27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Skaftason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 3. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, hneykslaðist á svokallaðri kommúnistaþjónkun framsóknarmanna hér áðan. Heilindi hans í þessu má bezt marka af því, að hann og hans flokksbræður í Hafnarfirði gengu með grasið í skónum á eftir hafnfirzkum kommúnistum og reyndu að fá þá til meirihlutasamstarfs við sig, eftir að slitnaði upp úr samstarfi Alþfl. og Alþb. í bæjarmálum Hafnarfjarðar á s.l. kjörtímabili. Þá talaði hann um, að sjálfstæðismenn hefðu rutt einhverjum björgum úr vegi landhelgismálsins. Engin nefndi hann þó björgin af eðlilegum ástæðum.

Þeir, sem til þekkja, vita, að meginreglan er sú, að atvinnureksturinn við sjávarsíðuna hefur yfir tiltölulega litlu eigin fjármagni að ráða. Í honum er bundið mikið lánsfé, sem er ekki óeðlilegt, ef tekið er tillit til þeirrar gífurlegu og hröðu fjárfestingar, sem verið hefur í þessari atvinnugrein á síðustu árum. Vegna þessara staðreynda ráða þau vaxtakjör, sem útvegurinn á við að búa á hverjum tíma, verulegu um afkomu hans. Með efnahagsaðgerðum hæstv. ríkisstj. í byrjun s.l. árs var það eitt aðalatriðið að stórhækka alla vexti í landinu hjá bönkum og hvers kyns fjárfestingarlánasjóðum. Ráðstöfun þessi átti að tryggja tvennt: auka sparnað í bankakerfinu og draga úr ásókninni í lánsfé, sérstaklega til fjárfestingarframkvæmda. Reynslan, sem fengin er af áhrifum vaxtahækkananna til þessa, er sú, að vonir þær, sem bundnar voru við aukningu sparifjár í lánastofnunum landsins, hafa algerlega brugðizt.

Hitt er svo rétt, að tekizt hefur að skera útlán svo niður, að jöfnuður hefur náðst í inn- og útlánum bankanna á s.l. ári. Þessi jöfnuður er þó dýru verði keyptur. Hann er fenginn með því að draga svo úr framkvæmdum á flestum sviðum, að engum manni með heilbrigða dómgreind dettur í hug, að við svo búið geti lengi staðið, ef ekki á af að hljótast stórtjón.

Í sjávarútveginum er málum nú svo komið, að þar hefur svo til engin ný fjárfesting verið, hvorki í skipum né vinnslustöðvum á landi, síðan efnahagslöggjöfin tók gildi. Þetta er ef til vill ekki svo mjög tilfinnanlegt í bili vegna mikils fjölda nýrra atvinnutækja, sem keypt höfðu verið fyrir efnahagslöggjöfina, en þó er ljóst, að eðlileg endurnýjun þeirra er nauðsynleg og aukning ekki sízt í fiskiðnaðinum.

Margir fiskifræðingar telja fiskstofnana fullnytjaða á Íslandsmiðum. Aukning þess afla, sem á land berst, hlýtur því fyrst og fremst að byggjast á aukinni hlutdeild Íslendinga í heildaraflamagninu frá því, sem nú er, en talið er, að Íslendingar veiði um helming þess fisks, sem aflað er nú á Íslandsmiðum. Að þessu stefnum við m.a. með sem víðastri fiskveiðilandhelgi. Þjóðir heims skortir margar mat og þá ekki sízt eggjahvítuefnaríka fæðu eins og fiskinn. Þessi staðreynd býður upp á mikla möguleika fyrir þjóðina, ef rétt er á haldið. Sjávaraflann á að verka til manneldis og fullvinna í landinu. Þetta mikla verkefni krefst ekki einungis góðs skipulags, heldur vinsamlegrar og viturlegrar fyrirgreiðslu af hálfu ríkisvaldsins, sem nú skortir mjög á að sé til staðar. Hæstv. ríkisstj. getur sýnt breytta afstöðu og betri hug til þessa atvinnuvegar með því að lækka vexti verulega nú strax. Ætti slíkt að vera henni auðveldara en ella, þar sem reynslan hefur sýnt, að vaxtahækkunin hefur ekki tryggt þá innlánaaukningu, sem búizt var við að hún gerði.

