16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þó að þetta væri nú að vísu nokkuð löng fyrirspurn, þá þykir mér rétt að svara því, sem mér skilst vera aðalefni hennar, og það er um það, hvort gefnar hafi verið nýjar reglur frá því, sem áður gilti, um hegðun íslenzkra varðskipa varðandi töku erlendra togara, sem grunaðir eru eða staðnir að veiðum innan íslenzku fiskveiðilögsögunnar.

Um þetta er það að segja, að enn eru í gildi sömu reglur og voru á árinu 1958. Þar á hefur engin breyting verið gerð. Allra sízt hefur komið til mála eða ég nokkurn tíma heyrt fyrr en nú og í fyrradag gefið í skyn af þessum hv. fyrirspyrjanda, að einhverjar sérreglur hafi verið settar, á meðan viðræður ættu sér stað milli brezku og íslenzku ríkisstjórnanna varðandi þá deilu, sem öllum er kunnugt um.

Ég hef þegar svarað því, og þar um hagga engu dylgjur hv. fyrirspyrjanda, að þetta mál var mér með öllu ókunnugt, fyrr en hann hreyfði því hér í Ed. s.l. mánudag. Hann fór að vísu rangt með þær upplýsingar, sem ég þá gaf. Hann gaf að vísu í skyn, að ég hefði ekki hugsað mikið um mín embættisstörf, sem ég skil mjög vel af svo umhyggjusömum manni og starfsömum sem honum, og ekki verið í dómsmrn. á mánudagsmorguninn. Ég skýrði einmitt frá því, að ég hafði verið þar um morguninn og farið þaðan kl. 10½ á fund, og sagði, að fram að þeim tíma hefði mér ekki verið sagt frá því í rn., en verið gæti, að siðar hefði gefizt tilefni til þess.

Það má endalaust deila um, hversu langt löggæzlumenn eigi að fara í hverju einstöku tilfelli, þegar þeir gruna einhvern um brot eða standa hann að broti, og það er auðvitað eðlilegt, að þeir verði fyrir gagnrýni, ef talið er, að þeir hafi í þeim efnum vangert eitthvað. Hitt verður svo að hafa í huga, að það er nokkuð annað að þurfa að taka skyndiákvörðun eða geta athugað málið í heild, þegar það allt liggur fyrir.

Það er ljóst af þeirri skýrslu, sem Pétur Sigurðsson gaf dómsmrn. 14. nóv. og ég hlutaðist til um að væri gefin út sem fréttatilkynning, óbreytt, frá landhelgisgæzlunni, eins og hann sendi hana dómsmrn., — það er ljóst af hans skýrslu, að þar eru nokkur atriði sem til greina koma. Í fyrsta lagi það, að sökum mjög slæms símasambands flytjast skilaboð þau, sem ganga á milli, ekki fullkomlega. Næsta atriðið er, að forstjóri landhelgisgæzlunnar telur, að það sé ekki fengin sönnun eða liggi ekki fyrir sönnun fyrir þessu broti, og þess vegna telur hann varhugaverðara að fylgja eftir til hins ýtrasta en ef full sönnun hefði fengizt eða verið fyrir höndum strax. Þá er á það að líta, að þegar þessir atburðir gerast, er allslæmt veður, það er ekki hægt að segja, að það sé óveður, en það er allslæmt veður, náttmyrkur og slæmt skyggni. Allt þetta hvetur forstjóra landhelgisgæzlunnar til þess að fara varlega í sinni ákvörðun. Ég skal ekki neinn dóm á það leggja, hvernig ég hefði mælt fyrir um málið, ef það hefði verið borið undir mig. Það var ekki gert á þeim tíma, og ég tel ekki sanngjarnt á þessu stigi málsins að setja út á aðgerðir forstjóra landhelgisgæzlunnar, eins og málið lá fyrir honum.

