31.01.1961
Efri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hef aldrei haldið því fram, að það væri athugavert, að þm. eða stjórnmálaforingjar skýrðu almennt frá meginstefnu í þeim málum, sem þeir berðust fyrir, eða meginstefnu í þeim frv., sem þeir hygðust leggja fram. Það er ekki það, sem er um að ræða hér, heldur hitt, að það hefur verið sagt ýtarlega, — það ber frásögnin með sér, — frá efni frv. Það liggur við, að ætla megi, að frv. hafi verið lesið upp, þannig er orðalagið á þessari frásögn. Ég hef aldrei haldið því fram, að hér væri um neitt leyndarmál að ræða, er þm. hafi gerzt sekur um að skýra frá, heldur er aðeins mín ádeila bundin við það, að það séu ósæmileg vinnubrögð að fara að flytja frv. stjórnarinnar í stjórnmálafélögum, hver svo sem þau eru, áður en þau eru flutt á Alþ., og ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að ég álít, að það geti verið ákaflega hættulegt að taka upp þvílík vinnubrögð.

Það vildi nú svo vel til, að hæstv. dómsmrh. var ekki í bili tiltækt nema eitt einasta fordæmi, þar sem slík vinnubrögð hefðu átt sér stað, — og ég mundi vel eftir því fordæmi líka, en ég hafði ekki ætlað að leiða það neitt inn í umr. hér, — en þess minnist hæstv. dómsmrh., að það var einmitt fundið að þvílíkum vinnubrögðum þá, það var fundið að því, að hæstv. forsrh, hafði þann hátt á að skýra á Varðarfundi frá — ekki þó ákveðnu frv., sem ætti að leggja fram á Alþ., heldur frá ákveðinni stefnu og ákveðnum staðreyndum, sem upplýstist síðar um á Alþ., — þannig að í raun og veru var þarna ekki um sambærileg tilvik að ræða. En hvað sem um það er, þá var einmitt fundið að þeim starfsháttum hér á Alþ. á sínum tíma. Hæstv. dómsmrh. getur svo afgr. það með því að segja, að þar hafi bara verið um venjulegt nöldur stjórnarandstöðunnar að ræða. En hann hefur líka verið í stjórnarandstöðu, hæstv. dómsmrh., og það skyldi nú vera, að það væri ekki hægt að finna einhver ummæli hjá hæstv. dómsmrh., þar sem hann hefði látið orð að því liggja, að það væri með vissum vinnubrögðum verið að draga valdið úr höndum Alþ. En ég veit nú satt að segja ekki, með hverjum hætti má draga valdið meir úr höndum Alþ. en með því að taka upp slík vinnubrögð, sem hér hafa átt sér stað. En það, sem ég hef fundið að, er aðeins þessi formlegi háttur, sem hér hefur verið um hönd hafður, þ.e. að skýra frá ákveðnu frv., sem stjórnin hyggst einhvern tíma síðar leggja fram á Alþ., — skýra frá því á fundi í stjórnmálafélagi og það ekki einu sinni af ríkisstj. eða þeim ráðh., sem þessi mál heyra undir, heldur af einum hv. alþm. Það er þetta, sem ég hef fundið að, og það er þetta, sem hæstv. dómsmrh. hefur farið í kringum og reynt að tala um ýmis önnur atriði, sem ég hef hér ekki hreyft, og hann hefur þannig reynt að drepa á dreif þeim aðfinningum, sem ég hef hér borið fram. Það er þess vegna bezt, að ég spyrji hann alveg beint, hvort hann telji það heppileg vinnubrögð í framtíðinni, að það sé farið að skýra frá frv., sem stjórnin hyggst leggja fram á Alþ., á fundum í stjórnmálafélögum úti í bæ, áður en þau eru lögð fram á Alþ., og þá á ég ekki aðeins við það, að það sé skýrt frá því meginefni, sem í frv. felst, heldur sé skýrt frá frv. í einstökum atriðum, með svipuðum hætti og gert mundi vera, þegar höfð væri framsaga fyrir því hér á Alþ. Það er að mínu viti óeðlilegt, að fundarmönnum í slíku stjórnmálafélagi, í hvaða stjórnmálafélagi sem er, sé gefið þannig færi á að fara að ræða málið og gera við það sínar athugasemdir, sem svo kannske er skýrt frá í blöðum, eins og hér hefur átt sér stað, áður en alþm. hefur verið gefið færi á að tjá sig um málið.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég harma, að hæstv. viðskmrh., sem bankamálin heyra undir, skuli ekki vera viðstaddur þessar umr., því að mér hefði leikið alveg sérstaklega hugur á að heyra það af hans vörum, hvort hann vildi leggja blessun sína yfir þvílík vinnubrögð eða ekki, eða hvort hann væri maður til þess að lýsa því yfir hér gagnvart þingheimi, að hann harmaði það, að þessi mistök hefðu átt sér stað.