27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Um þessar mundir getum við Íslendingar litið yfir eins árs árangur þeirrar efnahagslöggjafar, sem ríkisstj, kom á í fyrra til tryggingar framgangi stefnu sinnar.

Í kosningum þeim, sem færðu núv. stjórnarflokkum þingmeirihluta, höfðu þeir kynnt vel og rækilega í blöðum sínum og á mannfundum, hver árangurinn yrði, þegar þar að kæmi, að þeir gætu notið sín á hærri stöðum. Sú dýrð, sem þjóðin ætti í vændum, var talin býsna margþætt, og í stuttum ræðustúf er mér með öllu ofvaxið að greina þar hvert atriði, en meðal þeirra, sem hæst bar, voru þessi: 1) Stöðvun dýrtíðarinnar. 2) Uppbygging atvinnuveganna. 3) Bætt lífskjör fólksins í landinu. 4) Við vorum talin mundu eignast hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi. 5) Þjóðarframleiðsla okkar var talin mundu vaxa til mikilla muna.

Svo kom að framkvæmdunum. Fyrst var að setja lög, sem mótuðu alla farvegi efnahagslífsins þannig, að um þá gæti straumurinn runnið í takt við hugmyndir stjórnarvaldanna. Um þessa löggjöf gaf stjórnin út bók henni til skýringar. Sú bók heitir Viðreisn. Það kver telur stjórnin jafnan hafið yfir alla gagnrýni, eins og hvert annað helgirit. Það vantaði svo sem ekki í Viðreisn, að þar var gripið á ýmsu því, sem stjórnarflokkarnir höfðu talið að falla mundi þjóðinni í skaut, ef þeir fengju stuðning hennar í kosningunum. En framkvæmdamátinn reyndist hreinlega ofvaxinn skilningi velflestra venjulegra manna. Í Viðreisn er það útskýrt af miklum fjálgleik, að það sé einn aðalgaldurinn við að koma atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og öruggan grundvöll að hækka vexti af lánum upp fyrir það mark, sem allt fram að viðreisn, hafði heitið okur og verið bannað með lögum eins og hver önnur glæpastarfsemi. Framkvæmdin á stöðvun verðbólgunnar virtist helzt vera sú annars vegar að breyta gengisskráningu þannig, að verð á innfluttum vörum hækkaði almennt eitthvað yfir 50%, og hins vegar að koma á nýjum söluskatti, sem nú nemur réttum fimmta parti af verði allra aðfluttra vara, þ.e.a.s. 16½% er tekið við tollafgreiðslu og 3% í söluskatti. Að vísu gerir bókin Viðreisn ekki grein fyrir söluskattinum í líkingu við það, sem hann varð. Á síðari stigum lagasetningarinnar um hann, þ.e. upp úr miðjum febrúarmánuði í fyrra, voru söluskattstillögurnar hækkaðar verulega. Sú hækkun var réttlætt með því, að bæta þyrfti það upp, að á því mikla viðreisnarinnar ári 1960 hefði hinnar nýju skipanar ekki gætt í fyrsta hálfan annan mánuðinn, og svo var settur á sérstakur viðbótarsöluskattur, nálægt 150 millj. kr., á því ári. Lengur átti hann ekki að standa, þótt nú hafi hann verið endurnýjaður.

Af þessu mátti ráða það, að það kostaði þjóðina 100 millj. kr. á mánuði að vera viðreisnarlaus, og þá varð það mörgum ráðgáta, hvernig þjóðin hafði slampazt af sín þúsund ár og þó nokkrum tugum betur viðreisnarlaus með öllu.

