27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. ráðh., Guðmundur Í. Guðmundsson, sem bar ábyrgð á ríkissjóði í einkastjórn Alþfl., reyndi að halda því fram hér áðan, að tillaga mín um rannsókn á viðskiptum hans sem fjmrh. við toppkrata, sem er einn aðalfjáraflamaður Alþfl. og Alþýðublaðsins, síðan fyrrv. skólastjóri Gagnfræðaskóla Austurbæjar lét af því starfi, beri vott um, að Alþb. telji, að í þessu glæframáli standi Alþfl. — ég vil ekki segja ríkisstj. — lakast. Flutningur till. sé merki um, að aðrar séu ekki ávirðingar Alþfl. Í öllu öðru hafi Alþfl. staðið sig vel. Það er ekki alveg að ófyrirsynju, að það hvarfli að hæstv. ráðh., að í því máli hafi hann gengið lengst í varhugaverðum ráðstöfunum, því að ráðstafanir hans í Keilis- og Brimnesmálinu svonefnda eru eitt mesta hneykslismál síðari ára, þegar stórríkir aðilar mynda hlutafélag með 100 þús. kr. hlutafé til kaupa á togarakláfi, sem þeir segja að hafi kostað 5.4 millj. eða fimmtíu og fjórfalt hlutaféð, til þess að krækja í ríkisábyrgð, sem nú nemur 7 millj. kr. eða sjötugföldu hlutafénu, og af ábyrgðinni hefur ríkissjóður nú þegar orðið að greiða 1.8 millj. kr. eða átjánfalt hlutafé toppkratanna. Tryggingin er aðeins í vélvana togaranum einum, sem vottorð fulltrúa kaupandans eins virðast hafa verið lögð fram um, þegar ábyrgðin var veitt. Á undan ríkissjóði koma svo sjóveðskröfur að upphæð 1½ millj. kr. Þetta hneykslismál allt ræddi ég hér á þingi í dag og rakti, en undir umr. um málið læddist hæstv. ráðh., Guðmundur Í. Guðmundsson, út eftir að hafa látið falla lík ummæli og hér áðan.

En það er alger misskilningur ráðh. og flótti, að Alþfl. standi ekki jafnilla í öðrum málum og þessu. Þess vegna ætla ég að rekja nokkuð efndir flokksins og reyndar stóra íhaldsins líka á þeim loforðum, sem þeir gáfu því fólki, sem á þá ósk heitasta að eignast eigin íbúð yfir sig og börn sín.

Á árum vinstri stjórnarinnar hóf fjöldi manna smíði eigin íbúða í trausti þess, að haldið yrði áfram stefnu þeirrar stjórnar að auðvelda almenningi að eignast þak yfir höfuðið, enda hefði það verið í samræmi við yfirlýsta stefnu allra flokka þá, að svo yrði gert, líka Sjálfstfl., sem skilið hafði við veðlánakerfið fjárþrota, því að hann var nú kominn í stjórnarandstöðu og sparaði ekki yfirlýsingarnar um velvild sína í garð húsbyggjenda og húsnæðisleysingja. En nú er að syrta í lofti, og horfur þeirra, sem eru að basla við að eignast eigin íbúðir, eru uggvænlegar. Og hver er orsökin? Hvað hefur gerzt? Orsökin er sú, að Sjálfstfl., sem skildi við veðlánakerfið gjaldþrota 1956 og barðist gegn stóreignaskattinum einum skatta, sá flokkurinn, sem mestu lofaði húsbyggjendum og húsnæðisleysingjum fyrir síðustu kosningar, fer nú með meirihlutavald á Alþingi með fulltingi Alþfl., sem einu sinni var ekki í vafa um, að allt væri betra en íhaldið.

