28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

Almennar stjórnmálaumræður

Þeir voru ósparir á fögur loforð, Sjálfstfl. og Alþfl., fyrir síðustu kosningar. Þeir lofuðu að koma atvinnuvegunum á traustan og heilbrigðan grundvöll og að bæta lífskjör fólksins í landinu. Til þess að efna þau heit hafa þessir flokkar nú haft á þriðja ár til umráða. Hafa atvinnuvegirnir þá ekki blómgazt og lífskjörin batnað á þessum tíma? Því svarar öll þjóðin hiklaust neitandi, og komast stjórnarliðarnir þar ekki upp með moðreyk. Það er þá, sem gripið er til afsakana. Vinstri stjórnin var svo vond, segja núv. hæstv. ráðh., það er hennar sök, að okkur gengur ekki betur. Ef þessi afsökun þykir ekki sannfærandi, er gripið til annarra:

aflabrests, verðlækkunar á lýsi o.s.frv. í það óendanlega. Og dugi afsakanir ekki, reyna þessir herrar að friðmælast við þjóðina. Þeir biðja hana að sýna þolinmæði enn um hríð og muni henni þá sem af himnum ofan veitast miklar kjarabætur.

Það er líka til, þótt ótrúlegt sé, að þessir stjórnarherrar hafi í hótunum við landslýðinn. Kauphækkun getur ríkisstj. gert að engu með nýrri gengislækkun, eins og hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, benti nýlega á í þjóðaráheyrn.

Það er þess vert að staldra ögn við þá margendurteknu fullyrðingu stjórnarliðsins, að lífskjörin muni batna, ef hæstv. ríkisstj. fái óáreitt að fara sínu fram, hver veit hvað lengi. Hvernig má slíkt kraftaverk ske? Svar stjórnarsinna er ævinlega dularfullt og tvírætt, eins og vera ber, þegar kraftaverk eru annars vegar. Þeir segja, að kaupið muni hækka, þegar framleiðslan aukist. En þeir tilgreina aldrei, hve mikið hún þurfi að aukast né hvort það er ríkisstj. eða atvinnurekendur, sem eigi að ákveða launahækkunina. Nú vill svo hlálega til, að þjóðarframleiðslan hefur verið að aukast ár frá ári um langt skeið. Á tímabilinu 1955 til ársloka 1959 jókst framleiðslan um það bil um 35% eða um 6–7% að meðaltali á ári hverju. Hefur þetta þá ekki leitt til þess, að launþegar hafi fengið kjarabætur sem þessu svarar? Hafa þeir ekki öðlazt sinn hluta af framleiðsluaukningunni í hækkuðu kaupi? Nei, því fer alls fjarri, eins og öllum er kunnugt. Hlutdeild launafólks í þjóðartekjunum fer minnkandi, og í sinn hlut fær það ekkert af framleiðsluaukningunni. Þetta er staðreynd, en hitt fleipur eitt, að launakjörin batni á einhvern dularfullan hátt, þótt framleiðslan aukist. Hvenær hafa ríkisstjórnir íhaldsins eða atvinnurekendur komið til launþeganna og sagt: Nú skuluð þið fá kauphækkun, því að nú hefur framleiðslan aukizt? Slíkt hefur aldrei komið fyrir og mun aldrei koma fyrir. En þetta er það einmitt, sem hæstv. ríkisstj. er að lofa upp í ermina á sér.

Nú ber þess líka að gæta, að vafasamt er, hvernig fer um þjóðarframleiðsluna næstu árin. Ef hrunstefnu núv. stjórnarvalda verður fylgt áfram, er ekkert líklegra en að samdráttur verði í framleiðslu og er sá samdráttur raunar þegar hafinn. Því mega launþegar lengi bíða, ef þeir ætla að halda að sér höndum og treysta á það, að atvinnurekendur eða þeirra ríkisstj. færi þeim steiktar gæsir í munn.

Hæstv. ríkisstj. kennir stefnu sína í efnahagsmálum við viðreisn og vill með því hylja ljótar aðfarir undir fögru nafni. Af þessari viðreisn hafa landsmenn þegar fengið smjörþefinn. Launalækkun og dýrtíðaraukning, vaxtaokur og skattahækkun blasir við allra augum. Á öllu atvinnulífi og viðskiptalífi liggur hún eins og mara. Hún hefur þrengt vörumarkaði okkar erlendis. Hún hefur aukið á skuldasöfnun okkar í öðrum löndum. Viðreisnin verkar í vaxandi mæli lamandi á allt efnahagslífið, og getur það engum dulizt lengur.