Leiðinni til bættra lífskjara var ekki heldur gleymt í Viðreisn. Um kaup og kjör vinnandi fólks í landinu fór jafnan áður eftir samningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Alþýðuflokksstjórnin, sem var undanfari þeirrar, sem nú situr og hafði sömu flokka að baki sér, hafði að vísu höggvið að rótum samningafrelsis verkafólks um kaup sitt með því að ógilda viss ákvæði samninganna og lækka kaupið með lögum. Hér hjó viðreisnarlöggjöfin aftur í sama knérunn og lögbatt, að aukin dýrtíð skyldi engin áhrif hafa á kaupgreiðslur. Hlutdeildin í hinum frjálsa viðskiptaheimi, boðskapurinn, sem hljómaði eins og eilífðarmál, var raunar einfaldari í sniðum en við hefði mátt búast, því að jafnan er leiðin að öðru eins hnossi talin nokkuð torfetuð. Um skeið var það siður okkar að hafa það að meginreglu að bjóða út okkar framleiðsluvörur og selja þær þangað, sem bezt fékkst fyrir þær greitt, og innflutningnum var síðan gert að laga sig að þessum aðstæðum, alveg á sama hátt og hver sá einstaklingur, sem gera vill innkaup, verður að miða þau við það, hvað hann hefur til að borga með. En í Viðreisn er þessu einfaldlega snúið við. Innflytjendur skulu kaupa hvað sem þeir vilja, hvar sem þeir vilja og á hvaða verði sem er. En síðan verðum við auðvitað nauðugir, viljugir að selja okkar framleiðslu þar, sem fyrir hana fást þess háttar peningar, sem seljandi innflutningsvaranna krefst, og sæta því svo möglunarlaust, þótt ekki náist það verð, sem við höfðum talið eðlilegt.

Og þá eru ótaldar ráðstafanirnar til þess að stórauka þjóðarframleiðsluna. Samkvæmt Viðreisn liggja þær aðallega í því að draga stórlega úr útlánum bankanna til atvinnuveganna.

Öll var svo löggjöf þessi boðuð og rökstudd með tilvitnunum í spekinga, sem virtust ekki eiga marga sina líka í efnahagstöfrum. Og síðan var hún samþykkt af öllu stjórnarliðinu.

Já, góðir áheyrendur. Í fyrra var viðreisnin mikill boðskapur. Hún var að vísu torskilin, og hún sópaði flestum hugmyndum venjulegra manna um orsök og afleiðingu beint í skammarkrókinn. Og margir þeir, sem vissu stjórnina sitja að völdum í sínu umboði, reyndu að segja sem fæst. En ef þeir sögðu eitthvað, sumir hverjir, þá töldu þeir þetta þó vera góðar ráðstafanir, alveg á sama hátt og ráðgjafar keisarans hrósuðu hinu nýja og undursamlega fataefni húsbónda síns í ævintýrinu danska. En nú hefur þjóðin búið við sína viðreisn í heilt ár. Öðru hverju heyrir maður ráðherra og bankastjóra af hæstu gráðu vitna í tölur, sem sanna eiga, að allt sé á góðri leið og að nú séum við að komast yfir örðugasta hjallann. Það hefur meira að segja örlað á þessu hér í kvöld. En hjal þeirra er líka það eina, sem eftir stendur af allri dýrðinni. Blákaldur veruleikinn hefur allt aðra sögu að segja. Hans dómur er strangur og miskunnarlaus. Hann segir, að það sé fullkomin andstæða sannleikans, að verðbólga eða dýrtíð hafi verið stöðvuð. Vísitalan, sem stjórnin sjálf lætur reikna út, segir, að á þessu eina ári hafi orðið 17% hækkun á öllum vörum og allri þjónustu í landinu að meðaltali, en það er hærri dýrtíðaralda en áður hefur risið á svo skömmum tíma. Veruleikinn segir, að stjórnin, sem lofaði að stöðva dýrtíðina, hafi magnað hana. Um atvinnuvegina vita allir, að ekki hafa þeir staðið verr að vígi í annan tíma á síðari árum en einmitt nú. Iðnaðurinn dregst saman á flestum sviðum, bæði vegna þess, hve hann er aðþrengdur fjárhagslega af lánakreppu og vaxtaokri, en þó er það framar öllu öðru hin lamaða kaupgeta almennings, sem sverfur nú svo að möguleikum hans, að þar munu fáir sjá til bjartrar framtíðar. Stærsta iðnaðarfyrirtæki landsins, sementsverksmiðja ríkisins, framleiddi t.d. 72 þús. tonn af sementi á síðasta ári. Það er nokkru minna magn en Íslendingar sjálfir eru vanir að nota árlega. En nú er kaupgetan brostin og fjórðungur þessa magns lá eftir óseldur. Verksmiðjan hefur nú samið um að selja Bretum 20 þús. tonn af þessum birgðum sínum, og í þeim samningum við Breta gætir sams konar tillitssemi við þá og annars staðar. Fyrir sement selt Íslendingum tekur verksmiðjan 1100 kr. fyrir tonnið við verksmiðjuvegg, en fyrir sement, sem Bretar fá, hlotnast verksmiðjunni 260 kr. fyrir tonnið. Fyrir Breta er því vissulega hagur að kaupgetuleysi Íslendinga. Þeir virkja kaupgetuleysið til að fá héðan niðurgreitt sement, því að þeirra prísar eru langt undir framleiðslukostnaði, og mismunurinn fellur íslenzkum aðilum í skaut til greiðslu.