Orsökin til þess, að nú horfir illa í málum húsnæðisleysingja, er sú, að of margir tóku mark á kosningaloforðum íhaldsins sumarið 1959. Það var að vísu enginn leikur að byggja íbúð á tímum vinstri stjórnarinnar og hefur aldrei verið. En þeir menn voru heppnir, sem gátu lokið því af, áður en þeir flokkar, sem nú fara með stjórn, tóku við og greiddu húsbyggjendum um allt land rothögg með kauplækkun, kaupbindingu, gengislækkun, stórfelldum verðhækkunum, sem af henni leiddi, og vaxtaokri. Fyrst voru með beinni kauplækkun skertir stórlega möguleikar á, að menn gætu lagt eitthvað til hliðar af tekjum sínum til þess að standa undir framkvæmdum við húsbyggingar. Síðan er með 135% gengislækkun hækkað svo stórkostlega verð á öllum lífsnauðsynjum, að hafi eitthvað áður verið eftir af launum til ráðstöfunar í húsbyggingu eða til afborgana af lánum, þá var það hirt, að verulegu eða öllu leyti með almennum verðhækkunum. Og kynni svo að fara, að þrátt fyrir allar þessar ráðstafanir ætlaði samt einhver að reyna að koma þaki yfir fjölskyldu sína, þá hefur verið dyggilega séð um það með gífurlegum verðhækkunum á byggingarefni, að sá hinn sami fái þá a.m.k. ekki nema hluta af því byggingarefni, sem áður fékkst fyrir sömu upphæð. Og í stað þess að auðvelda mönnum lántökur til að bjarga sér tóku Alþfl. og Sjálfstfl. sig til, afnámu okurlögin, stórhækkuðu vexti af öllum lánum og styttu svo lánstímann á ýmsum lánum, til þess að engum möguleika væri sleppt til að gera almenningi ókleift að byggja. Þetta voru efndirnar á loforðunum fögru.

Rúm tvö ár eru síðan íhaldsflokkarnir, sá litli og sá stóri, hófu aðgerðir sínar í húsnæðismálum. Það fólk, sem fól þessum flokkum að fara með þau mál, sem mestu ráða um, hvort það getur eignazt eigin íbúð, hefur fengið rúmlega tveggja ára lærdómsríka reynslu af því, hvaða afleiðingar það hefur að treysta á umhyggju íhaldsflokka fyrir hag alþýðufólks. Kaup hefur verið lækkað, en byggingarefni hefur hækkað yfir 50%. Það fólk, sem staðið hefur í húsbyggingum eða íbúðakaupum undanfarin ár, hefur reyndar alltaf vitað, að þær framkvæmdir eru ekki unnar með sitjandi sældinni, og naumast búizt við, að svo yrði í bráð, en ég fullyrði, að á þessari hjálparhönd íhalds, hins litla og hins stóra, hefur það naumast átt von. Þeir, sem komnir voru áleiðis með byggingarframkvæmdir, þegar ólög íhaldsstefnunnar riðu yfir, eru þó verst staddir allra. Þeir geta í rauninni hvorki haldið áfram framkvæmdum né hætt, standa uppi með fokheld hús, borga af þeim stórfé í vexti og kyndingarkostnað, borga svo á sama tíma háa húsaleigu og hitunarkostnað, en hafa svo engin tök á því í þeirri dýrtíð, sem nú er, að halda byggingunni áfram og gera hana íbúðarhæfa, svo að losna megi við húsaleigu og kyndingarkostnað á annarri íbúð. Að vísu er hitunarkostnaðurinn varla hár samkv. vísitölunni, sem hæstv, menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, er jafnvel enn hrifnari af en íhaldinu sjálfu og er þá mikið sagt, því að í henni er gert ráð fyrir, að hitunarkostnaður við meðalíbúð sé 156 kr. á mánuði.

Fyrir aðgerðir viðreisnarstjórnarinnar í húsnæðismálum hefur að miklu leyti tekið fyrir, að almenningur hefjist handa um húsbyggingar. Þegar á s.l. ári dró stórlega úr því, að byrjað væri á byggingum, og eftirspurn eftir lóðum er úr sögunni. Sýnilegt er, að nú á þessu ári verða sárfáir til þess að hefjast handa, og skortir verulega á, að séð verði fyrir húsnæði vegna eðlilegrar fólksfjölgunar og endurnýjunar á íbúðum, og hlýtur þessi þróun að valda húsnæðisskorti og hækkun á húsaleigu.

