24.10.1960
Sameinað þing: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

1. mál, fjárlög 1961

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hugleiðingar hv. 4. þm. Austf., Lúðvíks Jósefssonar, um landhelgismálið gefa mér tilefni til að segja þetta:

Það standa nú yfir athuganir á því, hvort unnt sé að fá Breta til að viðurkenna 12 mílna fiskveiðilandhelgi við Ísland. Að sjálfsögðu er unnið að umræddum athugunum með það eitt fyrir sugum, sem landi og þjóð er fyrir beztu, þó að hv. stjórnarandstæðingar noti þetta viðkvæma mál, eins og öll önnur, til þess eins að gera ríkisstjórnina og stuðningsflokka hennar tortryggilega í augum þjóðarinnar. Meðan málið er á athugunarstigi, eins og hæstv. forsrh. upplýsti nýlega hér á Alþingi, mun ég ekki gera það frekar að umræðuefni. En ef svo kynni að fara, að viðræður okkar við Breta bæru engan árangur, verður ekki á eftir sagt, að ekki hafi verið reynt til hlítar að koma í veg fyrir frekari árekstra en þegar hafa orðið á fiskimiðunum milli Íslendinga og Breta út af þessu deilumáli.

Niðurstöðutölur á sjóðsyfirliti fjárlagafrv. næsta árs, sem hér liggur fyrir til umræðu, eru 1 milljarður 552 millj. 868 þús. kr. Nú mun láta nærri að áætla þjóðartekjurnar 71/2 milljarð króna, og er þannig ljóst, að rúmlega 1/5 hluti þeirra fer um ríkissjóðinn. Veltur því á miklu, hvernig með þessa fjármuni er farið og til hvers þeim er varið, og eru fjárlögin þess vegna að jafnaði stærsta málið, sem afgreiðslu hlýtur á hverju þingi, og alltaf heyrast raddir, sem segja sitt á hvað: Það verður að spara í ríkisrekstrinum og skera niður útgjöld ríkissjóðs, — eða þá: Ríkið verður að veita meira fé til þessa eða hins. — Eru þær raddir sýnu háværari, sem heimta aukin útgjöld, og hefur þróunin sannað, að þær mega sín meira en hinar. Kyrja þær raddir gjarnan prósentusöng um það, að þeirra hlutur í útgjöldum eða framlögum ríkissjóðs hafi farið hlutfallslega lækkandi frá fyrstu tíð, alveg án tillits til þess, að stöðugt hafa verið að bætast við nýir útgjaldaliðir hjá ríkissjóði.

Það er að sjálfsögðu vandasamt fyrir Alþingi að meta á hverjum tíma, hvaða kröfum skuli sinnt og hverjum ekki, og verður meginreglan að vera sú, að fjárlög séu afgreidd án greiðsluhalla, en það er eitt af höfuðskilyrðum þess, að jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum.

Þessa sjónarmiðs er gætt í því frv., sem fyrir liggur, þó að umsetning á rekstraryfirliti, samanborið við fjárlög þessa árs, hækki um 48 millj. 565 þús. kr., sem getur ekki talizt stór upphæð, þegar þess er gætt, að ýmis ríkisútgjöld, sem bundin eru með lögum og reglum, hækka af sjálfu sér.

Þetta kemur m.a. í ljós, þegar athugað er, hvaða útgjaldaliðir á rekstraryfirlitinu hafa breytzt til hækkunar frá fjárlögum yfirstandandi árs, en þeir eru þessir:

12. gr.: Til læknaskipunar og heilbrigðismála, hækkar um 4 millj. 375 þús. kr.

14. gr.: Kennslumál og til opinberra safna, bókaútgáfu og lista, hækkar um 11 millj. 927 þús. kr.

17. gr.: Til félagsmála, hækkar um 55 millj. 679 þús. kr.

18. gr.: Til eftirlauna og styrktarfjár, hækkar um 1 millj. 484 þús. kr.

Samtals eru þessar hækkanir 73 millj. 466 þús. kr.

Á móti þessu kemur lækkun á öllum öðrum liðum, sem nemur samtals 24 millj. 901 þús., og verður þá hækkun niðurstöðutölu, eins og ég áðan sagði, 48 millj. 565 þús. kr. Skylt er að geta þess, að í lækkun gjaldaliðanna er meðtalin lækkun á rekstrarafgangi, 12 millj. 587 þús. kr., en sé sú tala dregin frá, þá kemur í ljós, að lækkun útgjaldaliðanna, annarra en þeirra fjögurra, sem hækka, eins og áður var sagt, nemur 12 millj. 313 þús. kr. Er vissulega með þessu stigið nokkurt spor í þá átt að lækka útgjöld og spara í rekstri ríkisins.

Útgjöld á eignahreyfingum í III. kafla frv. lækka einnig um rúmar 10 millj. kr. umfram hækkanir, samanborið við fjárlög þessa árs. Lækka þar m. a. afborganir lána ríkissjóðs og ríkisstofnana um 2 millj. 165 þús. kr., og er það út af fyrir sig talandi vottur um batnandi hag.

