27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

Almennar stjórnmálaumræður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þeir hv. þm. Framsfl. hafa nú hér í kvöld áfellzt Sjálfstfl. fyrir samstarf við kommúnista í ríkisstj. á árunum 1944–47. Vita ekki þessir hv. þm., að á þeim árum var fullt samstarf milli austur- og vesturveldanna um að ráða niðurlögum á heimsveldisstefnu Þýzkalands, og þau hófu sameiginlega uppbyggingu í þeim löndum, sem verst urðu úti í ófriðnum, og jafnskjótt og kommúnistar tóku upp baráttu fyrir sams konar heimsveldisstefnu, lauk að fullu samstarfi þeirra og Sjálfstfl.? En nú, þegar kommúnistar herða baráttuna fyrir heimsveldisstefnu Rússa, býður Framsfl. þeim opinn arm og vill öllu fórna fyrir nánustu samvinnu við kommúnista. Hér er því ekki hægt að hafa neinn samanburð á þessu tvenns konar samstarfi.

Þar sem þingræðið á dýpstar rætur, þykir það engu minni vandi né virðing að vera í stjórnarandstöðu en hitt, að bera fulla ábyrgð á stjórnarstörfum. Ábyrg stjórnarandstaða gegnir þeim vanda að gagnrýna af sanngirni, vizku og fullu drenglyndi misfellur í stjórnarfari. Hún leitar jafnan samvinnu við þingmeirihluta um framgang mála, sem varða heill þjóðarinnar. Þykir það jafnan bera vott um ábyrgðartilfinningu, þegar stjórnarandstaða sýnir fullan vilja í verki til samstöðu um lausn vanda, sem snertir utanríkismál og efnahagsmál, enda ávallt mikið undir því komið fyrir þjóðina, hversu þessum tveimur höfuðmálum er skipað. Á því veltur oft traust hennar og virðing út á við og inn á við. Slík stjórnarandstaða er jákvæð og ræður ávallt nokkru um afgreiðslu mála. Neikvæð og óábyrg stjórnarandstaða gagnrýnir allar stjórnarathafnir, góðar jafnt sem illar, torveldar framgang mála eftir mætti og sýnir meiri hl. í engu trúnað. Margir halda, að slíkt sé bæði sjálfsagt og nauðsynlegt, en það er mikill misskilningur. Slík stjórnarandstaða bregzt þingskyldu sinni, kjósendum sínum og hlutverki, og hún dæmir sig sjálfa úr leik og tryggir sér engan trúnað og engin áhrif.

Ég hef heyrt margan mætan þingmann Framsfl. harma það, að ekkert samband sé við hann haft í trúnaði um afgreiðslu mála nú, þegar hann er í stjórnarandstöðu. Álíta þeir, að hér sé um hefndir að ræða, þar sem flokkurinn hafi illu heilli í tíð vinstri stjórnarinnar gert sig sekan um einangrun Sjálfstfl. En fyrir þessu eru allt aðrar ástæður. Sem stendur hefur Framsfl. kosið sér það hlutskipti að standa í einu og öllu með kommúnistum í afgreiðslu mála á Alþingi. Mál, sem rædd eru í trúnaði við forustu Framsfl., eru samstundis orðin blaðaefni Þjóðviljans. Sameiginlega krefjast þessir flokkar, að tekið sé upp á ný vinstristjórnarhagkerfið, sem sprengdi stjórn Hermanns Jónassonar á hlaupunum frá öruggri efnahagsþróun og fram á yztu nöf efnahagsmálaóreiðu. Sameiginlega berjast þeir með öllum meðulum gegn efnahagsmálaviðreisninni, sem ríkisstj. varð að hefja til varanlegra umbóta. Sameiginlega taka þeir afstöðu til utanríkismálanna eftir róttækasta kerfi kommúnista, bera fram sameiginlegar breytingartillögur og nefndarálit í flestum veigamiklum málum og engu síður þótt stefnan, blær og stíll sé allt lagt til frá kommúnistum. Sameiginlega kjósa þeir í allar nefndir og allar stöður, ef þess þarf með til þess að tryggja kommúnistum sæti, og dugi það ekki, er fórnað framsóknarmanni fyrir kommúnista til þess að halda samstarfinu, og þetta gildir ekki einungis í þingi, heldur í öllum stéttarfélögum, þar sem því verður við komið. Þegar svo er komið samvinnu milli þessara tveggja flokka og forustumanna þeirra, að hnífurinn gengur ekki á milli skoðana Hermanns Jónassonar og Finnboga R. Valdimarssonar eða milli Eysteins Jónssonar og Lúðvíks Jósefssonar og það svo, að Eysteinn hefur ekki við að ómerkja mörg sannleikskorn, sem hann áður lét sér um munn fara um þá hættu, sem þjóðinni stafaði af vexti og viðgangi kommúnista, þegar hnífurinn gengur ekki lengur á milli orða og athafna Einars Olgeirssonar og Skúla Guðmundssonar, milli Karls Kristjánssonar og Hannibals Valdimarssonar, og þannig mætti halda áfram, þá er kominn tími til þess fyrir Framsfl. að gera sér það ljóst, að hann verður að taka afleiðingunum. Svo lengi sem hann haslar sér völl í innstu röðum kommúnista, helgar sér þeirra trú, hætti og siði, verður að líta svo á, að hann hafi sagt sig úr lögum lýðræðisflokkanna, og fara menn þá að hugsa um það í fullri alvöru, hvort ekki sé eins gott að ræða málin beint við kommúnistana frekar en við handbendi þeirra, Framsfl., sem nú sýnist vera viljalaust verkfæri í höndum kommúnistanna.

