16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Forsrh:

(Ólafur Thors): Ég tel ekki ástæðu til að fara langt út í þessa ræðu hv. 2. þm. Vestf., vegna þess að hann er aðeins að endurtaka það, sem hann hefur haft lítinn sóma af áð prédika í Ed. Það er á allra vitorði, ekki aðeins Ed.-manna, ekki aðeins Nd.-manna og þar með alls þingsins, heldur þjóðarinnar allrar, að það hefur aldrei neinn maður lent í öðrum eins hrakningum. Það var strand og land á alla vegu hjá manninum í þessum málflutningi hans, sem von er, því að hans málstaður var þannig, að það var ekki hægt að verja hann. Ég segi það alveg satt, að ég nærri kenndi í brjósti um þennan hv. þm. með það skap, sem hann hefur, og málflutningurinn er honum ekki til sóma. Það er að bera í bakkafullan lækinn, ef ég færi að endurtaka þau rök, sem bæði hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh. hafa saumað hann inn í í Ed.

Það, sem hv. þm. taldi sér eiginlega mest til málsbóta og mér örðugasta hjallann, var, að hæstv. dómsmrh. hefði sagt: Við erum búnir að sigra í málinu. — Og hann bætti við sjálfur: Ég tel þetta — réttan skilning. —- En ef þessi maður telur þetta réttan skilning, af hverju lagði hann þá til, að við færum að biðja Bandaríkin að hjálpa okkur í málinu, sem við værum búnir að sigra í? Svona fer fyrir þeim, sem aldrei vilja segja nema hálfan sannleikann. Við erum ekki búnir að koma Bretum út úr landhelginni, og það má eins vel kalla okkar baráttu núna baráttuna til að koma Bretum út úr landhelginni. Þeir eru þar, og þeir færa hættur yfir íslenzk mannslíf og íslenzka fjármuni, og öllum væri fyrir beztu, öðrum en kommúnistum, að þessi deila væri úr sögunni.

Hv. þm. sagði, að ég væri staðinn að ósannindum, þegar ég hefði sagt, að það hefði verið leynd yfir þessu máli, og honum þótti það mikil háðung, að forsrh. landsins skyldi verða staðinn að ósannindum. Víst er svo, ef satt væri, sem ekki er. En ég vil minna hann á skeytið, sem hann sendi 20. ágúst 1958. Ég játa, að hann kom heim til mín 18. maí 1958 til að biðja mig að vera meðábyrgan að því skeyti, sem hann þá — sendi til Breta, en ég sagðist ekki geta svarað því, af því að ég hafði ekki haft tækifæri til að bera mig saman við minn flokk. Það er ekkert á móti því, að kommúnístarnir fái dálitla skemmtun af því að heyra, að þessi hv. þm. hafi viljað semja við mig, áður en hann samdi við þá. En ég vissi aldrei neitt um, þegar hann var að endurtaka þetta tilboð sitt í enn þá skýrara formi þann 20. ágúst 1958. Það var þess vegna fullkomin leynd yfir þessu, þar til atvikin afhjúpuðu þessa menn, enda er það sannleikur, að einmitt þessa dagana, sem umr. hafa staðið yfir í hv. Ed., hafa alltaf verið að koma í ljós nýjar og nýjar upplýsingar í málinu. Það hefur m.a. verið að sannast, að það vissu miklu fleiri og aðrir menn um þetta mál heldur en áður hafði verið látið í veðri vaka. Hv. 5. þm. Reykn. skilst mér að hafi í öndverðu litið þótzt um málið vita, en endar með því að segja, að þetta hafi allt verið sér kunnugt. Það var líka daginn eftir á Þjóðviljanum svo að skilja, að ráðherrar kommúnista í vinstri stjórninni hefðu ekkert um þetta vitað. Nú virðist mér sá skilningur vera kominn á daginn eða að koma í ljós, að þeir hafi alltaf um þetta vitað.