Þessar staðreyndir benda til þess, að meiri festa og jafnvægi sé nú að færast yfir ríkisbúskapinn en verið hefur undanfarin ár, og er það eitt merki þess. að ráðstafanir stjórnarflokkanna í efnahagsmálum hafi heppnazt. Samt sem áður er það vafalaust svo, að lengra þarf að ganga á braut sparnaðar og hagsýni á hinu stóra búi ríkisins, og mundu við það lækka nokkrar upphæðir, t.d. með sameiningu áfengis og tóbaks, sem oft hefur verið rædd, en aldrei orðið úr fyrr en nú, að þetta er fyrirhugað samkvæmt upplýsingum hæstv. fjmrh. hér áðan. Öll slík viðleitni er að sjálfsögðu góðra gjalda verð.

Á hinn bóginn er vitað, að hjá ýmsum ríkisstofnunum skortir á um aukin framlög, til þess að þau geti veitt þá þjónustu, sem þeim er ætlað að veita, og af mínum stuttu kynnum af þessum málum virðist mér þörfin að því leyti vera mun meiri en möguleikarnir til sparnaðar. Vil ég í þessu sambandi nefna t.d. heilbrigðismál og skólamál.

Í heilbrigðismálunum erum við langt á eftir með sjúkrahúsabyggingar. Við höfum ekki unnið upp margra ára kyrrstöðu á því sviði, og þegar lýkur byggingu þeirra sjúkrahúsa, sem nú eru í smíðum, þarf strax að hefjast handa um stórfellda aukningu vegna hinnar öru fólksfjölgunar í landinu, sem nú nemur 3500–4000 manns á ári. Þarf í þessu efni að stórauka stofnframlög til nýrra bygginga, og jafnharðan vex kostnaður við rekstur sjúkrahúsanna, eins og kom fram í þeim upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. veitti hér áðan, þegar hann sagði, að um 40 nýja starfsmenn þyrfti við það, að tengiálman í landsspítalanum verður tekin í notkun á árinu.

Sama máli gegnir um skólamálin. Þau hækka að þessu sinni um tæpar 12 millj. kr., eins og áður var sagt, og er gert ráð fyrir, að á árinu þurfi 42 nýja barnakennara og 30 nýja gagnfræðastigskennara, og má nokkuð af því ráða, hversu ört þessi mál vaxa og hver er meðverkandi orsök kennaraskortsins.

Félagsmálin, einkum almannatryggingar, taka einnig stöðugt meira til sín. Þannig er hækkun á framlagi ríkisins til þeirra nú 57 millj. 346 þús. kr., sem stafar aðallega af því, að sú hækkun bóta, sem varð á hluta úr þessu ári, gildir nú allt árið. Enn fremur falla skerðingarákvæðin svonefndu niður um áramót, og bótaþegum fjölgar. Alls hækka bótagreiðslur almannatrygginga um 70.7 millj, á næsta ári.

Auk þess sem þeir málaflokkar, er ég nú hef nefnt, knýja stöðugt á um aukin fjárframlög svo að segja af sjálfu sér, eru aðrir málaflokkar, sem eiga sér heilan her umbjóðenda, sem stöðugt biðja um aukin fjárframlög ríkisins. Þar á ég við t.d. vegamál, samgöngumál og atvinnumálin öll, og við þessar aðstæður þarf engan að undra, þótt fjárlögin fari árlega hækkandi. Meðan þjóðin hefur gjaldþol til þess að leggja fram þær tekjur, sem um ríkissjóðinn fara, er heldur ekkert við þessu að segja. Það er þá gleðilegur vottur um vaxandi framfarir og blómlegt atvinnulíf.

Hitt er svo aftur fráleitt, að ætla sér að ákveða útgjöld fjárlaga án tillits til gjaldþols skattgreiðenda eða jafnvel án þess að áætla nokkrar tekjur yfir höfuð á móti gjöldunum. En þess minnist ég frá afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár, að hv. framsóknarmenn lögðu til um 100 millj. kr. hækkanir útgjalda án þess að gera nokkrar tillögur jafnframt um öflun tekna. Sama leikinn léku hv. þm. Alþb., þegar þeir lögðu til, að útgjöld almannatrygginganna yrðu hækkuð um 200–300 millj., án þess svo mikið sem benda á, hvar féð skyldi tekið. Slíkar till. eru vitanlega engum til gagns en gera tillögumönnum sjálfum skaða með því að gera þá að viðundri.