Þessi undarlega viðreisn hæstv. ríkisstj, á sér að sjálfsögðu einhvern uppruna, en íslenzkrar ættar er hún ekki. Hún er ekki sprottin úr hérlendum jarðvegi, heldur er hún innflutt. Viðreisnin er aðfengin ákoma, eins og fjárkláðinn, sem geisaði hér fyrir 100 árum. Munurinn er sá helztur, að fjárkláðinn barst til Íslands með enskum hrútum, en viðreisnin aftur á móti með amerísk-íslenzkum hagfræðingum. Í Bandaríkjunum hefur þessi viðreisnarplága verið landlæg um árabil og valdið miklu efnahagslegu tjóni hjá þeirri auðugu þjóð. Þar hefur vaxandi atvinnuleysi og þverrandi framleiðsla siglt í kjölfar hennar, svo að nú minnir ástandið mjög á kreppuna miklu fyrir stríð. Þessari viðreisn hefur nú sjálfur Bandaríkjaforseti sagt stríð á hendur. Krefst hann afnáms þessarar viðreisnarstefnu Eisenhower-stjórnarinnar og leggur ríka áherzlu á ríflega hækkun láglauna í því skyni að auka kaupgetuna og örva framleiðsluna. En Kennedy forseti á í höggi við sterk afturhaldsöfl í sínu landi, eins konar Alþýðuflokk Norðurríkjanna og eins konar Sjálfstæðisflokk Suðurríkjanna, og fyrir þessum öflum beið forsetinn sinn fyrsta ósigur nú fyrir nokkrum dögum, er hann freistaði þess að fá lægstu laun þar í landi hækkuð um 25%. Ekki veit ég, hvort afturhaldið í Bandaríkjunum er farið að kalla Kennedy kommúnista, en eitthvað var Morgunblaðið að tæpa á kommúnistaheitinu í sambandi við nafn hans á forsíðu hinn 19. þ. m.

Það er gott til skilningsauka á viðreisnarfyrirbærinu að gera sér þess ljósa grein, að hún er útlend að uppruna og að henni var prakkað inn á íslenzku þjóðina. Launalækkunin og dýrtíðaraukningin var aldrei hugsuð sem leið til bættra lífskjara, heldur var hvort tveggja og viðreisnin öll til þess gerð að færa íslenzkt efnahagslíf í spennitreyju þess helsjúka bandaríska efnahagskerfis, sem nú er að koma öllu á kaldan klaka í sínu heimalandi. Íslendingum er hollt að skilja þetta, því að það skýrir margt. Viðreisninni undarlegu var komið á hér fyrir tilstilli erlendrar íhlutunar. Þess var krafizt erlendis frá, að við gerbreyttum efnahagskerfi okkar, og við þeirri kröfu urðu núv. íslenzkir stjórnarherrar. Þetta voru enn ein afskipti erlendra stjórnarvalda af innanríkismálum Íslands, efnahagsmálunum að þessu sinni.

Stjórn Bandaríkjanna hefur því miður ekki borið gæfu til þess á undanförnum árum að fylgja að öllu viturlegri stefnu í heimsmálum. Þau hafa m. a. gerzt hættulega afskiptasöm um innri mál þeirra þjóða, sem þau vildu hafa gott af. Þetta hefur víða gert Bandaríkin óvinsæl, enda skapað vandræði í viðkomandi löndum. Það hefur ekki heldur bætt úr skák, að bandarísk stjórnarvöld hafa hvarvetna lagt lag sitt einhliða við mestu afturhaldsöfl þessara þjóða og stutt þau til valda.

Sjálfstfl. og Alþfl. urðu til þess hér að leyfa innflutning á viðreisninni. Þessir flokkar hafa einnig fallizt á að minnka fiskveiðilandhelgi Íslands. Það var greiðasemi og til þess gert að skapa ró og frið í miðstöðvum NATO, sem er eftirlætisbarn Bandaríkjanna. Það voru enn fremur að verulegum hluta sömu íslenzku stjórnarherrarnir, sem tosuðu Ísland inn í stríðsbandalag 1949 og leyfðu þá tæpum tveim árum síðar, að bandaríska herveldið hreiðraði um sig með her og herstöðvar á við og dreif um landið. Þetta er allt af sama toga spunnið, aðildin að NATO, herstöðvarnar, viðreisnin og eftirgjöfin í landhelgismálinu. Ekkert af þessu var gert í þágu íslenzkrar þjóðar, heldur var það gert til að þóknast útlendum valdhöfum, sem hafa önnur sjónarmið og aðra hagsmuni að berjast fyrir en við.

