27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

Almennar stjórnmálaumræður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar hæstv. ríkisstj. ræðir efnahagsmál, beinist áhugi hennar fyrst og fremst að viðskilnaði vinstri stjórnarinnar. Þess er gætt að láta líta svo út, að hún telji, að erfiðleikar í efnahagsmálum hafi valdið þeim stjórnarslitum og þangað eigi að leita fanga, þegar skýra á illt ástand í efnahagsmálum nú. Sannleikurinn um slit vinstri stjórnarinnar er sá, að ekki náðist samstaða innan þeirrar ríkisstj. um kaupgjald og verðlag, sem tryggði sömu lífskjör og í október 1958. Á þessu rofnaði stjórnarsamstarfið, en ekki á ástandi í efnahagsmálum. Staðreyndirnar um það mun ég ræða hér á eftir. Greiðsluafgangur ríkissjóðs var 1958 70 millj. kr. Gjaldeyrisstaða bankanna var jákvæð yfir 80 millj. Útflutningsbirgðir jukust á árinu 1958 um 160 millj., miðað við núv. gengi. Auk þess hafði vinstri stjórnin undirbúið 6 millj. dollara lántöku í Bandaríkjunum, sem núv. stjórnarflokkar hafa tekið og notað til hafnarframkvæmda, raforkumála o.fl. Innlánsaukning sparifjár 1958 var 21.6%. Atvinnulífið stóð með blóma, enda afkoma atvinnuveganna góð það ár og lífskjör almennings ca. 15% betri en nú. Til áréttingar því, sem ég hef hér sagt um viðskilnað vinstri stjórnarinnar, skal því bætt við, að í Morgunblaðinu 19. des. 1958 segir frá þeirri niðurstöðu, er sérfræðingar Sjálfstfl. í efnahagsmálum komust að eftir að hafa athugað ástand þeirra, og niðurstaðan er þessi: Laun, þar með taldar tekjur bænda, þurfa að lækka um 6%. Ef þessi breyting verður framkvæmd, sögðu þeir, þurfa atvinnuvegirnir ekki frekari aðstoðar við og hægt verður að halda dýrtíðinni í skefjum án nýrra skatta. Trúi nú þeir, sem trúa vilja, að þeir Morgunblaðsmenn hafi gefið þessa yfirlýsingu af velvilja við vinstri stjórnina. Um það þarf ekki að ræða. En á hitt vil ég minna, að kaupgjaldið, sem var lækkað í byrjun árs 1959 um 5.4%, var sú kauphækkun, sem Sjálfstfl. ásamt kommúnistum í Alþb. og hægri krötum knúði fram sumarið 1958 gegn yfirlýsingum vinstri stjórnarinnar um gjaldþol atvinnuveganna, enda var þeirri kauphækkun ætlað annað hlutverk en að þjóna hagsmunum þjóðarinnar, heldur það eitt að fella vinstri stjórnina, sem sýndi sig, er kauphækkunin var tekin til baka af núverandi valdhöfum, strax eftir að þeir komust til valda. Sjóði þá, er vinstri stjórnin skildi eftir, átu stjórnarliðar upp og gátu því fleytt sér kosningaárið.

Ljóst er af því, sem ég hef hér sagt, að viðskilnaður vinstri stjórnarinnar á enga sök á erfiðu ástandi í efnahagsmálum nú. Orsakirnar er að finna hjá núv. valdhöfum, og mun ég ræða fyrirheit þeirra og framkvæmdir í efnahagsmálum.

Stjórnarsinnar hétu því að stöðva dýrtíðina. Framkvæmdin hefur tekizt svo, að verðlag á algengustu vörutegundum hefur hækkað frá haustinu 1958 um 40–80%. Á sama tíma hafa niðurgreiðslur á vöruverði verið auknar um 195 millj. kr. Kaupgjald og atvinnutekjur bænda hafa svo verið lækkaðar beint um 5.4%.