Landbúnaðurinn hefur ekki farið varhluta af dýrtíðarflóðinu. Allur framleiðslutilkostnaður hans hefur þotið upp á við. Ræktun og aðrar framkvæmdir í sveitum dragast saman, svo sem óhjákvæmilegt er, þegar tilkostnaður er risinn upp yfir öll viðráðanleg takmörk. Fólksflótti úr sveitum, sem um skeið var stöðvaður, hefur magnazt á ný.

Öll viðreisnin átti samkv. yfirlýstum tilgangi höfunda sinna að miðast við það sem aðalmarkmið að búa útgerðinni blómleg skilyrði til vaxtar og viðgangs, án styrkja og uppbóta. Og hvernig hefur nú til tekizt að ná þessu höfuðmarkmiði? Um það eru postular viðreisnarinnar heldur fáorðir í ræðum sínum. Sumir hafa vikið að því hér í kvöld, að útgerðin hafi fengið að breyta einhverju af töpum sínum í lán. En það er líka helzta fyrirgreiðslan. Ég heyrði nú samt einhvern af fyrirmönnum viðreisnarinnar orða það þannig í ræðu nýlega, að útvegi landsmanna hefði gengið það örðuglega að laga sig að hinu nýja efnahagskerfi. Með nýjum tímum koma alltaf fram nýjar kenningar. Það var sem sagt höfuðkenningin í fyrra, að þá væri verið að laga efnahagskerfi þjóðarinnar að þörfum atvinnuveganna. En nú er það orðið eins og hjá karlinum, sem í ölæðinu gekk á grjótgarðinn og datt, en gaf þá skýringu, þar sem að honum var komið liggjandi, að garðurinn hefði rekizt á sig. Togaraflotinn hefur notið ríkisstyrkja, svo að nemur milljónatugum, eftir að stjórnin þóttist hætt við öll styrkja- og uppbótakerfi. Samt hefur ömurleikinn nú þrýst hrammi sínum fastar að þessari atvinnugrein en áður eru dæmi til.

Í þessum töluðum orðum stendur yfir sú árstíð, sem jafnan gefur togurum sem og öðrum fiskiskipum einna beztan árangur. Það er hávertíð, og alltaf fram til þessa hefur það verið alveg sérstakt kappsmál allra, er útgerðarrekstri stýrðu, að halda skipum sínum til veiða um þetta leyti, ef hinn minnsti möguleiki var í augsýn til að ná verðmætum, sem á þessum tíma bjóðast og aldrei annars í svipuðum mæli. Nú liggur hins vegar fjórðungur togaranna, beztu og stórvirkustu veiðitækjanna, sem þjóðin á, afvelta í viðreisninni. Sumir togararnir ryðga í þanghafinu, en svo er oft nefndur skipakirkjugarðurinn í Reykjavíkurhöfn. Nokkrir eru í öðrum íslenzkum höfnum. Aðrir eru til sölumeðferðar í erlendum höfnum eða í erlendum viðgerðarstöðvum, þar sem eigendum þeirra hefur ekki tekizt að greiða áfallinn kostnað þeirra. Og það er mikið og athyglisvert tímanna tákn, að einn af þeim hv. þm. stjórnarliðsins, sem með eigin hendi samþykktu viðreisnina í fyrravetur, fékk á árinu í hendur nýtt togskip, stærra og glæsilegra en héðan hafði fyrir viðreisn á sjó farið. Þegar skip þetta hafði farið tvær veiðiferðir, uppgötvaði eigandinn, að enginn grundvöllur var til í efnahagskerfinu nýja til þess að gera skipið út. Hann tapaði algerlega trúnni á sína eigin viðreisn, lagði hinu glæsta skipi sínu til hvíldar í þanghafinu, þar sem það enn liggur — eða það mun líklega hafa verið tekið upp í slipp í dag. En eigandinn, sem áður boðaði viðreisn með spámannlegum tilburðum á þingi, hefur nú tekið upp hljóðlátt hátterni.