Friðsöm og vopnlaus smáþjóð hefur hvorki af því sæmd né hagnað að hreykja sér í hernaðarbandalagi með stórveldum og gera á þann hátt þeirra ófrið að sínum ófriði. Sú aðild er rakin leið til ósjálfstæðis jafnt í friði sem ófriði, og á stríðstímum er hún vísasti vegurinn til tortímingar. Herstöðvar hér á landi voru Bandaríkjunum eitt sinn til nokkurs öryggis, en munu tæpast vera það lengur. En á okkur Íslendingum hafa þær hins vegar verið átumein frá fyrstu tíð. Þær eru skerðing á fullveldinu, skaðlegar þjóðerni, menningu og efnahag og ógnvaldur lífi og limum landsmanna í hernaðarátökum.

Í landhelgismálinu vorum við búnir að vinna sigur og höfðum hlotið sæmd af á alþjóðavettvangi. En þeir, sem töpuðu í því máli, Bretar, hafa sterka aðstöðu í NATO, við aftur á móti veika. Þetta hefur nú gert gæfumuninn. Íslenzk stjórnarvöld glúpnuðu fyrir hinu erlenda valdi, og því unnu Bretar þetta stríð, þótt þeir töpuðu öllum orrustunum. Nú flykkjast erlend fiskiskip inn í 12 mílna fiskveiðilandhelgina, kreppa þar að íslenzkum bátum og spilla veiðarfærum. Þannig á það að ganga a.m.k. næstu þrjú árin, en þá verður samið á ný. Þetta er illt, en hitt er þó enn verra, að Íslendingar hafa verið látnir selja sjálfsákvörðunarréttinn yfir grunnsævinu umhverfis landið í hendur útlendra aðila, ekki til þriggja ára, heldur um aldur og ævi. Nú skal ekki lengur byggt á íslenzkum lögum um stækkun landhelginnar, heldur treyst á erlenda dómara og alþjóðalög, sem enn eru engin til um þessi efni.

Þótt Bretar fagni því að mega veiða upp að 6 mílna mörkunum næstu árin, telja þeir þó það mest um vert, að íslenzk stjórnarvöld skuli hafa afsalað réttinum til einhliða stækkunar landhelginnar. Þetta kemur skýrt fram í orðum brezka fiskimálaráðherrans, en þau viðhafði hann í opinberri yfirlýsingu fyrir tæpri viku. Hann sagði þá: „Brezka stjórnin mundi aldrei hafa fallizt á nokkurt samkomulag, sem hefði ekki tryggt hana gegn einhliða útfærslu íslenzku landhelginnar.“ Og hann bætti við: „Það er staðreynd, að brezk-íslenzki samningurinn, sem nýlega var gerður í Reykjavík, veitir okkur nauðsynlegar tryggingar að þessu leyti.“ Það er augljóst af þessum orðum, að brezka stjórnin telur sig hafa bundið hendur Íslendinga um alla framtíð í þessu máli, og það er ekki íslenzku stjórninni að þakka, ef á annan veg fer.

Talsmenn hæstv. ríkisstj. gerðu hér á dögunum mikið úr þeirri lífshættu, sem biði íslenzkra sjómanna, ef ekki yrði samið við Breta. Varð þessi kvíði varla skilinn á annan veg en þann, að ríkisstj. teldi sig hafa gilda ástæðu til að óttast áframhaldandi ofbeldi Breta, ef ekki yrði látið undan kröfum þeirra. Sé þetta rétt, þá hafa íslenzk stjórnarvöld samið undir ógnun, og þá er samningurinn nauðung, en slíkur samningur hefur ekkert gildi í augum siðmenntaðra manna eða fellur úr gildi sjálfkrafa, strax og ógnuninni er aflétt.

Þrír íslenzkir stjórnmálaflokkar hafa þegar lýst yfir, að telja beri samninginn við Breta nauðungarsamning og að íslenzka ríkisstj. hafi ekki haft umboð til að gera hann án þjóðaratkvæðagreiðslu. Og þannig munu Íslendingar líta á hann, allir sem einn, er fram líða stundir. Hann bindur ekki lengur en völd þeirra manna standa, sem í heimildarleysi gerðu hann.

Það er dapurlegt að fylgjast með því, hvernig íslenzk afturhaldsöfl draga þjóðina fet fyrir fet í átt ófrelsis og ófarnaðar. Hlutdeildin í NATO 1949, útlendur her og herstöðvar 1951, lögskipuð kauplækkun 1959, viðreisnin 1960 og uppgjöfin í landhelgismálinu 1961, allt eru þetta áfangar á þeirri ömurlegu braut. Það er ekki nema að vonum, að spurt sé, hvað komi næst, —- eða er nokkur ástæða til að ætla, að hér verði látið staðar numið? Nei, áfram verður haldið, svo lengi sem þjóðhollari öfl en þau, er nú stjórna, fá ekki rönd við reist. Ég skal ekki spá, hver næsti áfangi verður, en vil aðeins benda á, að í uppsiglingu virðist vera stórmál þessarar tegundar. Það mál er nú rætt öðru hvoru í málgögnum stjórnarflokkanna og að vísu af hógværð enn. Líklega er það sama málið og hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, var að tæpa á hér í gærkvöld.

