28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (1798)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Mér skilst, að aðalákvæði þessa frv. séu þau að fjölga í síldarútvegsnefnd úr 5 manns, eins og nú er ákveðið í l. frá 29. des. 1934, í 7 manns. Ég fæ ekki séð við fljóta yfirsýn, að þessi breyting á lögum um síldarútvegsnefnd geti talizt til neinna bóta. Aðrar breytingar á þessum lögum kem ég ekki auga á, sem máli skipti. Í 2. gr. er gert ráð fyrir, að niður skuli falla orðin „löggiltir útflytjendur“, en í staðinn kemur svo aftur, að „löggilda skuli söltunarstöðvar.“ Ég sé ekki sérstaklega mikinn eðlismun á þessari breytingu. En það skal samt tekið fram, að ég hef ekki borið frv. saman við lögin, og það getur verið, að þar séu einhverjar smáorðalagsbreytingar aðrar. Ég taldi víst, að þetta frv. mundi ekki koma hér fyrir hv. d. og hef þess vegna ekki kynnt mér það, eins og ég hefði annars gert, ef ég hefði gert ráð fyrir því, að það kæmi hingað. En um engar verulegar efnisbreytingar mun vera að ræða frá eldri lögum.

Frv. hefur verið til umsagnar nokkurra aðila, þ. á m. hjá síldarútvegsnefnd. Á fundi nú fyrir nokkru gerði ég fsp. um það til formanns n., hvort sjútvn. Ed., sem málið var hjá, hefði ekki boðað hana á fund n. til að ræða um fram komið frv. Formaðurinn sagði, að við sig hefði ekkert verið rætt um þetta frv. Ég spurðist þá fyrir um það, hvort n. ætlaði ekki að taka afstöðu til málsins á annan hvorn veg. Mér var svarað því til, að það væri nokkurn veginn fullvíst, að frv. mundi ekki fara í gegn á þessu þingi og því sæi n. ekki sérstaka ástæðu til þess að taka afstöðu til málsins á þessu stigi, sérstaklega þó vegna þess, að hv. sjútvn. Ed. hefði ekki óskað eftir viðræðum við neinn úr n. og þá ekki við formann heldur. Ég verð nú að láta í ljós undrun mína yfir því, að þegar um er að ræða allmikla breytingu á lögum eins og þarna, þá skuli ekki formaður viðkomandi nefndar hafa verið boðaður á fund og rætt við hann og leitað eftir áliti hans á þessu máli. Menn hljóta að velta því fyrir sér, hvort það sé til bóta að fjölga úr 5 í 7. Mitt álit er, að það sé sízt af öllu til bóta. Ég álít, að það sé verra á margan hátt.

Rökin, sem færð eru fram fyrir því að fjölga í n., eru þau, eins og segir í grg., — grg. er mjög stutt, ég held, að ég verði að ræna tíma Alþingis með því að lesa þá grg. upp, með leyfi hæstv. forseta, — grg. hljóðar svo:

„Frumvarp þetta, sem felur í sér nokkrar breytingar á skipun síldarútvegsnefndar, miðar m.a. að því að tryggja síldarsaltendum aðild að nefndinni, en það hafa þeir ekki, eins og lögin kveða á um skipan nefndarinnar nú. — Þá er í frv. þessu um nokkrar aðrar breytingar að ræða, sem telja verður rétt að gerðar séu, en þær eru um atriði í lögum, sem löngu eru úrelt og samrýmast ekki framkvæmd þeirra.“ Það hefði mátt gera þá kröfu til hv. flm., að þeir hefðu bent á, í hvaða greinum þessar breytingar eru. En það er ekki gert hér.

