27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

Almennar stjórnmálaumræður

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Eftir haustkosningarnar kom ný stjórn til valda, samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Fyrsta verk hæstv. stjórnar var að setja nýja löggjöf um efnahagsmál og nýja gengisskráningu. Aldrei í sögu landsins hafði verið ráðizt á lífskjör alls almennings jafnfreklega og gert var með setningu hinnar nýju löggjafar. Íslenzk króna var lækkuð í verði, útlánsvextirnir hækkaðir í 11–12%, tollar og skattar hækkaðir um hundruð millj. króna, greiðsla vísitölu á allt kaup afnumin, dregið úr allri fjárfestingu, útlán banka og sparisjóða minnkuð. Það væri freistandi að ræða ýtarlega um afleiðingar hinnar nýju stefnu hæstv. ríkisstj., en til þess vinnst þó ekki tími nema að litlu leyti. Ég leyfi mér að benda á eftirfarandi atriði: Samið hefur verið við Breta um leyfi til að fiska upp að 6 mílum jafnhliða afsali af hendi Íslendinga um einhliða áframhald útfærslu landhelginnar. Uppbygging atvinnuveganna úti um land hefur að mestu stöðvazt. Togararnir liggja bundnir upp við bryggjur og hafnargarða, aðrir seldir á nauðungaruppboðum, en sumir fastsettir í erlendum höfnum vegna vanskila. Margir af þeim togurum, sem eru á veiðum, eru látnir sigla með aflann til sölu erlendis, en hraðfrystihúsin vantar fisk til vinnslu. Allan janúarmánuð og fram í febrúar var alger stöðvun hjá miklum hluta bátaflotans. Útgerðarmenn lýstu því yfir, að enginn grundvöllur væri til staðar til að reka útgerð þrátt fyrir gengisfellinguna, sem að dómi ríkisstj. átti að verða allra meina bót, fyrst og fremst fyrir útvegsmenn. Hæstv. ríkisstj. lét sér fátt um finnast, hélt að sér höndum og gerði ekki neitt. Eftir margra vikna samningamakk, verkföll og vinnudeilur, sem kostuðu þjóðina tugi milljóna króna, náðist samkomulag. Hæstv. ríkisstj. viðurkenndi í verki, að viðreisnin hefði beðið algert skipbrot, og neyddist til að stórauka aðstoð sína við útgerðina frá því, sem áður hafði verið, með nýjum lánum og öðrum hliðstæðum ráðstöfunum.

Afkoma almennings hefur stórversnað, síðan viðreisnin hófst. Kaupmáttur launa hefur minnkað gagnvart almennum vörukaupum um a.m.k. 17% síðan í febrúar 1960, eða um 35–40 vísitölustig, miðað við gömlu vísitöluna. Þetta er mesta kjararýrnun, sem átt hefur sér stað síðan 1952. Minnkandi kaupgeta almennings hefur þegar komið allhart niður á ýmsum þáttum iðnaðarins. Er nú svo komið, að við borð liggur alger stöðvun t.d. í húsgagnaiðnaði og fleiri hliðstæðum framleiðslugreinum. Öll verzlun hefur stórlega dregizt saman. Þannig stefnir hin svokallaða viðreisn beint að því að rýra kjör alls þorra þjóðarinnar, lama iðnað og verzlun, valda efnahagslegu hruni millistéttanna og leiða fátækt og örbirgð yfir almenning. Hagur bændastéttarinnar er miklum mun lakari nú en áður. Það stafar fyrst og fremst af því, að allar efnisvörur, sem landbúnaðurinn þarf til síns rekstrar og keyptar eru erlendis frá, hafa stórlega hækkað í verði.

Rétt er og að benda á, að sú hætta er yfirvofandi vegna versnandi lífskjara og vegna minnkandi kaupgetu alls almennings í bæjum og kauptúnum, að sala landbúnaðarvara dragist stórlega saman frá því, sem áður hefur verið.

