sem þá er á kaupi kvenna og karla, skal jafnast út á næstu þremur árum í jöfnum hlutum, unz fullum launajöfnuði er náð hinn 19. júní 1964.“

Höfuðbreytingin frá núverandi 1. og 2. gr. er sú, að í stað þess að launajöfnuðurinn náist á árunum 1962–1967, er gert ráð fyrir, að þessi jöfnuður náist á 3 árum og kvennakaupið nú á árinu 1961 fest við 90% af kaupi karla, en það eru þær kröfur, sem verkalýðssamtökin gera um leiðréttingu á sínum launum á þessu ári. En frv. sjálft gerir ekki ráð fyrir neinni breytingu á launum kvenna á árinu til þess að minnka bilið á milli kaups kvenna og karla á yfirstandandi ári. Þá felst það einnig í brtt., að launajöfnunin mundi ná til allra kvenna, ef brtt. yrði samþykkt, en í 1. gr. mundi launajöfnunin á þessu árabili, sem þar er um talað, aðeins ná til þeirra verkakvenna, sem stunda vinnu skv. samningum hinna almennu verkakvennafélaga í landinu, samkvæmt samningum Iðju, félags verksmiðjufólks, og Verzlunarmannafélagsins í Reykjavík. Það væri því að því stefnt með þessari till., að launajöfnunin gerðist á skemmri tíma og að frv. næði til fleiri kvenna eða til í raun og veru allra kvenna.

19. júní er nú valinn þarna sem viðmiðunardagur vegna þess, að hann er hinn mikli frelsisdagur kvenþjóðarinnar, og ætti því að vera vel til fallið, að þær fengju þá frá löggjafanum. þessar réttarbætur í löggjöf, eins og þær fengu kosningarréttinn hinn 19. júní 1915.

2. gr. falli niður, skv. 2. brtt., en 3. gr., sem fjallar um hina svokölluðu launajafnaðarnefnd eða þann dómstól, sem á að ákveða um kaupbreytingar skv. 1. gr., legg ég til að orðist svo:

„Úr ágreiningi, sem rísa kann út af ákvæðum 1, gr., sker félagsdómur.“

Ég legg til, að 4. gr. falli niður. Í henni eru ákvæði, sem verkalýðshreyfingunni eru mjög ógeðfelld, nefnilega þau, að engir samningar milli verkakvennafélaga og atvinnurekenda, þó að undirskrifaðir hafi verið, séu gildir, fyrr en nefndin hafi staðfest slíka samninga. Þetta tel ég lítillækkandi og á allan hátt óviðeigandi og legg því til, að sú till. gerbreytist, nefnilega á þann hátt, að í stað orðanna „enda staðfesti nefndin slíka samninga“ í niðurlagi greinarinnar komi: enda sé sú hækkun eigi lægri en lög þessi gera ráð fyrir.

Ef frv. fengist breytt á þennan hátt, væri það miklu betur að skapi verkalýðshreyfingunni en í því formi, sem það nú er.

5. gr. geri ég enga brtt. við né heldur þá 6. Ég læt þessi orð nægja til skýringar með þessum brtt., sem nú eru lagðar fram, til þess að gera síðustu tilraun til að fá lagfæringar á þessu frv.