Það hefur verið núv. stjórnarflokkum kærkomið umræðuefni, að af fjárfestingu einstaklinga og þá einna helzt af viðleitni almennings til þess að reisa sér þak yfir höfuðið stafaði jafnvægisleysi og erfiðleikar í efnahagsmálum. Með viðreisnarstefnunni, sem birtist í kauplækkun, kaupbindingu, gengislækkun og vaxtaokri, hafa hendur almennings verið svo rækilega bundnar, að ríkisstjórnarflokkarnir hafa örugglega komið fram þeim vilja sínum, að alþýða manna hafi ekki með höndum fjárfestingarframkvæmdir. Og það kemur æ betur í ljós, að þær byggingarframkvæmdir, sem þó mega eiga sér stað, eru öðrum ætlaðar. Bankarnir, þeir aðilarnir, sem mest græða á vaxtahækkuninni frá skuldugum húseigendum og öðrum og fá af eigin fé 210 millj. kr. á ári í vexti, valda líklega ekki jafnvægisleysi eða spennu í efnahagskerfinu og lifa ekki heldur um efni fram. En þeir heyja nú innbyrðis kapphlaup í fjárfestingar- og húsbyggingarmálum, jafnhliða því sem almenningur, sem vextina borgar, er neyddur til að hverfa frá áformum sínum um íbúðabyggingar. Á sama tíma og alþýðufólki er að verða ókleift að halda íbúðum sínum og tekið er að mestu fyrir byggingar íbúða, rís hvert bankahúsið af öðru í Reykjavík, auk þeirra, sem keypt eru og innréttuð, og á örskömmum tíma munu bankastofnanir í Reykjavík hafa keypt lóðir og hús og hafið byggingar á húsum, sem samtals munu nema eigi minna en 60 millj. kr., en það er kostnaðarverð 130–140 íbúða.

Til þess að ekki hallist á um efni og anda, fer ekki illa á því, að eina verulega samkeppnin, sem peningastofnanirnar verða fyrir um fjárfestinguna, er frá kirkjunum. En nú er í Reykjavík og nágrenni nýlokið við eða í smíðum slíkur fjöldi af kirkjum, að myndarlega verður fyrir því séð, að þeim heimilisfeðrum. sem áður freistuðust til þess að nota sunnudagana til svo veraldlegra og ókristilegra verka að byggja yfir fjölskyldur sínar, gefst nú kostur á rúmgóðum sunnudagahúsakynnum í staðinn, þar sem hægt er að taka þátt í vikulegum fyrirbænum hinna andlegu höfðingja fyrir ríkisstj., sem helgarfríin gaf. Ekki mun af veita.

Svo slæmur sem viðskilnaður íhaldsins var í húsnæðismálum 1956, er hann þó hátíð hjá því ástandi, sem núv. stjórn er að koma á í þessum málum. Henni hefur tekizt að koma einu og sama högginu á húsbyggjendur, leigjendur, iðnaðarmenn og byggingarefnisframleiðendur. Til þess að klóra yfir þessa frammistöðu hafa fulltrúar íhaldsstjórnarinnar í umr. hér á hv. Alþ. reynt að halda sig við það, að allnokkru hafi verið úthlutað úr húsnæðismálasjóði, síðan stjórnin tók við. Þær tölur eru m.a. fengnar með því, að stjórnin greip til þess ráðs að færa 12–13 millj. kr. af víxillánum, sem menn höfðu fengið í bönkum og sparisjóðum, yfir í föst lán úr húsnæðismálasjóði. Sú aðstoð, sem húsbyggjendum þannig er veitt, er þessi: Mönnum, sem fyrir valdatöku íhaldsins höfðu víxillán með 7% vöxtum, er nú gefinn kostur á að fá þeim breytt í húsnæðismálasjóðslán með 9% vöxtum. Þetta eru efndirnar á kosningaloforðunum og umbótin frá því, sem var fyrir valdatöku stjórnarinnar. 7% víxilvextir, sem menn höfðu fyrir gengislækkun og vaxtabreytinguna, hafa verið bundnir í allt að 25 ár við 9 prósentin. Og samanlögð upphæð allra þessara víxla telst svo úthlutun úr húsnæðismálasjóði, og þar með hafa menn étið upp þá úthlutun úr húsnæðismálasjóði, sem þeir höfðu gert sér vonir um að fá til viðbótar víxillánunum. Þá upphæð, sem með þessum millifærslum fæst, telja liðsmenn stjórnarinnar svo stóra viðbót við úthlutun á fé til húsbyggjenda.