Um bátaflotann gegnir svipuðu máli og togarana að því leyti, að uppbætur hefur hann fengið í tugmilljóna tali. En allur er fjárhagur hans samt þungur. Þó munu ekki mikil brögð að því, að nothæfir bátar séu bundnir enn sem komið er í kirkjugarða á miðri vertíðinni. En tafir frá veiðum vegna alls konar efnahagslegra þröskulda draga mjög úr nýtingu flotans. Það er t.d. mjög algengt, að bátar standi svo sem hálfan eða heilan mánuð í slipp, eftir að viðgerðum er lokið, vegna þess að samkomulag fæst ekki auðveldlega um, hvenær greiðsla geti fyrir viðgerðina komið. Og viðgerðarstöðvarnar eru í slíkri rekstrarfjárþurrð, eða með svo mikið fjármagn bundið í lánum, sem fást ekki greidd við eðlilegt gjaldfall, að þær hafa neyðzt til að draga saman starfsemi sína, t.d. hætt að endurnýja birgðir sinar af efniviði og öðrum nauðsynjum til þess að sinna þjónustu við flotann. Sem eins lítils dæmis af ótalmörgum um þetta má geta þess, að útgerðarmaður einn, sem ég hitti á förnum vegi fyrir fáum dögum, sagði mér, að einn báturinn sinn væri úr leik á þessari vertíð, vegna þess að fyrir óhapp varð að skipta um kjöl í honum. En engin einasta skipasmíðastöð eða neinn annar aðili í landinu átti til efni í vélbátskjöl. Það hafði þessi útgerðarmaður kannað. Hann var búinn að senda pöntun til Danmerkur, en vertíðin var töpuð.

Hið fyrsta viðreisnarár bættust mörg ný og ágæt skip í fiskiflotann. Það var arfur frá eldri og bjartsýnni tímum. Nú munu fáir semja um nýsmíði fiskiskipa.

Þrátt fyrir aukninguna í skipastólnum og bættan veiðibúnað tókst stjórnarstefnunni að sliga svo starfrækslu flotans, að heildaraflamagn landsmanna minnkaði á árinu 1960 um 9%, en slíkt hefur ekki komið fyrir áður á hinum síðari árum, að aflabrögð í heild skryppu svo saman á einu ári, þótt oft hafi afli á einstökum vertíðum eða veiðisvæðum minnkað eða brugðizt. Á árinu 1980 var enginn almennur aflabrestur. Togurunum gekk illa, en vertíðarafli bátanna var betri en áður. Veiðidagar togaranna voru hins vegar miklu færri en áður, bæði vegna aukinnar legu þeirra af fjárhagsöngþveiti og eins af því, að nú voru þeir, sem út voru gerðir, flestir að hálfu notaðir sem flutningaskip milli landa, oftast með hálffermi aðra leiðina og tómir hina. Það er því algerlega á viðreisnarinnar reikning, að ekki skyldi nást svipað aflamagn og á fyrra ári.

Þjóðin hefur því ekkert að þakka stjórninni að því er varðar uppbyggingu atvinnuveganna, en aftur á móti verður það erfitt, en óumflýjanlegt verkefni þeirra, sem á næstu árum halda um stjórnvöl þessarar þjóðar, að rifa atvinnuvegina upp úr því foraði, sem viðreisn núv. stjórnar hefur sökkt henni í.

Bætt lífskjör fólksins í landinu koma fram í því, að kaupmáttur launa almenns verkamanns í Reykjavík í dag er 24½% lægri en hann var fyrir tveimur árum, áður en núv. stjórnarflokkar tóku að skerða kaup með lögum. Þeir, sem hér reka verzlanir og viðskipti, hafa sína sögu að segja um kaupmátt almennings, en hjá þeim næstum öllum má nú heyra ramakvein um samdrátt og svart útlit, og segja fæstir slíkir þó nema helming þess, sem innra með þeim býr, um núv. ríkisstj., því að þetta er stjórnin þeirra.