Ég furðaði mig á því s.l. vetur, að hv. framsóknarmenn, sem hafa meiri reynslu en flestir aðrir í meðferð fjármuna ríkisins, — hafandi átt fjmrh. lengur en nokkur annar flokkur, skyldu bregða þannig á leik í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. En með því að líta í ríkisreikninginn fyrir árið 1958, síðasta árið, sem hv. 1. þm. Austf. var fjmrh., hef ég fengið á þessu nokkra skýringu.. Þar kemur í ljós, að tekjur ríkissjóðs hafa farið 109 millj. kr. fram úr áætlunarupphæð fjárlaga. Kemur þetta fram sem 90 millj. 457 þús. kr. meiri rekstrarhagnaður en fjárlög gerðu ráð fyrir og í rúmlega 181/2 millj, kr. umframgreiðslum á 7.— 19. gr. Ekki mun þó þessi aðferð alltaf hafa heppnazt eins vel hjá fjmrh. Framsóknar og árið 1958, því að stundum urðu umframgreiðslurnar það miklar, að ríkissjóður kom út með greiðsluhalla í ráðherratíð hans. Það er augljóst, að á þennan hátt getur ráðríkur fjmrh. og sú ríkisstj., sem hann á sæti í, dregið að verulegu leyti fjárveitingavaldið úr höndum Alþ. Í þeirri trú, að núverandi stjórnarflokkar ætluðu sér að fara þannig að, hafa líklega áðurnefndar till. Framsóknar um 100 millj. kr. útgjöld án tekna á móti verið fram bornar á s.l. vetri.

Þegar það féll í hlut Alþfl. að fara með stjórn landsins s.l. ár, sýndi það sig, að framsóknarmönnum var ekkert vel við það, að í ljós kæmi, að hægt væri að halda á þessum málum með öðrum hætti en þeir höfðu gert. Þeir fullyrtu þá, að fjárlögin væru fölsuð, bæði tekna- og gjaldamegin, og að með þeim væri verið að gefa út óreiðuvíxil upp á framtíðina.

Hver hefur svo dómur reynslunnar um þetta orðið? Reikningur ríkissjóðs fyrir árið 1959 liggur nú fyrir. Rekstrarreikningurinn sýnir; að tekjur hafa farið 29 millj. 281 þús. kr. fram úr áætlun fjárlaga, og kemur það fram sem 22 millj. kr. aukinn rekstrarhagnaður og rúmlega 7 millj. kr. umframgreiðslur á gjaldaliðum 7.–19. gr. Þannig hefur allur áróður Framsóknar í sambandi við fjármálastjórn Alþfl. s.l. ár misst gersamlega marks, en höfundar þessa áróðurs hafa orðið berir að því að beita sér utan stjórnar gegn aðgerðum í efnahagsmálum, sem þeir sjálfir töldu nauðsynlegt að framkvæma, þegar Framsfl. var aðili að ríkisstj. Og meira en það. Þeir rufu beinlínis vinstri stjórnina af því, að það náðist ekki samstaða um nein úrræði til þess að stöðva hina háskalegu verðbólgu, sem óhindruð hefði haft í för með sér vísitöluhækkun um 10 stig á mánuði.

Það er býsna fróðlegt að athuga afstöðu Framsfl. til málanna, eftir að hann hvarf úr ríkisstj. Hann hefur síðan snúizt gegn öllu, sem hann vildi þá, svo sem leiðréttingu á gengisskráningunni og stöðvun verðbólgunnar með afnámi kaupskrúfunnar; sem fólst í víxlverkunum hækkandi kaupgjalds og verðlags. Vandinn, sem sami flokkur gerði að fráfararatriði heillar ríkisstj., á nú ekki að hafa verið meiri en svo, að auðvelt hefði verið að lækna hann með lítils háttar aðgerðum.

Þegar skuldabyrðin erlendis var orðin slík, að 13% af verðmæti alls útflutnings þurfti til að standa undir vöxtum og afborgunum erlendra lána, þá átti, að því er framsóknarmenn segja nú, að vera auðvelt að bæta úr öllu saman með smávegis hókuspókus. Hvílík sinnaskipti á skömmum tíma! Ekki er þetta þó met. Framsfl. á sjálfur eldra met, sem stendur enn þá. Það er frá árinu 1950, þegar flokkurinn bar fram vantraust á ríkisstj. Ólafs Thors vegna gengisfellingar, en gekk siðan, eftir að vantraustið hafði verið sámþykkt, í stjórn með Ólafi Thors til að framkvæma þessa gengislækkun.

Það þarf sérstaka eiginleika til þess að taka svona stökkbreytingum. Þeim eiginleikum er Framsfl. gæddur í ríkum mæli. Þannig er hann allra flokka róttækastur utan stjórnar, en eftir að foringjar flokksins eru setztir í ráðherrastóla, er flokkurinn íhaldssamastur allra. Þessir eiginleikar mínna á kamelljónin í Afríku, sem skipta ört litum eftir því, hvar þau eru stödd. Þessa stundina hefur Framsókn tekið á sig rauðleitan hjúp og keppist við að vera róttækari en kommúnistar.

Það er að vísu umhugsunarvert, að stór flokkur eins og Framsfl., sem hefur aðalfylgi sitt meðal bænda landsins, skuli taka þá afstöðu, sem ég nú hef gert að umtalsefni. Víða erlendis hefur foringjum bændaflokka orðið hált á því að hafa jafnnáið samstarf við kommúnista og foringjar Framsóknar hafa nú. Ef þeir vilja ekki varast þau víti, þá er það þeirra mál. En hvað segja kjósendurnir?

