28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (1804)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að taka þátt í þeim efnislegu umr., sem hér hafa átt sér stað. Þessar umræður hafa nokkuð dregizt á langinn, og þar sem vitað er, að fyrirhugað er, að Alþingi ljúki á morgun, þá ætla ég að leyfa mér að bera fram hér brtt. við þá till., sem hv. minni hl, sjútvn. hefur borið fram á þskj. 704 um rökstudda dagskrá, þannig að á eftir orðunum „félög síldarsaltenda“ í næstsíðustu línu komi inn þessi viðbót: enda geri ríkisstj. ráðstafanir til þess að koma sem fyrst á þeim endurbótum, sem þingmeirihluti er örugglega til fyrir.

Rökstudda dagskráin yrði þá á þessa leið: „Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti endurskoða lög nr. 74 29. marz 1934, um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., og að sú endurskoðun verði framkvæmd í samráði við síldarútvegsnefnd, Landssamband ísl. útvegsmanna, Alþýðusamband Íslands og félög síldarsaltenda, enda geri ríkisstjórnin ráðstafanir til að koma sem fyrst á þeim endurbótum, sem þingmeirihluti er örugglega til fyrir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“. Till. er flutt skriflega og verður afhent forseta.