Boðað var, að uppbætur og afskipti ríkisvaldsins af atvinnuvegunum skyldu niður falla. Framkvæmdin er hins vegar sú, að framlag til atvinnuveganna í gegnum niðurgreiðslur er orðið 310 millj. kr. Útflutningssjóður var látinn greiða tryggingagjöld fiskiskipaflotans s.l. ár, og nemur sú upphæð tugum milljóna. Kreppuhjálp er verið að undirbúa vegna útgerðarinnar, sem skiptir hundruðum milljóna króna. Og ríkisstj. skipar atvinnuveitendum fyrir í kaupgjaldsmálum.

Stjórnarliðar hættu að loknum kosningum að tala um leiðina til bættra lífskjara. Var þá tekið til að ræða um það, að þjóðin hefði lifað um efni fram, og frá því skýrt, að greiðsluhalli við útlönd á árunum 1955–58 hefði verið 776 millj. kr. Því var beinlínis haldið fram, að þetta væri halli á þjóðarbúinu. Hér var enginn greinarmunur gerður á, til hvers erlendu lánin voru notuð. Innflutningur skipa og flugvéla var þá ekki undanskilinn og ekki einu sinni sementsverksmiðja, áburðarverksmiðja eða virkjanirnar. Í sambandi við þessa fráleitu fullyrðingu vil ég minna á ummæli dr. Benjamíns Eiríkssonar bankastjóra, en hann sagði um þetta atriði eftirfarandi:

„Þjóðin er í alla staði miklu betur fær um að standa undir greiðslu 5½ milljón dollara árið 1958 en 2 millj. dollara 1951, einmitt vegna þess, hve miklar framkvæmdir hafa verið unnar fyrir hið erlenda lánsfé.“

Þetta sagði hagfræðingurinn Benjamín Eiríksson.

Sú fullyrðing stjórnarliða, að gjaldþoli þjóðarinnar út á við væri ofboðið og fjárhagslegt sjálfstæði hennar væri í hættu vegna skuldasöfnunar fyrri ára við útlönd og snúa yrði við á þeirri glæfrabraut, er grundvöllur þeirrar lömunarstefnu, sem nú ríkir. Ekkert í þessum efnum var þó talið jafnhættulegt og erlend lán til stutts tíma. Þjóðinni. var sagt, að hún yrði að þola kjaraskerðingu um skeið, meðan verið væri að lækka skuldirnar við útlönd. Kjaraskerðingu hefur hún fengið á sig. En hver er árangurinn í þessum höfuðþætti stjórnarstefnunnar? Hann er þessi:

Reynt er að halda á lofti betri gjaldeyrisstöðu bankanna, sem fengin er m.a. með annarri uppsetningu á gjaldeyrisyfirlitinu og erlendum lánum til stutts tíma. Farið er nú að sundurliða greiðsluhallann og verja ástandið með innflutningi skipa og flugvéla. Verzlunarjöfnuður var óhagstæður s.l. ár um 816 millj. kr. Greiðsluhalli við útlönd var 704 millj. kr. 1960, eða hærri en nokkru sinni fyrr, nema 1959 undir stjórn sömu flokka.

Ef gerður er hliðstæður samanburður á greiðsluhallanum við útlönd árin 1959 og 1960 og árunum 1955–58, sem vitnað var sérstaklega til af ríkisstj. sem sönnun fyrir nauðsyn á algerri stefnubreytingu í viðskiptunum við útlönd, og greiðsluhallinn reiknaður á sama gengi öll árin, er niðurstaðan þessi: Hallinn fyrra tímabilið, 4 ár, er 776 millj. kr., en síðara tímabilið, 2 ár, 617 millj. kr. Um þennan árangur má með sanni segja, að viðreisn ríkisstj. lætur ekki að sér hæða.