„Svo sem kunnugt er, eru nú starfandi sölusamtök framleiðenda um sölu í flestum greinum sjávarútflutningsframleiðslunnar nema um sölu saltsíldar, en sá vöruflokkur hefur um alllangan tíma verið í höndum síldarútvegsnefndar. Með því fyrirkomulagi, sem nú er um skipan nefndarinnar, er það hending ein, sem ræður því, hvort nokkur síldarsaltandi á sæti í n. Það verður að teljast óeðlilegt, að framleiðendur, sem eiga mest e.t.v. undir framkvæmd nefndarinnar komið, hafi ekki aðstöðu til þess að taka virkan þátt í sölumeðferðinni og gæta hagsmuna sinna.“

Ég vil benda á það í sambandi við þessa grg., að hún gerir ekki ráð fyrir neinni breytingu á skipan nefndarinnar nema bara að fjölga um tvo. Eftir sem áður á síldarútvegsnefnd að sjá um alla sölu. Það er ekki lagt til að breyta meðferð á sölu síldar á líkan hátt og er með aðrar fiskafurðir. Ef sú breyting hefði legið fyrir, hefði verið hægt að ræða málið á víðara grundvelli. Svo segir hér:

„Félög síldarsaltenda eru nú tvö starfandi í landinu: Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félag síldarsaltenda á Suð-vesturlandi. Bæði félögin ásamt Fiskifélagi Íslands hafa einróma samþykkt að óska eftir því, að sú breyting, sem hér er lagt til að gerð verði á lögum um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld o.fl., komi sem fyrst til framkvæmda.“

Styttri gat nú grg., að mér finnst, ekki verið, úr því að farið var að gefa út sérstakt frv. í 13 greinum, heldur en þetta og varla ónákvæmari heldur eða minni upplýsingar.

En nú er bezt að athuga, hve mikið er satt í því, sem segir í þessari grg. um það, að síldarsaltendur hafi ekkert með að gera það, sem gerist í nefndinni. Það er jú satt, að þeir eru ekki beinir aðilar. Söltunarfélögin tvö eru ekki löglegir beinir aðilar. Það er sannleikur. En allur sannleikur málsins er ekki þar með sagður. Ég skal upplýsa nákvæmlega um það, hvernig síldarútvegsnefnd, aðalmenn og varamenn, er samsett, hvaða starf nm. hafa. Í n. eiga sæti 5 menn. Formaður n. er Erlendur Þorsteinsson. Hann er forstjóri söltunarfélagsins Sunnu á Siglufirði og er því síldarsaltandi, og hann er búinn að vera í n. milli 20 og 30 ár. Hann hefur alveg tvímælalaust mikilla hagsmuna að gæta sem einn allra stærsti síldarsaltandi á Siglufirði fyrir hönd söltunarfélagsins Sunnu. Varaformaður n. er Jón Þórðarson framkvæmdastjóri Pólstjörnunnar h/f, Siglufirði einn með stærstu síldarsaltendum á Siglufirði, annar eða þriðji í röðinni, stundum hefur hann verið hæstur. Hann hefur verið í n. í fjöldamörg ár, ýmist formaður eða varaformaður. Þriðji meðlimur n. er Guðmundur Jörundsson skipstjóri. Hann er síldarsaltandi, bæði í Hrísey og Þórshöfn. Þarna er kominn helmingur n. og meira, 3 af 5. Þetta eru allt síldarsaltendur. Fjórði maður n. er Björn Kristjánsson fyrrv. kaupfélagsstjóri á Kópaskeri. Kaupfélagið á Kópaskeri hafði þar til, ég held, í fyrra eða fyrir einu ári útibú á Raufarhöfn. Þetta útibú á Raufarhöfn rak síldarsöltun. Mér er sagt, að það sé búið að skipta þessum félögum í tvennt núna, að það sé orðið sérstakt kaupfélag, kaupfélagið á Raufarhöfn. Björn Kristjánsson hefur því haft hagsmuna að gæta í sambandi við síldarsöltun sem meðlimur í kaupfélaginu á Kópaskeri, þar sem hans félag hefur rekið síldarsöltun. Fimmti maður n. er Hannibal Valdimarsson, kosinn af A.S.Í. Hann er eini maðurinn, sem hefur ekki beint eða óbeint hagsmuna að gæta sem síldarsaltandi, vel að merkja sem síldarsaltandi. Vitanlega hefur hann hagsmuna. að gæta sem fulltrúi sjómanna og verkamanna í n., en hann hefur engra hagsmuna að gæta sem síldarsaltandi.

