16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. lýsti því hér yfir, að í þeim samtölum, sem átt hefðu sér stað, hefðu engar till. verið gerðar í málinu af hálfu Íslendinga og engar till. verið gerðar af hálfu Breta. Þá höfum við það, að hæstv. ráðh. vill halda því fram, að það, sem hefur komið um þetta í brezkum blöðum, stundum beint eftir opinberum heimildum í Bretlandi, sé slúður og ósannindi. Við höfum nú þessa yfirlýsingu frá hæstv. ráðh., að það hafi engar till. verið gerðar af hálfu Íslendinga og engar till. af hendi Breta.

En nú spyr ég: Um hvað hafa þessar viðræður þá staðið allan þennan tíma? Það hafa verið umr. hér á Alþ., og það hefur ekkert farið leynt í þeim umr., að það, sem hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju að fallast á, ef á móti kemur það, sem henni líkar, er, að brezki togaraflotinn fái að koma inn í íslenzka landhelgi og veiða þar einhvern tiltekinn tíma.

Það hefur hreint ekkert verið farið dult með í þeim umr., sem hér hafa farið fram á hv. Alþ., að það er þetta, sem hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju að gera, ef henni líkar það, sem kemur í móti.

Og nú spyr ég: Hefur aldrei verið látið í þetta skína við Breta? Hefur þetta aldrei verið sagt á þeim viðræðufundum, sem átt hafa sér stað á milli Breta og Íslendinga? Og ef þetta hefur verið sagt á þeim fundum, — og ég leyfi mér að segja: hver efast um, að það hafi verið sagt, eftir að hafa hlustað á þær umr., sem hafa verið hér á hv. Alþ., — hvað er þetta þá annað en tillaga? Það er hægt að leika orðaleik og segja, að engin till. hafi verið gerð. En hvað er þetta annað en tillaga? Auðvitað er það eitthvað á þessa lund, sem Bretar eiga við, þegar þeir eru að tala um till. af hendi Íslendinga. Eitthvað hefur verið sagt auðvitað á hinn bóginn, af hendi Breta, sem Bretar líta á sem tillögur af þeirra hendi.

En hér er viðhafður þessi orðaleikur, sem er ósæmandi orðaleikur, af hendi hæstv. ríkisstj. Og þessi orðaleikur er viðhafður aðeins til eins, og það er til að geta svikið það loforð, sem gefið var í upphafi þingsins, að það skyldi haft samráð við Alþingi.

Ég held, að það sé ekki mikill vafi á, hvert stefnt er í þessu, í hugum þeirra, sem heyrðu það sem hæstv. forsrh. sagði nú áðan. Hann sagði, að hann hefði sagt, að það yrði haft samráð við Alþ., áður en úrslitaákvörðun yrði tekin. Það er rétt, að hann sagði þetta. En ég sagði þá strax, eftir að hann hafði sleppt þessu orði, að ég skildi þetta sem skýlausa yfirlýsingu hæstv. forsrh. um, að það yrði raunverulega haft samráð við Alþ. um málið nægilega snemma til þess, að Alþ. gæti tekið fullan þátt í málsmeðferðinni. Þannig var að efni til það, sem ég sagði, eftir að hæstv. ráðh. hafði gefið þessa yfirlýsingu. Og hæstv. ráðh. gerði enga athugasemd við þennan skilning minn, enda var óhugsandi, að nokkur gæti skilið ráðh. öðruvísi en svo, að það ætti að hafa raunverulega samráð við Alþingi.

Það er auðvitað ekki annað en að sýna Alþ. fyrirlitningu að koma á síðustu stundu með það, sem raunverulega er búið að afráða, og segja við Alþ.: Þetta getið þið annaðhvort samþ. eða hafnað því. — Það er ekki að hafa samráð við Alþ. Einmitt að notað var orðið „samráð“ þýðir, að því hefur verið lofað að ráðgast við Alþ. um það fyrir fram, inn á hvað skuli ganga, en ekki koma á úrslitastigi málsins og fleygja í Alþ. einhverju plaggi, sem hæstv. ríkisstj. er þá búin að binda sig á og alla sína menn kannske á bak við tjöldin. Það er ekki þetta, sem heitið hefur verið í þessu máli. Það vil ég biðja menn að athuga.

Það dylst engum, sem hefur fylgzt með þessu máli og með því, sem komið hefur frá hæstv. ríkisstj., að till. hafa gengið á víxl á milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, í hvaða formi sem þær hafa verið. Það er ekkert um þetta að villast, að Bretarnir hafa sagt frá því. En hæstv. ríkisstj. kýs að halda þessu leyndu, af því að það virðist vera liður í áætlun hennar um að fara á bak við Alþingi.

Þá viðhafði ráðh. alveg fáheyrð undanbrögð í sambandi við till. mína eða ósk til hans um að kalla saman utanrmn. Hann sagði, að það væri alls ekki á sínu valdi að gangast fyrir slíku, forsrh., — öðru eins stórvirki og því að kalla saman utanrmn., — það væri alls ekki á sínu valdi. Nú veit hæstv. forsrh. það mætavel, að það er mjög oft, sem ríkisstj. og þá undir forustu forsrh. hefur forustu um það að kalla saman utanrmn., og hann þarf ekkert að segja mér um þetta. Ég veit vel, hvernig þessu hefur verið háttað. Og það er í alla staði eðlileg krafa, að hann gangist fyrir þessu.

Það er vitanlega ekki hægt að hafa fullt samráð við Alþ. nema með því móti að kalla utanrmn. saman og gefa henni skýrslu um málavexti, svo að fulltrúar í henni geti ráðgazt við aðra þm. í þeim flokkum, sem þeir eru fulltrúar fyrir, nema hæstv. ráðh. vildi gangast fyrir því, að stofnuð yrði einhvers konar samstarfsnefnd um landhelgismálið innan Alþ. Þá gæti það auðvitað líka verið þáttur í að uppfylla það loforð, sem hæstv. forsrh, gaf um að hafa samráð við Alþ.

Ég endurtek því ósk mína og geri hana að kröfu, að það verði kallaður saman fundur tafarlaust í utanrmn. Alþingis til þess að gefa þar skýrslu um það, sem raunverulega hefur farið fram í málinu, og að þessu laumuspili verði hætt.