Mér þykir rétt, úr því að þessu máli er hreyft, að lesa upp viðbótarskýrslu, sem mér barst í morgun og er frá skipherranum á Þór til landhelgisgæzlunnar, enda var ráðgert í þeirri fréttatilkynningu, sem gefin var, að sú skýrsla yrði send, þegar hún bærist. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar hún svo:

„Sunnudaginn 13. nóv. 1960 var varðskipið Þór á austurleið út af Ingólfshöfða. Kl. 19.29 sást skip í ratsjá grunsamlega nærri landi. Þá var gerð eftirfarandi staðarákvörðun: Ingólfshöfði RV 302°, fjarlægð 4.4 sjómílur, — skipið RV“ — það er víst réttvísandi, — er það ekki? — ég er ekki svo vel að mér — „40°, fjarlægð 6.2 sjómílur. Þetta gefur stað skipsins 9:6 sjómílur innan fiskveiðitakmarkanna. Kl. 19.48 var gerð eftirfarandi staðarákvörðun: Ingólfshöfði RV 273°, fjarlægð 6.7 sjómílur, skipið RV 0.16°, fjarlægð 2.8 sjómílur. Gefur það stað skipsins 9:8 sjómílur innan við fiskveiðitakmörkin. Virtist skipið vera að snúast þarna. Kl. 19.50 var sett stefna á skipið, sem þá sneri upp að landinu. Var skipið frekar illa upplýst, en þó með vinnuljós á þilfari. Kl. 20 var um 0.5 sjómílur í skipið, slökkti það þá öll ljós og setti á fulla ferð til hálfs. Var þá sett upp stöðvunarmerkið K og eftirför hafin. Kl. 20.14 var gefið stöðvunarmerki með fjórum merkjaskotum, rauðum og grænum. Þar sem togarinn sinnti þessum stöðvunarmerkjum ekki, var skotið þremur lausum skotum, hverju á eftir öðru, en hann sinnti því ekki heldur. Kl. 20:20 var gerð eftirfarandi staðarákvörðun: Ingólfshöfði RV 262°, fjarlægð 9.9 sjómílur. Togarinn RV 158°, fjarlægð 0.6 sjómílur. Gefur það stað togarans 7.2 sjómílur innan við fiskveiðitakmörkin: Kl. 20.26 til kl. 20.32 var skotið þremur föstum skotum fyrir framan togarann: Sást þá togarinn í ljósgeisla frá ljóskastara varðskipsins. Þá sást, að þetta var togarinn H 200 William Wilberforce. Sáust þá einnig veiðarfæri, net, sem virtist vera trollpoki, hangandi í frammastri. Engin veiðarfæri, hvorki net né hlerar, sáust á stjórnborðshlið togarans. Kl. 20.39 var skotið tveim lausum skotum að togaranum, sigldi þá varðskipið samhliða togaranum. Sinnti hann þessu engu, en sigldi í ýmsar stefnur og hringi. Á meðan á eftirförinni stóð, kallaði togarinn í HMS Duncan, og herskipið svaraði og kvaðst koma til hans. Kl. 21.11 var eftirför hætt samkvæmt fyrirmælum. Voru skipin þá stödd: Ingólfshöfði RV 297°, fjarlægð 17.6 sjómílur. Gefur það stað skipsins 3.3 sjómílur utan fiskveiðitakmarkanna. Staðarákvarðanir gerðar með ratsjá af skipstjóra, 1. og 2. stýrimanni. Veður ANA 7, ANA 4, regn, slæmt skyggni.

Jón Jónsson.“

Þetta er skýrsla skipherrans, og skýrsla landhelgisgæzlunnar liggur fyrir. Það eru þau gögn, sem við höfum í málinu, og er sjálfsagt og eðlilegt, að þau séu metin. Og vitanlega skorast ekki þeir embættismenn, sem þarna eiga hlut að máli, undan gagnrýni á sínum störfum frekar en aðrir. En vitanlega verður að meta, hvað fært er að gera og skynsamlegt í eltingarleik við skip úti á reginhafi í allslæmu veðri, í slæmu skyggni og í náttmyrkri. Það er hægara að sitja hér inni í þingsalnum og gagnrýna heldur en að eiga að taka ákvarðanir um skothríð og eltingarleik úti á hafi við þær aðstæður, sem ég hef lýst.