En nú skulum við athuga varamennina, hvernig þeir eru, hvort þeir hafa ekki einhverra hagsmuna að gæta líka sem síldarsaltendur. Varamaður í n. fyrir Erlend Þorsteinsson er Birgir Finnsson, síldarsaltandi fyrir Samvinnufélag Ísfirðinga. Það félag hefur rekið söltun á Siglufirði í fjöldamörg ár. Fyrir Jón Þórðarson er varamaður Guðfinnur Einarsson frá Bolungavík. Hann er síldarsaltandi á Siglufirði, hefur saltað síld í félagi við Skafta Stefánsson. Auk þess er hann og faðir hans síldarsaltendur í Bolungavík. Varamaður Björns Kristjánssonar er Jakob Frímannsson kaupfélagsstjóri á Akureyri. Kaupfélag Eyfirðinga stofnaði á sínum tíma hlutafélag um síldarsöltun á Siglufirði, sem heitir h/f Njörður. Það félag hefur í mörg ár rekið umfangsmikla síldarsöltun á Siglufirði. Ég held, að það hafi líka haft síldarsöltun á Akureyri um tíma. Jakob Frímannsson er því alveg beinn aðili að síldarsöltun. Svo kemur varamaður fyrir Guðmund Jörundsson. Hann heitir Margeir Jónsson, er útgerðarmaður í Keflavík. Margeir er stór síldarsaltandi í Keflavík. Hann er í langflestum tilfellum boðaður á fund í n., þegar þeir eru haldnir hér í Reykjavík og um er að ræða sölu eða söltun á Faxasíld. Ég fullyrði, að það hefur aldrei verið tekin nein ákvörðun í um sölu á síld veiddri á Suðurlandi, án þess að Margeir Jónsson hafi verið tilkvaddur og haft í hverju einasta tilfelli fullt samkomulag og samráð við hann um allar gerðir þeim málum viðkomandi. Auk þess hefur svo Margeir mætt norður á Siglufirði í forföllum Guðmundar Jörundssonar. Fimmti maðurinn, varamaður fyrir Hannibal Valdimarsson, er ég og hef starfað í n. að mestu undanfarin ár, og það vita allir, hve mikla síldarsöltun ég rek, þannig að við erum þarna tveir, við Hannibal, sem ekki er hægt að segja um að höfum neina hagsmuni sem síldarsaltendur.

