15.02.1961
Sameinað þing: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (FS):

Frá forseta Ed. hefur borizt svofellt bréf:

„Reykjavík, 11. febr. 1961.

Mér hefur í dag borizt svo hljóðandi bréf frá Magnúsi Jónssyni, 6. þm. Norðurl. e.:

„Vegna setu á þingi Norðurlandaráðs verð ég hindraður frá að sitja á Alþingi næstu tvær vikur. Er það því ósk mín, herra forseti, að fyrsti varaþingmaður Sjálfstfl. í Norðurlandskjördæmi eystra, Gísli Jónsson menntaskólakennari, taki á meðan sæti mitt á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt, með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Sigurður Ó. Ólafsson, forseti efri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Með bréfi þessu fylgir kjörbréf, gefið út af yfirkjörstjórn Norðurlandskjördæmis eystra hinn 27. okt. 1959 til handa Gísla Jónssyni menntaskólakennara á Akureyri sem varaþingmanni Sjálfstfl. í Norðurlandskjördæmi eystra. Gert verður hlé á fundinum í nokkrar mínútur, meðan kjörbréfanefnd rannsakar kjörbréfið, svo sem henni ber samkvæmt þingsköpum. — [Fundarhlé.]