Nýgert samkomulag við Breta um lausn fiskveiðideilunnar hér við land hefur mikið verið rætt hérlendis og af talsverðum tilfinningahita. Stjórnarliðar héldu uppi ofboðslegum og vel skipulögðum áróðri fyrir ágæti samkomulagsins, og er mér nær að halda, að þeim hafi tekizt að vissu marki að villa um fyrir fólki um aðalatriði og aukaatriði samkomulagsins. Ein aðalröksemd stjórnarliða fyrir ágæti samkomulagsins fyrir Íslendinga var að vitna í skrif brezkra blaða og ummæli forustumanna brezka sjávarútvegsins. Með markvissum blaðaskrifum og útvarpsáróðri var þetta gert dag eftir dag. En fljótt skipast veður í lofti.

Maður er nefndur Christofer Soames, fiskimálaráðherra Breta og tengdasonur Churchills. Yfirmenn togaraflotans í Hull skrifuðu honum bréf fyrir nokkru og kröfðust þess, að brezka stjórnin veitti tryggingu fyrir því, að Íslendingar færðu fiskveiðilandhelgina ekki frekar út næstu 20 árin. Að öðrum kosti var hótað löndunarbanni á íslenzkum fiski í Bretlandi. Hverju svaraði nú Soames þessum herskáu löndum sínum? Jú, efnislega sagði hann þetta, eftir því sem Morgunblaðið skýrir frá: Þið, góðir hálsar, þurfið enga frekari tryggingu að fá fyrir því, að fiskveiðilandhelgin við Ísland verði ekki stækkuð frekar gagnvart Bretum næstu 20 árin, en þið hafið fengið með samkomulagi því, sem nýlega var gert við Íslendinga, því að, eins og hann sagði orðrétt: „raunverulega er í hinu nýgerða samkomulagi Breta og Íslendinga einmitt slík trygging.“ Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir Íslendinga, og menn taki eftir því, að þau eru ekki sögð af neinum óábyrgum æsingamanni. Hér talar sá maðurinn, sem stjórnaði samningaviðræðunum af hálfu Breta og veit því, eftir hverju var sótzt og hvað fékkst með samkomulaginu fyrir þá: Engin frekari útfærsla í næstu 20 ár a.m.k. En hvernig má slíkt vera? Var ekki fullyrt hér heima, að Íslendingar hefðu náð sérlega hagstæðum samningum og jafnvel leikið á Breta með samkomulaginu? Eða voru þetta skrök? Já, því miður, og þau af verra taginu, eins og reynt skal að sýna fram á með fáum orðum.

Íslenzk stefna í landhelgismálunum var mörkuð með setningu landgrunnslaganna frá 1948. Megininntak hennar var, að íslenzk stjórnvöld gætu einhliða ákveðið stærð fiskveiðilandhelginnar allt að mörkum landgrunnsins. Að sjálfsögðu ber að skilja landgrunnslögin þannig, að vissar takmarkanir séu á því, hversu langt Íslendingar geta fært út hverju sinni, m.a. verður að hafa hliðsjón af víðáttu landhelginnar hjá öðrum þjóðum.

Fyrir samkomulagið var það íslenzkra stjórnvalda einna að meta aðstæður og haga aðgerðum í samræmi við þær. Þetta var gert 1952 og 1958. Á sex árum var fiskveiðilandhelgin færð úr 3 sjómílum í 12 og fjörðum og flóum lokað. En nú segir herra Soames, að Íslendingar geti ekki hreyft sig næstu 20 árin a.m.k., af því að ekkert bendi til þess, að unnt sé að byggja kröfu um stærri lögsögu en 12 mílur á nokkrum gildandi alþjóðalögum, eins og hann sagði orðrétt.