Þá þykist ég hafa sýnt fram á það, að 4 af 5 í n. eru ýmist beint síldarsaltendur eða umboðsmenn fyrir félög, sem reka síldarsöltun. Svo segja þessir hv. menn hér í grg., að aðalástæðan fyrir flutningi þessa frv. sé að veita síldarsaltendum beina aðild að síldarsöltun. Hafið þið heyrt aðra eins vitleysu! Hvað vilja þessir hv. alþm.? Vilja þeir meiri og betri aðstöðu en þeir hafa nú þegar? Ég veit það ekki. Eða telja þeir, að sínu máli sé ekki sæmilega vel komið í höndum á manni eins og Jóni Þórðarsyni? Hefur hann eitthvað troðið þeirra rétt niður? Ég held, að það verði ekki sagt um Jón Þórðarson, að hann standi ekki vel á verði fyrir síldarsaltendur, og ég dreg það í stórvafa, jafnvel þótt þeir, sem frv. flytja, fari inn í síldarútvegsnefnd, að þeir stæðu betur á verði fyrir síldarsaltendur en Jón Þórðarson hefur gert fram á þennan dag.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á, að það er mesta fjarstæða að halda því fram, að síldarsaltendum sé ekki tryggð fullkomin aðild að síldarútvegsnefnd, eins og hún er núna skipuð. Það eru ekki miklar líkur á því, að á því yrði breyting, þótt ekki væri fjölgað upp í sjö. Ég geri ráð fyrir, að þingflokkarnir ráði því, hvaða menn þetta eru, og síldarsaltendur hér í þingflokkunum eru sjálfsagt svo vel á verði um sín hagsmunamál, að þeir mundu ekki setja einhvern og einhvern inn í slíka nefnd. Þeir mundu auðvitað setja þann mann, sem þeir tryðu bezt fyrir sínum málum, eins og þeir hafa gert hingað til. Þá hef ég ekki mikla trú á því, að Alþfl. fari að sparka sínum ágæta fulltrúa, Erlendi Þorsteinssyni. Hann er búinn að vera þarna að ég held ein 25 eða 30 ár. Og ég býst ekki við því, að hann óski eftir því sérstaklega að losna úr því starfi, og það er ekki mikil hætta á því, að á því verði breyting, eins og er. Nei, þvert á móti, það er alveg öruggt, að það eru a.m.k. þrír eða fjórir af aðalnefndarmönnum, sem hafa beinna hagsmuna að gæta. Eins og ég tók fram áðan, get ég ekki skilið, hvað vakir fyrir hv. flm, með flutningi þessa frv. Það hlýtur að vera eitthvað sérstakt. Þær ástæður, sem fram eru færðar í grg. fyrir frv. fá engan veginn staðizt. Það hljóta að vera einhverjar miklu stærri og þýðingarmeiri ástæður, sem liggja á bak við það, að frv. er flutt, heldur en þær, sem hér hafa verið til færðar.

Ég tók það fram áðan, að mér finnst grg. ákaflega óaðgengileg, engar upplýsingar í henni fyrir þá, sem þekkja ekki til þessara mála, eins og vanalegt er, þegar frumvörp eru flutt, sérstaklega þegar um stærri mál er að ræða. Þá er látin fylgja þeim greinargóð greinargerð og upplýsingar um málið. En það er ekki hægt að segja, að slíku sé hér til að dreifa. Engin frambærileg rök eru færð fyrir breytingunum og ekkert komið inn á sjálft málið.

Það má sjálfsagt margt segja og finna að störfum síldarútvegsnefndar. Það er enginn alger og ekki heldur síldarútvegsnefnd. Og sízt af öllu dettur mér í hug að halda því fram, að síldarútvegsnefnd hafi ekki gert margar vitleysur. En það er ekki nokkur trygging fyrir því, þótt settir væru einhverjir tveir svokallaðir fulltrúar síldarsaltenda inn í n., að sömu vitleysurnar endurtaki sig ekki jafnt fyrir það, þótt þeir yrðu 7 í staðinn fyrir 5. Ég álit meira að segja, að það væri meiri hætta á því. Vitanlegt er, að n. hefur gert ýmislegt það, sem orkar tvímælis, og seinast s.l. vor gerði nefndin að mínum dómi mjög skakkt, þegar hún leyfði ekki söltun fyrr en hún gerði, og það er alveg óumdeilanlegt, að það, að söltunin var svona seint leyfð, orsakaði það, að það var saltað svo að skipti kannske tugum þúsunda minna af síld norður á Siglufirði. En ég er ekki alveg viss um það, þó að væri bætt við einum manni úr söltunarfélagi Norðausturlands, að það yrði til þess að tryggja, að fyrr yrði hafizt handa með söltun á síld á vestursvæðinu en gert hefur verið áður. Ég er ekki alveg viss um það. Það má alltaf deila um það út af fyrir sig, hvenær á að byrja að salta síld og hvenær ekki. Þetta er algert matsatriði, og liggja margar ástæður fyrir því. Það má benda á í þessu sambandi, að í fyrravor voru allar fréttir, sem frá rannsóknarskipunum bárust, á einn veg. Útlitið er mjög sæmilegt og útlit fyrir sæmilega veiði. En þessar síldarspár bara rættust ekki, því miður, og það sýnir okkur hvað við erum komnir sorglega skammt einmitt í því að þekkja göngu og eðli síldarinnar. Mér finnst, að við stöndum svo að segja alveg í sama stað og þegar við byrjuðum fyrst að rannsaka þessi mál. Og ég held, ef maður athugar þetta nánar, að þær þjóðir, sem lengst hafa haft með síldarrannsóknir að gera, telji sig meira að segja vera mjög skammt á veg komnar. Hins vegar stendur þetta allt til bóta, og vonandi kemur ekki það fyrir aftur, sem kom fyrir s.l. vor, að söltunin verði of seint hafin. Menn eru náttúrlega alltaf ákaflega klókir eftir á og sjá það, að betra hefði verið að gera þetta en gera það ekki o.s.frv. En sem sagt, ég mun ekki ræða um störf síldarútvegsnefndar frekar, nema til þess gefist alveg sérstakt tækifæri.

