16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (1816)

38. mál, loðdýrarækt

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Landbn. hefur nú skilað sameiginlegu áliti um það frv., sem flutt var hér í byrjun þings um að nema úr lögum bann við minkaeldi. Landbn. hefur viljað afla sér upplýsinga um þetta mál, eftir því sem hún hefur getað, og Árni Eylands, sem var falið af landbrn. að kynna sér minkarækt á Norðurlöndum, hefur sent hér allmikla greinargerð, sem vissulega er mikill fróðleikur í.

Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni, sem talaði hér áðan, að það er eðlilegt, að búnaðarþing fái að segja sitt álit á þessu máli, og það ætlast hv. landbn. líka til með þessari afgreiðslu. Ég er sannfærður um það, að búnaðarþing vill láta fara fram athugun á þessu máli til hlítar, án þess að hafa nú gert sér fulla grein fyrir því, á meðan ekki liggja fyllri upplýsingar fyrir, hvort sjálfsagt er að taka minkaeldi upp hér á landi. Og mér dettur ekki í hug að halda, að nokkur hv. þm. vilji ekki, að þetta mál sé rannsakað til hlítar. Ég trúi því ekki, að nokkur hv. þm. sé fyrir fram ákveðinn í því að vera á móti þessu máli, hvaða rök sem fram kynnu að koma við athugun málsins, sem mæla með því.

Ég get sagt fyrir mitt leyti, að mér finnst það dálítið freistandi, þegar maður sér þessar háu tölur, sem Danir, Norðmenn og Svíar fá fyrir útflutt minkaskinn, fyrir okkur Íslendinga að taka þennan atvinnuveg upp. Hins vegar er ljóst, að það ber að fara að öllu með gát hvað þetta snertir, og ég tel, að þeir, sem vilja fara með fyllstu varúð í þessu máli, geti með góðri samvizku verið samþykkir þeirri afgreiðslu, sem hv. landbn. leggur til, því að það, sem hv. landbn. leggur til, er það, að ríkisstj. láti endurskoða tvenn lög varðandi þetta mál og afli sér allra þeirra gagna og upplýsinga, sem nauðsynleg eru til þess að geta myndað sér rétta skoðun á málinu. Og hv. landbn. leggur til, að að þessari athugun lokinni verði lagt fram frv. á Alþingi. En það er vitanlega undir því frv. komið og þeim upplýsingum, sem því fylgja, hver afstaða hv. þm. verður til málsins. Það er þess vegna hreinn misskilningur, ef einhver hv. þm. heldur því fram, að hann væri bundinn í málinu með því að greiða atkvæði með hv. landbn. Vissulega ekki. Afstaða hv. þm. til málsins á næsta Alþingi, þegar frv. verður lagt fram með fyllri upplýsingum en nú eru fyrir hendi, hlýtur að markast ekki aðeins af því, hvernig frv. er, heldur og miklu fremur af þeim gögnum, sem frv. fylgja, og því, hvort hv. þm. telja, að mögulegt sé að búa þannig um hnútana, að minkaeldi hér á landi verði ekki í annað sinn bölvaldur í landinu.

Það er rétt, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að við erum komnir nokkuð áleiðis í því að útrýma villiminknum. Það hefur verið sótt á í því efni. Villiminknum hefur fækkað. En það má ekki slaka á þeirri sókn, og það má ekki taka upp minkaeldi hér í landi til þess, að minkunum verði aftur hleypt út úr búrunum. En það er villiminkur í Noregi, og það er villiminkur í Svíþjóð og ég hygg líka í Danmörku. En þessir frændur okkar, sem eru duglegir á mörgum sviðum að færa sér í nyt þau gæði, sem boðið er upp á, hafa ekki látið sér detta í hug að hætta við minkaeldi, þrátt fyrir það þótt villiminkur sé í landinu. En þeir hafa lært af reynslunni og búið þannig um hnútana, að það mun vera einsdæmi, að minkur hafi sloppið út hin síðari ár hjá þeim, eftir að hert var á eftirliti og öðru slíku.

Spurningin er, hvort við Íslendingar getum lært af þeirri reynslu, sem fengin er í þessu efni og hvort okkur er trúandi til þess að fara með þeirri gætni og varúð, sem aðrir hafa fært sér í nyt. Ég lít svo á, að ef afgreiðsla hv. landbn. verður samþ., þá beri ríkisstj. að láta fara fram enn víðtækari athugun á þessu máli og að semja frv., sem lagt verði helzt fyrir næsta Alþingi, í þessu efni, og að því frv. fylgi glögg grg. og rökstudd athugun á þessum málum, svo að það verði enn ljósara þá en nú og hægara fyrir hv. alþm. að gera sér glögga grein fyrir því, hvort rétt sé að gera tilraun með að hefja þessa atvinnugrein hér að nýju. Ég lít ekki svo á, þótt hv. þm. greiði atkv. með þessu nál. hér, að þeir séu bundnir við að fylgja því frv., sem kynni að verða lagt fram á næsta þingi. Afstaða þingmanna hlýtur á næsta þingi og við nýtt frv. að markast af því, hvað hefur upplýsts í málinu. — Hvað hefur upplýsts í málinu? Hafa verið fengnar upplýsingar málinu til styrktar? Eða hafa nýjar upplýsingar leitt til þess að minnka trú manna á þessu?

Ég vil ekki að svo stöddu fullyrða neitt í þessu efni. En þegar ég les þá töflu, sem fylgir grg. Árna Eylands, þá vil ég segja: Það er talsverð freisting að taka þennan atvinnuveg upp hér, ef nákvæm athugun leiðir ekki í ljós, að það muni vera áhættusamt fyrir okkur með tilliti til allra aðstæðna hér.