31.01.1961
Efri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur hér að nokkru leyti tekið upp hanzkann fyrir viðskmrh. Ég get þó ekki neitað því, að ég hefði kosið, að viðskmrh. hefði verið hér við, því að satt að segja geri ég mér vonir um, að hans viðbrögð við orðum mínum hefðu orðið nokkuð á aðra lund heldur en hæstv. dómsmrh. En hæstv. dómsmrh. stóð hér upp og sagði með fáum orðum, að hann teldi, að hér hefðu alls engin mistök átt sér stað, og þá veit maður það, að hans skoðun er sú, að hér hafi ekki átt sér mistök stað. Hann sagði, að það hefðu engin lagaákvæði verið brotin með þessum starfsháttum og ekki hefði heldur verið brotið gegn venjum.

Ég hef aldrei haldið því fram, að lagaákvæði hafi verið brotin hér. En það er nú svo, að í starfsháttum Alþingis og í starfsháttum annarra þinga hafa myndazt ýmis óskráð lög, og hæstv. dómsmrh. láðist að nefna nokkur dæmi um þá venju, sem styrkt gætu þá fullyrðingu hans, að það hefði áður átt sér stað, að í stjórnmálafélögum hefði verið skýrt opinberlega frá efni stjórnarfrv., sem ætlunin væri einhvern tíma síðar að leggja fram á Alþingi, áður en þau væru lögð þar fram. En það fer ekkert á milli mála og er ljóst af þeirri frásögn, sem ég las hér upp og birt er í Morgunblaðinu, að það hefur verið skýrt mjög ýtarlega frá þessu frv., sem hér á að flytja.

Nú er það síður en svo, að ég hafi nokkuð að athuga við það, að breyt. séu gerðar á bankalöggjöfinni, þær verður auðvitað að gera, eftir því sem þörf krefur og efni standa til á hverjum tíma, og ég verð að segja það, að ég álít, að sum þau atriði, sem bent er á í þessari frásögn, megi til bóta verða. En það breytir ekkert því, sem ég sagði, og er ekki á neinn hátt til umr. hér, heldur aðeins þau vinnubrögð, sem hér hafa átt sér stað, að þm., sem væntanlega hefur verið með í ráðum um samningu frv., fer að segja frá því á stjórnmálafundi. Ég fyrir mitt leyti álít það ákaflega óviðfelldin vinnubrögð og ég álít, að Alþ. sé misboðið með því, að það sé farið í raun og veru að flytja frv. á stjórnmálafundum, — með allri virðingu fyrir þeim samkomum, — áður en frv. eru lögð fram á Alþ. og áður en alþm. gefst kostur á að kynna sér þau. Það er að sjálfsögðu ekki hreyft neinum andmælum við því, að hæstv. ríkisstj. kynni sínum þingflokksmönnum á þingflokksfundum efni þeirra frv., sem hún hyggst leggja fram, en ég hef litið svo á, að þm. ættu ekki og mundu ekki almennt gera það, að skýra frá því opinberlega, sem kemur fram á þingflokksfundum, á meðan mál eru á slíku undirbúningsstigi.

Ég get þess vegna ekki skipt um þá skoðun, sem ég hafði á þessu, að ég tel þarna vera farið inn á ákaflega varhugaverða braut og að þetta dæmi eigi að verða til þess, — og af því vildi ég vekja athygli á því, — að það sé ekki horfið að slíkum starfsháttum sem þessum í framtíðinni.

Þau fáu orð, sem hæstv. dómsmrh. sagði um þetta, gátu á engan hátt hrakið það, sem ég sagði um þetta efni. Og þó að ég skilji það, að hæstv. dómsmrh. rennur blóðið til skyldunnar gagnvart flokksmanni sínum, sem hafa orðið á þessi mistök, þá vona ég það enn sem fyrr, að ekki séu allir flokksmenn hans þess sama sinnis, heldur sjái þeir, er þeir athuga þetta með gát, að hér er farið inn á óheppilega braut og hér hafa mistök átt sér stað, sem sæmilegast væri fyrir hlutaðeigendur að viðurkenna.