02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (1766)

45. mál, lántaka til hafnarframkvæmda

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal aðeins taka örfáar mínútur. — Ef dagskrá sú verður samþykkt, sem hér er lagt til að samþykkt verði af meiri hl. n., vildi ég mega beina því til hæstv. ríkisstj. og þeirra aðila, sem fá þetta mál til afgreiðslu, og væntanlega láta endurskoða lögin, hvort ekki sé rétt að taka upp í væntanlegt frv. ákvæði um, að útgerðin sjálf leggi nokkurt fé til þessara mála. Ég tel, að það sé alveg óhjákvæmilegt, ef á að koma hafnarmálunum í nokkurt viturlegt horf á næstunni, að þá eigi að taka beinan skatt af hverju nýju skipi, sem byggt er, hvort heldur það kemur til landsins eða er byggt hér innanlands. Ef það hefði verið tekinn t.d. 2% skattur af nýbyggingu undanfarið ár, mundu um 10 millj. kr. hafa bætzt hafnarsjóði þannig á s.l. ári, og það er lágmark, sem á að krefjast, að útvegurinn leggi til þessara mála. Þetta lágmark mundi útvegurinn fá aftur mjög fljótlega í lægri iðgjöldum og minni viðgerðum og miklu minna viðhaldi á skipunum, þar sem verið er með þessu fé að skapa skjól fyrir flotann, þar sem honum er óhætt að vera án þess að skemmast stórkostlega, sem útgerðarmenn verða að greiða fyrir í einhverri mynd. Ég tel einnig, að helmingurinn af slíku fé ætti að fara til að byggja þurrkví hér í Reykjavík, svo að við verðum sjálfir megnugir að taka upp og gera við okkar skip. En það er nú komið svo, að við getum staðið fullkomlega á sporði útlendingum með alla vélavinnu hér heima, en verðum að láta enn fara í stórum stíl til útlanda alla bolvinnu, vegna þess að við höfum ekki haft manndóm til þess að koma upp hjá okkur skipakví, sem getur tekið flota okkar til viðgerðar. — Þetta vildi ég láta koma fram þegar á þessu stigi málsins.