Í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, er óhætt að fullyrða,, að um það eru mjög skiptar skoðanir. Það má benda á, að stjórn deildar síldarsaltenda á Siglufirði, en á Siglufirði munu vera um 20 saltendur, hefur mótmælt frv. Mótmæli frá Vinnuveitendafélagi Siglufjarðar eða deild þess eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða í félagi voru 17. þ. m.:

Fundur síldarsaltenda, haldinn 17. febr. 1961, lýsir sig andvígan frumvarpi til laga um síldarútvegsnefnd o.fl., mál 190, þskj. 367. Telur fundurinn að breyting sú, sem lagafrumvarpið gerir ráð fyrir, sé sízt til bóta og muni auk þess tefja fyrir því, að ákjósanlegasta lausnin á þessu máli nái fram, en það er, að við taki frjáls sölusamtök síldarsaltenda.

Virðingarfyllst. Stjórn félagsins,

Ólafur Ragnars,

Daníel Þórhallsson,

Björn Stefánsson.“

Þá liggja fyrir ýmsar aðrar umsagnir, t.d. frá söltunarfélögunum báðum, bæði á Norðausturlandi og Suðvesturlandi, sem mæla með, að frv. verði samþykkt. Ég skal ekki segja um, hvort stjórn saltendafélags Norðausturlands hefur komið saman á fund hér í Reykjavík. Ég veit það ekki. En mér er ekki alveg grunlaust um það, að sömu menn, sem eru í stjórn saltendafélags Norðausturlands og eru í saltendafélagi Siglufjarðar, hafi mætt á báðum fundunum. Ég er ekki alveg fullviss um það. En það kemur fram í mótmælunum hér, að þar stendur, að „eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða í félagi voru 17. þ. m.“ Þetta skiptir náttúrlega ekki miklu máli, þó að mennirnir hafi mætt á báðum fundunum. Það getur vel verið, að þeir hafi setið hjá. Og eitt er víst, að annar stjórnarmeðlimurinn, sem á heima á Siglufirði, mun ekki hafa mætt á þessum fundi. Það hefur þá bara verið haft við hann sjálfsagt símasamband. Þetta breytir ekki sérstaklega miklu. En ég vil þó benda á það, að báðir þessir stjórnarmeðlimir í söltunarfélagi Norðausturlands eru líka meðlimir í söltunarfélagi Siglufjarðar. Þeir hafa kannske ekki verið búnir að átta sig á málinu, ekki búnir að taka afstöðu, þegar þeir mættu á fundinum, gert það þá eftir að formaður félagsins hafði hóað í þá og skýrt fyrir þeim málin.

Mér er sömuleiðis vel kunnugt um það, að margir aðrir síldarsaltendur eru á móti þeirri breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég gæti talið hér upp menn, ef ég kærði mig um, sem beinlínis hafa talað um það við mig, að þeir teldu, að þessi breyting væri hrein vitleysa. Sumir hafa sagt við mig hreint og beint: Þetta er gert til þess að koma ákveðnum mönnum inn í n., — tilnefnt ákveðna menn. Ég ætla ekki að fara að segja frá því, hvaða menn það hafa verið, sem þeir hafa tilnefnt, en svona tala menn um þetta. Og aðrir gera bara grín að þessu, segja, að það sé dálítið merkilegt, að menn skuli láta hafa sig til þess að flytja sérstök frumvörp til þess að koma ákveðnum mönnum í ákveðnar stöður. Ég er ekki að segja, að þetta sé satt. En svona er talað um hlutina manna á meðal. Það er ekki alltaf farandi eftir því, sem sagt er, þegar verið er að ræða um einstök mál.