En við eigum þó hlutdeild í hinum frjálsa viðskiptaheimi, því verður ekki neitað. Sjaldan heyrum við stjórnarinnar boðbera víkja að efnahagsástandi þjóðarinnar, svo að þar beri ekki í orðræðu hið gífurlega verðfall á mjöli og lýsi, ef þið, hlustendur góðir, skylduð kannast við orðalagið. Það er einkennilegt, að ekki skuli kenna stolts og hrifningar í rómi þeirra stjórnarsinna, þegar þessir mjöl- og lýsisprísar eru annars vegar, og þeir eru stundum taldir valda ófarnaði í efnahagslífinu. Þetta gífurlega verðfall á mjöli og lýsi er þó aldrei nema svolítil afborgunargreiðsla upp í aðgöngumiðana að hinum frjálsa viðskiptaheimi, sælustað útvaldra kaupslagara, því að það voru til nægir og miklu hagstæðari markaðir fyrir þessar vörur, þótt ekki væru þeir nýttir.

Vöxturinn í þjóðarframleiðslunni hefur ekki látið á sér bóla enn. Óvenjulega hagstætt árferði 1960 kom í veg fyrir samdrátt í landbúnaðarframleiðslunni. En ég hef áður á það drepið, hvað skeði í sjávarútvegi á síðasta ári. Samdrátturinn varð 9% að magni, en ekki er að fullu vitað, hver hann hefur orðið að verðmæti til, en auðvitað er sá samdráttur meiri, því að meira var flutt út af óunnum fiski en áður og minni hluti síldaraflans var saltaður en 1959. Í því sérstaka stefnumáli stjórnarinnar að stórauka þjóðarframleiðsluna telja þeir nú sjáanlega þann árangur að draga saman sjávaraflann um 9% á einu ári hvergi nærri fullnægjandi, því að til viðbótar allri sinni upphaflegu viðreisn hafa þeir nú bætt því við að afhenda Bretum nú og hin næstu ár afnot af fimmta hluta fiskimiðanna í íslenzku landhelginni, og raunar ekki Bretum einum, heldur hverjum þeim útlendingum, sem nýta vilja. Það er í samræmi við aðra röksemdafærslu stjórnarinnar að telja í framsali landhelginnar til útlendinga fólginn stórsigur Íslands. En einmitt þessa dagana er það beinlínis að sannast í aflabrögðum okkar fiskibáta víðs vegar við landið, hver hagkvæmni er að því að fá hér á miðin erlendan togaraflota, hundruð skipa umfram það, sem verið hefur síðustu árin, og þó er hér allt á byrjunarstigi. 14½ þús. ferkm fiskimiða, valin af Bretum sjálfum úr okkar fiskisvæðum, verða auðvitað ekki af hendi látin, án þess að slík ráðstöfun hafi áhrif á veiðimöguleika íslenzku bátanna. Í því breytir sú yfirsleikja engu, að Bretar hafi eftirlátið okkur 5000 ferkm hafflöt á Selvogsbanka og víðar, þar sem grunnlínum hefur verið breytt. Jafnvel fyrir þá, sem svo eru auðtrúa að telja þetta vera greiðslu af Breta hálfu, stendur þó eftir sú staðreynd, að landhelgin, sem við höfum fyrir okkur eftir samninginn alræmda, er 9½ þús. ferkm minni en landhelgi okkar var fyrir þann samning, enda tala ýmsir fylgjendur stjórnarflokkanna í þeim byggðarlögum, þar sem fastast er að sorfið með landhelgissmækkuninni, beinlínis um fjárbætur úr ríkissjóði fyrir það aflatap, sem fyrirsjáanlegt er.

