28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

Almennar stjórnmálaumræður

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrir 50 árum voru niðurstöðutölur fjárlaga um 3 millj. kr. Á því ári, sem nú er að líða, eru niðurstöðutölur fjárlaga 1 milljarður 588 millj. kr. Þó að það sé tekið með í reikninginn, svo sem skylt er, að fyrir 50 árum var kaupmáttur hverrar krónu nokkrum tugum sinnum meiri en í dag, er þetta samt óhemjumikill munur. Hjól tímans hefur haldið áfram að snúast og heimurinn hefur fengið nýtt yfirbragð á flestum sviðum á þessum tíma. Tvær heimsstyrjaldir hafa geisað, og áhrifa þeirra hefur gætt um gervallan heim, einnig hér á Íslandi. Nýjar kynslóðir hafa tekið við af hinum eldri, og ný viðhorf hafa myndazt hvert af öðru.

Fjárlög hafa hækkað ár frá ári, ekki bara vegna þess, að krónurnar hafa minnkað, heldur einnig og miklu fremur vegna hins, að þjóðin hefur þurft á margfalt meira fé að halda, eftir því sem tímar hafa liðið, þegar ríkisbúskapurinn hefur vaxið og þanizt út. Við höfum veitt okkur þann munað að byggja brýr og vegi, hafnir og skóla, sjúkrahús og margvísleg önnur mannvirki í almenningsþarfir, og við höfum byggt upp talsvert kostnaðarsamt tryggingakerfi, svo að nokkuð sé nefnt, og þegar ríkisbúskapurinn hefur margfaldazt, hefur framkvæmdavaldið þurft á æ fleira starfsfólki að halda. Þessi þróun hefur haldið áfram, eftir því sem fólkinu hefur fjölgað og efnahagurinn batnað. Hún er eðlileg.

Naumast munu fjárlög þó hafa verið samþykkt svo nokkru sinni á Alþingi, að ekki væri þar einhver hópur manna, fleiri eða færri, sem lýst hefur megnri vanþóknun á þessari þróun og barizt hefur gegn henni og talið hana háskalega. Vitanlega eru skynsamleg takmörk fyrir öllum hlutum, og lengi er hægt að deila um það, hve langt sé rétt að ganga í því að láta skattgreiðendur gjalda til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. En mér er nær að halda, að einhverjum yrði stundum að brosa, sem liti yfir þann þátt í Alþingistíðindum, sem um þetta fjallar ár frá ári.

Því hef ég minnzt á þetta nú, að enn í dag er þessu á sama veg farið. En þó er þessi gagnrýni að því leyti óviðfelldin nú, að gagnrýnendur — stjórnarandstaðan — láta sér nú nægja að hamast með meiri eða minni stóryrðum út af eyðslu og bruðli ríkisstj., en láta undir höfuð leggjast að benda hreinlega á, hvaða liði fjárlaga eigi að lækka eða fella niður. Það skal að vísu viðurkennt, að það örlar aðeins á því, að lagt sé til, að einstakir minni háttar gjaldaliðir séu færðir niður eða felldir niður, en burt séð frá því, hve skynsamlegar þær tillögur eru, þá eru þær svo smávægilegar, að þær gera hvorki til né frá um heildarstefnuna. Þær nema ekki einum þúsundasta hluta af heildarupphæð fjárlaganna og eru því í æpandi ósamræmi við þann hávaða, sem stjórnarandstaðan stofnar til út af þessum málum, þegar fjárlög eru afgreidd. Og venjulega hafa sömu menn tillögur uppi um ríkisútgjöld, sem nema a.m.k. eins miklu eða jafnvel miklu meira en lækkunartillögur þeirra.