Ein aðalafleiðing af efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstj. er minnkandi atvinna alls þorra verkafólks og um leið stórversnandi lífskjör mikils hluta þjóðarinnar. Að undanförnu höfðu menn getað aukið tekjur sínar allverulega með því að vinna eftirvinnu, nætur- og helgidagavinnu og bætt sér þannig upp hið mjög svo lága dagkaup. Nú er þegar orðinn mikill og alvarlegur samdráttur í öllum byggingarframkvæmdum, sem mun svo, þegar fram liða stundir, valda hækkun húsaleigu vegna vöntunar á húsnæði. Fjöldi þess fólks, sem hafði atvinnu sína við byggingar, hefur orðið að leita sér atvinnu til annarra starfsgreina. Það þýðir að sjálfsögðu að meir og meir þrengist á vinnumarkaðinum, og getur ekki endað á öðru, ef áframhald verður á þessari óheillaþróun, en með atvinnuleysi fjölda fólks, enda mun nú svo komið, að verkamenn munu telja sig heppna, ef þeir geta fengið atvinnu alla virka daga, en á því eru miklir örðugleikar vegna vaxandi framboðs vinnuafls frá öðrum starfsgreinum.

Orsakanna fyrir þessari óheillaþróun er fyrst og fremst að leita í misviturlegum efnahagsaðgerðum. Aðgerðir hæstv. ríkisstj. stefna þannig allar að einu og sama marki, þ.e. að draga úr eðlilegum og nauðsynlegum framkvæmdum og skapa hæfilegt atvinnuleysi, en slík stefna er óskadraumur vissra valdamanna.

Jafnframt þessum skuggalegu aðgerðum hafa svo allar kauphækkanir verið fordæmdar, hve mikið sem dýrtíðin kynni að vaxa. Allar slíkar aðgerðir af hendi launastéttanna eru taldar þjóðhættulegar. Hæstv. ríkisstjórn hefur hótað verkalýðshreyfingunni nýrri gengisfellingu, nýju dýrtíðarflóði, ef hún skyldi knýja fram kauphækkanir. Blöð hæstv. ríkisstj. og atvinnurekenda tala nú mikið um kjarabætur án verkfalla. Það séu aðeins vondir menn innan verkalýðshreyfingarinnar, sem vilji verkföll, hinir góðu og gætnu menn vilji kjarabætur, en bara án verkfalla. Allt slíkt tal er hinn ósvífnasti áróður. Vitanlega óskar enginn meðlimur innan verkalýðshreyfingarinnar eftir verkfalli. Allt launafólk vill umfram allt ná fram viðunandi kjarabótum án verkfalla, ef þess er nokkur kostur. En verkalýðshreyfingin er þess vel minnug, að frá fyrstu tíð hefur hún orðið að beita verkfallsvopninu í langflestum tilfellum til þess að knýja atvinnurekendur inn á viðunandi kjarabætur. Í mörgum tilfellum hafa verkalýðsfélögin orðið að heyja langvarandi verkföll til þess eins að knýja hrokafulla atvinnurekendur til að viðurkenna samningsrétt verkalýðsfélaganna. Hægt væri að koma með ótal dæmi úr sögu verkalýðshreyfingarinnar, sem sýna það og sanna, að atvinnurekendur hafa aldrei látið af hendi neinar meiri háttar kjarabætur án harðrar baráttu. En verkalýðshreyfingin hefur aldrei og mun ekki beita verkfallsvopninu, fyrr en allar aðrar leiðir hafa verið reyndar til hins ýtrasta. Hún mun nú sem alltaf áður athuga sinn gang og taka sínar ákvarðanir að beztu manna yfirsýn.

Hæstv. ríkisstj. óskaði eftir starfsfriði í upphafi síns stjórnartímabils. Hún hefur haft starfsfrið á annað ár. Hver er svo útkoman? Áframhaldandi versnandi lífskjör fólksins í landinu, alger neitun á því að mæta kröfum verkalýðsfélaganna um bætt launakjör, alger neitun við því að draga úr dýrtíðarflóðinu. Í október í haust óskaði miðstjórn Alþýðusambands Íslands eftir viðræðum við ríkisstj. um ráðstafanir til lækkunar á vöruverði og fleira til að auka kaupmátt launa. Á fundi, sem haldinn var 3. nóv. með ríkisstj., fengust engin svör við þessari málaleitun. Síðan hefur ekkert gerzt í málinu annað en það, að samninganefnd Dagsbrúnar og nokkurra annarra verkalýðsfélaga hefur ásamt fulltrúum atvinnurekenda óskað eftir viðtalsfundi við hæstv. ríkisstj. Mér er ekki kunnugt um, að neinn árangur hafi orðið af þeim viðræðum. Þrír mánuðir eru nú liðnir, síðan verkalýðsfélögin settu fram kröfur sínar um kjarabætur. Fram hafa farið nokkrar umr. á milli samningsaðila, en án nokkurs árangurs. Atvinnurekendur hafa ekki komið til móts við fulltrúa verkamanna í einu einasta atriði. Aftur á móti eru settar fram tillögur til lækkunar.