Nýjar erlendar lántökur á árinu 1960 eru á annan milljarð króna og hafa aldrei á einu ári verið nándar nærri svo háar. Af lánum til stutts tíma er nú meira tekið en nokkru sinni fyrr. Skuldir þjóðarinnar við útlönd eru nú hærri en áður í sögu hennar og hafa hækkað á árinu 1960 um 400–500 millj. kr. Greiðslubyrði þjóðarinnar hefur aldrei verið meiri en nú. Árangurinn af fyrsta ári lömunarstefnunnar í þessum höfuðþætti er svo lélegur, að enginn samanburður er til, nema helzt árið 1959, enda handbrögðin þá þau hin sömu. Þó er þar við að athuga, að árið 1959 er að því leyti betra, að þá jukust útflutningsbirgðir, en nú minnkuðu þær um 200 millj. kr. Ástæða er til að spyrja: Hvar er þjóðin nú á vegi stödd með viðskiptin við útlönd, ef hún var í mikilli hættu 1958?

Með vaxtahækkun og bindingu sparifjár í Seðlabanka átti að tryggja það, að spariféð í landinu ykist meira en áður hefur verið. Hvernig hefur það tekizt? Árið 1958 var aukning sparifjár 21.6%. Árið 1960 er aukningin 15.6%, og ef aukning sú, sem leiðir beint af vaxtahækkuninni, er dregin frá, er sparifjáraukningin aðeins 12.9%. Góður árangur það, enda ekki að undra, því að hverjir hafa nú tekjur til þess að leggja fyrir? Ekki hinn almenni borgari.

Frelsi í athöfnum og viðskiptum átti að vera skrautfjöður í hatti ríkisstj., er næði til að hylja þá bletti, er þar mundu koma. Hvert er frelsið? Gjaldeyrissala til almennra vörukaupa er háð leyfum enn þá. Verðlagseftirlitið er algert. Útflutningshöftum er haldið. Meiri hömlur á bönkum og öðrum peningastofnunum en nokkru sinni fyrr. Hluti af innstæðum fólks í innlánsdeildum kaupfélaganna er frystur í Seðlabankanum í Reykjavík. Samdráttur í athafna- og viðskiptalífinu, er nú ríkir, á ekkert skylt við frelsi. Lánsfjársamdráttur og vaxtaokrið á heldur ekki skylt við frelsi. Eina frelsisaukningin í viðskiptum er sú, að frílisti til vörukaupa í frjálsum gjaldeyri hefur eitthvað verið aukinn, meðan eyðslulánin eru ekki öll uppétin, en lánsfjárskortur og almennur samdráttur takmarkar möguleikana til að hagnýta það.

Þá mun ég víkja næst að fjármálum ríkissjóðs.

Á valdatíma núv. stjórnar hafa nýjar álögur vegna ríkissjóðs verið á lagðar á fimmta hundrað millj. kr., þegar frá eru dregnar þær skattalækkanir, sem gerðar hafa verið. Fer þetta illa saman við fyrirheitin um engar nýjar álögur, en er þó í fullu samræmi við framkvæmd á öðrum fyrirheitum hæstv. ríkisstj. Meðal nýrra skatta er söluskattur í smásölu, sem m.a. er lagður á jarðræktarvinnslu, og aldrei fyrr hefur soðning og önnur innlend matvæli verið skattlögð. Svo er bráðabirgðasöluskatturinn á innflutningi, 8%, sem gilda átti aðeins 1960, hann var framlengdur fyrir jólin eins og af tilviljun.

Áður fyrr töluðu núv. stjórnarflokkar digurbarkalega um lækkun fjárlaga og sparnað í ríkisrekstrinum. Þeir töluðu um, að sú þróun, að fjárlög hækkuðu ár frá ári, væri uggvænleg og stefndi í fullkomið óefni. Hæstv. fjmrh. hefur lesið hér langan lista um væntanlegan sparnað, sem kæmi til framkvæmda við hentug tækifæri. Því var lýst yfir af honum og meiri hl. fjvn., að við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1961 yrðu fjárlög tekin til gagngerðrar endurskoðunar með sparnað fyrir augum. Fjárlög þessa árs eru því árangurinn af þessari gagngerðu endurskoðun, þar sem sparnaðaráform hæstv. ríkisstj. fá notið sín. Skal árangurinn nú athugaður.

