28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (1799)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég get fyrir mitt leyti vel fallizt á, að það hefði verið æskilegt, að þessi hv. d. hefði fengið þetta mál fyrr til meðferðar frá Ed. og betri tími hefði gefizt til að athuga það. Samt sem áður tel ég ekki, að hér sé um svo róttæka eða stóra breytingu að ræða á l. um síldarútvegsnefnd, að ekki sé hægt að átta sig á henni í fljótu bragði, og þess vegna hef ég tekið þá afstöðu í sjútvn. að fylgja frv., eins og það kom frá Ed.

Breyt., sem gera á á l. samkv. frv., eru aðallega þær, að úr gömlu lögunum eru felld ýmis ákvæði, sem voru orðin úrelt, og hygg ég, að ekki þurfi að vera neinn ágreiningur um, að þau hafi mátt fella niður að skaðlausu, og í öðru lagi er sú aðalbreyting, að það á að gefa saltendafélögunum norðanlands og austan og saltendafélaginu á Suður- og Suðvesturlandi kost á að tilnefna tvo menn í nefndina. Að öðru leyti er ekki um neina róttæka breytingu á l. að ræða.

Það verður að segjast, að þessi lög, sem munu hafa verið sett 1934, hafa staðizt vel tímans tönn og náð vel tilgangi sínum. Ég hygg, að þegar litið er yfir árin, hljóti dómur allra sanngjarnra manna að verða sá, að síldarútvegsnefnd hafi staðið vel í stöðu sinni. Þannig var það, þegar uppbætur voru greiddar á allar útflutningsafurðir landsmanna, að saltsíldin íslenzka stóðst lengst án þess að fá uppbætur greiddar og fékk síðan minnstar uppbætur af öllum útflutningsafurðum. Síldarútvegsnefnd hefur á hverju ári tekizt að selja allt það magn, sem framleitt hefur verið af saltsíld í landinu, og oftast nær við mjög viðunanlegu verði. Reynslan hefur oft orðið sú, að ekki hefur tekizt að afla upp í þá samninga, sem síldarútvegsnefnd hefur tekizt að gera.

Samkvæmt lögum, eins og þau eru, hafa síldarsaltendur heimild til þess að stofna með sér sölusamlög. Þetta hefur verið gert einu sinni. Mig minnir, að það væri snemma á stríðsárunum. Þá stofnuðu síldarsaltendur á Norðurlandi sölusamlag en ég held, að það hafi ekki starfað nema í eitt eða tvö ár. Upp frá því hafa saltendur alltaf talið hag sínum bezt borgið með því að láta síldarútvegsnefnd annast sölu síldarinnar.

Því ákvæði l., að saltendur geti hvenær sem er stofnað sölusamlag, er ekki breytt með þessu frv. Það er enn þá, að mig minnir, í 11. gr. frv. ákvæði um það, að saltendur geti stofnað sölusamlag, ef þeim þykir það henta.

Eins og gefur að skilja, getur oft við framkvæmd mála eins og sölumeðferðar á síld og í öllu, sem því fylgir, ýmislegt komið fyrir í daglegu starfi, sem veldur árekstrum eða óánægju. Eitthvað mun hafa verið um slíkt gagnvart síldarútvegsnefnd, en ég held, að það sé ekki neitt alvarlegt, og hefur a.m.k. ekki komið til svo mikilla árekstra, að saltendur hafi viljað notfæra sér heimild l. til að stofna sérstök sölusamlög.