Hvernig sem yfirvofandi kjaradeilur kunna að fara, hvort sem þær verða leystar með verkfalli eða án verkfalls, verður verkalýðshreyfingin ekki sökuð um, að hún hafi ekki sýnt fullan vilja til þess að ná fram samningum án verkfalls. Atvinnurekendur hafa verið aðvaraðir. Nú eru það þeir, sem verða að segja til, hvort þeir vilja lausn þessara mála án verkfalls. Og nú spyr verkafólkið um allt land: Hvaða kjarabætur vilja atvinnurekendur semja um án verkfalla? Allur almenningur, öll verkalýðshreyfingin krefst skýlausra svara og það án allra undanbragða. Opinberar skýrslur sýna, að á s.l. fimm árum, 1955–1959, hafa framleiðslutekjur þjóðarinnar aukizt um 6.3% að meðaltali á ári eða yfir 35% á þessu fimm ára tímabili. Ef kaupmáttur tímakaupsins hefði verið hækkaður um þessi 35.3%, eins og framleiðsla þjóðarinnar, ætti tímakaup almennra verkamanna að vera nú 29.79 kr. í stað 20.67 kr., sem það er nú. Framleiðsluaukningin hefur því sannarlega ekki fallið verkafólkinu í skaut. Það sýnir einnig, að þær kröfur, sem verkalýðsfélögin hafa sett fram við atvinnurekendur, eru byggðar á fyllstu sanngirni og sízt of háar. Þessar staðreyndir ættu menn að hafa í huga, þegar rætt er um kaupkröfur verkalýðsfélaganna.

Íslenzkur verkalýður hefur um árabil skipað virðulegan sess meðal stéttarbræðra sinna erlendis hvað lífsafkomu snertir. Nú hefur verkalýð Íslands verið hrundið úr þeim sessi og settur skör lægra en hjá flestum öðrum þjóðum. Kaup verkamanna á Íslandi er nú orðið miklu lægra en kaupgjald verkamanna á Norðurlöndum. Eitt ósvífnasta ákvæði efnahagslaganna var afnám vísitölunnar. Árið 1942 knúðu verkalýðsfélögin það ákvæði inn í samninga, að á allt kaupgjald skyldi greidd full vísitala. Vísitalan var vörn hins fátæka manns gegn ört vaxandi verðbólgu. Hún var hindrun þess, að ósvífnir valdhafar gætu hindrunarlaust leitt flóðbylgju verðhækkana yfir þjóðina, án þess að launastéttirnar fengju það bætt í hækkaðri vísitölu. Afnám vísitöluuppbóta á kaup var frekleg skerðing á löglegu samningafrelsi verkalýðsfélaganna við atvinnurekendur. Öll verkalýðsfélögin höfðu í samningum sínum við atvinnurekendur ákvæði um það, að full vísitala skyldi greidd á allt kaupgjald. Verðbólgan hefur alltaf verið aðferð atvinnurekendanna og þeirra umboðsmanna til að skerða kjör launastéttanna. Til þess að ná sem beztum árangri af þessari þokkaiðju var vísitöluuppbótin á kaup afnumin. Það er jafnvítavert að hafa lagt til atlögu við verkalýðssamtökin og síðan að berjast á móti öllum kauphækkunum, eins og það er ótrúleg grunnhyggni að láta sér detta í hug, að alþýða manna sætti sig við slíkan ránskap baráttulaust.