En er nokkuð athugavert víð, að Íslendingar skuldbindi sig fyrir fram í öllum tilfellum til að hlíta lögsögu alþjóðadómstóls, er verður að byggja dóma sína á settum alþjóðalögum? kann einhver að spyrja. Vissulega. Fyrst og fremst vegna þess, að alþjóðalög um víðáttu landhelgi eru óljós og tvímælalaust langt á eftir þeirri þróun, sem mjög víða hefur orðið um víðáttu fiskveiðilandhelgi þjóðanna. Á milli 30 og 40 þjóðir hafa nú meira en 12 mílna landhelgi, sumar allt að 200 mílum. Engin þessara þjóða hefur þurft að leggja gildi fiskveiðilandhelginnar fyrir dómstól. Í öðru lagi er það staðreynd, að enn þá hefur a.m.k. ekki nema ein þjóð af hverjum þrem hjá Sameinuðu þjóðunum skuldbundið sig til að hlíta lögsögu alþjóðadómstólsins um lífshagsmunamál sín. Þótt allar þær 60–70 þjóðir aðrar, sem hafa ekki játað lögsögu alþjóðadómstólsins og land eiga að sjó, tækju t.d. 20 sjómílna landhelgi á morgun, skapaði það Íslendingum engan aukinn rétt frá því, sem er, fyrr en í fyrsta lagi eftir marga áratugi, er svo almenn venja hefði skapað alþjóðlega réttarreglu. En hvaða réttlæti væri það, að íslenzka þjóðin, sem allra þjóða mest á undir víðri landhelgi, þyrfti að una við langtum þrengri landhelgi en allur fjöldi þjóðanna?

Ég hef áður í umr. á hv. Alþingi reynt að sýna fram á þá miklu breytingu, sem samkomulagið við Breta hefur á alla aðstöðu Íslendinga til aðgerða í landhelgismálinu. Dæmið frá 1958, er fært var út í 12 sjómílur, sýnir þetta bezt. Enginn af forustumönnum núv. stjórnarflokka tók þá í mál að verða við margendurteknum kröfum Breta um að leggja gildi 12 mílna fiskveiðilandhelginnar fyrir alþjóðadómstólinn í Haag. Það er vandalaust að geta sér til um ástæðuna. Í dag er 12 mílna fiskveiðilandhelgin hins vegar staðreynd. Ég vil biðja ykkur, hlustendur góðir, að íhuga vel, hvort við hefðum 12 mílurnar nú, ef í gildi hefði verið nýgert samkomulag við Breta fyrir útfærsluna 1958. Þegar þetta er virt, er augljóst, hversu alvarlegt réttindaafsalið var, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur samið um við mestu mótgangsmenn Íslendinga í landhelgismálinu, Breta.

Hv. þm. Jónas Rafnar var í útvarpsumræðunum á dögunum að hæla núv. stjórnarflokkum fyrir sérstakan skilning á högum húsbyggjenda og dugnað við að útvega fé í byggingarsjóð ríkisins. Hann nefndi tölur máli sínu til stuðnings, m. a. að á s.l. ári hefði byggingarsjóður lánað 71.8 millj. kr., sem er um 8 millj. kr. meira en 1956, á fyrsta ári vinstri stjórnarinnar. Hverjum dettur í hug, að þessar 8 millj, dugi til að mæta þeim gífurlegu hækkunum á byggingarkostnaði, sem núv. stjórnarflokkar hafa staðið fyrir? Hér er því af litlu að státa. Húsbyggjendum væri áreiðanlega kærkomnara að fá upplýsingar um, hvaða ráðstafanir stjórnarflokkarnir ætla að gera til þess að tryggja nýjar tekjur í byggingarsjóð ríkisins, þar sem ljóst er, að tekjustofnar hans eru að dragast stórlega saman frá því, sem áætlað var í upphafi. Stjórnarflokkarnir hafa til þessa stráfellt hverja einustu till. okkar framsóknarmanna um fjárútveganir í byggingarsjóðinn. Þeir hafa meira að segja gengið svo langt á þeirri braut að fella till. frá mér og hv. þm. Einari Ágústssyni um smá-aukafjárveitingu til rannsókna og tilrauna, er miðuðu að lækkun byggingarkostnaðar. Þó liggja þær upplýsingar fyrir, að Íslendingar verja næstum því helmingi meira af þjóðarframleiðslu sinni til íbúðabygginga en aðrar þjóðir gera, að Íslendingar nota 2½ sinnum meira fé til íbúðabygginga á mann en Vestur-Þjóðverjar, en byggja samt tiltölulega færri íbúðir, og að sérfræðingur frá Sameinuðu þjóðunum, Davisson að nafni, sem kvaddur var hingað til að kynna sér þessi mál, hefur lýst því yfir, að þriðjungslækkun byggingarkostnaðar hérlendis sé alls ekki óraunhæft markmið til að keppa að. Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, verkar hástemmt lof hv. þm. um sérstakan velvilja núv. stjórnar í garð húsbyggjenda heldur illa. — Góða nótt.