Þegar fjárlagafrv. var afgreitt hér á Alþingi á s.l. vetri, kom fram í nál. framsóknarmanna í fjvn. svofelld klausa, með leyfi hæstv. forseta:

„Um fjárlagafrumvarpið í heild viljum við hins vegar taka það fram, að Framsfl. er andvígur þeirri eyðslustefnu, sem einkennir það. Framsfl. fylgir þeirri stefnu við afgreiðslu fjárlaga, að álögum sé stillt í hóf og stuðningur ríkisins við uppbyggingu í landinu og við atvinnuvegina sé sem mestur.“

Þessi setning var tekin orðrétt úr nál. Áreiðanlega munu allir hv. þm. og allir flokkar vilja taka undir það, að æskilegast sé, að álögum sé stillt í hóf og stuðningur ríkisins við uppbyggingu og atvinnuvegi sé sem mestur. En því meiri sem þessi stuðningur er, því meiri hljóta álögur á landsfólkið að verða. Það hljómar sem öfugmæli að tala um lækkandi álögur, en vaxandi stuðning við uppbyggingu og atvinnuvegi. En látum það vera.

Í hverju var fólgin þessi eyðslustefna,sem einkenndi fjárlagafrv. að dómi þessara framsóknarmanna. Ég las nál., sem er 8 prentaðar blaðsíður, gaumgæfilega og átti að sjálfsögðu von á, að þar væri glögga greinargerð að finna um það, í hverju þessi eyðslustefna væri talin vera fólgin. Ég gerði ráð fyrir, að reynt yrði að gera grein fyrir því, hvernig ætti að lækka frv., sem hljóðaði um ca. 1500 millj. kr., hvernig ætti að lækka það um nokkur hundruð milljónir, sem mér fannst þessir hv. þm, mundu hljóta að reyna að sýna fram á að hægt væri að gera, miðað við þau stóru orð, sem þeir höfðu þar um. En ég varð fyrir algerum vonbrigðum. Þeir lögðu til, að 1500 millj. kr. frv. yrði lækkað um 44 þús. kr. Og ekki er gerð minnsta tilraun til að sýna fram á, hvað mennirnir eiga við með því, sem þeir kalla eyðslustefnu frv. Ég geri ráð fyrir, að einhverjum framsóknarmönnum, sem á mig kunna að hlýða, þyki þetta ótrúlegt, en þetta er í prentuðu þingskjali, nr. 172, sem allir geta haft aðgang að, og hér fer því ekkert á milli mála. Þetta er táknandi dæmi, eitt af mörgum, um það, hvernig málflutningur stjórnarandstöðunnar er innantómt orðagjálfur og staðlausir stafir.

Ég skal taka annað lítið dæmi um málflutning stjórnarandstöðunnar á Alþ. Hv. framsóknarþingmaður Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, sagði í útvarpsumr. fyrir nokkru, þegar rætt var um vantrauststillögu á ríkisstj., orðrétt svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Alþfl. með Sjálfstfl. að bakhjarli fór svo með völd 1959 og fylgdi þeirri stöðvunarstefnu, sem Framsfl. hafði beitt sér fyrir í vinstri stjórninni, með þeim árangri, að afkoma atvinnuveganna var sæmileg 1959 og lífskjör svipuð og áður.“

Þetta sagði hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, og hann harmaði, að þessari stöðvunarstefnu skyldi ekki hafa verið haldið áfram. Öðruvísi þaut í þeim skjá hér áður fyrr. Ég ætla, að hv. þm. reki minni til þess og ýmsa aðra, sem á mig kunna að hlýða, að þessi hv. þm. og flokksmenn hans voru ekki sérlega hrifnir af stefnu ríkisstj. Emils Jónssonar á sínum tíma. Þeir gáfu þessari stefnu nafn og kölluðu hana „landeyðingarstefnu“, ef ég man rétt, og fordæmdu hana af öllum lífs og sálar kröftum. En nú hrekkur allt í einu upp úr hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, að þetta hafi raunar verið góð stefna, allt hafi verið í bezta lagi 1959, afkoma atvinnuveganna sæmileg og lífskjör svipuð og næstu ár á undan. Þetta er vitanlega hárrétt. Og þessi hv. þm. vill nú meira að segja eigna Framsfl. þessa stefnu. Þó að nú sé viðurkennt, að þjóðinni hafi farnazt vei 1959, mátti slíkt ekki heyrast nefnt þá í herbúðum stjórnarandstöðunnar. Hvaða Framsóknarþm. hefði dirfzt að halda því fram 1959, að þjóðinni farnaðist vel? Sá maður hefði áreiðanlega verið talinn óalandi og óferjandi í þeim flokki. Þannig var stjórnarandstaðan söm við sig þá, eins og hún er nú.