Svo sem kunnugt er, hafa bæði langar og harðar deilur farið fram að undanförnu um utanríkismál og efnahagsmál, bæði í útvarpi og innan þingsala. Hafa stjórnarandstæðingar hvorki gætt þar hófs í orðum né tíma og þverbrotið þar allar þingvenjur. Ég læt hlustendur um að dæma, hvort þessir menn tilheyri jákvæðum eða neikvæðum stjórnarandstæðingum. Þann dóm er auðvelt að fella.

Í þessum umr. var því haldið fram af Hermanni Jónassyni og öllum öðrum ræðumönnum stjórnarandstöðunnar, að við, sem vorum því fylgjandi, að teknar væru upp viðræður við Breta um lausn landhelgisdeilunnar, og samþykktum síðar samninginn á Alþingi, hefðum brugðizt trúnaði kjósenda okkar, því að til þess hefðum við aldrei fengið neitt umboð. Á þessum forsendum var þess krafizt, að Alþingi léti fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn, áður en hann yrði lögfestur. Út af þessu þykir mér rétt að spyrja Hermann Jónasson, hv. þm.: Hafði hann umboð kjósenda sinna almennt til þess að bera fram í utanrmn. þann 13. júlí s.l. þá till., sem hann bar þar fram til lausnar á þessu vandamáli? Voru þeir honum sammála um að taka á sig og þjóðina þá gífurlegu áhættu, sem því fylgdi að birta opinberlega slíka tillögu frá öðrum stærsta stjórnmálaflokki landsins til lausnar á viðkvæmu milliríkjavandamáli? Af þekkingu minni á mörgum þeim kjósendum er mér persónulega kunnugt um, að frá þeim hafði hann ekkert slíkt umboð og hefði aldrei getað fengið það.

Fulltrúi Alþb. í n., Finnbogi R. Valdimarsson, gladdist mjög yfir þessari till. Hermanns Jónassonar, enda var hún í fyllsta samræmi við hagsmuni yfirboðara kommúnista í austri. Krafðist hann þess, að till. yrði þegar samþykkt og ráðstafanir gerðar til skjótra framkvæmda. Þriðji nm. í samfylkingunni, Þórarinn Þórarinsson, studdi einnig ákveðið till. og þó hygg ég meira af hlýðni en vilja.

Með því að ég leit svo á, að till. mundi ekki einungis spilla stórlega fyrir lausn landhelgisdeilunnar, heldur og baka landinu í heild ófyrirsjáanlega erfiðleika og böl á öllum sviðum þjóðlífsins, sem seint eða aldrei yrði bætt, taldi ég mér skylt að krefjast þess, að hún yrði borin fram skriflega, svo að eigi yrði síðar deilt um orðalag og innihald, og neitaði sem formaður að afgreiða hana í n., fyrr en hún lægi fyrir þannig. En þá brá svo við, að hv. þm. Hermann Jónasson fór að átta sig á því, að hér hafði hann látið kommúnistana teyma sig einu feti of nærri pólitísku hengiflugi, á líkan hátt og hann gerði í efnahagsmálunum í tíð vinstri stjórnarinnar. Nú eins og þá nemur hann staðar. Átta mánuðir eru liðnir og skriflega er till. enn ókomin, landhelgisdeilan leyst, en eyðan í fundargerðarbókinni, sem færa átti till. inn í, bíður öll ókomin ár sem tákn um stefnubreytingu Framsfl. í málinu, annaðhvort fyrir nánari athugun formannsins á kjarna þess eða fyrir kröfu frá kjósendum flokksins.

En segja mætti mér, að þetta hefði kostað allhörð átök innan samfylkingarinnar, því að skýringin á flutningi tillögunnar upphaflega getur tæplega verið önnur en sú, að Hermann Jónasson hafi verið knúinn til þess af kommúnistum að þóknast þeim þannig í þessu höfuðbaráttumáli til þess að halda vináttu flokksins og samstöðu í landsmálum og tryggja, að sá hluti Framsfl., sem fastast knýr á til áframhaldandi og innilegri vináttu við kommúnista, klofnaði ekki frá flokknum og færði sig beinlínis yfir í Alþb. Hann gerir það í fullu trausti þess, að till, verði stöðvuð af meiri hl. utanrmn. og hún aldrei birt opinberlega, og þessu trausti Hermanns Jónassonar hefur meiri hl. ekki brugðizt.

Við ykkur, hlustendur góðir, vil ég því segja þetta: Ef þið enn fylgið Framsfl. að málum, þá knýið forustu hans af þeirri háskalegu braut, sem hann er nú á, þ.e. að sameinast óaðskiljanlega kommúnistum í stjórnmálabaráttunni til óbætanlegs tjóns fyrir íslenzka hagsmuni um mörg ókomin ár. Takist það ekki, ber ykkur sem góðum íslendingum að svipta hann því fylgi, sem þið veittuð honum, meðan hann enn var einn af lýðræðisflokkunum í landinu. — Gleðilega páska.