Sjálfur er ég þess fullviss, að breytingin muni á engan hátt bæta úr því ástandi, sem nú er í þessum málum, alveg þveröfugt. Ég er alveg viss um það, að breyting á okkar síldarmálum yfirleitt fæst ekki með því, þó að hér yrði fjölgað í n. upp í sjö, síður en svo.

Það skal fyllilega viðurkennt, að að mínum dómi hefur n. alls ekki sýnt nógu mikinn áhuga oft og tíðum fyrir því að auka markaði. Til þess liggja í sjálfu sér vissar ástæður, m.a. það, hve mikil óvissa er alltaf ríkjandi um það fyrir hverja síldarvertíð, hve mikið kann að veiðast af síld. Og það er í sjálfu sér líka alvarlegt, þegar n. er búin að gera mikla fyrirframsamninga, upp á kannske 200–300 þús. tunnur, að standa svo frammi fyrir því, þegar haust er komið, að ekki hefur verið saltað nema í 120–125 þús. tunnur, eins og var s.l. ár. Þegar þannig er, hvort sem það er nú síldarútvegsnefnd að kenna eða af öðrum ástæðum, er vitanlega alltaf hætta á því, að kaupendurnir, sem hafa gert fyrirframsamninga, kippist heldur illa við og séu ekki áfjáðir í að gera samninga við aðila, sem geta ekki staðið við þá ár eftir ár. En það hefur því miður oft verið þannig í okkar málum, sérstaklega nú upp á síðkastið, að það hafa verið gerðir svo og svo miklir fyrirframsamningar, sem hefur ekki verið hægt að standa við. Ég skal taka það fram, að oftast nær hafa legið fyrir því eðlilegar orsakir, og það er, að síldin hefur gersamlega brugðizt mörg ár frá því, sem áður var.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta. Ég vil þó minnast á það, að mér finnst ákaflega merkileg þessi afgreiðsla hjá hv. sjútvn. Ég fór að lesa fundargerð sjútvn. Þar sé ég, að málið hefur verið tekið fyrir og rætt en engin ákvörðun tekin. Önnur fundargerð er ekki bókuð í fundabók n. Ég fór svo og ræddi við formann n. Hann tjáði mér, að n. hefði reyndar talað saman og þá hefði komið í ljós, að það hefði ekki verið samstaða um málið, og þá fundargerð ætti eftir að bóka. Þetta er heldur óvanalegt, en getur kannske gengið í endalok þingsins. Hins vegar hefði ég nú talið, að þar sem alveg er komið að síðasta degi þingsins, þá ætti ekki að vera að setja neitt sérstakt kapp í að koma þessu máli í gegn. Minni hl. virðist ekki hafa veitzt tími til að gefa út sérstakt nál., og ég verð að telja, að það sé bæði óvanalegt og slæmt að fá ekki nál. frá honum. Ég vil nú skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann telji þetta mál svo þýðingarmikið, að það sé vert að vera að stofna til t.d. næturfundar um málið. Það má vel vera, að hæstv. forseti ætli sér að berja þetta mál í gegn núna á þessu þingi, og þá má vel vera, að hæstv. forseti verði að boða til sérstaks næturfundar til að koma málinu í gegn. Ég segi fyrir mig, ég tel mig vera trúnaðarmann þeirra manna, sem eru á móti málinu í mínu héraði, og ég er ekki alveg viss um, að ég láti málið fara í gegn án þess að taka til máls þá við 3. umr. og þá lengur en núna.