14.03.1961
Sameinað þing: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur, svo sem fyrir hana var lagt, komið saman á fund og athugað gögn þau, sem fram voru lögð.

Það liggur nú ekki fyrir alveg formlegt kjörbréf fyrir Vilhjálm Hjálmarsson, en það liggur fyrir svo hljóðandi staðfest símskeyti frá formanni yfirkjörstjórnar í Austurlandskjördæmi, sem ég vildi mega lesa, með leyfi forseta:

„Eftir alþingiskosningu í október 1959 er Vilhjálmur Hjálmarsson, Brekku, annar varaþingmaður Framsfl. í Austurlandskjördæmi. Fyrir hönd yfirkjörstjórnar.

Erlendur Björnsson.“

Undirskriftin er staðfest.

Jafnframt liggur fyrir svo hljóðandi símskeyti frá 1. varaþm. Framsfl. í Austurlandskjördæmi, Björgvin Jónssyni, Seyðisfirði:

„Vegna anna er mér ekki unnt að mæta til þings næstu vikur.

Björgvin Jónsson.“

Og undirskrift er staðfest.

Með skírskotun til þessara gagna leggur kjörbréfanefndin til, að kosning Vilhjálms Hjálmarssonar verði gild metin og framlagt símskeyti metið gilt sem kjörbréf.