Alvarlegasta hlið þessa samnings er þó ekki sú, sem að okkur kreppir í dag, svo slæm sem hún þó er, heldur hin, sem varðar framtíðina. Skuldbindingin um að eiga jafnan á ókomnum árum missirislangt ráðslag við Breta um það, hverja lögsögu við viljum hafa á okkar landgrunni utan 12 mílna, og viðurkenning á dómsvaldi Haagdómstólsins, sem engin lög hefur til að dæma eftir í þessum málum, eru afglöp íslenzku ríkisstj. og þingliðs hennar, sem að mati brezka fiskimálaráðherrans, Christophers Soames, jafngilda því, að Bretar séu, ef ekki eigendur, þá a.m.k. meðeigendur okkar að landgrunni Íslands utan 12 mílna landhelginnar um alla framtíð. Fyrir þessari skoðun brezka ráðh. kröfðust yfirmenn á brezkum togurum trygginga, og ráðh. lét ekki á sér standa með þær. Þær eru í samningnum sjálfum, svaraði hann. Og í orðréttri þýðingu Morgunblaðsins hljóðar einn kaflinn í bréfi Soames, fiskimálaráðherra Breta, til togaramanna sinna þannig, með leyfi forseta:

„Að því er Bretland varðar, getur ekki verið um frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland að ræða nema í samráði við alþjóðadómstólinn, sem verður samkv. grundvallarreglum sínum að úrskurða eftir alþjóðalögum allan slíkan ágreining. Ekkert bendir til þess, að unnt sé að byggja kröfu um stærri lögsögu en 12 mílur á nokkrum gildandi alþjóðalögum.“

Þarna hafði Soames trygginguna. Þessi ráðstöfun á landgrunnssvæðunum utan 12 mílna, gildandi um alla framtíð, eins og íslenzka stjórnin og sú brezka lýsa yfir að verða skuli, er svo einstök og fráleit, að stjórnarandstaðan öll hefur neitað að viðurkenna rétt stjórnarinnar til þess að gera samninga af þessu tagi, enda mun svona samningsgerð fordæmalaus með öllu.

Og nú langar mig til þess að beina einni spurningu til hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssonar. Hann hefur þó alltaf tök á að útvega sér aðstoð lagadeildar háskólans, ef það skyldi eitthvað vefjast fyrir honum sjálfum að finna svarið: Hvenær hefur nokkurt land nokkurs staðar í veröldinni afsalað lögsögu sinni í hendur Haagdómstólsins yfir nokkru land- eða hafsvæði, sem það hafði sjálft áður lýst lögsögu sinni yfir, fyrr en Ísland nú með landhelgissamningnum við Breta? Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur mér til þessa ekki tekizt að fá vitneskju um, að neitt slíkt hafi áður skeð, og virðist mér því, að hér hafi í landhelgissamningnum verið sett heimsmet í réttindaafsali á þessu sviði.

Hér þarf ekki að skyggnast langt fram í ókominn tíma til þess að sjá, hverju stjórnarstefnan býður heim. Ef litið er til þeirra mánaða, sem liðnir eru af þessu ári, er tilefni til að óttast, að hún leiði yfir landið stórfelldara framleiðslutap á þessu ári en henni tókst á því síðasta. Þar hjálpast að röð af framleiðslutruflunum, sem allar má rekja beint til stjórnaraðgerða. Róðrarbann útgerðarmanna, kirkjugarðslegur fullbúinna fiskiskipa og alls kyns óeðlilegar frátafir er allt í beinu sambandi við það, að rekstrargrundvöllur útgerðarinnar var rifinn niður með viðreisninni. Verkföll háseta, verkamanna, yfirmanna á fiskiskipum, vélstjóra og verkakvenna eiga öll rót sína að rekja til þess, að samningar þessara aðila við atvinnurekendur voru skertir af ríkisvaldinu. En af öllu þessu hafa þegar hlotizt framleiðslutöp, þótt ætla megi, að þau töp séu smámunir hjá því, sem efnt er til með afsali landhelgisréttindanna.

Þótt þeir þættir, sem hér hefur verið drepið á um störf og árangur stjórnarinnar, sýni það ljóslega, að hér er stjórnin í sams konar afstöðu gagnvart þjóðarbúinu eins og húsráðandi, sem horfir á hús sitt brenna, þá skilur þar á milli stjórnarinnar og allra skaplegra húsráðenda, að við slíkar aðstæður mundu hinir síðartöldu reyna einhverjar björgunarleiðir, en það gerir stjórnin ekki. Breytinguna úr húsi í öskuhrúgu mun hún kalla sinn sigur, það er hennar háttur.