Það, sem um er að ræða, er þetta: Það á að semja um það við erlend auðfélög að koma hér á fót stóriðju og nota fossaaflið og jarðhitann sem orkugjafa. Þessu er gefið fínt nafn og kallað: erlend einkafjárfesting á Íslandi. Hugmyndin er vafin fögrum umbúðum, ekki vantar það. Íslendingar eiga að vera meðstjórnendur, þeir eiga strax að eignast kóngsríkið hálft og allt eftir auðhringanna dag. Þannig getur þetta orðið nýr stórsigur Íslands á forsíðum Morgunblaðsins og engu minni en sigurinn í landhelgismálinu. Þó hljóðar blákaldur sannleikurinn á þessa leið: Útlend auðfélög fást aldrei til að stofnsetja né reka stóriðjufyrirtæki hér á landi öðruvísi en að uppfylltum ströngum skilyrðum, og meðal þeirra eru þau, að kaupgjald í landinu sé lágt, að miklar skattaívilnanir verði veittar og að leyfi fáist fyrir ótakmörkuðum útflutningi gróðans. Þetta vita stjórnarvöld okkar vel, enda virðast þau nú búa í haginn. Hvergi á byggðu bóli, nema í nýlendum, er kaup nú lægra en á Íslandi. Slíkt freistar auðfélaga. Skattalöggjöfinni er einnig verið að breyta til hagræðis fyrir auðfélög, og verður skattfrelsi félaga þar næsti áfanginn. En fyrir útflutningi gróðans má alltaf greiða, þegar þar að kemur. Lítilli þjóð er alveg sérstök hætta búin af slíkri fjárfestingu í landi sínu. Með henni ná erlend auðfélög strax heljartökum á atvinnulífinu, og um leið öðlast þau sterka aðstöðu til pólitískra áhrifa. Að vísu mundu íslenzkir atvinnurekendur eignast traustan bandamann í kaupdeilum og íhaldið fá góðan stuðning við bakið, en þar með eru kostirnir líka upp taldir. Íslendingar mega aldrei gerast verksmiðjulýður útlendra auðfélaga. Þeir eiga sjálfir að nýta auðlindir sínar, eftir því sem eigin þarfir segja til um. Það geta þeir gert með heiðarlegu erlendu lánsfé, en ekki með því að ofurselja sig skuggalegum gróðafélögum. Í því efni á dæmi Suður-Ameríkumanna að vera okkur víti til varnaðar.

Herra forseti. Illa hefur verið haldið á mikilsverðum málum þjóðarinnar, og er öll sú óviturlega meðferð ógnun við sjálfstæði hennar. Á síðustu öld urðu þeir Jón Sigurðsson og samherjar hans að heyja þjóðfrelsisbaráttuna á tvennum vígstöðvum, annars vegar við Dani, hins vegar við íslenzkan embættisaðal. Þessu er líkt farið enn í dag, þótt andstæðingarnir heiti nú öðrum nöfnum. Enn seilast erlendir aðilar til áhrifa hér á landi, og enn eiga þeir sér íslenzka málsvara og umboðsmenn. Við þessi öfl verða vökumenn þjóðarinnar að berjast í dag. Andstæðingarnir eru sterkir, og því mega vinstri menn ekki dreifa kröftum sínum, svo sem þeir hafa hingað til gert. Síðustu stjórnmálaatburðir ættu að verða öllum vinstri mönnum, öllum þjóðhollum mönnum alvarleg áminning um að sameina kraftana til stórra átaka gegn því margháttaða böli, sem þjóðina þjakar nú. Nýir fjötrar eru lagðir á hana árlega, og haldi svo fram, má hún sig hvergi hræra að lokum. Allir, sem frelsinu unna, hljóta að gera sér þetta ljóst. Enginn má lengur láta ginnast af hinum skefjalausa blekkingaáróðri afturhaldsaflanna, þar sem flóttinn er nefndur sigur, kreppan er kölluð viðreisn og áþjánin heitir frelsi.

Orðum mínum lýk ég með áskorun til allra vinstri manna, að þeir þegar á þessu ári fylki liði gegn þeim óþjóðlegu öflum, sem nú vaða uppi, að þeir sameinaðir taki upp baráttuna fyrir bættum kjörum vinnandi stétta, og umfram allt, að þeir allir sem einn maður snúist gegn hinu taumlausa dekri stjórnarvaldanna við erlenda hagsmuni. Verum þess minnugir, Íslendingar, að sjálfstæðisbarátta okkar er ævarandi og að þar má aldrei hlé á verða. Burt með herstöðvar og her og burt með stjórnarvöld, sem bera ekki fyrir brjósti hag lands og þjóðar.