16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. nefndi nafn mitt í sambandi við staðhæfingu, sem hann setti hér fram. Og ég skal svara því með tiltölulega fáum orðum. Hann sagði, að ég hefði sagt, að eftir sakaruppgjöfina, sem hæstv. dómsmrh. hefði auglýst gagnvart brezkum togurum, hefði ástandið aldrei verið verra á Íslandsmiðum vegna ágangs brezkra togara. Ég hef ekki athugað þessi ummæli, hvort þau eru höfð rétt eftir mér í utanrmn., en ég hef aldrei efazt um það, að undansláttur í landhelgismálinu mundi leiða það af sér, — það sýnir sagan í gegnum aldir gagnvart Bretanum, — ég hef aldrei efazt um það, að undansláttur í þessu máli mundi leiða til enn þá verra ástands en verið hefur, og kannske sýnir sakaruppgjöfin okkur dálítið af því.

En við höfum annan vitnisburð, sem maður skyldi halda að hæstv. forsrh. tæki meira mark á en vitnisburði mínum. Við höfum vitnisburð hæstv. dómsmrh. í þessu máli. Ég hygg, að aldrei hafi nokkurn tíma í nokkrum umr. verið endurtekin oftar ein setning en þessi setning hæstv. dómsmrh.: Við höfum sigrað í þessu máli. Það er bara spurningin, hvernig við notum sigurinn. — Þetta endurtók hann æ ofan í að í Ed. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að þetta er rétt, og þetta er það, sem ég hef haldið fram. Okkur hefur greint á um það, hvort nú ætti að slá undan eða sýna Bretanum alvöru, sem ég álít að sé það eina, sem hann virðir.

En það var annað, sem sýnir nokkurn veginn í leifturmynd og betur en í þeirri þvælu, sem hæstv. forsrh. bar hér á borð fyrir þingheim, hvað er auðvelt að trúa á það, sem hæstv. forsrh. fullyrðir, hvað það er mikils virði það, sem hann segir. Hann segir: Því var ljóstrað upp, að skeyti var sent með tilboðum um tilhliðrunarsemi, — sem hann kallar tilslakanir, til NATO-þjóðanna, ef' þær viðurkenndu fyrir fram, að við hefðum rétt til einhliða útfærslu í 12 mílur. Hann segir, að yfir þessu hafi verið hin mesta leynd. Hér er hæstv. ráðherra frammi fyrir þingheimi staðinn að hreinum ósannindum — hreinum ósannindum, og ég lýsi hér með samkv. rökum, sem ég nefni nú strax, hann hreinan ósannindamann að þessu — hreinan ósannindamann. Skeytið er birt tvívegis. Það er birt svo að segja sama daginn og það er sent í Þjóðviljanum, sama ár, og skýrt frá því. Og það er birt í kosningabók Alþb. fyrir kosningarnar 1959 efnislega (Gripið fram í.) Það, sem kemur í kosningabók, sem gefin er út í þúsundum eintaka, og blaði, sem gefið er út í þúsundum eintaka, er ekkert leyndarmál. Hér er ráðherrann því staðinn að hreinum ósannindum, sem á ekki að koma fyrir um mann í hans embætti.

Það er hér verið að bera á borð það, sem er gamalt, og við skulum ekkert ræða frekar um það. En það er ástæða til að minnast á annað. Ég get sagt frá því hér, fyrst umr. eru komnar inn á þetta svið, að það er ekkert launungarmál, að þeir flokkar, sem stóðu að ríkisstj., voru ósammála um leiðir í þessu máli. Það hefur komið fram opinberlega að nokkru. En það er rétt í sambandi við þetta skeyti að skýra frá því, sem ég hef reyndar sagt frá áður, að Alþb. vildi ekki standa í sambandi við NATO-ríkin um samninga — alls ekki um samninga — og ekki einu sinni um samtök um það, hvort landhelgin yrði viðurkennd af þeim fyrir fram. Hér varð Framsfl. eins og oft áður að sigla milli skers og báru. Báran öðrum megin var Alþb., skerið var Sjálfstfl. og Alþfl., sem vildu samningaþóf og samningamakk við NATO-ríkin. Með skeytinu 18. maí gekk Framsfl. lengst til móts við þessi sjónarmið með því að senda fyrirspurn um það, hvort NATO-ríkin vildu viðurkenna landhelgina fyrir fram, gegn þeirri tillitssemi, að það yrði fært út á vissan hátt. Og þetta skeyti var sent, það vita allir, til þess að skera á þann hnút, að ekki yrði haldið áfram samningaþófi, sem Sjálfstfl. og Alþfl. vildu halda áfram og málið hefði strandað á.

Þetta er vitanlega ekki sambærilegt. Sér hvert einasta mannsbarn í landinu, að þeir menn, sem nota þessi rök, að þetta sé eitthvað sambærilegt við samninga við Breta nú, sem hafa beitt okkur ofbeldi, er ekkert annað en fálm — hreint fálm. Við vorum að leita samþykkis allra þjóða, gegn tilhliðrunarsemi um það, hvernig við færðum út, — einhliða viðurkenningu allra þjóða. Hér er verið að semja við eina ofbeldisþjóð, einu ofbeldisþjóðina, eftir að við höfum unnið sigur í málinu. Hver getur borið þetta saman? Þetta gera engir nema sekir menn, sem eru að reyna að þyrla upp reyk og ryki í kringum sig til þess að dylja sig, eins og menn, sem eru á flótta. Og svo eru fullyrðingar eins og þessar óskemmtilegu umræður, að segja: Þið voruð að bjóða Bretum það sama 1958 og við erum að bjóða Bretum nú. — Þetta verður maður að hlusta á frá hæstv. forsrh.

Hver var að bjóða Bretum þá? Við vorum að spyrja um það, hvort allar NATO-þjóðirnar vildu viðurkenna okkar 12 mílur, að við hefðum leyfi til þess að færa út einhliða, og þá ætluðum við að haga framkvæmdinni þannig, að nokkurt tillit væri tekið til þess. Það var ekki verið að bjóða Bretum, það var verið að leita eftir fyrir fram viðurkenningu ríkjasambands. Nú er talað um, að þetta sé einhver hliðstæða við það, að samið sé við þá þjóð, sem hefur sýnt okkur ofbeldi, eins og til að sýna heiminum, hvernig á að meðhöndla Íslendinga til þess að ná við þá góðum samningum. Það er ekkert hugsað um þjóðirnar núna, sem hafa sýnt okkur þá tillitssemi að virða okkar landhelgi í framkvæmd. Eina þjóðin, sem er tillitsverð að áliti þessarar hæstv. ríkisstj., er sú, sem hefur barið á okkur, og þess vegna á að gera undanþágu með hana. Og þetta er borið saman. Ég held, að ég geti numið staðar hér að sinni.