Það var ein af nauðsynjunum, sem stjórnin taldi liggja til grundvallar því að koma á hinu nýja kerfi, að skuldir þjóðarinnar við útlönd væru orðnar svo miklar, að greiðslubyrði vaxta og afborgana væri hér öllu að ríða á slig, sú þróun að taka lán erlendis yrði því að hætta. Illa hefur stjórninni samt gengið að koma þessu áformi sínu heim og saman við veruleikann, ekki síður en öðrum sínum viðreisnarþáttum. Skuldirnar við útlönd hafa þvert ofan í öll yfirlýstu áformin hækkað stórlega á árinu 1960, en ekki lækkað. Af því, hve hömlu- og eftirlitslaus söfnun verzlunarskulda hefur verið, er reyndar enginn aðili til í landinu, sem veit, hvað skuldaaukningin er mikil. En í skýrslum liggur fyrir, að nettóaukning fastra lána erlendis er á milli 400 og 500 millj. kr. á árinu 1960, og geta þá allir séð, í hvaða átt greiðslubyrðin hefur þróazt.

En einn er sá árangur, sem í skýrslum er skráður og stjórnin vitnar oft til og telur órækan vott þess, að vel gangi. Það er greiðslujöfnuðurinn við útlönd. Ef ég legg til grundvallar þær tölur, sem fram koma í grein, sem forstjóri Verzlunarráðs Íslands hefur ritað um viðskiptin og ég hef ástæðu til að ætla að sé byggð á traustum upplýsingum, þá telur hann þar, að okkar greiðslujöfnuður hafi batnað frá því að vera 475 millj. kr. halli á árinu 1959 í það að vera 460 millj. kr. halli nú um síðustu áramót. Það er því rétt, að greiðsluhallinn hefur minnkað um 15 millj. kr. Hins er af stjórnarinnar hálfu aldrei getið, að þessi breyting er annars vegar fengin með því að eyðileggja kaupgetu landsmanna, og er það lítið til að hrósa sér af, þótt fátækt banni fólki að lifa við svipuð kjör og nágrannaþjóðir okkar gera og af þeim ástæðum dragi úr almennum innflutningi, en sá samdráttur nam 300 millj. kr. á árinu 1960 eða rösklega 10%. Að hinu leytinu fékkst þessi bati í greiðslujöfnuðinn með því að ganga á eldri útflutningsbirgðir í landinu, svo að nam 200 millj. kr. Einnig þetta skrautblóm ríkisstj. fölnar því, um leið og á það er litið.

En það, sem er raunverulegur árangur viðreisnarinnar og beinar tekjur í kassa, minnist stjórnin sjaldan á. Það er hennar feimnismál. En það á hver sitt, og er ekki vert að draga þetta undan úr myndinni af viðreisninni. Einhvers staðar munu liggja 228 millj. kr. í gullastokki stjórnarinnar. Það er fæðingarstyrkur, sem Ameríkanar greiddu vinkonu sinni, íslenzku ríkisstj., fyrir að koma viðreisninni á. Viðreisnin var sem sagt engin íslenzk né heldur frumleg ráðstöfun. Hún var vasaútgáfa af efnahagsstefnu gamla Eisenhowers, sú sama stefna sem valdið hefur atvinnuleysi 6 milljóna manna í heimalandinu og Ameríkumenn sjálfir kosta nú kapps um að afmá heima fyrir. Það var frá upphafi blekkingin einber, að hér væri verið að leita eftir ráðum, sem þjóna ættu undir okkar atvinnuvegi. Hér var einungis verið að seilast eftir því, sem skammsýn stjórnarvöld héldu að væri hluti af gæðum Ameríku. Þótt þeir vestra viti nú, að þetta var einhver rotnasti ávöxturinn, sem finnanlegur var þar í landi, þá halda hérlendir ólánsmenn sig enn við það, að hnossið sé gullepli, töfragripur mikill og ágætur.