Hv. þm. sagði, að skeytið þann 18. maí hefði verið sent til að forðast, að málið strandaði alveg. Ég veit ekki, hvaðan hættan um stöðvun kom, nema þá ef hún var af hendi hans samstarfsmanna. Og þeir hafa reyndar lýst því yfir, kommúnistarnir, að þeir hafa aldrei gengið inn á þetta. Hv. 5. þm. Reykn. segir: Ég var með því, að skeytið væri sent, en það var í öruggri vissu um, að það yrði aldrei samþykkt. — Ég veit ekki, hvaðan sú vissa kom honum. (FRV: Ég hafði hugmynd um efni þess.) Nú, já, hann vissi ekki um, að það var sent, en hafði hugmynd um efni þess. Nú fara að verða flókin mál þeirra kommúnistanna. Aðeins hugmynd. „Svo dreymdi mig draum“. Og þannig fékk hann hugmynd um, hvað var efni þess, en hann hafði aldrei séð það, aldrei heyrt það, vissi ekki um það, en hann dreymdi um það og fékk hugboð um það. Það verður að orða þetta varlega allt saman. Það er eins og ég segi, það kemur alltaf nýtt og nýtt í ljós. Þó að þeir fái ekki að frétta um það, þá dreymir þá um — það, þannig fá þeir vitneskju um það. (FRV: Ég hef aldrei samþykkt það.) Aldrei samþykkt það? Nei, aldrei samþykkt það. Og nú fæ ég að vita það næst, að hann hafi samþykkt það, en í svefni, samþykkt það sofandi.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði: Hver var að bjóða Bretum eitthvað 1958? Nei, ég var bara að bjóða NATO eitthvað, sagði hann. Bretar eru náttúrlega, eins og allir vita, í NATO. Þá voru það Bretar, sem áttu að fá tilboðið líka. Og svo veit þessi hv. þm., að andstaðan í NATO var fyrst og fremst frá Bretum. Hann var þess vegna að bjóða Bretum. Hann var að segja við Bretann: Ef þú vilt vera góða barnið í þessu, þá skal ég líka vera góða barnið. — Það þýðir ekki að koma núna með heilaga vandlætingu og segja: Ég hef aldrei talað við Breta. Nei, ég tala bara við NATO. — Ja, margt má maður nú heyra, áður en eyrun detta af manni. Þetta er í samræmi við annan skrípaleik í þessu öllu.

Svo sagði hann okkur þetta, sem ég er oft búinn að heyra áður í Ed., að nú væru Bretar að sýna fram á ráðið til að tukta Íslendinga, það væri bara að vera harður í horn að taka. Má ég spyrja þennan hv. þm.: Hvaða ráð höfðu Bretar til að tukta hann, þegar hann sendi skeytið 20. ágúst 1958? Þeir voru þá búnir að segja: Góði minn, ef þú ekki lætur þig, þá skal ég tukta þig með því að koma með herskip hingað. — (HermJ: Þetta er bara tilbúningur.) Er þetta bara tilbúningur? Hv. þm. veit það ósköp vel, að ég get sjálfsagt séð það í bréfaskiptum okkar við flokkana, að það var þá farið að tala um, að Bretar mundu ætla að koma hingað og verja sín skip. Og það var einmitt það, sem hann bar kvíðboga fyrir. Þess vegna féll hann bæði frá grunnlínunum, sem vinstri stjórnin ætlaði í öndverðu að víkka og taldi sig hafa rétt til, og bauð þessi vildarkjör, sem Bretinn mundi áreiðanlega taka við núna, ef hann gæti fengið þau.

Ég skal svo ekki að öðru leyti orðlengja um þetta, nema sérstakt tilefni verði til. Ég minni aðeins á, að það eru tvö höfuðboðorð, sem þessi hv. þm. hefur kennt sinni þjóð, og annað er að ráðfæra sig aldrei við aðra, áður en fiskveiðilögsagan væri færð út, hvorki varðandi tíma né efnishlið, og þó allra sízt, ef búið væri að taka nokkrar ákvarðanir, að hopa nokkru sinni frá því. Hann er staðinn að því að hafa allt sumarið 1958 verið að ráðfæra sig við aðra, og hann er líka staðinn að því, að þegar endanlegar ákvarðanir eru teknar, þá segir hann: Ég skal rifta öllum mínum ákvörðunum, ef þið aðeins viljið gera það, sem ég bið ykkur um. — Þetta eru beinir samningar, hvernig sem reynt er að toga það og teygja. Hvað er það annað en samningatilboð að segja: Ég skal hætta við það, sem ég ætlaði að gera, ef þið viljið fallast á vissan hluta af mínum óskum?