14.12.1960
Neðri deild: 38. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

78. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Alfreð Gíslason bæjarfógeti):

Herra forseti. Alþingi berast nú á hverju ári margar umsóknir um íslenzkan ríkisborgararétt, og það hefur því verið föst venja, að allshn. beggja d. hafi haft samráð um afgreiðslu þessara umsókna og við hana höfð hliðsjón af ákveðnum og föstum reglum, sem allshn. beggja d. urðu sammála um og komu sér niður á og birtust í nál. í maímánuði 1955 upphaflega.

Upphaflega voru reglur þessar í fimm liðum, en siðar hafa þær verið gerðar nokkru fyllri og einum lið bætt inn í. Sá liður er nú 5. liður, sem birtist í nál. á þskj. 204.

Það er augljóst, að afgreiðsla á þessum málum má ekki vera á reiki, og nauðsynlegt, að samræmi sé haft við um afgreiðslu þeirra á milli d. þingsins. Fjórir þm., tveir úr allshn. hvorrar d., ásamt skrifstofustjóra Alþingis athuguðu því nú frv. á þskj. 86 sem og umsóknir, sem því fylgdu, ásamt allmörgum öðrum umsóknum, sem borizt höfðu beint til Alþingis.

Til þess að ljóst mætti verða þeim, sem eftirleiðis sækja um íslenzkan ríkisborgararétt, var horfið að því ráði að taka þessar reglur inn í nál., og það er gert einnig nú eins og undanfarin ár.

Ég tel óþarft að fara yfir þessar reglur, því að hv. þm. eru þær allar kunnar.

Er undirnefnd beggja allshn. hafði ásamt skrifstofustjóra Alþingis yfirfarið allar umsóknir og orðið sammála um afgreiðslu þeirra, voru þær teknar fyrir á fundi allshn. þessarar d. og varð hún sammála um afgreiðslu. Allir umsækjendur, sem getið er um í frv. á þskj. 86, 5 karlar og 5 konur, fullnægja að öllu leyti skilyrðum þeim, sem sett hafa verið.

Af öðrum umsóknum, sem höfðu borizt, fullnægja 14 umsækjendur, 8 konur og 6 karlar, settum reglum, og hafa því umsóknir þeirra verið teknar til greina, og flytur n. því brtt. við frv. á þskj. 204. Þess skal þó getið, að tveir umsækjenda, Elfriede Else Maria Krause, sem er í 6. lið á frv., og Hörður Gunnarsson. sem er í brtt. n., 5. lið, öðlast ekki fullan dvalartíma fyrr en í júlí 1961, en n. þótti samt rétt, þegar svo stóð á, að umsækjendur ná fullum dvalartíma fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis, að þá verði umsókn þeirra samþ. með þeim fyrirvara, að þeir fengju réttinn, um leið og áskildum dvalartíma hefði verið náð.

Að öðru leyti hef ég ekki meira um þetta frv. að segja. Allshn. er sammála um að leggja til, að frv. á þskj. 86 verði samþ. með þeim breyt., sem n. hefur leyft sér að flytja á þskj. 189, og leyfir sér að óska þess að umr. loknum, að málinu verði vísað til 3. umr.