07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (1754)

52. mál, lækkun byggingarkostnaðar

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta því ómótmælt, að hv. frsm. minni hl. ber í það á mig, að ég fari með rangt mál og lygar hér í sambandi við þetta mál, eins og hann sagði hér áðan. Sannleikurinn er sá, að hann notfærir sér það, hv. þm., að fskj. hafa ekki verið birt vegna þess, hversu þetta var lengt mál. En ef hann vill leggja tíma í það að lesa þessi skjöl, mun hann sjá, að það er enginn af þeim, sem leggur til, að frv. sé samþykkt.

Menn benda á, að það sé þörf á tekjunum, tveir af þeim vilja ekki, að frv. sé samþykkt, en hinir benda á, að það sé hægt að fara allt aðrar leiðir, m.a. að leggja nokkuð af kostnaði á byggjendur. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að vera að koma hér og bera skrök á mig um þessi mál. Hann ætti bara að setjast niður og lesa umsagnirnar, svo að hann geti séð, hvað þessir aðilar hafa sagt um málið.

Ég vil ekki vera að eyða tíma hv. Alþingis hér til þess að vera að þjarka um svona atriði, en þessi ungi maður ætti að venja sig á í framtíðinni að lesa betur þau skjöl, sem hann ætlar að leggja út af, til þess að vera ekki að fara með svona fleipur eins og hana gerði hér áðan.