Í þessum umr. í gærkvöld benti hæstv. utanrrh. og fleiri ræðumenn á það, hver afstaða framsóknarmanna var gagnvart alþjóðadómnum í Haag 1951, þegar þeir höfðu stjórnarforustu og buðust til þess að leggja landhelgisdeiluna, sem við áttum þá í við Breta, fyrir þann dóm. Í því sambandi var lesinn upp kafli í forustugrein Tímans frá 20. des. 1951, þar sem því er lýst á skörulegan hátt, hver ávinningur það er fyrir smáþjóð, að slíkur dómstóll er til, þar sem þeir geta leitað réttar síns, og í því sambandi vitnað til úrskurðar dómstólsins í landhelgisdeilu Norðmanna og Breta. Nú láta hv. Framsóknarþm. sig hafa það að strika yfir þessar skoðanir og ummæli í trausti þess, að fyrri afstaða þeirra sé gleymd, þótt ekkert það hafi gerzt síðan, sem gefi snefil af tilefni til slíkra skoðanaskipta, annað en það, að nú eru þeir í stjórnarandstöðu og þykjast þurfa að fylgja kommúnistum í þessu eins og öðru.

Ég hef nú nefnt örfá dæmi um framkomu stjórnarandstöðunnar nú um sinn. Mér er nær að halda, að stjórnarandstaða, sem á að hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þingræðisskipulaginu, sé á fullkomnum glapstigum, þegar hún tekur upp þann hátt, eins og nú á sér stað, að telja sjálfri sér trú um og reyna að telja þjóðinni trú um, að öll mál að heita má, sem ríkisstj. beiti sér fyrir, stór og smá, séu skaðleg og háskaleg. Í stað þess að haga sér með þessum hætti á stjórnarandstaða að leggja á málin raunhæft mat og viðhafa skynsamlega gagnrýni, þar sem slíkt á við, og auðvitað jafnframt að gera sem gleggsta grein fyrir, hvaða leiðir hún telur réttari. Þessi neikvæða stjórnarandstaða, sem nú er viðhöfð, virðist stöðugt færast í aukana og er nú í algleymingi. Hér getur sennilega enginn tekið í taumana að gagni nema þjóðin sjálf, og það verður hún að gera, því fyrr, því betra.

Ég hef hér aðallega rætt um ábyrgðarlausa stjórnarandstöðu hv. Framsóknarþm. sökum þess, að ég hef haft þá skoðun eins og fleiri, að meiri kröfur mætti til þeirra gera um ábyrga afstöðu til þjóðmála heldur en til kommúnista, sem stöðugt hafa sína sérstöðu um skilyrðislausa afstöðu með Sovétríkjunum, eins og þeir jafnan hafa haft, og miða því bæði sína innanlands- og utanríkispólitík frá þeirri sjónarhæð. En þau undur hafa nú gerzt, að hv. Framsóknarþm. leggja nú ýtrustu stund á að vera við hlið kommúnista í svo að segja hverju einasta máli og láta þeirra áttavita ráða stefnunni. Það fer ekki hjá því, að öll þjóðin veitir því athygli, að bræðralag þessara flokka verður því nánara, sem lengra líður. Sú var þó tíðin, að þeir vönduðu ekki hvor öðrum kveðjurnar.

Eitt þeirra mála, sem núverandi stjórnarflokkar hafa beitt sér fyrir á því þingi, sem nú er senn að ljúka störfum, og þegar hefur verið samþykkt sem lög, er frv., sem við Alþýðuflokksmenn í Ed. fluttum um sömu laun kvenna og karla fyrir sömu störf. Þetta er gamalt baráttumál kvenna. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefur fyrr í kvöld rætt nokkuð ýtarlega um þetta mál. Mun ég því aðeins fara um það örfáum orðum, einkum út af viðbrögðum stjórnarandstöðunnar við því. Efni frv. hefur áður verið rakið, og mun ég því ekki gera það hér.

