16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það eru sumir menn sem vilja ekki heyra sannleikann og taka ekkert mark á því þó að hann sé sagður, og hv. þm. er auðsjáanlega einn af þeim. Ég er búinn að lýsa því yfir hér í hv. Sþ. nú og í Ed. í fyrradag, að mér var með öllu ókunnugt um þetta mál, fyrr en hann hreyfði því í hv. Ed. á mánudaginn. Ég veit ekki, hversu oft ég á að segja honum þetta. (FRV: Þá veit maður það, hver ber ábyrgðina.) Hitt er auðvitað hrein fjarstæða, að ekki hafi verið reynt að taka þennan togara. Í skýrslunni, sem ég las áðan, segir:

„Kl. 20 . . . Var þá sett upp stöðvunarmerkið K og eftirför hafin. Kl. 20.14 var gefið stöðvunarmerki með fjórum merkjaskotum, rauðum og grænum. Þar sem togarinn sinnti þessum stöðvunarmerkjum ekki, var skotið þremur lausum skotum, hverju á eftir öðru. Kl. 20.26 til kl. 20.32 var skotið þremur föstum skotum fyrir framan togarann. Kl. 20.39 var skotið tveim lausum skotum að togaranum.“

Mér virðist, að hér hafi allmikil skothríð átt sér stað, með öllum hugsanlegum aðferðum. Ég veit ekkert um atvik að því, þegar Þór lenti í eltingarleik við togara fyrir tveimur árum, en ef ég heyrði rétt, þá var það þó um miðjan dag. Ég tók svo eftir, að tímatakmarkið hefði verið 11 og eitthvað um hádegi. Og það kann að vera nokkur munur að eiga í eltingarleik og skothríð við skip um miðjan dag eða í næturmyrkri úti á reginhafi við slæmt skyggni og í erfiðu veðri. Þetta eru atriði, sem þeir verða að taka til mats, sem ákvörðunina taka, og þeir, sem setja sig í dómarasæti yfir þeim inni í sínum stofum á eftir, eiga ekki að gleyma öllum þessum staðreyndum.