Allt þetta Ameríkuævintýri rifjar raunar upp aðra svipaða sögu, annað Ameríkuævintýri, sem gerðist fyrir hartnær þúsund árum. Eiríkur hét maður Þorvaldsson og var kallaður hinn rauði, eins og Alþfl. á sinni tíð. Hann var misindismaður og var útlægur ger af Íslandi fyrir vígaferli og ójafnað. Hafði hann spurnir af því, að land mundi vera í hafi í útnorður. Fann hann landið. Það var útjaðar Vesturheims. Þótt landið væri að mestu samfelld jökulbreiða, kallaði hann það Grænland til þess að koma þeirri hugmynd inn hjá þeim, sem höfðu ekki séð, að þar væri jörð frjósöm og góð undir bú, og sjálfsagt stendur gróðursæld grænlenzkra jökla að sínu leyti ekkert að baki viðreisnarmætti efnahagslöggjafar íslenzku ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra.

Eins og íslenzka ríkisstj. náði hópum manna til þess að samþykkja og trúa á viðreisn, svo fékk líka Eiríkur rauði margt manna til þess að trúa sínum lýsingum á hinu græna landi, hverfa frá búum sínum og sigla með sér til lands hinna nýfundnu gæða. En bæði Eiríki þessum og íslenzku stjórninni gekk ógreiðlega að komast yfir byrjunarörðugleikana. Fjöldinn allur af viðreisnarmönnum ríkisstj. sér aldrei hið þráða ríki sitt, því að þeir eru eða verða löngu farnir á hausinn með rekstur sinn, áður en dýrðin kemur í augsýn, á sinn máta alveg eins og 11 af 24 skipum Grænlandsfara í flota Eiríks týndust í hafi og komu aldrei að strönd fyrirheitna landsins.

Lengra en þetta er enn ekki komið endurtekningu ríkisstj. á aðförum Eiríks rauða, og enn er óséð, hverju viðreisnin kann á land að skola og hvað í hafi ferst. Það er hins vegar engin ástæða til að ætla, að það tvennt, sem stofnað er til með svo svipuðum hætti, muni ekki halda áfram að þróast í hliðstæðum, ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir til að snúa upp á stýrishjólið og breyta stefnunni. En dómsmrh. lýsti hér yfir rétt áðan, að það ætti ekki að gera. Hann er ánægður með stefnuna. Ríkisstj. íslenzka mun ekki heldur beygja af þessari leið ótilneydd. Hjá henni eru engin sjáanleg merki þess, að haldið verði úr hinu þúsund ára gamla kjölfari Eiríks rauða. En af honum er það að segja, að svo sem allir vita, þá bösluðust þeir þegnar hans, sem landi náðu, og niðjar þeirra um skeið við að halda í sér líftórunni í frosthörkum og hríðum þess lands, sem þeir höfðu verið ginntir til að gera byggð sína í. Síðan týndust þeir öllum, og veit nú enginn, með hverjum hætti þjóð sú eða ættstofn varð úti á hjarnbreiðu þess jökuls, sem menn voru á sínum tíma teygðir til með frásögnum um gras og gróður. Eiríki rauða hefði tekizt að tortíma íslenzku þjóðinni, ef allir landsmenn hefðu trúað blekkingum hans og ráðizt til fylgis við hann. Það var gæfa Íslands, að svo var ekki. Engu að síður var Grænlandsævintýri hans þjóðinni mikil blóðtaka. Viðreisnin er þjóðinni líka alvarlegt sár, ekki síður en Vesturheimsbrölt Eiríks rauða. Nú eins og þá liggur framtíð Íslands í hendi þeirra, sem eru ekki auðtrúa á blekkingar, en sjá, hvert stefnir, og hafa djörfung til þess að spyrna gegn því, að svo sé haldið sem horfir. Þrátt fyrir allt á þjóðin enn sína möguleika, og þeir munu nýtast henni til framfara og hagsældar, þegar samdráttar- og kaupkúgunarstefna núv. stjórnarvalda hefur verið kveðin niður og í hennar stað aftur kostað kapps um að auka framleiðslu landsmanna að magni og gæðum og að arður framfaranna verði notaður landsmönnum til hagsældar og þjóðinni til framfara, en fyrir því mun Alþb. beita sér af alefli. — Góða nótt.