Mestu máli skiptir það, að menn geri sér sem ljósasta grein fyrir aðdraganda þess ástands, sem hér hafði skapazt, þegar vinstri stjórnin fór frá, eftir að forsrh. þeirrar stjórnar hafði árangurslaust leitað til Alþýðusambandsþings til samþykkis þess á frestun vísitöluhækkunar. Þá blasti við algert hrun eftir tveggja áratuga verðbólguþróun, sem allir höfðu gefizt upp á að koma í veg fyrir og var í raun og veru ekki hægt að koma í veg fyrir, meðan kaupgjald og verðlag eltu hvort annað og allar kauphækkanir hurfu jafnóðum í verðbólguhítina. Hið óstöðuga verðlag dró úr sparnaði, en ýtti undir fjárfestingu og eyðslu umfram það, sem hæfilegt getur talizt að verja af þjóðartekjunum til slíkra hluta á hverjum tíma. Sífellt var gripið til bráðabirgðaráðstafana, sem entust ekki nema skamma hríð í einu, og stöðugt þurfti að fitja upp á nýjum úrræðum til þess að halda atvinnuvegunum gangandi. Hin stöðuga óvissa og hinar tíðu breytingar hafa á þessum árum sízt af öllu stuðlað að auknum afköstum þjóðarbúsins, og kaupmáttur launa hefur ekki haldizt jafnhár og hann var 1945 og næstu ár þar á eftir, þannig að kauphækkanir þær, sem orðið hafa í krónutölu á þessum árum, hafa ekki reynzt raunverulegar.

Þó vil ég geta þess, að samkvæmt töflu, sem hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, birti hér á þinginu s.l. vetur, hefur kaupmátturinn orðið hærri árið 1959 en nokkurt annað ár síðan 1949, en hann var s.l. ár 99 miðað við 100 árið 1955. Verðbólguþróunin hefur þannig sízt af öllu orðið launþegum til . góðs, og lífskjör þeirra hafa ekki batnað, á sama tíma sem nágrannaþjóðir okkar hafa stórbætt lífskjör sín.

Stjórnarflokkarnir stefna að því með aðgerðum sínum í efnahagsmálum að skapa atvinnuvegunum traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll en þeir hafa átt við að búa undanfarin ár. Það er sannfæring mín, að sú stefna sé rétt, þó að alltaf megi deila um einstök atriði í sambandi við jafnróttækar og víðtækar ráðstafanir og þær, sem gerðar hafa verið.

Það er augljóst, að verkalýðssamtökin geta ráðið miklu um árangurinn af efnahagsaðgerðum stjórnarvaldanna á hverjum tíma. Þegar Alþýðusambandsþing kemur saman í næsta mánuði, bíða þess örlagaríkar ákvarðanir. Eiga launþegar að bíða átekta, þangað til meiri árangur hefur náðst af efnahagsaðgerðunum, eða eiga þeir að láta nú þegar til skarar skríða og bera fram kröfur um hækkað kaup og gera þannig með ráðnum hug tilraun til þess að láta aðgerðirnar fara út um þúfur? Þessari baráttuaðferð varaði núverandi forseti Alþýðusambands Íslands einu sinni við með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Boga atvinnulífsins mega verkalýðssamtökin aldrei brjóta, því að þá dugir ekkert kaupgjald, hversu hátt sem er, til þess að tryggja velmegun hins vinnandi fólks. En þetta hafa kommúnistar aldrei látizt skilja og geta líklega aldrei skilið, enda hefur barátta þeirra stundum orðið áþekkust ofsóknartilraunum til þess beinlínis að koma atvinnulífinu í rústir.“

Þessi orð forseta Alþýðusambands Íslands eru enn í fullu gildi, þó að höfundur þeirra hafi nú skipað sér í sveit með kommúnistum. Meðan verkalýðshreyfingin var enn þá í bernsku og hafði engu fengið áorkað í kjarabaráttunni, lá það í hlutarins eðli, að allt snerist um hækkun kaups fyrst og fremst og jafnframt bætt vinnuskilyrði, aukin félagsleg réttindi og eflingu samtakanna án tillits til nokkurs annars. En eftir að sá árangur hafði náðst, að samningsog verkfallsréttur var viðurkenndur, kaupgjald hækkað, vinnutími styttur, aðbúnaður við vinnu stórlega bættur, margþætt félagsmálslöggjöf sett og félagasamtök verkalýðsfélaganna voru orðin þau fjölmennustu og áhrifamestu í landinu, — eftir allt þetta hlutu samtökin að haga baráttunni með tilliti til gerbreyttrar aðstöðu þeirra sjálfra og umbjóðenda sinna í þjóðfélaginu og m.a. taka tillit til greiðslugetu atvinnuveganna, eins og forseti Alþýðusambands Íslands hvatti réttilega til í framangreindum orðum.