Fyrir aðgerðir ríkisstjórnarflokkanna hefur byggingarkostnaður hækkað svo stórkostlega, að verðhækkanir á efni í meðalíbúð munu nema nálega 60 þús. kr. Þær lánveitingar, sem stjórnarvöldin láta enn nægja til hvers einstaklings, gera því ekki miklu meira en að duga fyrir hækkuninni einni saman. Og sumt af lánveitingunum til að greiða hækkunina er svo þar að auki fengið með þeim hætti, sem ég áðan lýsti, að færa víxla yfir á húsnæðismálasjóðslán. Afrek ríkisstjórnarflokkanna er því í rauninni það að hirða mestalla lánsúthlutunina til húsbyggjenda með verðhækkunum á byggingarefni. Það, sem fyrir viðreisnarráðstafanirnar var lánsúthlutun til efniskaupa, er nú lánsúthlutun til greiðslu á hækkun, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa sjálfir ákveðið á byggingarefni, og vextirnir af lánum til greiðslu á þessum verðhækkunum eru 9%. Ríkisstj. íhalds og krata lánar mönnum með 9% vöxtum þær verðhækkanir, sem hún hefur sjálf valdið, en sviptir þá í rauninni öllum lánveitingum fyrir byggingarkostnaði, sem var, þegar þessi stjórn tók við, og má þó ekki gleyma því, að lífsnauðsynjar manna hafa hækkað svo í verði, að þær hækkanir einar gera flestum ókleift að byggja, ekki sízt þegar kauplækkun hefur líka verið beitt. Auk alls þessa hafa svo ríkisstjórnarflokkarnir einskis fjár aflað í sjóð þann, sem lánar til verkamannabústaða, og standa uppi með hann tóman og útilokað, að hann geti að óbreyttu veitt ný lán á næstunni.

Frammistaða ríkisstjórnarflokkanna í húsnæðismálum og brigðmæli þeirra á öllum kosningaloforðum sýna ljóslega ásamt allri lífskjaraskerðingunni, að það hefur nú gerzt, sem alþýða manna á Íslandi hefur óttazt um árabil. Íhaldið hefur fengið meirihlutavald á Íslandi, og verkin leyna sér ekki. Fyrir atbeina Alþfl., sem eitt sinn átti að gegna því hlutverki að vernda íslenzka alþýðu gegn íhaldinu, hefur það sama íhald fengið meirihlutavald á Íslandi. Og svo traust er atfylgi Alþfl. við íhaldið, að hv. 5. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, hefur lýst því yfir á Alþingi, að það meirihlutavald, sem Sjálfstfl. hefur þannig fengið með Alþfl., komi Sjálfstfl. betur og sé heppilegra en að Sjálfstfl. hefði meirihlutavaldið einn.

Einkenni íhaldsstefnunnar koma hvarvetna í ljós, jafnt í byggingarmálum sem öðrum. Á tímum vinstri stjórnarinnar var oft erfitt að fá byggingarefni, timbrið var rifið út jafnóðum og það kom til landsins. Nú eru erfiðleikarnir ekki fólgnir í því, að ekki fáist byggingarefni. Það er hvenær sem er hægt að ganga í timburhlaðana, aðeins ef menn hafa efni á að kaupa. Í dag er gnægð af byggingarefni í búðunum, en þeir, sem þarfnast þess mest, hafa ekki efni á að kaupa það. Þetta er einkenni allra tímabila, þegar íhaldið fer með völd. Þess vegna sagði hæstv. menntmrh., Alþýðuflokksmaðurinn Gylfi Þ. Gíslason, fyrir réttum 10 árum, með leyfi hæstv. forseta:

„Fylgjendur hinna frjálsu viðskipta telja það aðalatriðið, að búðirnar séu fullar, þótt almenningur geti lítið keypt. Það liggur við, að þeir telji velmegunina þeim mun meiri sem meira er af vörum í búðunum, en minna hjá almenningi. Það er þessi stefna, þessi íhaldsstefna, sem hæstv. ríkisstj. er nú að leiða yfir Íslendinga.“

Þessi tíu ára gömlu ummæli ráðh. eru glögg og nákvæm lýsing á þeirri íhaldsstefnu, sem nú er verið að leiða yfir Íslendinga og Alþfl. ber ábyrgð á. Ríkisstj. kemur dyggilega í veg fyrir, að húsnæðisleysingjar byggi íbúðir, en bankahallir og kirkjubyggingar eru það, sem koma skal. Þetta er í samræmi við það, að með viðreisnarstefnunni er almenningur reyttur inn að skyrtunni, en af almannafé er á sama tíma útbýtt milljónafúlgum í þágu hlutafjárlausra hlutafélaga stórríkra toppkrata. — Góða nótt.