Árið 1955 var kvennakaup hér á landi 76% af karlakaupi um það bil. Síðan eru liðin 6 ár. Á þeim tíma hefur þetta að vísu þokazt í áttina, en þó aðeins um 2%, þannig að nú er kvennakaup 78% af karlakaupi fyrir sömu vinnu. Samkvæmt hinum nýju lögum á þetta að þokast áfram á næstu sex árum, ekki um 2%, eins og síðustu sex ár, heldur um 22%, upp í 100%. Samningsréttur kvenna er þó í engu skertur til þess að ná fullu jafnrétti á skemmri tíma. Stjórnarandstaðan er hneyksluð á þessu og þykist allt í einu vera búin að fá brennandi áhuga á launajafnréttismálum kvenna, jafnvel framsóknarmenn. Stjórnarandstaðan heimtaði, að skrefið yrði stigið til fulls strax í dag. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson var þar framarlega í flokki. En ekki hefur verið hægt að komast hjá því að minna þennan hv. þm. á það, að hann var félmrh. um 2½ árs skeið 1956–58. Þá hefði verið hinn rétti tími fyrir hann að koma þessu máli í höfn. Hann var sjálfur ráðh. og hafði aðstöðu til að knýja málið fram. Hann getur ekki borið því við, að hann hafi ekki verið minntur á málið, en hann lét sér nægja að skipa nefnd í það, sem síðan er ekki vitað til að neitt hafi heyrzt frá. Þar með taldi hann sig hafa þvegið hendur sínar. Þetta er eitt af mörgum dæmum um viðbrögð stjórnarandstöðunnar gagnvart þýðingarmiklum málum. Þegar þessir menn voru í stjórnaraðstöðu og voru ráðherrar yfir félagsmálum, hreyfðu þeir hvorki hönd né fót. Þegar þeir síðan geta ekki barizt beint gegn málinu, þá koma þeir með yfirboð til þess að reyna að eyða því.

Nú kynni einhver að spyrja um það, hvers vegna ríkisstj. Emils Jónssonar hafi ekki beitt sér fyrir þessu máli og komið því í höfn. Því er til að svara, að sú stjórn var minnihlutastjórn og hafði ekki bolmagn til að koma slíku máli fram, hún hafði takmörkuð verkefni, svo sem alkunnugt er.

Baráttan við verðþenslu og dýrtíð hefur um langa hríð verið meginviðfangsefni hverrar ríkisstjórnar. Ýmsar leiðir hafa verið reyndar, en boginn hefur jafnan brostið að lokum. Við erum örlítil þjóð í tiltölulega stóru og erfiðu landi, og það hefur komið áþreifanlega í ljós, hversu erfitt og vandasamt það er að halda efnahagskerfi okkar í réttu horfi. Það hefur færzt meir og meir úr skorðum allt frá heimsstyrjaldarlokum, þótt meiri velmegun hafi verið í landinu en nokkru sinni fyrr. Reynt var að stinga alvarlega við fótum 1959, þegar verðbólguflóðaldan var í þann veginn að steypa þjóðinni fram af brúninni, og eftir að núv. ríkisstj. var mynduð síðla árs 1959, var til þess stofnað að skera til fulls fyrir meinsemdina. Þetta var erfiður uppskurður og engan veginn sársaukalaus, og ýmis óviðráðanleg atvik hafa valdið því, að síðar grær en ella hefði orðið, svo sem verðfall ýmissa útflutningsafurða og stórfelldur aflabrestur togaraflotans. Þó sér þess nú þegar stað, að verulegur árangur hefur náðst. En betur má, ef duga skal. Treysta verður grundvöllinn betur fyrir aukna framleiðslu og vaxandi athafnalíf. Það er frumskilyrði þess, að velmegun þjóðarinnar geti aukizt, og það er æðsta skylda hverrar ríkisstj. að vinna að því eftir fyllstu getu, að svo megi verða.

Núv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar munu einbeita sér að þessu verkefni svo lengi sem þeim gefst tóm til: Stjórnarandstaðan hefur þá skyldu að gagnrýna það, sem hún telur miður fara, og benda á þær leiðir, sem hún telur skynsamlegri, ef einhverjar eru. En hún hefur engan siðferðilegan rétt til þess að eyðileggja af ráðnum hug það, sem hverjum sjáandi manni liggur í augum uppi að til heilla horfir, eða torvelda, að velferð fólksins í landinu geti aukizt. Þjóðin mun veita þeirri stjórnarandstöðu, sem slíkt gerir, maklega ráðningu. — Góða nótt.