Mönnum hefur líka lærzt á umliðnum verðbólguárum, að einhliða hækkun kaups í krónutölu er ekki raunveruleg kjarabót, — svo oft hafa verðhækkanir lífsnauðsynja gleypt kauphækkanirnar jafnóðum. Það er kaupmátturinn, sem mestu máli skiptir, og þá staðreynd hafa verkalýðssamtökin hvað eftir annað víðurkennt hin siðari ár. Þeirri stefnu vilja fulltrúar Alþfl. í verkalýðshreyfingunni fyrir sitt leyti að fylgt sé áfram, og í samræmi við það lögðu Alþfl.- menn í miðstj. Alþýðusambands Íslands nýlega fram till., sem þeir ætluðust til að yrðu ræddar við ríkisstj., áður en Alþýðusamband Íslands sendi frá sér frumdrög að sameiginlegum kröfum, þannig að hægt væri að gera sér grein fyrir, hvort hægt væri að fá fram lækkun verðlags, skatta o.fl., og meta það síðan, að hve miklu leyti slíkar ráðstafanir jafngiltu kauphækkunum í auknum kaupmætti. Ég les nú þessar till., með leyfi hæstv. forseta:

„Lögð verði höfuðáherzla á aukinn kaupmátt launa með það að markmiði, að 8 stunda vinnudagur gefi þær launatekjur, að unnt sé að framfleyta með þeim meðalfjölskyldu, og að raunverulegur kaupmáttur verði a.m.k. eigi lakari en hann var fyrir efnahagsaðgerðirnar síðustu. Til þess að ná þessu marki verði settar fram kröfur um:

I.

1. Almenn lækkun á vöruverði, m.a. með niðurfellingu á viðaukasöluskatti í tolli (8%), lækkun aðflutningsgjalda og ströngu verðlagseftirliti.

2. Útsvör af almennum launatekjum og þó sérstaklega á láglaunafólki verði lækkuð verulega.

3. Vextir verði lækkaðir af íbúðalánum og lánum til framleiðsluatvinnuvega.

II.

1. Hafin verði skipulögð starfsemi, er stefni að því að auka hagkvæmni í íslenzku atvinnulífi og í þeim tilgangi að örva framleiðslustarfsemina, auka og bæta framleiðsluna, nýta betur vinnuafl, hráefni og fjármagn. Tryggt verði, að framleiðsluaukning leiði til raunverulegra kjarabóta fyrir launþega og þeim fenginn réttur til íhlutunar um rekstur og stjórn atvinnutækjanna.

2. Tekin verði upp ákvæðisvinna í öllum þeim starfsgreinum, þar sem slíkt hentar. Þar sem eigi er unnt að koma við ákvæðisvinnu, verði verkamönnum tryggt fast vikukaup í stað tímakaups.

3. Almenn vinnuvika verði 44 klst. í stað 48, enda verði jafnframt gerðar ráðstafanir til, að stytting vinnuvikunnar leiði ekki til minnkandi framleiðslu.

4. Komið verði á almennum lífeyrissjóði fyrir alla launþega.

5. 2 nýjum kjarasamningi verði ákvæði, er heimili uppsögn samninga, ef verðlag hækkar um 5% eða meira.

III.

Miðstjórnin fer fram á heimild sambandsfélaganna til þess að hefja viðræður við ríkisstj. um þau atriði, er greinir í I. lið 1–3, og samþykkir í trausti þess, að slíkt umboð verði veitt, að tilnefna til þessara viðræðna 4 menn úr hópi miðstjórnar. Miðstjórnin leggur áherzlu á, að viðræður þessar geti farið fram sem fyrst og niðurstöður þeirra liggi fyrir, þegar sambandsþing hefst, þannig að þingið geti markað stefnu samtakanna í þessum málum í heild.“

Lýkur þar till. Alþýðuflokksmanna í miðstjórn Alþýðusambands Íslands.

Þeirri tilhögun, sem í þessum tillögum fólst, höfnuðu kommúnistar í stjórn Alþýðusambands Íslands, og hafa þeir nú sent dreifibréf til allra sambandsfélaga, þar sem þau eru hvött til þess að setja fram kröfur, sem jafngilda 33–40% kauphækkun.

Þessar kröfur eru í meginatriðum þessar, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Kaupkröfur 15–20%.

2. Almenn stytting vinnutímans í 44 klst. á viku, þannig að ekki verði unnið eftir hádegi á laugardögum. Kaupið verði sama og nú er fyrir 48 stunda vinnuviku.

3. Kaupgjaldsákvæði samninga falli úr gildi og nýjar samningaviðræður verði teknar upp, ef verðlag hækkar um ákveðinn hundraðshluta, t.d. 3%.

4. Krafa um, að fast vikukaup verði greitt alls staðar þar, sem hægt er að koma því við. Þar sem því verður ekki við komið, verði tímakaupið 4% hærra.

5. Allir eftirvinnutaxtar verði afnumdir, og öll vinna, sem unnin er umfram dagvinnu, verði einnig greidd með 100% álagi á dagvinnukaup.