Ef gerður er hliðstæður samanburður á fjárlögum ársins 1958 og fjárlögum ársins 1961, kemur í ljós, að fjárlög hafa í tíð núv. valdasamsteypu hækkað um 706 millj. kr., þ.e. yfir 80%, þrátt fyrir heildarendurskoðunina og talið um sparnaðinn. Þó hækka fjárlög ekki nema um 113 millj. kr. vegna þess, að útflutningssjóður var lagður niður. Þetta geta hlustendur sannfært sig um með því að lesa í bókinni Viðreisn á bls. 31.

Sparnaði í utanríkisþjónustunni taldi fjmrh. sig hafa komið á. Staðreyndin er sú, að kostnaður við utanríkisþjónustuna er hærri á fjárlögum nú en nokkru sinni fyrr: Felldar voru tillögur frá okkur framsóknarmönnum um að sameina sendiráðin á Norðurlöndum. Einnig voru felldar tillögur um að spara með því að fækka sendiferðum til útlanda og minnka ýmsan kostnað ráðuneytanna. Tal ráðh. um sparnað hjá Ríkisskip og við eyðingu refa og minka reyndist óraunhæf áætlun og algert vindhögg, og svo er um fleira í sparnaðartali hæstv. fjmrh.

Við 1. umr. fjárl. s.l. haust ræddi fjmrh. mikið um, að tekizt hefði að lækka 10 greinar fjárl. Um þær fór svo við afgreiðslu fjárl. með góðu samþykki ráðh., að önnur hver grein týndist og allt er í tvísýnu með hinar. Þó gæti farið svo, að tvær fjárlagagreinar lækkuðu um allt að 200 þús. kr., svo að árangurinn af heildarendurskoðuninni er hreint ekki svo lítill, ef á það er litið, að fjárlögin hækka á þessu ári um 90 millj. kr. og eru nú orðin um 1600 millj. kr., svo að það munar um minna en 200 þúsund.

Eins og þegar hefur verið sýnt fram á og auðséð er af niðurstöðutölum fjárlaga, hefur samdráttarstefnan í ríkisrekstri ekki fylgt öðrum samdrætti í þjóðfélaginu, heldur hið gagnstæða. Skulu hér nefnd nokkur dæmi því til sönnunar.

Sett var upp á síðasta ári nýtt ráðuneyti, efnahagsmálaráðuneytið, sem kostar nokkur hundruð þúsunda og virðist blómgast vel. Á síðustu dögum þingsins í fyrra voru stofnuð nokkur ný prófessorsembætti við Háskóla Íslands. Á síðustu dögum þessa þings er stofnað hér embætti saksóknara ríkisins með tilheyrandi skrifstofuliði. Sakadómurum í Reykjavík er fjölgað úr einum í fimm, og boðað er framhald á þessari sömu braut í embættismannafjölgun. Bankastjórum og bankaráðsmönnum við ríkisbankana hefur verið fjölgað um sex á einu ári. Setja á upp nýja stofnun, bankaeftirlit, við Seðlabankann. Nefnd til að endurskoða skattalöggjöfina hefur setið á rökstólum á annað ár, og er ekki séð fyrir endann á hennar störfum. Önnur nefnd endurskoðar tekjustofna sveitarfélaganna. Sérstök nefnd fjallar um erlendar lántökur, önnur um gjaldeyrisleyfi, þriðja um úthlutun bifreiða, og þannig mætti lengi telja, þó að þessi sýnishorn verði látin nægja Hér hefur farið sem fyrr, að framkvæmdirnar eru gagnstæðar fyrirheitunum.

