28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það væri tilefni til ræðu eftir þessa yfirlýsingu, sem hæstv. utanrrh. nú hefur gefið, því að það er einstæð yfirlýsing af hálfu eins manns, sem kjörinn er í það embætti af hálfu Alþingis. Hæstv. utanrrh. hefur hér lýst því yfir, að hann muni ekki ræða í ákveðnum nefndum þau mál, sem snerta hagsmuni Íslands, svo framarlega sem við t.d., sem erum fulltrúar Alþb., eigum þar sæti. Það þýðir m.ö.o., að þessi háttvirti herra lýsir því yfir, að hann muni ekki framkvæma þær skyldur, sem á honum liggja sem ráðherra samkv. lögum, vegna þess að hann hafi andúð á einhverjum sérstökum mönnum í þessu þjóðfélagi. M.ö.o.: þessi ráðherra lýsir því yfir, að hann muni brjóta lög, og hann gerir sér vonandi ljóst, að fyrir það verður hann sóttur til saka á sínum tíma. Það er enginn, sem hefur lagt það undir hans dóm, við hverja hann eigi að tala. Þessum ráðherra ber að hlýða íslenzkum lögum og tala við þá menn, sem kjörnir eru til þess að sitja í þeim nefndum, sem Alþingi hefur kosið þá til. Og það er ekki hans að dæma um slíkt, og hann getur gert svo vel og lagt það fyrir Alþingi og spurt að því, hvað þar eigi að gera, áður en hann kveður upp þann dóm. Það er honum bezt að gera sér ljóst. Hann er ekki enn þá orðinn amerískur borgari. Hann er ekki enn þá undir óamerísku nefndinni. Hann er enn þá á Íslandi. Það er bezt fyrir þennan hæstv. ráðh. að gera sér ljóst og tala ekki eins og hann talaði hér áðan. Honum ber að gera svo vel að hlýða þeim lögum, sem hér eru. Það getur verið gott, að hann tjái stundum sinn innsta hug, að hann vilji tilheyra einhverri annarri þjóð en vorri. En meðan hann enn þá telst íslenzkur ríkisborgari, ber honum að hlýða þeim lögum.

Í öðru lagi hvað snertir hagsmuni ríkisins: Hvaða ríki var hæstv. utanrrh. að tala um? Hann var ekki að tala um hagsmuni íslenzka ríkisins. Íslenzka ríkið hefur mælt fyrir í sínum lögum, hvernig með þessi mál skuli fara. Það er annað ríki, sem hæstv. utanrrh. talar um.

Hæstv. utanrrh. segist ekki þurfa að bera undir nefnd, sem hann hafi sjálfur skipað. Er sú nefnd orðin þannig skipuð að hans áliti, að það sé ekki heldur hægt að bera neitt undir hana? Hann hefur verið að semja við ríkisstjórn annars ríkis. Þegar hann talar þarna um hagsmuni ríkisins, eru það hagsmunir Bandaríkjanna, en ekki Íslands, sem hann er að tala um. Ísland hefur sett sín lög og sett sínar ákvarðanir. Það er þá vegna hagsmuna Bandaríkjanna að tala ekki um slíkt.

Það er bezt fyrir þennan hæstv. ráðh. að gera sér það alveg ljóst, hvað það er, sem hann er að mæla. Hagsmunir íslenzka ríkisins heimta það, að Alþingi Íslendinga og þær nefndir, sem það hefur kjörið, fylgist með því, sem er að gerast í þessum málum. Það, sem getur verið gott fyrir hagsmuni Bandaríkjanna, getur verið lífshætta fyrir íslenzku þjóðina. Og hæstv. ráðh. verður að gera svo vel að gera sér það ljóst, að þegar hann leynir íslenzku þjóðina og brýtur lög til þess að leyna íslenzku þjóðina því, sem hún þarf að vita, þá er hann að ganga erinda Bandaríkjanna á móti hagsmunum Íslendinga. Það heitir á venjulegu íslenzku máli landráð. (Forseti: Það er skylt samkv. þingsköpum, að þm. viðhafi þinglegt orðbragð hér.)