Fyrir síðustu kosningar gáfu núv. stjórnarflokkar út kosningastefnuskrá. Fyrsta atriðið var stöðvun verðbólgunnar. Með gengisfellingarlögunum og stórfelldri hækkun óbeinna skatta var verðbólgan mögnuð um allan helming. Óðaverðbólga flæddi yfir landið. „Jafnvægi í þjóðarbúskapnum,“ sögðu stjórnarflokkarnir. Með stórhækkuðu verðlagi samhliða afnámi vísitöluuppbótanna á kaup var stórlega þrengdur kostur allra launþega í landinu. Skipting þjóðarteknanna var gerð stórum ójafnari en áður, og þjóðarauðurinn færðist á hendur tiltölulega fárra einstaklinga og auðfélaga. Stéttafriður var þriðja kjörorðið. Með þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur látið framkvæma, er stefnt að stéttaófriði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Uppbygging atvinnuveganna var fjórða atriðið í stefnuskrá núv. ríkisstjórnarflokka. Allar aðgerðir hæstv. ríkisstj., svo sem gengisfelling, takmörkun á lánsfé, gífurleg vaxtahækkun og fleiri víðlíka aðgerðir, hafa dregið úr kaupum nýrra framleiðslutækja og stórlega torveldað allan atvinnurekstur. Uppbygging nýrra atvinnustöðva úti um land er þegar stöðvuð, og gjaldþrot vofa yfir hjá fjölda fyrirtækja víðs vegar í kaupstöðum og sjávarþorpum. Innlánsdeildum sparisjóða og kaupfélaga er gert að skyldu að afhenda Seðlabankanum í Reykjavík stóran hluta af innlögðu sparifé almennings. Slíkar aðgerðir koma að sjálfsögðu harðast niður á dreifbýlinu. Aukin framleiðsla og bætt lífskjör, sögðu stjórnarflokkarnir. Allar athafnir hæstv. ríkisstj. miða markvisst að samdrætti í, framleiðslunni. Kreppt hefur verið að lífskjörum fólksins, en auðmenn og braskarar fá óhindrað að mata krókinn á kostnað alþýðunnar. Þannig hafa báðir stjórnarflokkanna svikið öll sín kosningaloforð. Sjálfir standa forustumenn þessara flokka afhjúpaðir frammi fyrir alþjóð. En eitt er víst, og það er það, að kjósendurnir eru nú reynslunni ríkari og munu minnast þess við næstu kosningar.

Ofan á allt það, sem ég hef hér minnzt á, koma svo svikin í landhelgismálinu. Ég fullyrði, að aldrei hafi verið framin geigvænlegri svik gagnvart þjóðinni en með samkomulagi því, sem nú hefur verið gert við Breta. Það eitt ætti að vera nægilegt til þess, að þjóðin afbæði sér slíka ríkisstj.

Kjörum alls verkafólks og annarra launamanna er nú þannig komið, að ekki verður við unað. Allir vita, að ríkisstj. mun af fremsta megni beita sér á móti öllum kjarabótum. En verkalýðshreyfingin er staðráðin í því að hafa hótanir ríkisstj. um nýja gengisfellingu og nýja verðbólgu að engu. Hæstv. ríkisstj. hefur verið boðið upp á samstarf um kjaramálin, en hingað til hefur hún ekki verið til viðtals um neinar breytingar til úrbóta. Verkalýðsfélögin og allir launþegar hafa því enga aðra leið að fara en að snúa sér beint til atvinnurekenda með kröfur sínar, enda hafa mörg þeirra þegar gert það. Ef verkalýðsfélögin fara á annað borð á stað, má ganga út frá því sem vísu, að þau munu ekki hörfa frá settu marki. Íslenzk verkalýðshreyfing hefur oft áður átt í harðvítugri baráttu við hrokafullt atvinnurekendavald og þröngsýna og afturhaldssama ríkisstj., en borið samt sigur af hólmi. Þótt atvinnurekendur telji sig máske sterka, eru hinir mörgu og smáu í þjóðfélaginu margfalt sterkari, ef þeir standa saman í einni órofa fylkingu. Nú er um lífshagsmuni verkafólksins að tefla. Það verður ekki spurt um pólitískar skoðanir, heldur stefnt að sameiginlegum sigri verkalýðshreyfingarinnar. Íslenzk alþýða mun aldrei sætta sig við fátækt og stórkostlegt kauprán og kjaraskerðingu baráttulaust.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið að sér það ömurlega hlutverk að skipuleggja og auka fátækt á íslenzkum alþýðuheimilum, tekið að sér það óþurftarathæfi að berjast á móti öllum kjarabótum, öllum kauphækkunum til handa fátæku verkafólki. Það er ljótt athæfi. Það er eitt versta verkið, sem hægt er að vinna í íslenzkum stjórnmálum. — Góða nótt.