Eftir að síldarsöltun við Faxaflóa fór að aukast, hefur síldarútvegsnefnd þurft að hafa hluta af starfsemi sinni hér syðra, og saltendur sunnanlands hafa líka stofnað sérstakt saltendafélag. Ef út í það hefði verið farið að taka einkasöluumboðið af síldarútvegsnefnd, - en það hefur hún fengið frá ári til árs með löggildingu ráðh., — þá má búast við því, að stofnuð hefðu verið tvö sölusamlög, annað fyrir Norður- og Austurland og hitt fyrir Suðurland. Afleiðingin af því hefði sennilega orðið sú, að sölukostnaður á síldinni hefði orðið meiri en hann hefur reynzt í meðferð síldarútvegsnefndar. Þetta hafa saltendur séð, og ég hygg, að það sé einmitt ástæðan fyrir því, að þeir hafi ekki stofnað sölusamlög.

Af kynnum mínum af þessum málum tel ég mjög nauðsynlegt, að einmitt saltendurnir, — en á þeim hvílir hitinn og þunginn af því að koma síldinni í söluhæft ástand og koma henni á markaðina, — hafi sem bezta aðstöðu til að fylgjast með markaðshorfum á hverjum tíma og til að vera í sem nánustum tengslum við kaupendur til þess að geta kynnzt kröfum þeirra og átt hægara með að uppfylla óskir þeirra. Breytingin, sem nú er lagt til að gerð verði á l. um síldarútvegsnefnd, miðar eingöngu að því að gera saltendum betur fært en verið hefur að hafa samband við kaupendur síldarinnar.

Það hefur verið á það minnzt í þessum umræðum, að síldarútvegsnefnd hafi ekki sinnt því hlutverki sínu að leita nýrra markaða og hafa forgöngu um breyttar verkunaraðferðir á síldinni, og annað þess háttar. Það má vel vera, að eitthvað sé til í þessu. En ástæðan er sú, að jafnan hefur tekizt að selja saltsíldina í heilum og hálfum tunnum við svo góðu verði, að naumast hefur verið ástæða til að hafa annan hátt á verkuninni. Hins vegar hefur síldarútvegsnefnd ekki alls fyrir löngu byrjað athuganir á þessum málum og farið af stað með tilraunir til nýrra verkunaraðferða á síldinni einmitt hér sunnanlands, og ég hygg, að það sé rétt, að sunnanlandssíldin henti betur en norðurlandssíldin til þess að leggja hana niður í dósir eða glös eða gera hana á annan hátt að sem verðmestri útflutningsvöru.

Kynni mín af störfum síldarútvegsnefndar og þeirra manna, sem þar hafa haft forustu sem formenn og framkvæmdastjórar, eru öll á þann veg, að þar hafi valizt góðir menn til starfa, sem hafi verið færir í sínu starfi og fyrst og fremst haft áhuga á því að láta gott af sér leiða, enda hafa ekki á seinni árum verið miklar deilur um síldarútvegsnefnd, þótt oft stæði styr um hana fyrr á árum, meðan verið var að koma á því skipulagi, sem verið hefur í gildi á þriðja áratug.

Hv. 3. þm. Reykv. veit einmitt ósköp vel, hvernig ástand þessara mála var um og fyrir 1930, nokkrum árum áður en síldarútvegsnefnd var sett á laggirnar. Mér skildist á hv. 3. þm. Reykv. áðan, að hann vildi innleiða eitthvað svipað frelsi í þessum málum og þá ríkti, og mætti þá segja, að verið væri að stíga spor aftur á bak. (EOl: Ég var að spyrja, hvers vegna ríkisstj. innleiddi það ekki, úr því að það var svona fyrrum.) Nú, var það ekki ósk þm. sjálfs? Jæja, þá skulum við bara sleppa því, — En sem sé, ég álít, að breyt., sem gerð er á l. með frv., sé ekki svo margbrotin eða umfangsmikil, að ekki sé hægt að átta síg á henni í fljótu bragði, og þess vegna styð ég frv. Hitt er svo annað mál, að það gæti e.t.v. verið ástæða til að endurskoða og endurbæta þessa bráðum 30 ára gömlu löggjöf meira en gert er með frv., og það mætti þá taka til við þá endurskoðun aftur seinna við annað tækifæri.