14.03.1961
Sameinað þing: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (FS):

Frá forseta Nd. hefur borizt svofellt bréf :

„Reykjavík, 9. marz 1961.

Páll Metúsalemsson, 1. varaþm. Austf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Vegna heimilisástæðna mun ég ekki geta sinnt þingstörfum næstu vikur. Óska ég því þess, með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis, að varamaður taki sæti mitt á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt, með ósk um, að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Jóhann Hafstein, forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs þings.“

Með bréfi þessu fylgir símskeyti frá yfirkjörstjórn Austurlandskjördæmis og annað símskeyti frá Björgvin Jónssyni. Samkvæmt þingsköpum ber kjörbréfanefnd að fjalla um málið, og verður gert nokkurt hlé á fundinum, meðan hún rannsakar kjörbréfið. En hringt verður aftur til fundar, áður en hann hefst að nýju. — [Fundarhlé.]