6. Kröfur um almennt kvennakaup verði eigi lægri en kvennanefnd sú, sem kosin var á kvennaráðstefnu ASÍ s.l. vetur, hefur sett fram og birtar hafa verið sambandsfélögum í bréfum, dags. 20. sept. og 4. okt. s.l.“

Ég vil nú í tilefni af því, sem gerzt hefur í þessum málum, rifja upp ummæli hv. 4. landsk. þm. og forseta Alþýðusambands Íslands í tímaritinu Vinnunni í nóv. 1958, eftir að hann hafði lýst því, að útflutningsatvinnuvegirnir teldu sig ekki geta risið undir stórkostlega auknum tilkostnaði vegna mikilla kauphækkana, sem þá voru fram undan.

Forseti Alþýðusambands Íslands sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er flestum ljóst, að þetta er leiðin til glötunar. Þessa braut má ekki renna til enda. Hún liggur fram af hengiflugi.“

Síðan lýsti forseti Alþýðusambands Íslands því, hvernig deila ætti byrðunum á bak allra Íslendinga:

„Framleiðslan getur tekið á sig nokkurn hluta byrðanna. Ríkissjóður á að sýna nokkra viðleitni til sparnaðar, og auk þess getur hann staðið undir nokkurri niðurgreiðslu nauðsynjavara. Álagningu í heildsölu og smásölu á að færa aftur í sömu prósentu og s.l. ár. Ríki, sveitarfélög og einstaklingar eiga að draga nokkuð úr fjárfestingu á næsta ári. Bændur eiga að lækka framleiðsluvörur sínar um nokkur vísitölustig. Með því eykst sala þeirra. Og því eiga verkamenn að svara með því að falla frá nokkrum vísitölustigum af kaupi sínu. Nýja vísitölu á að taka upp í stað þeirrar gömlu.“

Og í greinarlok sagði hv. 4. landsk. þm., forseti Alþýðusambands Íslands, þetta: „Takmarkið með öllu þessu á að vera það, að kaupgjald og verðlag nemi staðar þar, sem það nú er, svo að atvinnulífið geti haldið áfram án nýrrar tekjuöflunar eftir þessa aðgerð og þjóðartekjurnar geti haldið áfram að vaxa, eins og þær gerðu á þessu ári. Það er raunar það eina, sem tryggt getur varanlegar kjarabætur.“

Lýkur þar með tilvitnun í grein forseta Alþýðusambands Íslands frá haustinu 1958. Þá var hann jafnframt ábyrgur ráðherra. En það hvarflar ekki að mér að halda, að skoðanir hans hafi þá mótazt af því, að hann kunni vel við sig í embættinu: Ég tel ekki heldur, að hann hafi í umræddri grein túlkað sérstaklega sjónarmið atvinnurekenda. Ég álit, að skoðanir hans þá hafi mótazt af réttu mati á þeim hlutum, sem hann hafði góða aðstöðu til að meta, bæði sem forseti Alþýðusambands Íslands og ráðherra. Hins vegar er hv. forseti Alþýðusambands Íslands, 4. landsk. þm., nú sleginn þeirri skollablindu, að hann þekkir ekki rétt frá röngu og hefur gengið í félagsskap þeirra manna, sem stundum hafa hagað baráttu sinni þannig, að áþekkast, er ofsóknartilraunum til þess beinlínis að koma atvinnulífinu í rústir, að því er hann sjálfur hefur sagt.

En afstaða eins manns skiptir ekki höfuðmáli í þessu sambandi, þótt hann gegni mikilvægri trúnaðarstöðu fyrir verkalýðssamtökin. Hitt er meira atriði, að verkalýðsfélögin, hvert um sig, og einstakir meðlimir þeirra geri sér sem ljósasta grein fyrir ástandinu og velji réttar aðferðir og réttan tíma til þess að fá kröfum sínum framgengt.

Blaðakostur kommúnista og Framsóknar hefur á undanförnum mánuðum keppzt við að lýsa því fyrir þjóðinni, að efnahagsmálaaðgerðir stjórnarflokkanna hafi gersamlega misheppnazt: útgerðin sé að stöðvast, bændur berjist í bökkum, verzlun og iðnaður séu aðþrengd, alla skorti lán til rekstrar og fjárfestingar, ekkert geti borið sig, og þennan söng söng hv. 4. þm. Austf. hér áðan. Út af fyrir sig er þessi áróður ekki heppilegur undirbúningur þess að bera fram kaupkröfur, því að hvar á að taka peningana, ef enginn getur borgað? Þegar þeir hinir sömu menn, sem hafa slíkan áróður í frammi, beita sér jafnframt fyrir 33–40% kauphækkunum, þá liggur í augum uppi, að þeir eru annaðhvort ekki trúaðir á eigin boðskap eða þá að þeir ætla sér að vinna stórkostleg skemmdarverk, — koma atvinnulífinu í rústir og koma af stað ölduróti upplausnar og glundroða, er geti skolað þeim á valdastóla í þjóðfélaginu.

