17.02.1961
Efri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1771)

194. mál, sveitarstjórnarkosningar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta litla frv., sem hér er til umr., gefur ekki tilefni til andmæla eða langra umræðna. En af því að hér er um að ræða frv. um breyt. á l. nr. 81/1936, um sveitarstjórnarkosningar, þá vil ég nota þetta tilefni til þess að vekja athygli hv. dm. á því, að brýna nauðsyn ber til að mínum dómi að endurskoða þau lög, sem þetta frv. er breyt. á, einkum eftir að það stóra frv. til sveitarstjórnarlaga hefur fengið afgreiðslu, sem hér er nú til meðferðar. Lögin um sveitarstjórnarkosningar, þau sem enn eru í gildi, eru alls 39 gr., en með frv. um sveitarstjórnarlög eða setningu nýrra sveitarstjórnarlaga á að nema úr gildi samtals 16 greinar af þeim 39, sem lögin eru nú, og þessar 16 greinar eru á þrem stöðum á við og dreif í lögunum sjálfum, þannig að þegar þær hafa verið felldar úr gildi, meira en þriðjungur laganna, þá verður í raun og veru eftir slitur eitt og kaflar, sem ekki hafa eðlilegt upphaf sem heilsteypt lög, o.s.frv. Og mér sýnist, ef við svo búið á að sitja framvegis, þá verði mjög óaðgengilegt og torvelt fyrir menn, sem óvanir eru að lesa saman lagabókstafi, að glöggva sig á því, hvað er í gildi af þessum lögum og hvað ekki. Og hér kemur fleira til. Sumt af því, sem A að halda gildi í löggjöfinni, eftir að hinar 16 greinar hafa verið felldar úr gildi, fær að mínum dómi tæplega staðizt. Ég skal nefna dæmi þessu til stuðnings.

Í 11. gr., sem mér skilst að eigi að halda gildi, þótt hin nýju lög um sveitarstjórnir hafi fengið afgreiðslu, eru þessi ákvæði: „Kjörskrár til bæjarstjórnar- og hreppsnefndarkosninga semja bæjarstjórnir í kaupstöðum og hreppsnefndir í hreppum. Skulu kjörskrár samdar í febrúarmánuði ár hvert, samtímis því sem kjörskrár fyrir kosningar til Alþingis eru samdar: Nú er með nýju lögunum um kosningar til Alþingis, sem sett voru á þingi 1959 samhliða stjórnarskrárbreytingunni, þessum ákvæðum um samningu kjörskráa breytt, þannig að þær þarf ekki að semja í febrúar, heldur aðeins þannig, að þær séu tilbúnar tveim mánuðum fyrir kjördag, þegar ber að leggja þær fram. Þetta ákvæði um að semja kjörskrár í febrúar og samtímis því sem kjörskrár til Alþingis eru samdar er því ekki lengur í samræmi við hin nýju kosningalög til Alþingis.

Enn fremur segir hér í 11. gr.: „Kjörskrár í kaupstöðum og hreppum, þar sem almennar hreppsnefndarkosningar fara fram í janúarmánuði, gilda frá 24. janúar næsta ár, eftir að þær eru samdar, til 23. janúar næsta ár þar á eftir: Þetta er miðað við hin gömlu ákvæði um kjördag við sveitarstjórnarkosningar í kaupstöðum, en á að taka og þarf að taka eðlilegum breytingum í samræmi við breytt ákvæði um kjördaginn.

Í 12. gr. laganna, sem mér skilst að eigi einnig að halda gildi, segir svo: „Á kjörskrá til bæjarstjórnar- eða hreppsnefndarkosninga skal taka: 1) Þá, sem fullnægja öllum skilyrðum 6. gr. þessara laga.“ Nú er 6. gr. þessara laga felld úr gildi með stóra frv., og þá stendur það eftir, að hér verður vitnað í grein, sem er ekki lengur til.

Nú er kjörtímabil til sveitarstjórnarkosninga þannig, að sveitarstjórnarkosningar fóru fram um allt land á árinu 1958, að ég ætla, og eiga að fara fram næst á árinu 1962. Í sjálfu sér er eðlilegt og nauðsynlegt að hafa í lögum þetta efnisákvæði, sem fjallað er um í þessu litla frv. En þó er á það að líta, að það eru ekki líkur til, að það kæmi að sök, þó að það stæði ekki í lögum til næsta hausts eða svo, vegna þess að sýslunefndarmenn hafa þegar verið kosnir, aðalmenn og varamenn, og það eru ekki líkur fyrir því, að sýslunefndarkosningar þurfi að fara fram, — alls ekki almennt og litlar líkur til þess, að það þurfi að fara fram aukakosningar á næsta sumri. Þess vegna vildi ég vekja eftirtekt á því í þessari hv. d., að mér sýnist full ástæða til, að frá d. komi áskorun til hæstv. ríkisstj. um að hlutast til um, að lögin um sveitarstjórnarkosningar verði endurskoðuð í heild, þ.e.a.s. þeir kaflar, sem eftir standa í þeim, og að frv. um það efni verði lagt fyrir næsta þing. Þá gefst tími til að afgreiða það mál á næsta þingi, og yrði þá til ný og heilsteypt löggjöf um það, áður en hinar almennu sveitarstjórnarkosningar fara fram sumarið 1962.

Ég vek eftirtekt á þessu og vænti þess, að n., sem þetta frv. flytur, taki þetta til athugunar.