Fjárlögin, sem áttu að marka tímamót í samdrætti og sparnaði, eru hæstu fjárlög í sögu íslenzku þjóðarinnar: útfærsla ríkiskerfisins í stað samdráttar, eyðsla í stað sparnaðar. Samdráttur er hins vegar í framlögum til atvinnuveganna og verklegra framkvæmda, þar sem aðeins 18.4% af heildarfjárhæð fjárlaganna er varið til þeirra nú; móti 28.5 að meðaltali á árunum 1950–58. Þessi þróun stefnir að því að hrinda verklegum framkvæmdum beinlínis út af fjárlögunum. Árangurinn segir fljótt til sín. Rætt er nú um erlendar lántökur til uppbyggingar, sem þjóðin hefur til þessa greitt af eigin tekjum, svo sem vegagerðar, íþróttamannvirkja o.fl.

Við Framsóknarflokksmenn fluttum ekki brtt. við þennan þátt fjárl. á s.l. vetri, en gerðum í nál. í fjvn. svofellda grein fyrir afstöðu okkar: „Auk þess sem öll slík tillögugerð er fyrir fram dauðadæmd vegna þeirrar forustu, sem nú er á Alþingi, þá hefur samdráttarstefnan, sem er óskabarn þessarar ríkisstj., keyrt fjármála- og athafnalíf þjóðarinnar í kút óvissu og getuleysis. Stefnubreyting í málefnum þjóðarinnar þarf að vera undanfari þess, að eðlilegt athafna- og framkvæmdalíf geti hafizt á ný “

Herra forseti. Í ræðu minni hér að framan hef ég sýnt fram á, hvernig til hefur tekizt um framkvæmd hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Flest hefur það gengið á annan veg en boðað var. Ekki verður því þó um kennt, að framkvæmdin hafi verið trufluð með pólitískum aðgerðum, svo sem gert var 1958 og ég hef hér lýst. Afleiðingin af efnahagsmálastefnu ríkisstj., lömunarstefnunni, er í stuttu máli minnkandi framleiðsla, minni þjóðartekjur, lamað viðskipta- og atvinnulíf. Fólkið í landinu hefur dæmt þessa stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum. Bændurnir sögðu um hana: Efnahagsmálaráðstafanir ríkisstj. koma hart niður á bændum. Útgerðarmenn sögðu, að þær leiddu af sér lömun þjóðarlíkamans. Verkamenn sögðu: Fyrir hverja er stjórnað? Það er ekki fyrir okkur.

Þessi dómur þjóðarinnar ætti að nægja ríkisstj. til viðbótar því, að flest gengur á annan veg hjá henni en hún sagðist stefna að, til þess að hún bæðist lausnar og afhenti þjóðinni málin í sínar hendur. Ekkert slíkt hefur hæstv. ríkisstj. í huga, heldur hitt, að sitja og sitja fast. Ríkisstj. hefur til þess nokkra ástæðu. Lömunarstefnunni var í upphafi ætlað tvennt. Annan þáttinn hef ég rakið hér að framan, og frá sjónarmiði þjóðarinnar hefur hann algerlega mistekizt. Hinn þátturinn, er henni var ætlaður, var að endurskipta þjóðartekjunum, eins og viðskmrh. orðaði það. Það var að skapa nýtt þjóðfélag, þar sem vel væri búið að þeim fáu, stóru, en lítið sinnt hinum mörgu, eignalitlu. Þetta er hennar aðaltakmark, og vonast ríkisstj. til, að sér takist að koma því í framkvæmd, ef hún fær að sitja. Þeir, sem fá stóru hlutina, óska ríkisstj. langlífis.

Þegar Kennedy Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína við valdatökuna 20. janúar s.l., sagði hann þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef hið frjálsa samfélag getur ekki hjálpað hinum mörgu fátæku, mun það aldrei geta bjargað hinum fáu ríku.“

Þessum sannindum mun hæstv. ríkisstj. ekki takast að hnekkja. Þess vegna ber stefna hennar dauðann í sér. — Góða nótt.