Raunhæft mat á ástandinu er að mínum dómi á þessa leið:

Leiðrétting gengisskráningarinnar í febr. s.l. var óhjákvæmileg, vegna þess að svo var komið s.l. ár, að útflutningssjóður varð að greiða 86.7% bætur á útflutninginn, miðað við fobverð, en fékk ekki á móti í tekjur nema 68.5%. Mismunurinn var jafnaður með skuldasöfnun og erlendum lánum. Lengra var ekki hægt að komast á þeirri braut. En skekkjan í gengisskráningunni var orðin svo mikil, að leiðréttingin hlaut að hafa í för með sér verulegar verðhækkanir, sem snertu alla þjóðina, einstaklinga og fyrirtæki. Til þess að dreifa byrðunum voru jafnhliða gengisfellingunni gerðar ýmsar ráðstafanir. Bætur almannatrygginganna voru hækkaðar um rúmlega 200 millj. kr., og á þessu ári hækka þær, eins og ég gat um áðan, um 70.7 millj. til viðbótar. Tekjuskattur var lækkaður um 110 millj. Bæjar- og sveitarfélögum voru fengnar 56 millj. kr. af söluskatti til þess að gera þeim kleift að halda útsvörum óbreyttum eða jafnvel lækka þau. Til niðurgreiðslna á vöruverði voru í fjárlögum áætlaðar 302 millj. 900 þús. kr. Gerðar voru róttækar breyt. á skipun gjaldeyris- og innflutningsmála, er miða að því að gera innflutning raunverulega frjálsan og skapa skilyrði til heilbrigðrar verðmyndunar í landinu og bættrar þjónustu í verzlun og viðskiptum. Gjaldeyrisviðskipti voru auðvelduð og sparaðar rúmlega 3 millj. kr. með því að leggja niður innflutningsskrifstofuna. Útkoman er svo sú, að þessar ráðstafanir hafa í höfuðatriðum staðizt. Verðhækkanir munu nú allar komnar fram og hafa ekki orðið miklu meiri en ráð var fyrir gert, nema hvað auka hefur orðið niðurgreiðslur á innlendum landbúnaðarvörum og fiski, sem svarar 2 vísitölustigum meira en áætlað var, og var vísitala framfærslukostnaðar hinn 1. þ.m. 102 stig, en mun ekki verða hærri en 104 stig í árslok.

Um þetta munu hv. stjórnarandstæðingar væntanlega segja, að til þess að ná þessu marki hafi nýlega verið „fiktað“ við vísitöluna með því að taka tillit til lækkunar á skatti og útsvari í útreikningi hennar. Því er til að svara, að þarna var aðeins um sjálfsagða leiðréttingu að ræða. Ef sú leiðrétting hefði ekki verið gerð, hefði vísitalan verið röng.

Jafnframt þessu hefur kaupgjald haldizt stöðugt og gjaldeyrisaðstaða landsins út á við stórlega batnað, bæði í frjálsum gjaldeyri og vöruskiptagjaldeyri, sbr. upplýsingar þær, sem nýlega hafa verið gefnar hér á hv. Alþ. af hæstv. viðskmrh., en hann hefur greint frá því, að í lok febr. s.l. hafi yfirdráttarskuldir bankanna, að frádregnum gjaldeyrisinnstæðum, verið 557.9 millj. kr. Með slíkan skuldabagga á bönkunum var vonlaust að auka innflutningsfrelsi, þrátt fyrir leiðréttingu á gengisskráningunni. Og yfirdráttarheimildirnar hjá Efnahagssamvinnustofnun Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington höfðu verið notaðar þannig hinn 1. þ.m., að búið var að verja 419.4 millj. til þess að losa bankana undan yfirdráttarskuldunum, og hafði þá gjaldeyrisstaða þeirra batnað um 71/2 millj. kr. meira en notað hafði verið af yfirdráttarheimildunum hjá Evrópusjóðnum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum Hafa þessar yfirdráttarheimildir þannig ekki verið notaðar til eyðslu, eins og hv. stjórnarandstæðingar hafa haldið fram, og enn þá eru stórar fjárhæðir ónotaðar af þeim, sem gegna á næstunni hlutverki þess gjaldeyrisvarasjóðs, sem við hefðum þurft að vera búnir að eignast. Í vöruskiptagjaldeyri hafði aðstaðan hinn 1. þ.m. batnað um 87.3 millj. kr. Annar mikilvægur árangur af efnahagsaðgerðunum er aukning sparifjárins. S.l. ár jukust sparlinnlán í viðskiptabönkunum og stærstu sparisjóðunum um 149 millj. kr., en á sama tíma í ár hafa þau aukizt um 188 millj. kr., eða um 39 millj, kr. hærri upphæð en s.l. ár, miðað við sama tíma.

Hv. 4. þm. Austf. gerði gjaldeyrisaðstöðuna og aukningu sparifjárins áðan að umtalsefni á þann hátt, sem honum er lagið. Hann fékk þær tölur út, sem honum hentaði, með röngum samanburði. Hann tók með í samanburðinum um gjaldeyrisstöðuna lán, sem veitt eru með 3 mánaða gjaldfresti, sem hafa ekki verið gefin upp áður, af því að engar skýrslur hafa verið til um þau, fyrr en hæstv. viðskmrh. gaf slíka skýrslu hér á Alþ. nýlega. Bankaábyrgðir eru nú ekki hærri en þær hafa verið áður.

Um sparifé fór hann eins að. Hann tók allt árið í samanburðinn, enda þótt „viðreisnin“ hafi ekki staðið nema síðan í febr. s.l.

Að þessu leyti, sem ég nú hef nefnt, hafa aðgerðirnar í efnahagsmálunum borið árangur. Hins vegar hafa átt sér stað breyt. af völdum ytri aðstæðna, sem hefur ekki verið hægt að ráða við með neinu móti hér heima fyrir, og gera þessar breytingar það að verkum, að fullur árangur af efnahagsaðgerðunum lætur bíða lengur eftir sér en ella hefði orðið. Á ég þar við verðfall á fiskimjöli og lýsi frá því í des. í fyrra, sem veldur því, að tekjur þjóðarinnar verða í ár um 175 millj. kr. lægri en þær annars hefðu orðið. Enn fremur verður útflutningsverðmæti síldarafurða sennilega um 120 millj. kr. minna en s.l. ár. Er því útlit fyrir, að þjóðartekjurnar rýrni af þessum sökum um 300 millj. kr., og jafngildir það 12% lækkun útflutningsafurða, miðað við s.l. ár, og 4% lækkun þjóðartekna. Við þetta bætist svo, að afli togaranna hefur undanfarna mánuði verið með fádæmum rýr. Þegar á þetta er litið, álít ég, að verkalýðssamtökin og samtök launþega almennt verði enn um hríð að biða með kauphækkunarkröfur af þjóðfélagslegri nauðsyn, ef bogi atvinnulífsins á ekki að bresta, eins og forseti Alþýðusambands Íslands orðaði það. Hins vegar verður að nota það svigrúm, sem efnahagskerfið gefur, til þess að rétta við hlut útflutningsatvinnuveganna og koma í veg fyrir, að þeir stöðvist vegna hins gífurlega tjóns.

Það skiptir mestu máli, að hin miklu og góðu framleiðslutæki, sem þjóðin á nú, verði rekin hindrunarlaust og haldið uppi fullri atvinnu. Fiskiskipastóllinn hefur stóraukizt í ár og undanfarin ár. Nýju skipin eru dýr og mörg þeirra að mestu í skuld og þurfa þess vegna mikið til sín í greiðslur vaxta og afborgana. Slík fyrirtæki eru í sjálfu sér ekki megnug þess að bera hátt kaupgjald. En aukning fiskiskipaflotans er grundvöllur að meiri gjaldeyrisöflun og aukningu þjóðarteknanna, en það er raunar hið eina, sem tryggt getur varanlegar kjarabætur, svo að enn séu notuð orð forseta Alþýðusambands Íslands.

Þannig virðist mér þetta dæmi liggja ljóst fyrir. Það er óhugsandi, að 300 millj, kr. tap þjóðarbúsins á einu ári geti orðið undirstaða raunverulegra kjarabóta. Má það teljast gott, ef hægt er að koma í veg fyrir, að slíkt áfall valdi almennri kjararýrnun. Ég neita því ekki að vísu, að æskilegt væri að bæta kjör þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. En þá er að því að gá, að launajöfnuður hér á landi er slíkur, að ef einn fær hækkun, þá fer allt af stað, og áður en varir mundu hækkanirnar ná til 80% allrar þjóðarinnar. Það mundi ekki þýða raunverulega kjarabót, heldur aðeins setja verðbólguhjólið af stað á ný og rýra verðgildi peninganna. Kaupgjald og verðlag þarf að nema staðar, þar sem það nú er, svo að atvinnulífið geti haldið áfram án nýrrar tekjuöflunar. Og þess vegna hefur verið horfið frá þeirri stefnu, sem áður tíðkaðist, að bæta atvinnurekendum auknar launagreiðslur með hækkuðum bótum úr ríkissjóði og leyfa hækkun álagningar á vöruverð vegna hækkaðra launa í verzluninni. Þetta þýðir það, að atvinnurekendur verða nú að gera það upp við sig, hver sé raunveruleg greiðslugeta þeirra, áður en þeir fallast á kauphækkanir, og þetta verða launþegasamtökin að gera sér ljóst, ef þau vilja forðast langvinnar kaupdeilur. Í þessu efni færi bezt á því, að komið yrði á nánara samstarfi milli launþega og vinnuveitenda en nú á sér stað, þannig að fulltrúar launþega fengju aðstöðu til þess að láta trúnaðarmenn sína fylgjast með afkomu fyrirtækjanna og jafnvel fá tillögurétt um rekstur þeirra og stjórn. Slíkt samstarf gæti ef til vill orðið til þess að forða óþarfa árekstrum og vinnutapi vegna verkfalla.

Ég þakka þeim, sem hlýtt hafa. Góða nótt.